Fimmtudagur 30.08.2012 - 20:58 - 8 ummæli

Íhaldssöm og vond stjórnarskrártillaga

Þeir Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon hafa nýlega lagt fram tillögu að nýrri stjórnarskrá sem óhætt er að segja að sé stefnt gegn tillögum Stjórnlagaráðs, sem þeir virðast telja of „róttækar“, enda felur tillaga þeirra félaga í sér litlar breytingar frá núverandi stjórnarskrá, nema hvað varðar ákvæði um þjóðareign á auðlindum, sem þeir vilja góðu heilli hafa með.

Nú er að vísu ekkert erfitt að skilja hugsunarhátt fólks sem er íhaldssamt í stjórnmálum, þ.e.a.s.  í grundvallaratriðum andsnúið miklum breytingum, þótt mér finnist sú afstaða ekki sérlega aðlaðandi. (Eins og einhver orðaði það: „Ég skil ekki af hverju fólk er hrætt við nýjar hugmyndir. Það er meiri ástæða til að vera hræddur við gamlar hugmyndir.“) Hins vegar er lítið um það deilt að núgildandi stjórnarskrá sé í aðalatriðum afrit af meira en hundrað ára gamalli danskri stjórnarskrá, og síðan hefur margt gerst sem ástæða er til að láta hafa meiri áhrif á grundvöll stjórnskipulagsins en raunin er nú.

Það er að vísu vel hægt að taka undir að betra væri að endurskoða stjórnarskrána í rólegheitum, á nokkrum árum. Ef það væri raunhæf von til að það yrði gert myndu sjálfsagt flestir vera fylgjandi slíku verklagi. Hin óumflýjanlega staðreynd er þó að íslensku stjórnmálaflokkarnir hafa í meira en sextíu ár staðið algerlega í vegi fyrir því að nokkur teljandi endurskoðun færi fram, og nákvæmlega ekkert bendir til að þeir hyggist breyta afstöðu sinni í náinni framtíð. Það væri því glapræði að fresta breytingum á forsendum hugsanlegra loforða stjórnmálaflokkanna. Verði tillaga Stjórnlagráðs samþykkt, og komi í ljós að á henni séu teljandi vankantar, þá eru talsvert meiri líkur á að þeir verði lagaðir, og stjórnarskráin í heild endurskoðuð frekar, ef tekist hefur að breyta núgildandi skrá, en ef andstæðingar allra breytinga í valdakerfinu hafa sitt fram og stöðva nú allar breytingar. Hugsanlegir vankantar eru ekki of dýrt verð fyrir þennan eina möguleika til að hefja breytingar á stjórnarskránni.

Það sem ég sakna ekki síst í tillögu þeirra félaga eru ákvæði um upplýsingalög (sem eru nokkuð ítarleg í tillögu Stjórnlagaráðs), þ.e.a.s. um aðgengi almennings að upplýsingum í fórum opinberra aðila. Íslensku upplýsingalögin eru nefnilega hræðilega vond, því þau standa á þeirri grunnhugsun að stjórnvöld megi skammta upplýsingar úr hnefa þeim almenningi sem þau ættu með réttu að þjóna. Framkvæmd þessara laga, og úrskurðir Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, hafa rækilega staðfest þessa sýn sem gegnsýrir íslensku stjórnsýsluna, sýn sem ætti að vera aflögð fyrir löngu. Rót þessarar afstöðu er af hinu illa: Fólkið sem mannar valdastöður í stjórnsýslunni lítur upp til hópa svo á að valdið sé þess, en ekki að það eigi að þjóna hagsmunum almennings, og þessi afstaða er allsráðandi í þeim stjórnmálaflokkum sem farið hafa með völdin í landinu í áratugi. Það er hægt að breyta upplýsingalögum til verulegra bóta með stjórnarskrárákvæðum, og færa almenningi og fjölmiðlum þannig öflugt tæki til aðhalds, og þar þarf ekki neina róttækni; sænska stjórnarskráin hefur innihaldið slík ákvæði í marga áratugi.

Það er líka afar íhaldssamt af þeim Ágústi og Skúla (þótt þeir séu þar á sama báti og tillaga Stjórnlagaráðs) að halda ákvæði um ríkiskirkju í stjórnarskránni, og reyndar verður það að teljast afturhaldssamt í ljósi þess að skoðanakannanir hafa sýnt árum saman að stöðugur og yfirgnæfandi meirihluti kjósenda (og reyndar yfirgnæfandi meirihluti meðlima ríkiskirkjunnar) er fylgjandi því að ríki og kirkja verði skilin að.

Það er gott að sem flestir taki þátt í umræðunni um nýja stjórnarskrá. Það er ekki síður gott að það geri „fræðimenn“, sem ég set hér innan gæsalappa af tveim ástæðum: Það er afar hæpið að tala um stjórnarskrárfræði, og fræðimenn á því sviði, á Íslandi, einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið sérlega umfangsmikil fræðileg umræða um slíkt í landinu. Það er líka varasamt að halda fram að sérfræðiþekking á stjórnarskrármálum, þótt hún sé gagnleg, sé betri grundvöllur en almenn skynsemi í þessum efnum, því stjórnarskrár eru grundvöllur allra laga, þ.e.a.s. reglur um það svið sem lögfræðingar starfa á, settar af borgurunum, og það er ekki skynsamlegt að láta lögfræðingastéttina sjálfa setja leikreglur um eigið svið, né heldur að láta það eftir fræðimönnum, enda eru stjórnarskrárfræði ekki  óyggjandi fræði í þeim skilningi að fræðafólkið á sviðinu sé sammála um mikilvæg atriði.

Það er sem sagt gott að fá fram sem flest sjónarhorn, og ekki síst frá fólki sem hefur velt þessum málum mikið fyrir sér eins og gildir um þá Skúla og Ágúst. Það eru mér hins vegar mikil vonbrigði að sjá hversu íhaldssamir þeir félagar eru í tillögum sínum, og hversu fjötraðir þeir virðast vera í þann gamla hugsunarhátt sem einkennir núverandi stjórnarskrá, og þá íslensku stjórnsýslu sem litur á almenning og hagsmuni hans sem óþægilega truflun í starfi sínu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Sigurður H. Sigurðsson

    Þeir félagar, Ágúst og Skúli, mættu gjarnan sýna landsmönnum þá virðingu að bíða eftir niðurstöðu kosninganna 20. október. Ef kjósendum hugnast ekki tillögur Stjórnlagaráðs þá skapast eftirspurn eftir öðrum tillögum, annars ekki.

  • Sammála.

    Tillaga þeirra félaga er mjög íhaldssöm.

    Tillaga stjórnlagaráðs gengur einnig alltof skammt.

    Óbreytt ástand er líklegasta niðurstaðan.

    Saga Íslands.

  • Guðrún Norberg

    Hér má lesa tillögur um breytingar á Stjórnaskrá Íslenska lýðveldisins sem er mun vandaðri en þær tillögur sem hið ólgmæta stjórnlagaráð sendi frá sér. http://www.stjornskipun.is/
    Kv. Guðrún

  • Ólafur Jónsson

    Þessir menn Ágúst og Skúli eru launaðir bullukollar sem fengnir voru til að koma með þetta endemis plagg þar sem þeir eru búnir að fela inní auðlindakaflandum rétt útgerðarinnar til að eignast veiðiréttinn. Svona leiguliðar út Háskola Íslands eru því miður ekki eindæmi frá þeirri stofnun og held ég að best væri að flytja HI til Akureyrar svo viðkomandi hafi hægari heimtökin.

    Ég held að Púkinn ´ætti að vera búinn að sjá að klækir hans duga ekki lengur. Kvótakerfið verður afnumumið af þjóðinni sem ól hann.

  • Pétur Henry

    Afhverju er eldgamalt danskt plagg, skilgetið afkvæmi konungsveldis, mönnum svona mikilvægt? Er það eitthvað annað en óttinn við hið nýja, meðan að stóran hluta, vonandi meira en helming þjóðarinnar, þyrstir eftir hinu nýja og bætta?

  • Steini M

    Þegar niðurstaða liggur fyrir í þessarri ráðgéfandi skoðannakönnun og ljóst að yfir 50% krossuðu X NEI við fyrstu spurningu, þá er ekkert annað í stöðunni en að henda þessu plaggi frá hinu ólöglega stjórnlagaráði í ruslið.

    111greinin og að setja landið í eitt kjördæm með jöfn atkvæði er t.d liður í ESB aðlögunninni, enda var passað vel upp á að þjóðin væri ekki spurð um það í þessarri könnun.

  • Jónas Bjarnason

    Þeir félagarnir leggja líka til að ekki verði verulegar breytingar á vægi atkvæða á landsvísu. Er það ekki rétt? Sveiattan. Einn maður eitt atkvæði er grundvallaratriði og algjör forsenda þess, að fólk líti á stjórnlög sem lýðræðisgrunn.
    Það eru einir tveir hér að ofan sem þurfa endilega að segja að stjórnlagaráð sé ólöglegt. Það fólk teygir sig í hjákátlega afgreiðslu Hæstaréttar á kosningunum um stjórnlagaráð þar sem lítið tæknilegt atriði er notað til að dæma kosningarnar ólöglegar.Það eru margir menn búnir að tæta þann dóm í sig sem fordæmanlega íhaldsemi og fornaldardekur.

  • Það er rétt, já, að Ágúst og Skúli leggja ekki til neinar breytingar á því sem er í gildi í dag, þannig að atkvæðavægi í einu kjördæmi (sem verða að vera a.m.k. sex samkvæmt tillögu þeirra) getur orðið allt að tvöfalt á við önnur:

    „Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur