Á vef Stjórnlagaráðs er sagt frá nýsamþykktum tillögum þess um löggjafarmál og fleira. Þar segir meðal annars:
Í tillögunum kemur fram að við stjórnarmyndun muni Alþingi nú kjósa forsætisráðherra, en forseti Íslands verði eins konar verkstjóri í viðræðum milli þingflokka, líkt og verið hefur.
Í tillögu ráðsins stendur nákvæmlega þetta:
Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra.
Þetta er reyndar ekki það eina sem komið hefur frá Stjórnlagaráði sem bendir til að meðlimir þess líti flestir á það sem sjálfsagt mál að við höfum áfram svipað flokkakerfi og við höfum haft.
Það kann að virðast sjálfsagt að hér starfi áfram þingflokkar. En ef til vill ættum við að staldra við og spyrja hvort ástæða sé til að gera ráð fyrir því í stjórnarskrá. Eftir því sem ég best veit eru engir sérstakir flokkar starfandi innan stjórnlagaráðs, bara einstaklingar. Mér sýnist líka að starf stjórnlagaráðs hafi gengið ágætlega, þar hafi farið fram málefnalegar umræður, og niðurstaða fengist úr þeim. Það þýðir auðvitað ekki að allir séu ánægðir með niðurstöðuna (ég er, eins og fleiri, óánægður með margt), en flest sættum við okkur við að lenda í minnihluta þegar starfað er með gagnsæjum hætti, án baktjaldamakks og hrossakaupa. Að þessu leyti er ekki annað að sjá en að stjórnlagaráð hafi unnið með þeim hætti sem Alþingi hefur ekki tekist í áratugi.
Alþingi hefur lengi verið vettvangur fyrir leðjuslag. Það eigum við að þakka stjórnmálaflokkum sem eru allir að mestu leyti ófærir um að takast á við verkefnin sem þingið á að leysa. Auk þeirrar ógeðfelldu hagsmunagæslu fyrir ýmis valdaöfl sem ekki ættu að hafa þann aðgang að löggjafarvaldinu sem raun ber vitni, hefur flokkunum sem drottnað hafa yfir Alþingi á sextíu og fimm árum ekki tekist að vinna tíunda hlutann af því verki sem Stjórnlagaráð hefur nú gert á fjórum mánuðum.
Það er ekki náttúrulögmál að stjórnmálaflokkar ráði lögum og lofum á Alþingi. Það er ekki náttúrulögmál að við þurfum að sætta okkur við þær hörmungar fúsks og spillingar sem stjórnmálaflokkar landsins hafa fært okkur. Íhaldssemi er skiljanleg pólitísk grundvallarafstaða, þegar hún snýst um tregðu til að breyta hlutum sem virka sæmilega. Að vera íhaldssamur á núverandi flokksræði á Íslandi er illskiljanlegt, nema hjá þeim sem hafa makað krókinn á því, á kostnað annarra og á kostnað heilbrigðra stjórnarhátta.
Væri ekki nær að Stjórnlagaráð reyndi að endurskapa Alþingi í sinni mynd, fremur en að stuðla að framhaldslífi þessa gerspillta flokkakerfis?
Ég fæ villuboð þegar ég reyni að ‘læka’ færsluna.
Hjartanlega sammála annars.
Vel mælt, Einar.
Margir eru þér sammála.
Tillögur stjórnlagaráðsins ganga alltof skammt gagnvart flokkum og hinu pólitíska kerfi.
Hér þarf raunverulegan uppskurð ekki moðsuðu.
Ég get ekki ímyndað mér annað en að menn eins og Njörður P sem fyrstur fór að tala um að breyta þyrfti stjórnarskránni sé miður sín yfir vinnu ráðsins. Persónukjör hefur verið slegið út af borðinu vegna sannfæringarkrafts Ólafs Þ Harðarsonar að þvi er virðist. Væri ekki ráð að leita álit fleir sérfræðinga áður en svona stóru máli er vísað frá? Sama er um trúfélög, þjóðkirkjuna og aðskilnaðinn, allt puðast þetta út í loftið út þynnt og engum til gagns. Maður átti sér draum um rótækar breytingar, en engu máli virðist skipta hvernig ráið er saman sett, það eru alltaf sömu öflin sem fá sitt í gegn.
Varðandi Ólaf Þ. Harðarson: Að hvaða leyti ætti hann að vera sérfræðingur í þessum málum? Er ekki nokkuð ljóst að það er pólitískt álitamál, og ekki áreiðanleg fræði, hvort persónukjör sé gott eða vont?
