Talsvert hefur verið fjallað um mál Mohammeds Lo, rúmlega tvítugs manns sem flúði frá Máritaníu, þar sem hann hafði verið þræll alla ævi, og kom til Íslands fyrir rúmu ári. Í þessum pistli er saga hans rakin í aðalatriðum. Eins og fram hefur komið var Mohammed synjað um hæli á Íslandi, og ákveðið að hann skyldi fluttur aftur til Noregs, þaðan sem hann kom til Íslands. Því til stuðnings var vitnað í Dyflinnarreglugerðina svokölluðu, sem heimilar ríki innan Schengen-svæðisins að senda fólk sem sækir um hæli tilbaka til þess lands innan svæðisins sem það kom frá.
Í þessari skýrslu frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er hins vegar útskýrt að ekki megi beita þeirri sjálfvirkni sem íslensk yfirvöld hafa gjarnan borið fyrir sig í þeim efnum:
Ljóst er að dómur Mannréttindadómstólsins leggur þær skyldur á íslensk stjórnvöld eins og stjórnvöld annarra Evrópuríkja að ganga ekki út frá því sem vísu að annað aðildarríki í samstarfinu, jafnvel þótt bæði séu skuldbundin af Mannréttindasáttmála Evrópu, geti tryggt hælisleitendum viðunandi aðbúnað sem samrýmist kröfum 3. gr. sáttmálans. Sú sjálfvirkni sem almennt er ráðgerð í Dyflinnarreglugerðinni um endursendingu hælisleitanda til annars aðildarríkis, þar sem ríki ákveður aðeins í undantekningartilvikum að taka umsókn til efnislegrar meðferðar, er því ekki ásættanleg.
Ég hef séð nokkuð af þeim gögnum sem varða mál Mohammeds. Af þeim er ljóst að hann fékk í upphafi ekki túlk sem kunni móðurmál Mohammeds, heldur bara frönsku, sem Mohammed getur alls ekki tjáð sig á með fullnægjandi hætti. Því varð í upphafi ýmiss misskilningur sem virðist hafa leitt til þess að Útlendingastofnun áttaði sig ekki á alvarleika þeirra aðstæðna sem Mohammed flúði. Það er samt til fólk á Íslandi sem talar móðurmál Mohammeds, wolof, en Útlendingastofnun hafði ekki rænu á að finna það, og virðist ekki hafa talið sérlega mikilvægt að skilja um hvað málið snerist, þótt það sé lögboðið hlutverk hennar. Enda eru ýmsar staðhæfingar í gögnum Útlendingastofnunar sem eru hreinn þvættingur, til dæmis að Mohammed hafi stolið sauðfé sér til matar.
Það er líka ljóst að enginn dregur í efa að Mohammed hafi verið þræll, enda tekur fáar mínútur að kynna sér ástand þeirra mála í Máritaníu, t.d. hér. Þess vegna er ljóst að Mohammed á skýlausan rétt á hæli sem flóttamaður samkvæmt íslenskum lögum og þeim alþjóðasáttmálum sem við erum aðilar að. Þegar Útlendingastofnun ákveður að beita fyrir sig Dyflinnarreglugerðinni, sem er nauðsynjalaus illmennska, er það gert í krafti fullyrðinga um að Mohammed muni örugglega fá réttláta málsmeðferð í Noregi. Það virðist hins vegar vera gegn betri vitund, því í tölvupósti sem stofnunin fékk frá Interpol í Noregi segir m.a. þetta:
„Mouhamed Lo applied for asylum in Norway on 15.04.10. The application was rejected by the Directorate of Immigration on 22.09.10, and he has been ordered to leave the country. The Directorate of Immigration has confirmed today by phone that Lo can be returned to Norway. Norwegian authorities will then transport him to his home country.“
Ljóst er af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, eins og nánar er útlistað í ofangreindu skjali frá Mannréttindastofnun HÍ, að þetta þýðir að Íslandi er óheimilt að senda Mohammed til Noregs þar sem hann á þá á hættu að verða sendur aftur til Máritaníu.
Þegar Útlendingastofnun hafði ákveðið að synja Mohammed um hæli, og að honum yrði því vísað úr landi, var farið fram á við Innanríkisráðuneytið að það frestaði réttaráhrifum, þ.e.a.s. að Mohammed yrði ekki sendur úr landi fyrr en ráðuneytið hefði lokið meðferð kæru vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar. Því var synjað. Það sem er ef til vill nöturlegast við meðferð þessara yfirvalda á máli Mohammeds er að þau virðast lítinn áhuga hafa á að komast að hinu sanna í máli hans, en eyða hins vegar miklum tíma og miklum pappír í að útskýra í smáatriðum alla lagakróka sem þau geti beitt fyrir sig til að komast hjá því að vinna þá lögboðnu vinnu sína að grafast vandlega fyrir um aðstæður þess sem sækir um hæli.
Í stuttu máli er ekki annað að sjá en að málsmeðferð Útlendingastofnunar og Innanríkisráðuneytis einkennist af fúski. Það er ekkert nýtt í íslenskri stjórnsýslu, og kannski bjartsýni að halda að á því verði teljandi bætur á næstunni. Það er hins vegar óbærileg tilhugsun öllu sæmilegu fólki ef slíkt fúsk verður til þess að þræll sem leitað hefur á náðir okkar verður sendur aftur á vit örlaga sinna í Máritaníu. Það er um slíka hluti sem skrifaðar eru dæmisögur um grimmd, og aldrei að vita nema starfsmönnum þessara stofnana takist að gera sig ódauðlega með þeim hætti.
Það mætti hins vegar leysa þetta mál umsvifa- og vandræðalaust ef menn vildu, og vísa einfaldlega til mannúðarsjónarmiða, í samræmi við lög. Ákveða að það væri grimmúðlegt að maður sem hefur verið þræll allt sitt líf, sem þekkir enga manneskju í heimalandi sínu nema nokkra samþræla sína, en á orðið vini og kunningja á Íslandi, að það væri of ómanneskjulegt að senda hann tilbaka, þar sem hann á það á hættu að verða pyntaður og limlestur og hnepptur aftur í ævilangan þrældóm. En til þess þarf auðvitað mannúð. Hún mun hvorki vera í tísku hjá Útlendingastofnun né Innanríkisráðuneytinu.
Ögmundi réttlætispostula þykir málið kannski ekki nógu merkilegt?
Þakka pistilinn, Einar!
Ég legg til að þú komir þessum athugasemdum þínum til stjórnvalda.
Sveinbjörn: Ég hef skrifað Ögmundi innanríkisráðherra (fyrir þrem vikum) og hvatt hann til að beita sér í málinu, sem er reyndar á hans borði, sent frá Útlendingastofnun. Því fleiri okkar sem skrifa Ögmundi, því betra. Netfang hans er ogmundur.jonasson@irr.is, og sjálfsagt er að senda afrit til aðstoðarmanns hans, sem er með halla.gunnarsdottir@irr.is.
Ég ákæri.
Bæði þá sem halda mönnum í þrældómi
og hina sem hjálpa til við það.
Innanríkisráðuneytinu er fullkunnugt um staðreyndir þessa máls. Það gengur hinsvegar illa að fá svör um það hvað er að gerast í málinu.
Við þurfum að fjölga fólki frekar en fækka. Sérstaklega vinnufúsu fólki.
Þegar fólk hefur ekki skilríki (fáránleg krafa á flóttamenn) væri hægt að vera með eftirlit. Ef flóttamaðurinn lifir ábyrgu lífi, brýtur ekki af sér og reynir að aðlagast ættum við að taka honum fagnandi.
Já, reyna bara að ná sem flestum. Það gerir mannflóruna skemmtilegri 🙂
Þakka þér góðan pistil Einar en það er samt tvennt sem ég vil setja út á.
Annars vegar þetta með frönskuna. Það er ákaflega varfærnislegt að segja að hann geti ekki tjáð sig á fullnægjandi hátt á henni. Hið rétta er að hann talar litla sem enga frönsku.
Hins vegar þetta með kunningjana. Það er nærtakara að kalla tengls hans við landið fjölskyldutengsl en vinatengsl.
Fjöldi fólks hefur tekið hann inn á heimili sitt og komið fram við hann eins og einn úr fjölskyldunni og það hefur ekki gerst að ástæðulausu. Mohammed er mjög góður í því að sýna tilgerðarlaust þakklæti og vinsemd auk þess sem styrkur hans og jákvæðni í því að takast á við aðstæðurnar sem hann er í eru stuðningsfólki hans mikill innblástur.
Mohammed er alltaf að þrífa. Það er látið afskiptalaust af þremur ástæðum. Það er álitið mikilvægt að hann hafi eitthvað fyrir stafni, það er svo sem enginn annar æstur í að sinna þessum verkum og honum þykir greinilega mikilvægt að koma til móts við gestgjafa sína og reyna að vera þeim hjálplegur með einhverjum hætti. Þegar hann hafði verið í felum í nokkra daga hafði fulltrúi No Borders samband við hann og spurði hvernig hann hefði það. Hann kvaðst hafa það gott en byrjaði að tala um að hann hefði áhyggjur af því að hann væri fjárhagslegur baggi á gestgjöfum sínum. Hann lagði til að þau settu sér ákveðin tímamörk eða jafnvel að hann gæfist bara upp strax í stað þess að éta þau út á gaddinn. Það þurfti talsverðar úrtölur til þess að fá hann ofan af þessari skoðun. Honum var gerð grein fyrir því að ekkert sem hefði verið gert fyrir hann eða yrði gert ef fólk teldi það eftir sér. Enginn sæi eftir matnum í hann og hann yrði bara að reyna að slappa af gagnvart þessu. Þremur mánuðum síðar endurtók samtalið sig en í dag skilur hann að hann er velkominn og hefur ekki haft orð á þessu aftur. Honum finnst samt óþolandi að geta ekki verið sjálfbær og þurfa að reiða sig á aðra. Og hann er alltaf að þrífa.
Stundum hefur honum verið boðið að gista í tvær, þrjár nætur en ílengst lengi á sama stað og orðið fjölskylduvinur. Margir þeirra sem hafa hjálpað honum hafa markvisst búið sig undir áfallið sem gæti fylgt því ef hann yrði sendur úr landi og það er fullvíst að þetta fólk yrði lengi að sleikja sárin. Það er alveg ljóst að hann á sér sterkt tengslanet hér landi og aðstandendur sem mega ekki af honum sjá. Að systur sinni undanskilinni á hann ekki þannig aðstandendur neinstaðar annarstaðar í heiminum.