Í Silfri Egils í gær, og í blaðagreinum, hefur Brynjar Níelsson kynnt þá skoðun um Geirfinns- og Guðmundarmálið að afturköllun játninga sé merkingarlaus, og að ekki sé hægt að endurupptaka mál nema til komi ný sönnunargögn. Burtséð frá því að réttarkerfið mætti e.t.v. stundum taka breytingum, þótt mikilvægt sé að slíkt sé gert varlega, þá velur Brynjar að horfa fram hjá kjarna málsins, og hengja sig í staðinn í formsatriði, og það þótt um sé að ræða eitthvert mikilvægasta óréttlætismál síðari tíma í íslenska réttarkerfinu.
Málið snýst ekki um afturköllun játninga, heldur að játningarnar í málinu virðast hafa verið samdar af rannsóknaraðilum, og togaðar út úr sakborningum með pyntingum. Rannsakendurnir sýndu nefnilega fram á með óyggjandi hætti að þeir gátu fengið sakborninga til að játa hvaða þvælu sem var, með því að fá þá alla, í einangrun, til að játa útgáfuna sem varð til að fjórir saklausir menn voru hnepptir í gæsluvarðhald mánuðum saman.
Það er líka fáránlegt, eins og bent hefur verið á, að hamra á því að það þurfi ný sönnunargögn til að málið verði tekið upp aftur, því það voru einmitt aldrei nein sönnunargögn í málinu. Að krefjast nýrra sönnunargagna er að snúa sönnunarbyrðinni við, og ætlast til að sakborningar finni gögn sem sanni sakleysi þeirra. Það er afstaða sem Brynjari finnst örugglega óverjandi, þótt hann virðist ekki gera sér grein fyrir afleiðingum orða sinna hér.
Það er auðvitað ekkert athugavert við að Brynjar haldi þessum skoðunum á lofti, enda eru þær við venjulegar kringumstæður eðlilegar, og mikilvægar í ljósi þess að réttarkerfið þarf að vera fyrirsegjanlegt. En þegar kerfið bregst gersamlega, eins og gerst hefur hér, þá þurfa önnur yfirvöld að taka á málinu, ef réttarkerfið getur það ekki. Það er ekki víst að endurupptaka sé nauðsynleg, þótt ekki ætti að útiloka hana. Það er hins vegar bráðnauðsynlegt að fá svör við þeim áleitnu spurningum sem eru á lofti, ef tiltrú almennings á réttarríkinu á ekki að biða verulegan hnekki.
Það er svo annað mál, en skylt, að þótt rödd Brynjars sé mikilvæg í umræðunni, ekki síst vegna þess að hann þorir að viðra óvinsælar skoðanir sem nauðsynlegt er að komi fram, þá er til vansa að hann tali um þetta mál kynntur sem formaður Lögmannafélagsins. Þetta er algengur ósiður á Íslandi, þar sem forystufólk ýmissa félaga getur ekki haldið aftur af eigin skoðunum þegar ljóst er að litið er á það sem talsmenn samtakanna sem það er í forsvari fyrir. Það hefur e.t.v. ekki farið hátt, en til er fjöldi lögmanna sem er algerlega ósammála málflutningi Brynjars, svo hann talar ekki fyrir munn meðlima Lögmannafélagsins, þótt halda mætti það af því hvernig hann er kynntur.
Brynjar er formaður Lögmannafélagsins en hann er ekki talsmaður þess í málinu. Skoðanir eru skiptar meðal lögfræðinga og margir mjög þekktir og virtir lögfræðingar hafa gagnrýnt málið harðlega. Brynjar er ekki réttarsálfræðingur og ég leyfi mér að efast um skilning hans á játningum og eðli þeirra. Til að skoða játningar eru sem betur fer afar færir menn hér á landi. Brynjar óttast um virðingu og trúverðugleik dómstólanna en réttlár málsmeðferð virðist ekki skipta eins miklu máli. Það er afar brýnt að starfshópurinn skili góðu starfi og í framhaldinu verði sett á rannsóknarnefnd með víðtækar rannsóknarheimildir. Almennt séð eru rannsóknir á íslensku réttarkerfi litlar og skortir sárlega félagsfræðilegar rannsóknir.
Efinn um hvað er satt og hvað logið í þessu máli verður alltaf til staðar hvað sem öllum rannsóknum á eðli játninga og félagsfræði dómstóla líður.
Bjuggu rannsóknaraðilar til allar sögurnar? Fundu þeir upp á að benda á fjóra saklausa menn? Á endanum mun alltaf standa orð á móti orði – nema einhverjar sannanir finnist.
Að hérna má sjá skýrslur af ungmennunum er þau fyrst blanda Klúbbsmönnum inní efnið í byrjun árs 1976:
http://www.mal214.com/pdf/12.pdf
(Dáldið þungt allavega í minni tölvu)
Að þara á bls. 58, sýnist mér, kemur framafar athyglisvert atriði sem sjaldar er rætt um. Að á þeirri bls. byrja skýrslur af yfirheyrslum kringum mann sem á við áfengisvandamál að stríða, þar sem hann er að segja sögur af hvarfi Geirfinns. þar eru Klúbbsmenn líka inní dæminu. Og furthermore – þetta er nákvæmlega eins saga og ungmennin segja! Klúburinn – spíri – bátsferð etc etc. Nákvæmlega eins saga.
Svo skulu menn athuga dagsetninguna. Hún er í október eða lok árs 1975. þ.e. á undan sögum ungmennanna.
Ef þetta er ekki merkilegt, þá veit eg ekki hvað.
Ps. það er sko, í þessu máli, að það er svo margt sem er fjarlægt nútímanum.
Að það kemur hálfeinkennilega fyrir sjónir núna hve mikil áhersla er lögð á eitthvert spírasmygl.
Málið er að á þessum tíma var um stórmál að ræða. það voru endalausar sögusagnir um spírasmygl almennt séð. Allstaðar verið að smygla spíra og vafastarfsemi í kringum það. öfum í huga að á þessum tíma var ekkert auðvelt að nálgast áfengi yfirhöfuð.
Nú, svo virðist vera að fljótlega eftir hvarf Geirfinns hafi hvarfið verið sett í samband við spírasmygl í almannarómi og margar sögur gengið um það – og nefnilega að Klúbbsmenn hafi strax verið bendlaðir við það og svo virðist vera að löggan hafa snemma farið að rannsaka málið eftir þeirri tilgátu. Eins og ma. Keflavíkurrannsókn sínir þar sem þeir voru beinlínis með mynd af Magnúsi Leopoldssyni.
Er nefnlilega dáldið flókið. þ.e.a.s. ef menn ætla að kafa alveg til botns.
Ómar bara svona til að skilja þig betur hver er þín kenning út frá þessum vitnisburðum? Ég er bara að reyna fatta hver niðurstaðan er hjá þér er?
Af hverju skyldi maður sem liggur fyrir dauðanum, maður sem hefur nákvæmlega engu að tapa, að draga játningu sína til baka?
Hverjum er ekki sama hvað fólki finnst og heldur þegar hann er að deyja?
Og svo kemur mannvitsbrekkan Brynjar með þá fullyrðingu að ekkert sé að marka það að fólk dragi játningar til baka. Ég er satt að segja alveg gáttaður á honum. Það meira að segja læðist að mér sá grunur að hann hafi fremur litla innsýn í mannlega náttúru.
það er í raun irrelevant.
Punkturinn er, að mikið er talað um að ungmennin hafi verið svo óforskömmuð og milir ,,hrottar“ að blanda Klúbbsmönnum inní málið o.s.frv.
Málið er að þetta er ekki sérlega einfalt mál. Margt bendir til að löggan sjálf hafi verið slíkir ,,hrottar“ að vinna eftir þeirri kenningu að Klúbbsmenn væru einhvernveginn viðriðnir málið og þá aðallega í gegnum einhverskonar spírasmygl.
það virðist líka hafa verið ein megin sagan í þjóðfélaginu. Málið var mjög umrætt sem kunnugt er. þá fór umræða ekki fram á Internetinu eins og nú er. Nei nei, hún fór fram í eldhúsum og í kaffipásum. Breyttir tímar.
Nú, með ungmennin, að þá virkar hálfpartin eins og þau séu að segja þessa sögu um Klúbbsmenn – spíra – bát etc. – bara eins og í greiðaskyni við lögguna. Hjálpa löggunni. það æpir á mann ef maður rýnir grant í skjölin. Æpir á mann.
Ps. eða öllu heldur taka undir þá sögu. því eins og augljóst er, er meginsagan þegar til staðar eins og kemur vel fram í frásögn mannsinnsmeð áfengisvandamálið. Að þetta er, eins og áður segir, alveg nákvæmlega sama saga í meginlínum.
þetta virðist því hafa verið meginsagan í almannarómi og beinlínis kenning sem löggan vann eftir. Löngu áður en ungmennin komu til.
Svo koma einhverir prelátar núna og segja: Já, lesiði dóminn! Þau voru svo vond ungmennin að þau bendluðu bara klúbbsmenn við málið!
þetta er ákaflega þreytandi þegar maður veit að málið er miklu flóknara en svo að hægt sé að afgreiða i slíkum frösum.
Ef Geirfinnur og Guðmundur kæmu labbandi til lögreglunnar ,væri það næg sönnun um að þeir væru ómyrtir?
Höddi. Nei líklega ekki.
Ef Brynjari er svo mikið í mun að halda sig við játningar, að þá var offramboð af játningum í þessu máli og ætti hann þá að hengja sig í allar þær játningar sem gefnar voru. Gallinn við þær er hinsvegar sá að þær eru ósamræmanlegar. Schutz gat tjaslað saman einhverskonar atburðarrás og valið úr játningar sem pössuðu þar inn. Þetta er eitt af því sem kallar á rannsókn á meðferð málsins. Brynjar heldur sig við dóm sem byggir á meingallaðri málsmeðferð, það veit hann.
Lestur á þessum málskjölum, sérstaklega yfirheyrslunum, sýnir íslenskt þjóðféla eins og það var fyrstu 30 árin eftir stríð. Þetta fjallar um kaup og sölu á sprútti, smygl, ofbeldi, langvarandi fyllerí í heimahúsum, tortryggni, framhjáhald, kunningjagreiða með reddingum og vinnuskiptum og útbreiddum félagslegum vandamálum. Breytingarnar , sem orðið hafa á síðustu 30 árum, eru ótrúlegar. Bara orðið sprútt er horfið úr málinu.
….en ég er engu nær um Guðmundar- og Geirfinnsmál eftir lesturinn.