Þessi trú á „sérfræðinga“ í stjórnmálum sem tröllríður fjölmiðlum á Íslandi (og sem Stjórnlagaráð virðist líka veikt fyrir, miðað við fréttirnar af framgöngu Ólafs Þ. þar) er ömurlega grunnhyggin, og eitt af því þar sem Ísland sker sig verulega úr. Ég man ekki eftir að hafa séð þetta í þeim öðrum löndum sem ég hef búið í.
Er þessi áhugi fréttamanna á stjórnmálafræðingum ekki tilkominn vegna þess hversu margir fréttamenn eru sjálfir stjórnmálafræðingar?
Annars skil ég alla vega ekki sjálfur af hverju það er svo oft leitað til þeirra.
Sæll Einar og takk fyrir að skrifa um störf Stjórnlagaráðs.
Það er að margra mati að stinga hausnum í sandinn að tala ekkert um stjórnmálaflokka í stjórnarskránni því þá geta þeir áfram komist upp með hvað sem er. Við erum hins vegar að reyna að koma upp kerfi sem kemur í veg fyrir spillingu tengda þeim, sjá t.d. þessi tillaga hér: http://stjornlagarad.is/servlet/file/Brtill_til_C_Fjarm%C3%A1l_flokka_Niu-fulltruar.pdf?ITEM_ENT_ID=34447&ITEM_VERSION=1&COLLSPEC_ENT_ID=127
Fólki verður frjálst að bjóða fram hvers kyns lista samkvæmt nýja kosningakerfinu sem lagt er til í tillögum Stjórnlagaráðs þannig að það fastsetur síst flokkakerfið. Það hefði hins vegar verið betra að nota annað orð en „þingflokka“ í þessari tilvísun í umræður um greinina sem þú nefnir að ofan, kannski „framboð“? Hins vegar held ég að það sé ekki talað um flokka almennt í sjálfum stjórnarskrártillögunum enda er viljinn ríkur fyrir því að bjóða upp á nýtt og betra kerfi. Það þýðir ekki að stjórnmálaflokkarnir muni þurrkast út þó vonandi þýði það að völd þeirra dvíni og spilling þeim tengd minnki.
Takk aftur fyrir að fylgjast með og ég vona að við stöndum undir væntingum. Við ætlum okkur að massa þetta og koma með bestu niðurstöðu sem við getum. Það verður alltaf eitthvað sem hver og einn verður ósáttur við enda erum við að vinna þetta í „consensus“ eftir bestu getu, sem þýðir að málamiðlanir fá oft að ráða því hver niðurstaðan er. Skotgrafirnar fyllum við upp í jafnóðum og við finnum þær myndast.
Hvort þetta tekst að lokum veltur ekki á okkur heldur fólkinu í landinu. Það velur hvort það vill þetta plagg eða ekki. Við reynum bara að auðvelda valið eins og við getum.
Gangi þér vel.
Kv.
Kata Odds.
Persónukjör hefur alls ekki verið slegið út af borðinu, það er þvert á móti snar þáttur í tillögum Stjórnlagaráðs. Það er eitthvert hik á sumum ráðsmönnum varðandi frelsi kjósenda til að skipta atkvæði sínu milli ólíkra framboða, en úrslit í því máli ligja ekki fyrir. Einstaklingar munu geta boðið sig fram og sópað til sín fylgi líkt og gerðist í kosningunni til Stjórnlagaþings 2010. Vægi atkvæða verður jafnt óháð búsetu. Lykillinn að því er, að kjósendum verður frjálst að greiða frambjóðendum í öðrum kjördæmum atkvæði sitt, verði kjördæmin fleiri en eitt.
Ég held þá áfram að vera hóflega bjartsýnn, Katrín og Þorvaldur. 🙂
Mæltu manna heilastur Einar. Ef Stjórnlagaráð ætlar að sníða verk sín að þeirri mýtu að stjórnmálaflokkar séu einhverjir hornsteinar lýðræðis þá er það á villigötum.
Þakka góða umræðu. Þingmenn munu þrátt fyrir allt bjóða sig fram á listum; það er m.a. nauðsynlegt svo unnt sé að kalla inn varamenn í þeirra stað. Hins vegar geta kjósendur valið að kjósa einstaklinga (og helst þvert á lista) eða heila lista (og deila þá atkvæði sínu niður á alla þá sem á listanum eru). Það verður því óhjákvæmilega þannig að á þingi verða „flokkar“ þeirra sem buðu sig fram á sama listanum. Og þegar mynda á stjórn verður talað bæði við talsmenn slíkar „flokka“ og einstaka þingmenn, það liggur bara í eðli þingræðisreglunnar og með því er ekki sérstaklega verið að púkka upp á stjórnmálaflokka sem slíka. Það verður jú að mynda meirihluta á bak við ríkisstjórn, ef þingræði er viðhaft á annað borð.