Fimmtudagur 10.11.2011 - 22:55 - 26 ummæli

Hvað veit Magnús Orri um áform Huangs Nubo?

Magnús Orri Schram skrifaði bloggpistil í dag um kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum, sem Magnús virðist áfram um, af því að „Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda til hagvaxtar“.  Þessi gatslitna klisja um að „Ísland  þurfi á erlendri fjárfestingu að halda“ er að vísu aldrei rökstudd (sem er sérkennilegt, og þar að auki þversagnakennt í ljósi þess að Landsbankastjórinn hefur nýlega kvartað yfir því að geta ekki sett í umferð alla tugmilljarðana sem bankinn hefur grætt), en látum það liggja á milli hluta í bili, enda myndi það æra óstöðugan að ætla að greina á einu bretti alla þvæluna í þeim yfirlýsingum sem íslenskir stjórmálamenn láta dynja á landsmönnum um „hagfræði“.

Maður spyr sig, eðlilega, á hverju Magnús byggi þessar vonir sínar um að hratt verði gengið í að veita Huang leyfi til að kaupa Grímsstaði; hvað hann viti um áform þessa manns sem geri að verkum að hann sé svona áhugasamur um að Huang séu opnaðar allar dyr.

Svarið er að Magnús Orri veit ekki neitt.  Ekkert umfram það sem fjölmiðlar segja að Huang hafi sagt, og það sem þeir hafa sagt að vinir mannsins hafi sagt að hann hafi sagt.

Magnús veit því það sama og við hin:  Huang Nubo varð á tíu árum, eftir að hann hætti að vinna hjá Áróðursráðuneyti kínversku ógnarstjórnarinnar, einn ríkasti maður í heimi (meðal annars með starfsemi í Tíbet, þar sem fyrrum húsbændur hans stjórna með pyntingum og morðum).  Erfitt er að henda reiður á hvernig maðurinn efnaðist svona ógurlega.  Hann hefur lýst yfir miklum áformum um uppbyggingu í ferðamannabransa í USA, en minna orðið úr framkvæmdum.  Huang hefur líka lýst yfir að það sé góður tími til að kaupa land á Íslandi, því verðið sé lágt, og Íslendingar þurfi að selja.

Af þessum takmörkuðu upplýsingum finnst mér eðlilegra að giska á allt annað en það sem Magnús Orri virðist gera:  Nefnilega að Huang Nubo sé trúlega braskari, sem ætli að kaupa ódýrt til að selja öðrum bröskurum síðar dýrt.  Góðviljaðar „yfirlýsingar“ hans um að hann hafi lítinn áhuga á auðlindum (sem þar að auki áttu bara við Jökulsá á Fjöllum) eru lítils virði, og einskis virði þegar hann er búinn að selja landið öðrum.

Það er eins og Magnús Orri, Árni Páll efnahags- og viðskiptaráðherra, og margir aðrir ráðamenn, hafi verið á fjöllum síðustu tíu árin, og hafi aldrei heyrt um auðjöfra sem lofa gulli og grænum skógum, en sem reynast síðan aðeins hafa áhuga á því sem þeir sannanlega hafa haft mestan áhuga á, nefnilega að græða sem mesta peninga, sama hvernig að því er farið.  Ekki vill maður frýja þessum stjórnmálamönnum vits.  Hvað er það sem drífur þá áfram í þessu máli?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Uppsafnað vanhæfi?

  • Svona fór með sjóferð þá þarna í Kalmar kommun í Svíþjóð

    Kínverjarnir hafa keypt verðmætustu lóðirnar í Kalmar og er þá að sjálfsögðu ekki aftur snúið, með lof um bjarta framtíð. 900 störf við hótel, moll og hundruðir verksmiðja þegar allar risaframkvæmdirnar eru yfirstaðnar.
    Stærsta vandamálið er, að Kalmar hefur borgað allan brúsann, en kínverjarnir láta ekki heyra í sér og standa ekki við gerða samninga. Það sem við best vitum, þá er búið að byggja eitt einbýlishús og risastóra gluggalausa skemmu. Einbýlishúsið er ætlað framkvæmdastjór fyrir batteríið , sem er kínversk kona.
    Á thoralfalfson.webblogg.se er oft stungið á þetta kýli og sannleikurinn sagður.

    Sjá hér líka:
    http://www.barometern.se/nyheter/kinasatsning/han-avslojar-fanerdunbluffen(68325).gm

    Og hér:
    http://sv.wikipedia.org/wiki/China_Europe_Business_%26_Exhibition_Center

    Magnús Orri ætti kannski að kynna sér mislukkaðar „fjárfestingar“ hjá frændum okkar Jafnaðarmönnum í Svíaríki.

    Það er ekkert að því að fara varlega í eitthvað sem getur orðið óafturkræft.

  • Pétur Örn Björnsson

    Frabær pistill, glöggur og greinandi.

    Það er orðið verulega tragikómískt að horfa upp á þessa guðsvoluðu vesalinga, jötuliða og spunadindla nýfrjálshyggjudeildar Samfylkingarinnar, jarma nú sín stef með upp-diktuðu kínversku kvæðamannafélagi. Í gær var það Júró og nú er það Núbó. Þetta eru eins og hallærislegar grúppíur.

    Ég geri að tillögu minni að Hjölli og Solla, lögfræðingur hennar og Lúddi Bergvinsson leigi skika með Núbba í Afganistan og rækti þar sinn valmúa, skít, og afgan; með beibí-karrott slikju fyrir Árna Pál og MOSa og frú í Landsbankanum.

    Þjóðnýtum svo alla þessa sukkara-banka og stokkum upp þetta spuna-dellu-virki … okkur öllum til hagsbóta og velferðar, já, norrænnar velferðar sem lofað var … eða var það ekki ????

  • Ætli Schramarinn hafi ekki verið að meina að hann sjái enga aðra kosti í stöðunni en að flytja inn aðila sem sé hægt að skatta ofaní grjótið, það sé búið að taka íslenska stofninn og keyra skattlagninguna eins langt og komist verður.

    Það er annars magnað að heyra Magnús Orrra tala um erlenda fjárfestingu, á meðan sami aðili gerir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir fjárfestingu Íslendinga s.s. í sjávarútvegi.

    Þessi kínverji þarf væntanlega að borga svipaðan skatt af nýtingarréttinum á grímsstöðum og Magnús vill herja út úr veiðum á t.d. Makríl. Nokkra milljarða á ári, væri það ekki sanngjarnt? Bara svo allir sætu við sama borð. Sumir sem koma hingað s.s. með gagnaverið fengu t.d. niðurfellingu á sköttum, á meðan Magnús og co. hafa viljað skattleggja aðrar atvinnugreinar sérstaklega.

    Er nokkur von að fólk sé hætt að skilja upp eða niður í Samfylkingunni?

  • Áttir þú nokkuð von á prúlleterískum fjárfestum?
    Veldur hver á heldur…

  • Leifur A. Benediktsson

    Þessi Kínverji með brosið sitt bjarta er í mínum huga enn einn Loddarinn.
    Og það að Samfylkingarkórinn er að ferðast til Kína í boði Loddarans er sönnum þess að hann er að kaupa ,,velvilja“ FLokksins í stóra Grímsstaðamálinu.

    Þetta lyktar illa af hrossakaupum. Og ber því að hafna þessu ,,góða“ tilboði Nobos.

  • Nú er ég hissa

    Það ætti nú ekki að væsa um þingmanninn og varaformann þingflokks Samfylkingarinnar og nefndafjölmenninginn, Magnús Orra Schram og frú hans, Herdísi Hallmarsdóttur í skilanefnd LÍ. En mikið vill víst alltaf meira. Svo nú er hangið utan í Huang Nubo. Rosalega hljóta þau að vera dýr á fóðrum, bara algjör elíta, ekki beint svona venjulegt jafnaðarfólk:

    http://eyjan.is/2010/08/25/ny-ofurlaun-fulltruar-i-skilanefndum-og-slitastjornum-med-6-7-milljonir-a-manudi/

  • Það er satt hjá þér að það er erfitt að ætla sér að leiðrétta alla delluna í Alþingismönnum um efnahagsmál. En viltu gera það fyrir mig að taka þá bara eitt atriði og vinda ofan af því. Margar hendur vinna létt verk.

    Takk fyrir pistilinn og hér er kannski eitthvað sem hjálpar.

    From: Vilhjálmur Árnason [villi@this.is]
    Sent: 10 December 2010 12:37
    To: Margeirsson, Olafur
    Subject: Re: Áhrif erlendrar fjárfestingar.

    Áhrif erlendrar fjárfestingar.

    Takk fyrir aðstoðina.

    Smá spurning sem ég mundi þiggja svar við, við tækifæri.
    Miðað við það sem þú hefur skoðað hingað til, mundir þú segja að það sé sönn fullyrðing að hagvöxtur sé háður erlendri fjárfestingu.
    Það sem ég er að reyna að spurja þig að er að hvort áhersla á erlendar fjárfestingar séu byggðar á röngum forsendum. Það er að segja þeirri trú að hagkerfið sé háð erlendum fjárfestingum og getu ekki verið án þeirra.

    Ég geri mér grein fyrir að erlend fjárfesting er jákvæð en ofuráhersla á hana vekur upp hjá mér spurningar.

    Getur þú stuttlega svarað þessu. Ef ég hef spurt nógu návæmlega. Talað eru um einangrunarstefnu ef menn hafa ekki „sérstakan“ áhuga á erlndri fjárfestingu. Þe.a.s. vilja ekki verndaða erlenda fjarfestingu á sér kjörum.

    Ef ég skil rétt þá er hagvöxtur drifinn áfram af fjárfestingu, einka neyslu og samneyslu. Ef fjárfestingin er erlend hlýtur arðurinn að hluta til að fara til þeirra sem fjárfestu.

    Sæll

    „Hagvöxtur“ er breyting á vergri landsframleiðslu en sú stærð er summa einkaneyslu (C), fjárfestingar (I), samneyslu (G) og nettó útflutnings á vörum og þjónustu (NX = Exports – Imports). Verg landsframleiðsla er oftast, m.a.s. í íslensku, skammstafað GDP (e. gross domestic product). Þannig er GDP = C + I + G + NX

    Það er ekki rétt að hagvöxtur sé beinlínis háður erlendri fjárfestingu en vitanlega getur erlend fjárfesting ýtt við hagvexti í gegnum aukningu á I og C í GDP jöfnunni. Ef fjárfestingin er í útflutningsgreinum getur það ýtt við NX líka.

    Spurningin um erlenda fjárfestingu er hins vegar vægið sem þjóðin (eða stjórnmálamenn sem leyfa/sækjast eftir henni) setur á milli skammtíma ábata og langtíma ábata. Eins og þú bendir einmitt á endar mest allur arðurinn af erlendri fjárfestingu hjá erlendum aðila – þ.e. ef hún tekst. Þannig er langtíma ábatinn að stórum hluta hjá viðkomandi útlendingi. Skammtíma ábatinn er hins vegar hjá þeirri þjóð sem tekur á móti erlendu fjárfestingunni því launatekjur, einkaneysla o.s.frv. eykst jú meðan á fjárfestingunni stendur. Í staðinn gefur þjóðin frá sér arðinn af viðkomandi eign sem var mynduð með fjárfestingunni. Hins vegar má ekki heldur gleyma því að langtímaábati getur verið í því að fá erlenda fjárfestingu inn í landið s.s. vegna „spillover effects“ á þekkingu, hvernig skuli gera hlutina o.fl. En arðurinn af fjárfestingunni endar alltaf hjá útlendingum.

    Ég held að það sé svona nokkurn veginn samþykkt meðal hagfræðinga að ef þjóðin getur séð um hlutina sjálf þá sé engin bein þörf eða nauðsyn fyrir erlendri fjárfestingu. Þannig að þegar fólk segir að það sé nauðsyn að fá erlenda fjárfestingu inn í hagkerfið þá finnst mér það persónulega svolítið vafasamt án þess að skoða einstök tilfelli fyrir sig – það sem gildir í einu tilfelli þarf ekki að gilda í því næsta. Að segja að erlend fjárfesting sé alltaf jákvæð er ekki rétt.

    Vonandi hjálpar þetta eitthvað!

    Bestu kveðjur,
    OM

    ________________________________________

  • Þvílíkur þvættingur er þetta! Hvernig talað er um þennan blessaða mann er með ólíkindum. Ég hef oft haft gaman af skrifum Einars hér á Eyjunni en nú er ég búinn að fá nóg. Að gera Nobu upp ætlun og útmála hann sem loddara og svikara er ömurlegt…og nóg til þess að ég kem aldrei til með að lesa þetta blogg framar. Bless.

  • Bless Gunnar.

  • Jón Sigurðsson

    ,, sem honum Magnúsi Orra virðist áfram um . . . “

    Hræðumst ekki þágufallið, góðir Íslendingar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég hef nú meiri áhyggjur af eignarfallinu Jón Sigurðsson.
    300 ferkílómetra til eignarhalds og til félags hverra ????
    Og munum þolfallið … fyrir hverja ????
    Grímsstaðir á Fjöllum … hvert verður nefnifallið á kínversku?

  • Pétur Örn Björnsson

    Jú, tölum bara um þágufallið líka, 300 ferkílómetra land í þágu hverra????

  • Pétur Örn Björnsson

    Eignarhaldið mótar hér hverjum þágufallið þjónar.

  • Svona til upprifjunar má minna á þá staðreynd að a l l a r ríkisstjornir
    allt að árinu 2000 hafa látið gera viðamiklar skýrslur um nauðsyn þess að
    gera átak til atvinnu og betri búsælar á Norð-Austurlandi, EKKERT GERST.
    Skýrslurnar geymdar í skúffum.
    Þetta landsvæði veittti áður þá þjónustu í tugi ára er hvað mest skapaði arð
    í þjóðarbúið. Utan að aðilar hirtu arðinn og ekki meir um það að sinni.

    Staðareynd að við, þú og allir hinir e i g a um einn þriðja í landsvæðinu.
    EKKERT er unnt að gera n e m a ríkisvaldið samþykki og semji um það.
    Dæmi ekkert um hugarfar mannsins né hvað hann hugsar langt fram..
    ERLEND FJÁRFESTING ER AUÐVITAÐ Í FLUGVÉLUM, SKIPUM,
    MARVÍSLEGUM TÆKJUM OG SVO FRV.
    Staðreynd er að fólkið á þessu svæði þarf að vinna og fá að lifa sómasamlega. Þetta ætti nú ekki að velkjast fyrir stór-ættuðum Mývetningi

  • Magnús Orri fer hamförum þessa dagana. Talar um að skattar hafi sjaldan verið lægri og fleira í þeim dúr. Það nýjasta er að við eigum á hættu að missa fyrirtæki úr landi. Halló!!!!Höfum við ekki heyrt þennan söng áður, þegar bankarnir þurftu á fyrirgreiðslu og sérpöntunum að halda frá yfirvöldum. Sigurður Einars. var með þetta á vörunum í hvert skipti sem hann þurfti að ná einhverju hagsmuna máli sínu í gegn, sem merkilega nokk, var hans prívat hagsmunamál, en ekki bankans eða almennings. „við verðum að fá þetta eða hitt, annars fer bankinn úr landi“. Þetta sagði hann jafnan. Núna er Magnús Orri farinn að nota sama elexír.

    Það tekur enginn mark á svona lobbýisma. Magnús Orri ætti að halda sig við það sem fer honum best, að vera í stjórnarandstöðu. Lobbýismi við einhverja vafasama dúda fer honum einfaldlega ekki.

  • Heyrði ég öskrað GAS í Múmíndalnum?

    Tengsl Samfylkingarinnar við Björgólf Thor eru öllum augljós og undir pilsfaldi frú Jóhönnu fara gjörspilltir og sponsoreraðir spunadindlarnir
    sínu fram. Og Steingrímur massaframleiðir vistarböndin að forskrift hrægamma og vogunarsjóða.

    Af hverju þaga þingmenn Samfylkingarinnar um þau mál?

    Það dugar ekkert annað en risa-stólpípu á þetta samfylkta spunalið.
    Varúð! Það er GAS í Múmíndalnum!

  • Heyrði ég öskrað GAS í Múmíndalnum?

    Hvort GASið er þýskt eða kínverskt skiptir engu, því GAS er GAS!

    Skal með GASi lebensraum-land byggja í anda stundaróðra manna?

  • Guðmundur

    Góður pistill Einar.

    Það er satt að segja barnalegt að ætla að þessi maður sé kominn hingað til að fjárfesta í góðgerðarskyni. Peningar eru harður húsbóndi eða eins og bóndinn sagði: Rollurnar fitna ekki nema þær séu á beit.

  • Kristján Þ Snædal

    Að sjálfsögðu á að selja Grímstaði hæstbjóðanda ef núverand eigendur kæra sig um, ég tala nú ekki um ef tilvonandi kaupandi virðist kunna að meta jörðinna að verðleikum, annað en þið dindlarnir, sem sjaldan eða aldrei farið upp fyrir Elliðaár.

  • Jón bóndi

    Eru þá ekki Jökuldælir mættir og kínverjum bjóða klofið.

  • Jón bóndi

    Og kinnarnar rjóðar og glit í botn þeirra ofið.

  • Verst að maður skuli ekki geta „lækað“ ummæli hér. Ég veit að vísu ekkert um ættir eða uppruna tjáenda hér, en tjásur Jóns bónda eru (lágvær) gargandi snilld. 🙂

  • Jón bóndi

    Takk fyrir „lækið“ Einar minn.
    Andinn rennur stundum í gegnum borgfiskar og norðlenskar æðar mínar.
    Vona bara að Snædal firrtist ekki við, því þetta kom bara saklaust af sjálfu sér
    og ég tel hann vera Jökuldæling sem þá fleiri af Snædalsætt.

  • Jón bóndi

    Jakob Bjarnar Jökuldæll
    Jú – hólpinn er og sæll,
    því Miðbaugs leiðir maddölu
    með klof og botn til sölu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur