Í upphafi árs 2007 ákvað þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, að Háskóli Íslands skyldi fá aukin framlög til rannsókna sem næmi þremur milljörðum á ári. Aukningin átti að koma til á fjórum árum, fram til 2011, sem þar með hefði þrefaldað árlegt beint framlag ríkisins til rannsókna við HÍ . (Aukningin kom ekki til framkvæmda nema sem nam um einum milljarði, vegna hrunsins.)
Þessi ákvörðun hefur líklega farið gegn þáverandi stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem mótar stefnu ríkisstjórnarinnar á þessu sviði (og hún fór algerlega í bága við stefnu flokks ráðherra á þeim tíma, þar sem lögð var áhersla á eflingu samkeppnissjóða á kostnað beinna framlaga til stofnana).
Nú hefur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lýst yfir að ríkið muni leggja einn og hálfan milljarð í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands á fjórum árum. Jafnframt er sett það markmið að árið 2016 verði tekjur háskólans í samræmi við meðaltal tekna á hvern stúdent í háskólum í OECD-ríkjunum.
Ekki er hér sagt orð um að samkeppnissjóðir verði efldir, og þannig virðist sem þetta muni enn minnka það hlutfall rannsóknafjár sem fari í gegnum slíka sjóði. Því er erfitt að sjá annað en að þetta fari þvert á stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem mótar stefnu stjórnvalda á þessu sviði, en formaður ráðsins er forsætisráðherra (og í því sitja einnig fjármálaráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, velferðarráðherra og umhverfisráðherra).
Í núgildandi stefnu Vísinda- og tækniráðs segir nefnilega:
Öll opinber fjármögnun vísinda og nýsköpunar verður að fara eftir skýrum reglum og byggjast á mati á gæðum og ávinningi. Þetta á bæði við um fjármögnun í gegnum samkeppnissjóði, innan sem utan Vísinda- og tækniráðs, og bein framlög til háskóla og opinberra rannsóknastofnana
Og:
Ítrekað hefur verið bent á að hér á landi fari of lítill hluti opinberra fjárveitinga til rannsókna og nýsköpunar í gegnum samkeppnissjóði.
Þess vegna leggur ráðið (sem forsætisráðherra er sem sagt formaður í) líka til að
Hærra hlutfalli opinberra framlaga til rannsókna og nýsköpunar verði úthlutað í gegnum samkeppnissjóði en gert er nú.
Þetta er auðvitað ekkert nýtt, því svokölluð stefnumótun í íslenskum stjórnmálum er yfirleitt brandari í besta falli, en hreint skrök í versta falli. Að minnsta kosti er afar sjaldan mótuð raunveruleg stefna, hvað þá að farið sé eftir henni. Ég leyfi mér reyndar að halda fram að það séu hverfandi líkur á að forsætisráðherra hafi nokkurn tíma kynnt sér þá stefnu sem hún er skrifuð fyrir sem formaður Vísinda- og tækniráðs, en það er annað mál.
Það er svo áhugavert að minna á að núverandi menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir, í leyfi) útskýrði í grein í Fréttablaðinu nokkrum árum áður en hún settist í embættið, hversu mikilvægt væri að efla samkeppnissjóði í vísindum:
Samhliða því þarf að efla samkeppnissjóðina og auka hlutfallslegan þátt þeirra í rannsóknafjármagni. Úthlutunarreglur þeirra þarf að skoða með það að leiðarljósi að vísindamenn séu ekki um of bundnir stofnunum.
Margir, þar á meðal undirritaður, trúðu því að hún myndi standa keik þegar hún fengi völdin til að breyta því spillta kerfi sem nú ríkir í fjármögnun rannsókna á Íslandi. Það reyndist rangt, hún seldi þau völd í hendur Jónum Bjarnasononum í HÍ (og reyndar Jóni Bjarnasyni sjálfum að (litlum) hluta, sem setti Ásmund Einar Daðason yfir úthlutanir úr rannsóknasjóðnum Aukið verðmæti sjávarfangs).
Þeim leikmönnum sem hafa þá (skiljanlegu) hugmynd að fjármagni veitt HÍ verði sjálfsagt varið vel til að efla rannsóknir skal bent á að sú skoðun á því miður ekki við sterk rök að styðjast. Ef til vill verður nánar fjallað um það hér síðar, en rétt er a.m.k. að benda á þennan pistil þar sem í lokin er nefnt dæmi um raunverulega stefnu HÍ varðandi eflingu vísindastarfs við skólann.
En kerfisbundið er búið að skemma Iðnmenntun síðustu 20 -30 árin af stjórnvöldum það virðist algjört aukaatriði að sögn menntaelítunnar 101.
Er svo dýrt að mennta iðnaðarmenn frekar flytja inn Pólverja eða verkefninn útúr landi hefur heyrst víða úr kerfinnu.