Sunnudagur 04.09.2011 - 13:34 - 14 ummæli

Samfylkingin, forsetinn og fasisminn í Kína

Eftirfarandi hugleiðingar hafa, þótt þær séu ekki nýjar, vissulega sprottið upp nú vegna kaupa Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum. Það ætti að vera eðlilegt, í ljósi þess að maðurinn er fyrrum háttsettur starfsmaður ógnarstjórnarinnar í Kína, að hann efnaðist illskiljanlega á örskömmum tíma og þess að kínversk stjórnvöld hafa hönd í bagga með þessum kaupum, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Hitt er mikilvægara, og alvarlegra, að afstaða íslenskra stjórnvalda til Kína er vægast sagt ógeðfelld.

Það er nógu slæmt hvernig forseti Íslands leggur nótt við dag til að efla viðskiptatengslin við Kína, án nokkurra bakþanka um stjórnarfarið í landinu.  Og það væri hlálegt, ef það væri ekki svona sorglegt, þegar hann þykist þess umkominn að lýsa Huang Nobu heiðarlegan mann.  Reyndar má ætla, miðað við hvaða auðjöfra forsetinn hefur álitið heiðarlega síðustu árin, og götu hverra hann hefur greitt í viðskiptum, að Huang væri lítill greiði  gerður með þessu heiðarleikavottorði frá forsetanum, sem gefið hefur út slík vottorð fyrir flesta verstu fjármálaglæpamenn landsins.

Hitt er verra, hvernig forysta Samfylkingarinnar (eða a.m.k. hluti hennar) hefur komið fram í þessu máli.  Það er skiljanlegt og eðlilegt að vinur og fyrrum skólabróðir Huangs sé honum hliðhollur, og þvæli um að hér sé um að ræða mjög „græna “ ferðamennsku (öfugt við það sem hingað til hefur verið talið um að fljúga fólki yfir hálfan hnöttinn).  Það er auðvitað bara tilviljun að þessi vinur er eiginmaður fyrrum utanríkisráðherra og mágur núverandi utanríkisráðherra.  En það skiptir hins vegar máli, því hvar sem er í heiminum, og ekki síst á Íslandi, hafa slík fjölskyldutengsl áhrif á gerðir fólks, og þykir óeðlilegt annað en að draga þau fram í dagsljósið.

Það sem er hins vegar verst við þetta, bæði hvað varðar forystu Samfylkingarinnar og forsetann, er sú afstaða sem þetta fólk, í krafti embætta sinna, og fyrir hönd íslenska ríkisins, sýnir til kínverskra stjórnvalda.  Forsetinn  hefur lagt sig fram um að efla tengslin við Kína, og segir varla styggðaryrði um stjórnarfarið í landinu.  Utanríkisráðherrar Samfylkingarinnar hafa gengið skrefi lengra.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir árið 2008 að Ísland styddi stefnuna um „Eitt Kína“.  Í því felst, í stuttu máli, að Ísland viðurkenni að Kína eigi löglegt tilkall til yfirráða yfir Tævan, sem er nógu slæmt, enda vandséð af hverju Ísland ætti að styðja það að ógnarstjórnin í Kína fái að kúga líka borgara 36 þúsund ferkílómetra eyju, meira en hundrað kílómetra frá meginlandinu, með 23 milljónir íbúa, sem augljóslega vilja fá að ráða sér sjálfir og hafa gert það vandræðalítið í mörg ár.

Hitt dylst fæstum, að með því að lýsa yfir stuðningi við „Eitt Kína“ (sem minnir óþægilega, en eðlilega, á hollustuyfirlýsingar við forystu Þriðja ríkisins), samtímis því sem ekki er annað gert en að lýsa „áhyggjum“ vegna ástandisns í Tíbet, var Ingibjörg að lýsa yfir afskiptaleysi gagnvart því sem þar fer fram, sem og gagnvart allri kúgun annars staðar í Kína.  Núverandi utanríkisráðherra, Samfylkingarmaðurinn Össur Skarphéðinsson, hefur ekki dregið þessar eindregnu stuðningsyfirlýsingar við kínversk stjórnvöld tilbaka.

Það er misjafnt hversu strangar skilgreiningar fólk notar á fasisma.  Hitt er ljóst, að kúgunaraðferðir Kínastjórnar eru nákvæmlega þær sem beitt er í fasistaríkjum.  Kínastjórn hikar ekki við að fangelsa, pynta og myrða þá sem leyfa sér að viðra aðrar skoðanir en þær sem eru stjórnvöldum þóknanlegar, og þetta er gert í stórum stíl.  Þetta er það sem Ingibjörg Sólrún, Össur og forysta Samfylkingarinnar, að miklu leyti, veitir siðferðilegan stuðning með yfirlýsingunni um stuðning við „Eitt Kína“.  Það er sama fólkið og gagnrýndi, réttilega,  gerræðislega ákvörðun fyrri valdhafa um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

Asinn á forsetanum og forystu Samfylkingarinnar, þar sem margir eru með peningaglampann í augum, er ógeðfelldur, og ekki annað að sjá en þetta fólk sé búið að gleyma því sem gerðist á Íslandi síðustu árin, þegar þeir voru kallaðir úrtölumenn, eða eitthvað þaðan af verra, sem vildu fara varlega í „uppbyggingunni“.

Hitt er sýnu verra, en trúlega tengt ofangreindum peningahagsmunum, hvernig þetta forystufólk gengst, í æði sínu, undir það siðferðilega ok sem það er að lýsa yfir óbeinum stuðningi við hina hryllilegu kúgunarstjórn í Kína.  Það bætir ekki úr skák að þær yfirlýsingar voru gerðar að almenningi forspurðum, þótt þær væru gefnar í nafni hans.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Mér sýnist þeir nú bara vera í „damage control“ vegna xenóphóbíu og útlendingatortryggni vinstri grænna. Annað Magma mál myndi rústa trúverðugleika Íslands gagnvart fjárfestum.

  • Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

    Amnesty International hefur gert mjög alvarlegar athugasemdir við stjórnarfar í Kína, – sjá einnig ótal myndbönd á You tube um kínverskar fangabúðir í nútímanum – Chinese labour camps.

  • Haukur Kristinsson

    Hér eru tveir góðir pistlar frá Jónasi og Jónas hefur rétt fyrir sér. Forsetinn er orðið ¨major¨ vandamál fyrir íslensku þjóðina. Það verður að stoppa kallinn á einn hátt eða annan. Hann er orðinn algjörlega óþolandi.

    Og Samfósjallarnir eru sjálfum sér samkvæmir.

    03.09.2011
    Forsetinn fiskar í þjóðrembu
    Forseti Íslands slær ekki slöku við sögufalsanir. Í dag hrósar hann Indlandi og Kína fyrir stuðning í hruninu og skýtur föstum skotum að Vesturlöndum af sama tilefni. Sakar hann Vesturlönd um „gerningaveður“ gegn Íslandi, bæði þá og einnig núna í tengslum við kaup Huang Nubo á Grímsstöðum. Ég hef ekki séð neitt af hvorugu þessu gerningaveðri. Enda er forsetinn að venju að fiska í gruggugri mýri þjóðrembunnar. Hann skeytir þar engu um staðreyndir. Vestrænn Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kom okkur til hjálpar með aðstoð Norðurlanda og Póllands. Furðulegur rógur Ólafs Ragnars um útlönd er að venju úti í mýri.

    04.09.2011
    Ólafur Ragnar gengur laus
    Ísland er í evrópska efnahagssvæðinu, sem þýðir, að Íslendingar mega kaupa jarðir í Evrópu og Evrópumenn mega kaupa jarðir hér. Þannig hefur staðan verið í fjölmörg ár og ekki leitt til neinna vandræða. Það hentar hins vegar Ólafi Ragnari forseta að kalla þetta evrópska sérhagsmunastefnu. Enda séu ríki Evrópu almennt að reyna að níða skóinn niður af Íslandi. Einkum á vegum fjölþjóðlegra samtaka, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins. Nær sé að vera í samstarfi við heiðarlega menn frá Kína og Indlandi. Hatur hans á vesturlöndum birtist í vestrænum fjölmiðlum og skaðar hagsmuni Íslendinga.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Af hverju ertu að reyna að gera það tortryggilegt að Huang Nubo hafi efnast á örskömmum tíma? Er tímalengd eitthvað tortryggileg ef menn efnast?

    Höfundur Harry Potters efnaðist á örskömmum tíma. Er það eitthvað tortryggilegt?

  • Björn Kristinsson

    Meðalstærð bújarða á Íslandi eru um 1100 hektarar

    Landsvæðið sem Nubo hefur áhuga á er 300 km2.

    Í einum km2 er 100 hektara.

    Landssvæðið sem um ræðir á Grímstöðum er því um 30.000 hektarar eða um 27 meðalbújarðir.

    Það er ágætt að hafa þetta huga í þessu samhengi til að átta sig á stærðinni.

    Fyrir þá sem ekki ná yfir þessa stærð þá er heildarsvæði Reykjavíkur um 270 km2. Heildarflatarmál alls höfuðborgarsvæðisins er um 1100 km2.

    http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2245

  • Einar Steingrimsson

    Þorsteinn: Það hefur reynst ógerlegt að finna út hvernig Huang efnaðist svo gríðarlega á tíu árum að hann varð einn ríkasti maður heims. Það vekur alltaf efasemdir, og við höfum einmitt afar slæma reynslu af því á Íslandi að láta slíkt fólk um „uppbyggingu“ atvinnulífs. Eins og Sigrún Davíðsdóttir benti á í pistli í RÚV nýlega hafa þau verkefni sem hann hefur farið út í í USA ekki orðið það sem til stóð. Vitnisburður um ferðaþjónustu hans í Kína bendir til þess að rétt sé að vera á varðbergi um hvers konar starfsemi maðurinn hyggst byggja upp, sjá http://factsanddetails.com/china.php?itemid=351&catid=9&subcatid=62 :

    Many of China’s most famous tourist sites are managed by politically-connected business like Beijing Zhongdian Investment Corp, which earned by more than $600 million in 2006 running sites such as Hongchun in Anhui Province and Zhongdian near Tibet in Yunnan. The company is notorious for cheating villagers whose land is developed for tourism and giving them very little of the hefty admission fees they charge tourists. The sites themselves are often developing in a way that is ugly and not culturally sensitive. Beijing Zhondian is controlled by Huang Nubo, a former Communist Party Propaganda department section chief. He is said to worth over $500 million.

  • Það væri gaman að fara austur á Hólsfjöll og skoða með eigin augum þetta land. Verst það tæki mann 4-5 daga að fara fótgangandi umhverfis jörð Grímsstaða, miðað við 17-20 km dagleið.

  • Málið snýst ekki um uppruna litarhátt viðkomandi fjárfesta og ekki heldur stjórnarfarið í þeim löndum sem þeir koma frá . Málið snýst eingöngu um handónýta íslenska stjórnsýslu. Fyrir nokkrum misserum var stofnuð svokölluð Óbyggðanefnd. Hlutverk hennar var að ákveða með hvaða hætti eignarhald á íslenskum jörðum á að vera. Í dag er þegar búið að ákveða eignarhald margra jarða þ.á.m. Grímsstaða á fjöllum. Það er ljóst að við skiptingu margra jarða voru almannahagsmunir ekki látnir ráða. Þess vegna kemur vandræðagangurinn í þessu máli ekki á óvart.
    Næsti fjárfestir á íslenskri stórjörð getur þess vegna verið ítalskur mafíósi, hvað gerir Ögmundur þá? Brýtur kannski EES samninginn? Þetta var alltaf fyrirsjáanlegt og þar með fyrirbyggjanlegt.

  • Jóhann Gunnarsson

    Þörf umræða Einar…

    … kínverjar sitja uppi með $1.3 trilljónir af $14.3 trillóna skuldum USA…

    …greinilegt er að þeir eru að koma sínum $1.3 trilljón aftur í umferð… og vinnu… m.a. til að örva heimsviðskiptin… sem eru lífsnauðsin fyrir hagvöxt Kína…

    … uppkaup Kína víða í vanþróuðum löndum (Afríku ofl.) sýnir að kínverjar hugsa mörg hundruð ár fram í tíman…

    … hérlendis eiga kínverjar Elkem 100%… og stóran hlut í Alcoa & Alcan…

    … Macau tilheyrir Kína… Wernersbræður eigendur Sjóvá byggðu 68 lúxusíbúðaturn í Macau… markhópurinn var nýríkir kínverjar sem sækja í spilavíti Macau… sem er eina borg Kína sem leyfir fjárhætuspil…

    … við göngum í fötum… og notum hluti framleidda með vafasömum aðferðum í Kína… getum við ekki haft meiri áhrif í gegnum viðskiptasamband við Kína? …

  • Hvað hefur þú fyrir þér í því að „kínversk stjórnvöld hafa hönd í bagga með þessum kaupum“? Það væri gaman að sjá heimildir, takk.

    Annað. Hvernig værum við betur sett ef Kjartan Gunnarsson, Björgólfur Thor eða einhver álíka keypti þessa jörð? Hvað nákvæmlega væri öðru vísi?

  • Einar Steingrimsson

    Anna: Það kom fram í fréttum í gær að kínverska stjórnin ákvað að stöðva áform Huangs, af pólitískum ástæðum. Það þarf væntanlega ekki meiri heimildir en það, þótt það virðist nokkuð ljóst að almennt fái Kínverjar ekki að fjárfesta erlendis eins og þeim sýnist heldur er það háð samþykki stjórnarinnar.

  • Thor Svensson

    Persónuleg óvild forseta vors i garð annarra Evrópuþjóða er æri sérstök. Svo sérstök að allstaðar í heiminum myndu fjölmiðlar hafa sent fólk út af örkinni til að kanna hver orsökin er. Mér hugnast nefnilega ekki sú skýring sem ég hef heyrt fleygt að sé undirrót þessarra óvildar sem mér skilst þó að ekki sé erfitt að fá staðfesta (eða vísa til föðurhúsanna), ef rætt væri við ýmsa leiðtoga og ráðamenn Evrópu og USA undir nafnleynd. Ég skora á fjölmiðla að kanna þessa „perssónulegu“ óvild og hvað henni veldur. Því það er algjörlega ótækt að heil þjóð sé tekin í gíslingu vegna þessa.

  • Afskaplega væri það ljúft ef íslensk stjórnvöld ættu tilbúnar áætlanir þegar svona mál koma til umfjöllunar og ákvarðanir þarf að taka án undirbúnings.
    Reyndar eigum við lög sem hafna öðrum en íbúum EES að fjárfesta hér.
    Eiginlega þætti mér það nú samt miður ef t.d. breska konungsfjölskyldan keypti Möðrudal á Efra-Fjalli og Grímstungu í Vatnsdal ásamt Úthlíð í Biskupstungum svo einhver kot séu nú nefnd til sögunnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur