Laugardagur 17.09.2011 - 17:00 - 12 ummæli

Sigríður Ingibjörg, Guðfríður Lilja …

Hér fer á eftir  póstur sem ég sendi Alþingismönnunum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur í gær.  Fái ég svör frá þeim mun ég birta þau hér.

———————————————————————————————

Sælar, Sigríður Ingibjörg og Guðfríður Lilja

Fjöldi fólks hefur misst eða er að missa heimili sín.  Ennþá stærri fjöldi kiknar undan húsnæðislánum sem hækkuðu um tugi prósenta í kjölfar hrunsins, og sér ekki fram á að losna nokkurn tíma úr því skuldafangelsi.  Bankarnir, sem fengu þessi lán með miklum afslætti, raka saman ofsagróða með því að blóðmjólka fólk sem hefur séð skuld sína stökkbreytast, þökk sé framferði þeirra sem græddu á tá og fingri fyrir hrun, og sem margir eru að drukkna í peningum og hroka enn í dag.

Ég skrifa ykkur tveim, því þið tilheyrið þeim örfáu alþingismönnum (í stjórnarliðinu) sem margir virðast enn bera virðingu fyrir og trúa að þið séuð í stjórnmálum á einlægum og heiðarlegum forsendum.  Sjálfsagt gætuð þið fengið fleira gott fólk með ykkur á þingi ef þið takið málin í ykkar hendur.

Varla ætlið þið að horfa aðgerðalausar á að bankarnir þrautpíni fólk sem ekkert hefur til saka unnið, til þess eins að bankastjórarnir geti haldið áfram að baða sig í peningunum sem þeir særa út?  Varla viljið þið að það verði eftirmæli þessarar vinstri(?)stjórnar sem kennir sig við norræna velferð, að hún hafi skilið þá sem minnst mega sín eftir í skuldfeni þeirra sem hirtu gróðann af sukkinu fyrir hrun, og samfélagið eftir í sárum sem ef til vill gróa aldrei?

Því spyr ég:  Hvað ætlið þið að gera?

Bestu kveðjur,

Einar

PS.  Þetta er opið bréf sem ég mun birta á blogginu mínu.  Mér þætti vænt um að fá svör frá ykkur, hversu stutt eða löng sem þau eru, og vil gjarnan birta þau líka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Bíð spenntur eftir svari.
    Kveðja að norðan.

  • Jón Sig.

    Nú er komið í ljós að sú heimska og fáfræði Norrænu velferðarstjórnarinnar og verkalýðsforustunnar, að hafna því að taka verðtrygginguna, úr sambandi tímabundið, eins og lagt var til í okt. 2008, er nú búinað valda félagsmönnum ASÍ og öðrum landsmönnum meiri hörmungum og skaða, en fordæmi eru fyrir í Íslandssögunni.

    Þetta eru einhver mestu efnahagsmistök sem gerð hafa verið á Íslandi, og þessi mistök má skrifa á Norrænu velferðarstjórnina, ASÍ og yfir Simpansan þar á bæ.

    Gylfi forseti ASí var settur yfir nefnd sem átti að skoða frystingu vísitölunnar eftir hrun, tímabundið í nóv. 2008, Gylfi og nefndin hans komst að því að ekkert mætti gera, því það kæmi sér illa fyrir fjármagnseigendur.
    Nú skalt þú Einar komast að því hverjir aðrir voru í þessari nefnd.

  • Gott og þarft framtak Einar.
    Það er komið að því að handpikka þingmenn til ábyrgðar.
    Þetta er ágætt fyrsta skref.

  • Sigurður Sigurðsson

    Þetta er allt gott og blessað en því miður hafa þessar heiðurskonur ekki nokkurn minnsta áhuga á því gera nokkurn skapaðan hlut í málum skuldugra heimila. Ekki frekar en hinir 61.

  • Já Einar; – góð tilraun í sjálfu sér – en skoðaðu hverjir voru hinir sérfróðu ráðgjafar Jóhönnu Sigurðardóttur í október-nóvember 2008 og ráðlögðu ríkisstjórn Geirs Haarde og Þingheimi öllum að „stökkbreyta lánum fjölskyldnanna“ – til þess að lífeyrissjóðirnir yrðu ekki af væntri ávöxtun . . .

  • Leifur A. Benediktsson

    Þú ert með þetta Einar Steingrímsson, þú ert að setja þrýsting á þessar „heiðurskonur“. Með þessu framtaki þínu ertu enn og aftur að sýna það og sanna hversu annt þér er um lýðræðið.

    Vonandi sérðu þér fært að mæta á Völlinn 1. október nk. 4FLokkurinn óttast mikinn fjölda,það er OKKAR vopn.

    Viva La Revolúcion!

    Kv.

  • Pétur Örn Björnsson

    Tek enn og aftur undir orð Stínu, í aths. við pistil Einars
    um Ræningjakapítalismann og ríkisstjórnina:

    “Mætum á Austurvöll öll sem getum.
    Það þarf engan til að skipurleggja þá sem hafa fengið nóg.”

    Mér eru þessi orð Stínu sérstaklega kær vegna þess að fyrir
    rúmu ári síðan skrifaði ég

    BRÉF TIL STÍNU
    með undirtitlinum Sometimes I feel down on the Whipping Post:

    Elsku Stína
    Eins og þú veist
    þá hætti ég í lýrík & póesíu
    til að geta átt fyrir gluggunum
    – varkár og með vöðin á hreinu –
    og ég puðaði og puðaði og puðaði
    – eins og allt er þrennt
    og í plati heilagt í puðinu –
    í þúsundir ára í mannkyns-sögunni

    en nú er ekkert að gera í puðinu
    og banka- og ríkis-hirða fjárarnir
    búnir að ræna öllum sparnaðinum
    svo nú á ég ekki fyrir gluggunum
    – og það er það grátlega fyndna –
    að nú get ég ekkert annað gert
    en að rifja upp eld-gamla takta
    og rissa galdra-rúnir á veggina
    og ljóða og ljóða og ljóða
    á alla þessa glugga-skratta
    húsnæðis-lána-bréfanna
    sem birtast mér sem fjárar
    stökkbreyttir í neðra
    og vafnings-skreyttir
    og með ríkis-verð-tryggðum böndum
    og vaxtaðir út úr öllum kortum
    og þramma nú yfir höfuð mitt
    með bólgu-fótum höfuðstólanna
    í pískandi spotti á allt mitt puð
    – eins og allt er þrennt
    og í plati heilagt í puðinu –

    Nei og aftur Nei og aftur Nei !!!

    Nú rissa ég galdra-rúnir á veggina
    og ljóða á gluggana
    og spottandi
    ríf ég öll bréfin
    og flyt níðvísur mínar
    yfir rifrildunum
    og bölva svo með látum
    langt fram eftir degi
    en undir kvöldið í hljóði

    og í því hljóði spyr ég þig nú
    í þínu basli – elsku Stína mín:

    Hvenær kemurðu með mér?
    Að æpa á ríkishirð fjáranna:
    – Löggjafar-valdið
    – Stjórnsýslu-valdið
    – Ríkis-hirða-valdið
    – Fjár-glæpa-valdið
    Vítis Fokkin Valda Fokk !

    Með eld-gamalli baráttukveðju
    þinn vinur, Prómeþeifur í huga.

  • Pétur Örn Björnsson

    Bara sú vinsamlega ábending til þín Einar, að það er eins og að stökkva vatni á gullgæs, að senda loddaranum og hræsnaranum Steingrími Jóhanni Sigfússyni, fjármálaráðherra bréf og láttu það ekki einu sinni hvarfla að þér, enda er svar hans löngu þekkt. Maðurinn hefur gortað af því að hann sé skuldlaus, enda ekkert „venjulegt fólk“ hann Steingrímur J., sem búinn er að vera á jötunni í rúm 30 ár:

    „Það hefur orðið mikill eignabruni, ekki samt hjá venjulegu fólki.“

  • Mhm. Þau hafa örugglega aldrei heyrt þetta áður. Ég meina – þú ert hér bara í nýyrðasmíð. Ég hef sannarlega aldrei heyrt áður um týnda skjadborg, blóðmjólkandi banka, brennandi heimili, stökkbreytt íbúðarlán, leiðréttingu, hagsmunasamtök heimilanna, heimilunum blæðir út, fátæktarvandi, börnin, gungur, í vinnu fyrir þjóðina, hnípin þjóð í vanda, nú er mál að linni, jógrímur, lady gaga, helferðarstjórnin, kommúnistar, auðvaldsþrælar, skósveinar auðvaldsins fjórflokkurinn, FLokkurinn, Samspillingin og allt það.

    Þetta er nú sannarlega ekki hin útúrþreytta, úr sér gengna vælubloggsumræða sem hefur verið nákvæmlega eins í þrjú ár og ekki skilað neinum árangri öðrum en þeim að eyðileggja íslenskt ritmál.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þorsteinn, þú gleymir alveg að nefna talmál Steingríms og Jóhönnu.
    Það er hrein og tær gargandi snilld á 30 ára ferli þeirra og kristallast
    í orðum sjálfs yfirskósveins banka-hrægamma heimsins:
    „Hér verður uppreisn !“ Veist þú Þorsteinn gegn hverju ?
    Og gleymdu ekki tuldri Jóhönnu, þegar hún horfir framan í sjálfa sig:
    „Helvítis íhaldið !“ Veist þú af kögunarhóli þínum, hvað hún gerir?
    Var hún ekki í ráðherra í Hrun-stjórninni og nú forsætisráðherra ?

    Skyldu Jóhanna og Steingrímur ekki vita það, að þau hafa haft þingræðislegan meirihluta til að breyta því sem þau þóttust vilja breyta ?
    Við höfum í tæp 3 ár spurt um vilja þeirra til breytinga.
    Það eru þau, minn kæri Þorsteinn, sem hafa eyðilagt merkingarlegt inntak íslenskt máls með fölskum lof-orðum … aðallega um sig sjálf.

  • Einar Steingrimsson

    Fyrir áhugasama má geta þess að Sigríður Ingibjörg segist ætla að svara pósti mínum. Ég vonast til að geta birt svarið hér.

  • Jón Ólafs

    Á sama tíma sem þær Sigríður og Guðfríður skera niður hjá Landspítala, inn að beini, þannig að ekki er hægt að halda upp eðlilegri heilbrigðisþjónustu,
    virðist vera nægir peningar til hjá Fiskistofu.

    Hafró hefur í allt sumar haldið úti rannsóknarskipi til að rannsaka göngur og magn makríls, við Íslandsstrendur, nú sér maður á heimasíðum uppsjáfarskipanna, sem eru á makríl og síldveiðum, að eftirlitsmenn frá Fiskistofu eru þar um borð, mér er það hulin ráðgáta hvað þessir eftirlitsmenn eru að gera þarna um borð, getur verið að þessir eftirlitsmenn séu að líta eftir þrifnaði um borð, og hollustu þess fæðis sem fer niður í áhöfnina. Þarna eru þær Sigríður og Guðfríður ekki að fara vel með skattfé borgaranna, sem varð fyir stökkbreytingu lána sinna vegna forsendubrests við hrunið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur