Þriðjudagur 30.08.2011 - 22:17 - 14 ummæli

Huang Nubo og bláeygir fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar hafa síðustu dagana keppst við að fjalla um Huang Nubo sem er að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, land sem nemur 0,3% af öllu Íslandi.  Ekki er laust við að umfjöllunin minni svolítið á það þegar dýrlingurinn Ross Beaty var kynntur í íslenskum fjölmiðlum sem bjargvættur og mannvinur, sem vildi festa fé á Íslandi til langframa, ekki til að græða, heldur hafði hann svo mikinn áhuga á vistvænni orku og langtímaverkefnum á því sviði.  Fæstum fjölmiðlum virtist einu sinni detta í hug að gúgla nafn mannsins, en þeir sem það gerðu sáu á tveim mínútum við hvað þessi maður hafði fengist síðustu árin:  Að braska með ýmiss konar auðlindir víða um heim.  Ekki byggja upp eitt né neitt, heldur braska.

Nú er svipað hljóð í strokknum.  Ross Beaty fékk drottningarviðtal í Kastljósi á sínum tíma.  Huang hefur víst ekki birst sjálfur, en félagi hans Halldór Jóhannsson fékk a.m.k. hirðsveinsviðtal fyrir hönd meistara síns í Sîðdegisútvarpi Rásar 2.  Halldór mátti vart vatni halda yfir mannkostum Huangs, sem er ljóðskáld og náttúruunnandi og óskaplega „þrautseigur“, sem á víst að skýra hvernig hann varð einn ríkasti maður Kína (og heimsins) á tíu árum eftir að hann hætti að vinna fyrir kínversk stjórnvöld, þ.á.m. sem einhvers konar deildarstjóri í Áróðursmálaráðuneytinu, eins og sjá má hér.

Engum íslenskum fjölmiðlum virðist detta í hug að grafast fyrir um fortíð mannsins, annars vegar hvernig hann fór að því að verða svona fokríkur á svo skömmum tíma, hins vegar hversu háttsettur hann var í stjórnsýslunni, og þannig hversu mikla ábyrgð hann ber á þeirri svívirðilegu kúgun sem er daglegt brauð í Kína.

Eins og fyrri daginn eru það fremur bloggarar en fjölmiðlar sem vinna vinnu af þessu tagi.  Hér er ein áhugaverð bloggfærsla um málið.  Þar er því m.a. haldið fram að Huang þessi sé maðurinn sem Hjörleifur Sveinbjörnsson rúntaði með um landið fyrir fáum árum, á  bíl sem Utanríkisráðuneytið lánaði, og einhverjum þótti vera spilling.  Ég hef ekki sannreynt það, svo ég sel það á innkaupsverði, en vona að einhverjir fjölmiðlar gangi úr skugga um sannleiksgildi þessa.

Landsbankanum er uppálagt að athuga fortíð þeirra sem hann hyggur á stórviðskipti við, til að ganga úr skugga um að þar sé á ferð fólk sem ekki á vafasama fortíð.  Er ekki full ástæða til að gera sams konar úttekt á Huang Nubo, sem efnaðist á svo undraverðum hraða að flestir íslenskir viðskiptaglæpamenn síðustu ára blikna við hliðina á honum?  Og, ef það er ástæða til að athuga viðskiptafortíð fólks áður en gerðir eru samningar við það, er nokkuð minni ástæða til að athuga hvort það á að baki störf við stórfelld mannréttindabrot?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Góðir punktar Einar.

    Auðvitað á að stöðva alla vitleysuna og það fyrir löngu síðan enda eru flestir þessir erlendu aðilar með stolnar Íslenskar krónur sem voru látnar „tapast“ í „bólunni“.

    Landráðahyskið á Íslandi er svo afhjúpað á öllum sviðum, stofnunum, stjórnmálaflokkum, dómskerfinu, lögreglu, sérstökum saksóknara og víðar að leitun er að öðru eins.
    Þetta er orðið spurning um borgaralegar handtökur og að bylting réttlætisins taki völdin í landinu því það er það sem fólkið vill – réttlæti og Ísland fyrir okkur í friði og til gleði og blessunar fyrir þjóðina sem er ekki einu sinni með her og þar af leiðandi ekki á þeirri bylgjulengd sem þetta alþjóða fjármálaglæpahyski er á og sturluð erlend stjórnvöld sem hýsa þetta efnahags hryðjuverkafólk, eru einnig á.

  • Nú er orðið ljóst að hér þarf byltingu.

  • Þ.e. við vitum hver sendi Hunang Nuborga…………

  • Sæll Einar, þetta eru góðar pælingar hjá þér. En nú spyr ég bláeygur, getur Kínverjinn gert einhverjar gloríur þarna? Þyrfti hann ekki leyfi stjórnvalda, þar sem jörðin er í sameign samkvæmt fjölmiðlum?

  • Íslenskur Leppalúði

    Stórhættulegir útlendingar eru að seilast til áhrifa í hinni Heilögu Íslensku Jörð. Sumir eru hvítir og búa í einhverri Evrópu. Þeir ætla að stela landinu okkar og hirða af okkur auðlindirnar. Gott ef þeir ætla ekki að gera okkur öll að þrælum. Svo eru líka til enn aðrir útlendingar sem eiga heima enn lengra í burtu í einhverjum allt öðrum útlöndum. Þeir eru ekki einu sinni hvítir heldur alls konar á litinn. Þeir tala mjög undarlega og ætla örugglega líka að taka allt frá okkur, bæði landið og miðin. Þetta er sko ekki gott.

  • Bjarni Kjartansson

    Takk fyrir, þetta þurfti í umræðuna. Einnig verða menn að skoða hvernig og með velvilja hverra menn verða ,,Auðmenn“ þarna í Kína.

    Svo er annað, þessir menn verða að hlýða yfirvöldum. Ekkert er gert sem ekki þjónar LANGTÍMA hagsmunum og pælingum stjónvalda í Peking.

    Vil leggja orð í belg um hugsanlegan Golfvöll þarna. Miðað við meðalvindstyrk þarna, eru áhöld um, að ríkir Golfarar nenni að elta kúlur sínar þarna í roki og kulda.

  • Common Sense (is not so common anymore)

    Liðið sem hrópar „Rasismi, rasismi!“ í hvert skipti sem milljóner er gagnrýndur ætti að pæla í því að þessi maður vann árum saman fyrir þá ríkissstjórn heimsins sem hefur hvað verst orð á sér fyrir illa meðferð á fólki af öðrum kynþáttum, Tíbetar eru ekki eini kynþáttalegi minnihlutahópurinn sem Kínverski kommúnistaflokkurinn hefur staðið fyrir ofsóknum á. (Og þetta fólk er langt því frá sami kynþátturinn, það hefur aðra menningu, siði og oft trú, og það er bara óþjálfað vestrænt auga sem lætur það líta svipað út í okkar augum. Það er genetískt mjög ólíkt, búið að vera aðskilið í þúsundir ára….miklu ólíkara hvert öðru en nokkur vestræn þjóð annarri…og miðað við hversu gjörólíkir kynþættir Kínverjar og Tíbetar eru, bara útlitslega, þá er steríótýpískasti gyðingur heimsins (Jerry Seinfeld segjum?) eineggja tvífari nazísks veggspjalds af „ofurmenni“)

  • Leppalúði, þetta snýst ekkert um það hvort maðurinn er útlendingur eða ekki, heldur um það hvers konar viðskipti hann stundar. Lastu ekki greinina hans Einars áður en þú sendir inn svar?

  • Kínverski kommúnistaflokkurinn er frægur fyrir ALVÖRU rasisma og þeir ættu að hafa það hugfast sem finnst gaman að bulla um ímyndaðan rasisma manna sem dirfast að hafa eitthvað út á það að setja að maður sem starfar fyrir slíkt apparat fái að kaupa hér allt hátt og lágt….sem er ekkert furðulegra en að sumir færu varlega í að selja landið gömlum mönnum sem hefðu gengt mikilvægum embættum í þriðja ríkinu. Það ER rasismi að halda að einhverjum leyfist hvað sem er og sé yfir gagnrýni hafinn afþví „aumingja hann“ er jú „bara asíubúi“, og verja allar gjörðir hans fyrirfram og reyna að þagga niður allar gagnrýnisraddir, rétt eins og um einhvern aumingja og vesaling væri að ræða, en ekki jafningja.

  • Nú þurfa Leppalúðar allra landa að sameinast.

  • Huang ætlar ekki að kaupa alla Grímstaði. Á því landi sem hann kaupir ekki væri kjörið að stofna tíbetska menningamiðstöð „Frjálst Tíbet“. Tíbetsk menning
    er mjög merkileg og gætu Íslendingar margt lært af henni. Hún er
    líka miklu skemmtilegri en menning kínverska kommúnistaflokksins.
    Einnig gætu Falung Gong fengið land undir leikfimiskóla. Það yrði
    vinsælt að stunda leikfimi í blessuðu fjallaloftinu á Grímstöðum.
    Þessar menningarmiðstöðvar yrðu ekki síður vinsælar en hótelið hans
    Huangs.

  • Land er auðlind. Landið er grundvallarauðlindin okkar.
    Við seljum ekki auðlindir frá þjóðinni.

  • The Truth

    Láttu þig ekki dreyma um það Ágúst að Falun Gong fengi hér land undir æfingar. Þeim var vísað úr landi þegar moldríkur Kínverskur glæpamaður kom hér í opinbera heimsókn eða haldið föngnum inn í skóla sem hafði verið umbreytt í fangelsi, og lögreglan hélt þeim frá því að geta sinnt borgaralegum friðsamlegum mótmælum. Glæpamannadýrkun íslensku ríkisstjórnarinnar er til skammar og nú eru menn farnir að fara í opinberar heimsóknir til hryðjuverkasamtaka líka! Oj bara!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur