Fimmtudagur 14.06.2012 - 20:23 - 35 ummæli

Hið ógeðslega Ísland

Margir hafa talað um það síðustu mánuði og ár að nauðsynlegt sé að „sameina“ landsmenn í stað þess að „ala á sundrungu“. Það gleymist hins vegar yfirleitt að útskýra um hvað á að sameina fólk, en erfitt er að skilja sameiningar- og samstöðutalið öðru vísi en að við eigum að sameinast um að vera nokkurn veginn sátt við núverandi ástand. Enda er ljóst að hinar ýmsu valdaklíkur í landinu, sem hafa ráðið lögum og lofum áratugum saman, munu berjast mjög harkalega gegn sameiningu um hvaðeina sem hróflar við völdum þeirra eða skerðir gróða þeirra sem ráða yfir efnahagslífinu. Á hinn bóginn er líka ljóst að ríkjandi ástand í íslenskri stjórnsýslu og efnahagslífi er ekki beinlínis í lagi, ef það eru hagsmunir almennings sem lagðir eru til grundvallar.

Í kvöldfréttum RÚV voru tvær fréttir sem sýna með dapurlegum hætti hversu ógeðslegt hið þaulsætna Gamla Ísland er.

Annars vegar var fjallað um brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun, sem er yfir leyfilegum mörkum í Hveragerði. Þau mörk miðast, skiljanlega, við að mengunin sé ekki skaðleg heilsu fólks. Þegar fréttamaður sjónvarps benti á að ekki sé hægt að fullyrða að heilsa fólks bíði ekki tjón af þessari mengun var svar umhverfisstjóra Orkuveitunnar, Hólmfríðar Sigurðardóttur, þetta: „Það er heldur ekki hægt að fullyrða að fólk beri tjón af.“ Ekki veit ég hvert hlutverk umhverfisstjóra OR er. Hún virðist hins vegar ekki líta svo á að henni komi neitt við heilsa þeirra sem OR eys menguninni yfir. Enda voru viðbrögð forstjóra OR, Bjarna Bjarnasonar, þau að sækja um undanþágur frá þessum hamlandi reglum, svo (forysta) OR fái að njóta vafans, frekar en heilsa fólks í Hveragerði.

Í hinni fréttinni, og í löngu Spegilsviðtali, er Ingólfur nokkur Bender látinn tala í löngu máli um skoðanir sínar, og „spár“ Greiningardeildar Íslandsbanka um hagvöxt. Jafnvel þótt við látum liggja á milli hluta þá augljósu staðreynd að afar erfitt er að spá af nokkru viti um hagvöxt á Íslandi (og víðar) næstu árin, þá hefðu fréttamenn RÚV átt að muna eftir því að Ingólfur er sami forstöðumaður sömu „greiningardeildar“ og tilheyrði Glitni, áður en hann fór á hliðina, og var síðan dubbaður upp í Íslandsbanka.

Ingólfur var sem sagt forstöðumaður einnar af þeim „greiningardeildum“ bankanna sem sögðu tóma þvælu árin fyrir hrun, og sem eðlilegt er að spyrja hvort ekki hafi hreinlega verið að ljúga, enda orðið ljóst að forysta þeirra banka sem um ræðir byggði starfsemi þeirra bæði á lygum og svikum.

Orkuveita Reykjavíkur er í eigu borgarinnar og tveggja annarra sveitarfélaga, þ.e.a.s. í eigu almennings. Eðlilegt ætti að vera að hún hefði hagsmuni þessa sama almennings að leiðarljósi. Samt fara forsvarsmenn fyrirtækisins sjálfkrafa í varnarstöðu gegn þeim hagsmunum þegar í ljós kemur að fyrirtækið hefur brotið gegn þeim reglum sem eiga að koma í veg fyrir heilsutjón meðal almennings.

RÚV á líka að þjóna hagsmunum almennings. Samt sýnir það lotningarblandna og gagnrýnislausa virðingu manni sem er í þjónustu banka sem hefur allt aðra hagsmuni en almenningur, og sem hefur sýnt sig segja tóma þvælu árum saman, án þess að nokkur ástæða sé til að ætla að maðurinn hafi vitkast síðan, hvað þá að hann hafi tekið upp siðlega starfshætti.

Ísland er stórkostlegt land. Íslendingar eru upp og ofan eins og fólk í öðrum löndum. Íslensku valdakerfin eru hins vegar gegnrotin af spillingu og fúski. Og þeir sem einhverju ráða eru ekki að reyna að breyta því til hins betra, heldur berjast þeir allir með kjafti og klóm við að viðhalda völdum þeirra sem leiddu hrunið yfir landsmenn, ollu stórum fjölda þeirra miklum búsifjum, en græddu margir gríðarlega sjálfir, bæði fyrir og eftir hrun.

Ég ætla ekki í bráð að taka þátt í söngnum um „sameiningu“. Þetta Ísland, valdakerfið sem drottnað hefur yfir landinu áratugum saman, er einfaldlega ógeðslegt. Og þeir sem helst tala um að þetta sé of mikil svartsýni eru ekki að gera neitt til að breyta því til betri vegar. Þvert á móti eru þeir að reyna að lægja öldur réttmætrar reiði, og það mun auðvelda kúgunaröflunum að halda áfram iðju sinni hindrunarlítið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (35)

  • Einu gleymir síðuhöfundur og það er pistill Sigrúnar Davíðsdóttur þar sem hún rekur tugmilljarða útaustur ráðherra í fallna banka sparisjóði fjárfestingasjóði og tryggingarfélög. Það er líka djöfull ömurlegt að allir gagnrýnendur sem reka fram trýnið halda annað hvort með þessum eða hinum flokknum að gera það sama og hinn flokkurinn gerði í fyrra.

    Eina undantekningin er Einar Steingrímsson sem ég hef þó eldað grátt við, ég verð að viðurkenna það.

  • Ég gleymdi reyndar ekki pistli Sigrúnar. Þvert á móti hugsaði ég þegar ég hlustaði á hann „gott að einhver skuli vera að fletta ofan af þessu ógeði“. En varð svo ansi reiður þegar Spegillinn gerði svona illilega í nytina sína með viðtalinu við Ingólf, og ennþá reiðari þegar ég heyrði fréttirnar um brennisteinsvetnið …

    (Og, takk fyrir hlýleg orð, Kristján, það er ekki á hverjum degi sem ég heyri slíkt frá þér :))

  • Þórhildur Lilja Þorkelsdóttir

    Einar, það er bara þannig í Lýðveldinu Íslandi, að stofnanir, sem að eiga að heita í almenningseigu, eru það bara alls ekki lengur. Æ, ég hef heyrt um pilsfaldarkapítalismann. Ég á þetta, og allt það. En eru það ekki bara einkaaðilar sem ráða, til hagsbóta fyrir sjálfa sig, og fela það vel.

  • Leifur A. Benediktsson

    Góður pistill Einar,

    Um ógeðssamfélagið og samtryggingu óligarkanna sem ráða hér öllu á bak við tjöldin,kemur upp í huga minn nafnið Helgi Magnússon ,,fjárfestir“ og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

    I wonder why!

  • Olafur Jonsson

    Þakka góða grein. Þetta er með eindæmum að við fólkið fáum engu ráðið lengur um stefnu þjóðfélagsins. Það er eins og við skiljum ekki gildi atkvæðsins og hins talaða orðs. Það verður að reboota þjóðfélagið og gera kröfur til fólks sem ræðst í yfirmanna stöður sérstaklega ríkisins. Hroki og yfirgangur verður að hverfa fyrir mannlegum gildum.

  • Ingólfur

    En er það ekki einmitt skotgrafarhernaðurinn sem heldur óbreyttu ástandi?
    Auðvitað er það óverjandi að virkjun spúi etri yfir íbúa í grennd. Hver getur ekki seminast um það?

  • Birgir Kristbjörn Hauksson

    Þetta er hverju orði sannara og eins og slitið út úr mínu hjarta.

  • Sigurjón Vilhjálmsson

    Guðmundur Gunnarsson, fyrrum Rafiðnaðarsambandsformaður, sagði um daginn að Íslandi þyrfti nýja kjósendur. Ég er ekki frá því að það sé rétt…

  • Andrés B. Böðvarsson

    Ég veit ekki hvort lausnin sé að viðhalda krónískri fýlu hvert útí annað. Það er margt sem þarf að laga á Íslandi, og því miður margt sem er rotið ofan í rót. Það sem vantar sárlega er að fólk læri að tala saman án þess að líta sjálfkrafa á hvert annað sem fulltrúa einhverra hagsmuna eða stjórnmálaflokka. Auðvitað eigum við að sameinast um að krefjast þess að þeir sem bera ábyrgðina á hruninu og spillingunni séu látnir axla hana. Vandinn er sá að skotgrafirnar sem mörg okkar eru forrituð ofaní gera það að verkum að við getum ekki einu sinni sammælst um að hér hafi orðið hrun, hvað þá hverjir það eru sem bera ábyrgð á því.

    En hvað forsetakosningarnar varðar þá snýst málið í mínum huga síður um að kjósa sameiningartákn heldur um að forða því að fá forseta sem elur á enn meiri sundrungu. Forsetinn er máttlítill til að sameina en hann á auðvelt með að sundra, eins og dæmin sanna.

  • Rúnar Þór Þórarinsson

    Endurspeglar 150% það sem við hjónin töluðum um yfir fréttunum, bálvond yfir þessu. Valdhafar landsins og fjármálastofnanir eru eins og vitleysingahæli.

  • Magnus Jonsson

    Lausnin er að kjósa þetta fjórflokksfólk burt, annars verður alþingi aldrei hagsmunastofnun almennings.
    En það er ekki létt verk að fá íslenska hugann út úr þrælslundinni.

  • Jónína Óskarsdóttir

    Takk!

  • Kristinn J

    Hverju orði sannara; og svona hefur þetta verið í áratugi, þetta kom bara betur í ljós í Hruninnu hvurrsu ógeðslegt þetta virkilega var og er því miður enn, og hvað við hin erum samdauna heila klabbinu.

    Hafðu bestu þakkir fyrir hugrökk skrif þín Einar S

  • Takk fyrir góða grein,þetta fólk sem þing situr er í raun þjóðhættulegt, það vill ekki að þjóð ráði í stóru málunum og forsetinn virðist vera eina stoð lýðræðis sem þjóðin hefur. Nú er bara að vona að einhverjir rannsóknar fréttamenn séu viljugir til að benda á spillinguna sem er orðin áberandi en engin talar um …..það bendir allt að verið sé að borga icesave bak við þjóðina,Landsbankinn fór aldrei í gjaldþrot og borgaðir verða 90 miljarðar út úr landsbanka í lok árs án þess að það sé tekið fram í fjárlögum inná icesave. Ríkið stendur á bak við ESÍ ,Sölvhól,Hildu og Dróma,og fl og fl…..

  • Hreggviður

    Ég er sammála flestu sem þú skrifar Einar og það á við um þennan pistil líka.
    Þjóðin, sem sé við, þarf að kafa ofaní sjálfa sig og betrum bæta ýmislegt í hennar fari. Það fyrsta er að losna undan þeim sjúkdóm sem hrjáir hana hvað mest, sem er valdahroki og sjálfumgleði, hjarðhegðun og undirgefni, gera sem sé kröfur til sjálfsín.
    Að þeirri lækningu lokinni væri hugsanlegt að hún (þjóðin) gæti valið sér fólk til forystu sem ræður við slík verkefni, fyrr ekki.

  • Eins og talað út úr mínu hjarta. Það verður engin sátt án réttlætis og við fáum ekki réttlæti nema í gegnum baráttu. Skotgrafirnar voru ekki grafnar af gamni eða gömlum vana, heldur sem viðbrögð við lynnulausri árás. Mér finnst það ógurleg synd hversu margir festast í afarkostunum að velja milli talsmans auðvaldsins annars vegar og hinsvegar talsmann þess að sætta sig við auðvaldið. Það er ástæða til að takast á við valdastéttina; við höfum heilan heim að vinna.

  • Mikið er ég sammála þér Einar. Pirrandi þetta öll-dýrin-í-skóginum-eiga-að-vera-vinir kvak.

    Ég held reyndar að dæmin hér að ofan séu ekki um spillingu, heldur eingöngu fúsk. Umhverfisstjórinn, fréttamaðurinn og Benderinn eru einfaldlega ekki starfi sínu vaxin. Fólk í þannig aðstöðu hrekkur mjög fljótt í sjálfsvarnargírinn undir þrýstingi.

    Það er erfitt að leysa þetta, samt. Fólkið er fátt og undirmálsfólk við völd. Gott dæmi um Péturslögmálið kannski?

  • Ég held að menn ættu að velta fyrir sér grundvallaratriðum.

    T.D.

    Hvernig sinna stjórnmálamenn hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu?

    Eru afskipti þeirra almennt til góðs fyrir landsmenn?

    Eða eru afskipti þeirra einkum fallin til að rýra hag landsmanna t.d. með endalaust hækkandi álögum, sköttum, boðum og bönnum?

    Er sá gríðarlegi fjöldi laga sem streymir frá Alþingi á hverju ári til hagsbóta fyrir almenning eða eru þau einkum hugsuð til að auka afskipti, völd og áhrif stjórnmálamanna?

    Síðan hljóta menn að velta því fyrir sér hvernig á því stendur að stjórnmálamenn skuli komast upp með þetta framferði.

    Þá fyrst blasa meinsemdirnar við því að á endanum er það almenningur sem kýs yfir sig þetta lið.

    Þá getum við farið að velta fyrir okkur menntakerfinu (að stærstum hluta ónýtt) og þjóðfélagsgerðinni (lokað dvergsamfélag meðalmennskunnar).

  • Held að Styrmir Gunnarsson hafi hitt naglann á höfuðið um árið. Þetta er allt ógeðslegt.

    Í morgun heyrði ég á Rás 2 sorglega lélegt viðtal við Bjarna Bjarnason þar sem hann sagðist ætla að sækja um undanþágu til 2019- eða 20.

    Hvers vegna í ósköpunum hjólar enginn blaðamaður almennilega í menn eins og Ingólf Bender?

  • Djöfull er ég sammála þér, því miður.

  • Björn Björnsson

    Ekki sameiningu fyrir mína parta. Og því síður kemur „TRAUST“ til greina. Tortryggni er töfraorðið við þessar ógeðslegu aðstæður nú um stundir.

  • Forsetakosningar eru framundan. Fulltrúar Gamla-Íslands, dauðasyndanna
    sjö, óþarfans óþefsins, óþokkanna, eru Ó og Þ; Ólafur og Þóra. Fulltrúar Nýja-
    Íslands, vona, trúar og kærleika eru, A H, H A, þau Ari, Herdís, Hannes, Andrea. Segum ah ha þarna er heiðarlegt og gott fólk að bjóða sig til að gegna forsetaembætti á Íslandi úr þeirra hópi skulum velja. Ó og Þ eru bara
    fulltrúar einhverra leyniklíka; fulltrúar haturs og sjálfsupphafningar og munúðar. Barátta þeirra vekur upp óþarfa óþef og óþokkalegt andrúmsloft í þjóðfélaginu.

  • Munúðar?

  • Haukur Kristinsson

    Ísland stendur á tímamótum. Gamla Ísland spillingar, kleptocracy og fúsksins, verður að víkja fyrir Nýja Íslandi, þar sem meritocracy, heiðarleiki og ábyrgð verða í fyrirrúmi. Forsetakosningar eftir tvær vikur sem og alþingiskosningar næsta vor gegna lykilhlutverki í þessari stefnubreytingu. Ég vona því að fólk geri sér ljóst hversu mikil ábyrgið fylgir því að kjósa forseta undir lok mánaðar. Gamla Ísland með Grísinn, mann sundrungar og ófriðar enn ein fjögur ár, eða yngri hæfileika menneskju með góða menntun, góða framkomu, sameingartákn og integrator.

  • Athyglisvert að sjá að menn telja þörf á að beita enskri tungu og hugsun hér til að lýsa Íslandi samtímans og æskilegum hæfileikum forsetans.

    Kleptocracy: Ég held það sé skrifað „cleptocracy“ og merki auðræði.

    Meritocracy: Verðleikasamfélag.

    Integrator: Óræð merking – milligöngumann?

    Skrýtið að hafa svo sterka skoðun á sjálfu sameiningartákni þjóðarinnar og megna ekki að tjá þá hugsun á íslensku.

  • Af hverju er það skrýtið Rósa? Þarf fólk að kunna tungumál til að mega hafa áhuga á pólitík?

  • Halldór Friðgeirsson

    Takk fyrir góðan pistil Einar.
    Þú segir nákvæmlega það sem ég hugsaði þegar ég hlustaði á sömu fréttir.

  • @Rósa. Þú ert stútfull af rasisma og ættir bara að skammast þín. Stórhluti landsmanna er fæddur erlendis, á foreldra af erlendum uppruna eða hefur dvalið það lengi erlendis að tungumálið skolast til, enda orðnir vanir því að lesa, skrifa, hugsa og dreyma á öðrum tungumálum. Fólk sem vill láta ýja að því að slíkt fólk hafi minni rétt en aðrir á að tjá sig, eða hafa skoðanir, og það á jafn mikilvægu máli fyrir ALLA Íslendinga, hvaðan sem þeir koma eða hafa alið manninn, í samfélagi sem byggir á jöfnum mannréttindum ALLRA, slíkt fólk kallast nazistar og ættir þú að skammast þín. Þú fílar eflaust ljósmyndirnir hennar Þóru af barnahópnum og manninum mænandi á sig eins og grátandi kaþólikkar á maríustyttu, sem eru lélegar skopstælingar af þriðja ríkis/ kommúnista málverkum af hinni upphöfnu móður /hálf-gyðju, en fasistaríki upphefja öll fjölskylduna á þennan sjúklega hátt gersneyddan raunsæi og auðmýkt, og hafa öll þennan myndstíl (eðlileg fjölskylda tekur ekki af sér svona myndir) , afþví slík ríki reyndu að beina hugum þegna sinna alfarið að kvöldmatnum, bleyjuskiptingum og prjónaskap, nema þegar hans var þörf á vígvöllum, til að illmennin fái óhindruð að fara sínu fram og almenningur skipti sér ekki af því.

  • Bið þig svo afsökunar fröken fasisti að ég hafi dirfst að nota orðið „fíla“ og verið svo óháttvís að taka mér orðið nazisti í munn, þegar þínir líkar nota að sjálfsögðu virðulegri orð um sjálfan sig, svo sem „þjóðernis sósíalisti“ (eða er sósíalisti of mikil sletta). Virtu svo málfrelsi annarra í framtíðinni! Allir Íslendingar eru jafnréttháir og hafa sömu mannréttindi, þar á meðal málfrelsi og rétt á VIRÐINGU!

  • Ég er margbúinn að benda á lausn á þessu. Biðjum einfaldlega eitthvað sæmilega óbrjálað ríki að taka við okkur (t.d. Norðmenn eða Dani). Þá minnkar forræði Íslendinga yfir eigin málum, en eins og síðustu ár sanna endanlega, þá eru Íslendingar of spilltir, heimskir, skammsýnir og FÁIR til að kunna fótum sínum forráð. Það er flókið að reka nútímasamfélag og við eigum einfaldlega ekki nægilega mikið af hæfileikafólki til að geta gert (og staðið við) eðlilegar hæfnikröfur. Þetta hefur Einar raunar margbent á. Ég sé enga aðra leið út úr þessu en samruna við annað og stærra ríki. Hér ríkir andlegt borgarastríð sem við munum ekki útkljá sjálf nema með miklu tjóni.

  • Þetta er sennilega laukrétt hjá þér, því miður.
    Afhverju viðgengst þetta? Af því við leyfum það. Við íslendingar erum almennt lélegir borgarar í lýðræðissamfélagi, og eigum einfaldlega ekki betra skilið en þá spillingu og fávitahátt sem veður yfir okkur. það þýðir ekkert að nöldra við makann yfir sjónvarpinu, öskureiður, eða skammast í einhverju
    vef-horni, jafnvel þó vel sé skrifað. Berlínarmúrinn stæði enn, ef menn hefðu látið nægja að nöldra á bloggsíðum, og aldrei farið útúr húsi til að mótmæla tilvist hans hástöfum.

  • Ég þjáist af íslenska sjúkdómnum að finnast ég klárari en flestir og á þess vegna stundum erfitt með að meðtaka hluti sem aðrir segja. En stundum les ég eða heyri eitthvað sem er betra og skarpara en það sem ég hugsa og þá græt ég næstum því af vellíðan, gerði það þegar las þennan pistil.

  • Góð grein og alveg hjartanlega samála manninum, orðvar og segir bara það sem segja þarf hvorki meira né minna.
    Og að ferðirnar um að halda ekki óbreyttu ástandi eru mikilvægar því þær sameina fólkið og skapa trú á betri framtíð fyrir alla ekki bara suma.

    Hvað varðar brennisteinsvetnið þá þarf líka að hafa í huga til dæmis mikla aukningu á tæringu á bárujárni og líka alskonar rafmagnsbúnaði og electronic sem endist mikið ver og líftíminn mikið styttri jafnvel svo mjög mörgum árum skiptir. Stundum er endingin bara 1 ár vegna þessa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur