Fimmtudagur 08.09.2011 - 16:55 - 15 ummæli

Hroki og hræsni ritstjóra Eyjunnar

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Eyjunnar, skrifaði bloggpistil í dag.  Þar les hann DV lexíuna vegna nýlegra frétta um persónulegan harmleik.  Það er rétt hjá Karli að þetta var illa gert, því um var að ræða, að því er virðist, sjúka manneskju, og þótt nafn hennar væri ekki nefnt voru upplýsingarnar sem gefnar voru nægar til þess að auðvelt var, að sögn Karls, að þrengja hringinn niður í tvær manneskjur.

Þetta var sem sagt góð ábending hjá Karli.  Hins vegar var stíllinn á þessari lexíu í mörgum atriðum óþarflega hrokafullur, sérstaklega í ljósi þess að Eyjan hefur, undir ritstjórn Karls, birt ýmsar fréttir sem eru jafn vondar.  Þetta er ekkert nýtt; Karl skrifar sjaldan bloggpistla, en þeir eru oft löðrandi í hroka og fyrirlitningu á þeim sem um er rætt.

Annað sem gerir þetta ekki síður sláandi er að Eyjan birti fyrir tveim vikum fréttir af nafngreindu fólki (þar sem annar aðilinn er landsþekktur en hinn ekki) þar sem sagt var frá persónulegum harmleik sem kemur almenningi nákvæmlega ekkert við, þ.e.a.s. ekki þannig að eðlilegt sé að birta nöfn viðkomandi.  Í vor birti Eyjan líka skráningarnúmer bíls sem komið var með lík konu í á Landspítalann.  Nýlega hefur komið fram að banamaðurinn sá er ósakhæfur vegna geðveiki, sem er eitt af því sem Karl segir réttilega að geri áðurnefndan fréttaflutning DV ósiðlegan.  Karl hefur reynt að réttlæta fréttaflutning Eyjunnar af þessu tagi, en mér finnst ómögulegt að sjá að hér sé annað en siðlaus æsifréttamennska og tvískinnungur á ferðinni.   Útleggingar Karls um það hvað megi og megi ekki birta eru ekki sá stóridómur sem hann virðist halda sjálfur.

Ofan á hroka Karls bætist sem sagt slæm hræsni.

Síðan Karl tók við ritstjórastarfi á Eyjunni er ekki að sjá þar neinar breytingar til hins betra.  Hins vegar hefur hlutur slúðurblaðamennsku aukist til muna.  Það er ekkert athugavert við slíka blaðamennsku í sjálfri sér, en ég tel að Eyjuna hafi sett niður við þetta, því hún var áður vettvangur áhugaverðara efnis.  Það virðist líka vera skoðun margra (fyrrum) lesenda, því samkvæmt tölum Modernus hefur Eyjan fallið úr 8. sæti í það 12. í ritstjórnartíð Karls.  Einnig hafa margir bloggarar yfirgefið Eyjuna síðan Karl tók við vegna þess að þeim líkaði ekki við nýja eigendur og ritstjóra.

Karl hefur heldur ekki orðið við tilmælum um að skýra frá hagsmunatengslum „útgefanda“ og eins helsta eiganda Eyjunnar, Björns Inga Hrafnssonar.  Það væri þó við hæfi, því ýmsar fréttir hafa birst um brask hans fyrir hrun, og það væri eðlilegt að lesendur Eyjunnar fengju að vita hvaða hagsmunir það eru sem hæstráðandi hennar hefur helst að verja, þegar umfjöllun Eyjunnar um þessi mál er lesin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Leifur A. Benediktsson

    Einar, ég get tekið heilshugar undir með þér varðandi Eyjuna og Ritstjóra hennar. Éyjan er orðin að miðli sem hefur þrengt að tjáningarfrelsinu.Ég er andsnúinn Facebook notkun og þá eru mér allar bjargir bannaðar hér á Eyjunni,nema þegar kemur að ykkur fastabloggurum. Ég hef verið að fylgjast með „commentunum“ við fréttir Eyjunnar og sé að flestir hafa yfirgefið „völlinn“.

    Þetta er slæm þróun að mínu mati og fleirri sem ég hef haft samband við og sakna fjörugra orðaskipta. Ég var sammála þeirri breytingu er gerð var á commentakerfinu nú í vor. Ég hef alltaf komið fram undir mínu rétta nafni og taldi að rétt skref hafi verið tekið er menn urðu að skrá sig inn í kerfið á réttum forsendum.

    En nú er Snorrabúð stekkur segir einhvers staðar og á það við Eyjuna,hún er semsagt ekki svipur hjá sjón. En það er kanski markmiðið að útrýma eðlilegri og heilbrigðri umræðu. Hvað veldur?

    Kv.

  • Gleymum ekki að títtnefndur ritstjóri reyndi í fúlustu alvöru að nota barnafjöldamorðin í Noregi til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

    Er hægt að leggjast lægra? Maðurinn eru augljóslega hreinræktaður fábjáni.

  • Er að spá í að opna nýja svona síðu. Bleyjan. Kemurðu?

  • Haukur Kristinsson

    Ummæli um Fréttir Eyjunnar og pistla Egils hafa minnkað um 90% eftir að Facebook kerfið var settt á. Afar klaufaleg breyting, ég veit ekki hvað býr þar að baki. En þetta kom mér ekki á óvart eftir að Karl Th. tók við ritsjórn. Hann er arrogant og sjálfumglaður, minnir mig á útrásarvíkingana og þeirra fylgifiska, sem sögðu mætum mönnum erlendis að fara í endurmenntun, tæku þeir ekki undir lofsönginn um ágæti Mörlandans. Hallærislegt, hér læra menn ekkert af hálfvitagangi fyrri ára, sko ekkert.

  • Shit, ég var að skoða þessa „baksíðu“ á Eyjunni. Mikið ferlega er þetta hallærislegt. Greinilega á að reyna að vera með e.k. humor og álíka en vá hvað þetta er stórt skot í löppina.

    Aulahrollurinn hrýslaðist niður gæsahúðina.

  • Hvar endar þessi Eyja eiginlega?
    Sem lakara glundur en undanrennan DV?
    Um hina „fjölmiðlana“ eyði ég ekki orðum að.

    Eyjan var mjög góð undir ritstjórn Guðmundar Magnússonar og Péturs Gunnarssonar. Hún var opið torg fyrir ólíkar skoðanir og hressandi umræðu.

    En eftir nokkur ritstjóraskipti og eignarhaldsbreytingar, þá hefur sigið á ógæfuhliðina og nú er Eyjan orðin að fremur lélegum mellu-spuna Samfó-peyja. Undarlegt að sá oft ágæti Egill Helgason skuli láta þetta allt yfir sig ganga og láta drag sig á asnaeyrunum af hnífasetta-dúddum.

  • Eftir að spillingargosinn Björn Ingi Hrafnsson eignaðis eyjuna hefur maður reynt að gera sem minnst af því að hækka heimsóknartölur hennar. Legg til að hún verði kölluð mafíueyjan.

  • Leifur A. Benediktsson

    Pétur Örn Björnsson,

    Tek undir með þér Pétur Örn, Eyjan er að sökkva í sæ. Og með henni fer fjöldi góðra penna sem útilokaðir hafa verið,með fáránlegum kröfum um Facebook aðgangi. Facebook er ekki rétti staðurinn fyrir lifandi umræðu að mínu viti. Vitandi hver er með meirihlutavald á þeim bæ hef ég óbeit á þeim samskiptamiðli. Ég vil hvetja meistara Egil Helgason að yfirgefa skítabixið Eyjan,og koma á laggirnar nýjum miðli þar sem umræðan er lífleg og frjó.

    May the force be with you. Kv.

  • Jenný Anna

    Beint í mark.

  • Ég datt nú hér stundum inn þegar Þórfinnur Ómarsson hér húsum. Þó ég hafi verið ósammála honum um margt þá var líf í Eyjunni enda hafði hún sína dyggu lesendur. Karl Th. Birgisson, vinnukarl Björns Inga Hrafnssonar, er eins og honum hefur verið hér lýst og greinilegt að Eyjan er orðinn lágkúrulegur áróðursvefur fyrir þröngan hóp, og notaður til að koma höggi á andstæðinga eigenda og ritstjóra.

  • ..réði hér húsum…átti þetta að vera.

  • Sveinbjörn Halldórsson

    Ef til vill er ritstjóri Eyjunnar eins og hver annar vindhani. Það er leitt að sjá Karl Th, sem mér fannst alltaf vera ferskur gustur í blaðamennsku, snúa þessa Eyju næstum úr hálsliðnum. Hún hafði allt með sér, gagnrýninn vettvangur fólks með ólíkar skoðanir, þessa djúpu öldu sem hrunið leiddi af sér. Þessi frjálshuga maður kaus að horfa framhjá því, það bar sérstaka nauðsyn til að fletja út umræðuna. Vindhani valdi Fésbókina, þann stöðuga klið radda yfir engu. Ég býst við að þegar saga íslenskar blaðamennsku verður skrifuð, þá mun Karl Th, vera nefndur til sögunnar þegar sjálfsprottinn vettvangur umræðu á Eyjunni, var snúin úr liðnum.

  • Alltaf jafn lýrískur og flottur stíll hjá þér Sveinbjörn:

    „Vindhani valdi Fésbókina, þann stöðuga klið radda yfir engu. Ég býst við að þegar saga íslenskar blaðamennsku verður skrifuð, þá mun Karl Th, vera nefndur til sögunnar þegar sjálfsprottinn vettvangur umræðu á Eyjunni, var snúinn úr liðnum.“

    Allt verður flatneskjunni að bráð.

    En, kannski hinn pólitíski vindhani Karl Th. snúi óvart sjálfan sig að lokum úr liðnum? Annað eins hefur nú gerst þegar sullað er í ráðabruggi með Binga hníf að næturkyrrð hinna löngu hnífa. Dagsbrúnin afhjúpar það.

  • Og svona í framhaldi af pistli Einars, þá sýnist mér að vinnubrögð Eyjunnar séu algjörlega orðin í stíl við það lakasta sem birtist í DV. Þar er vitakuld kuta-peyjinn að selja allt sem hlægt er. En þá er þörf á að ritstjórinn sé amkmk. af einhverju þokkalegu kalíberi hvað visku og dómgreind snertir. Á DV má lesa einn og einn þokkalegan ritstjórnarpistil … en enn hefur Karli ekki tekist að skrifa einn einasta góðan, djúpan, greinandi, glöggan og sammannlegan pistil hér á Eyjunni. Allt skal það vera í stílnum, „Ömmi svaraðu“ … með einhverjum yfirlætistón og ruddaskap.

    Við sem kommentum megum rífa kjaft í stundaræði, en maður ætlast til að borgaður (já, af hverjum????) ritsjóri eigi að skrifa meira á dýptina en í skætingi, sem Karl Th. hefur tileinkað sér og lokað svo fyrir athugasemdir. Er það vænlegt til framtíðar þinnar sem ritstjóri, hr. Karl Th. Birgisson?
    Og hvað er þetta með þig og Kögunarhólinn á laugardögum?
    Er Þorsteinn Pálsson þinn lærifaðir í frjálshyggjufræðunum?

  • Haukur Kristinsson

    Með tilkomu Karls Th. átti heldur betur að taka til í umfjöllunum Eyjunnar, sem og pistlum Egils. Engar móðganir, engar svívirðingar eða hótanir lengur. En eftir tilkomu “facebook” formsins, kastar fyrst tólfunum. Smá example:
    “Salah Iceland
    Kærar þakkir Hr. Ólafur Ragnar Grímsson fyrir að rasskella þetta helvitis pakk sem er með skallagrím og jóa klóa halda að þeim er alveg sama um landið bara að helvitis vinstri stjón við valdi …þetta er ekki einu sinni kommatitt ríki sem skallagrim( júdas) að bjóða þetta er stalina einræðisherra dæmi að hæti jóa klóa og árna pal sem kunni ekki rassgat …
    ÁFRAM HERRA ÁFRAM HERRA
    og þið (helvitis vinstir svokallað stjorn farið til h….
    OG EKKI GELYMA AÐ TAKA svavar gest. og hans hugmyndafræði MEÐ ykkur NORÐUR & NIÐUR.”

    Ummæli um Frétt Eyjunnar 11.09.11 kl. 8:20.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur