Fimmtudagur 17.01.2013 - 16:33 - 30 ummæli

Birgi Þór Runólfssyni svarað

Vegna pistils sem ég skrifaði um óheiðarlegan málflutning Birgis Þórs Runólfssonarí gær svaraði hann mér í dag, vegna stóryrtra árása minna.  Það er alveg rétt hjá Birgi að ég var stórorður og að þetta var árás.  Hvort tveggja finnst mér ekki bara sjálfsagt heldur líka nauðsynlegt þegar fólk sem kynnir sig sem fræðafólk við háskóla hefur í frammi jafn óheiðarlegan málflutning og Birgir gerir í bloggi sínu. Þar sem Birgir leyfir ekki ummæli við blogg sitt verð ég að svara honum hér, en svar hans er í svipuðum stíl og skrif hans öll: útúrsnúningur og afvegaleiðing.
Í upphafi gerir Birgir sig sekan um enn eina rökvilluna, þegar hann segir
„… á bak við þá tilgátu, að orsakasamband sé á milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara, stendur hvort tveggja, öflug kenning hagfræðinnar allt frá dögum Adams Smiths, sem hefur sífellt verið aukin og endurbætt, og reynsla þjóða heims af kapítalisma og sósíalisma, sem hefur aðeins leitt til einnar niðurstöðu: Lífskjör eru miklu betri við kapítalisma en sósíalisma.“.
Í fyrsta lagi getur engin kenning stutt staðhæfingu um orsakasamband, það er aðeins hægt að gera með rökum og gögnum, sem Birgir hefur ekki lagt fram.  Hitt er líka ljóst öllum sem vita hið minnsta um hagfræði, þótt ekki sé nema af lestri íslenskra fjölmiðla, að „kenning hagfræðinnar“ er ekki ein, þær eru margar, og á mörgum sviðum, ekki síst þeim sem Birgir hefur fjallað um, algerlega andstæðar.  Auk þessa hefur Birgir ekki einu sinni útskýrt hvaða lönd hann telur kapítalísk og hver sósíalísk, né heldur hefur hann útskýrt hvernig hann mæli lífskjör.  (Eru lífskjör góð í Bandaríkjunum?  Fyrir hverja?)
Það er líka athyglisvert að lesa hvað Birgir segir um samanburð sinn á tekjudreifingu á Íslandi rétt fyrir hrun og þrem árum eftir það, sem hann notar sem rök fyrir því að þeir fátæku hagnist ekki á því að hinir ríku lækki í tekjum: „Það kemur þessu máli í sjálfu sér ekkert við, að hér á Íslandi varð bankahrun árið 2008.“  Ef það kemur málinu ekkert við að tekjubreytingarnar sem koma fram í þessu línuriti eru augljóslega afleiðing hrunsins, hver er þá tilgangurinn með að birta það?  Þegar Birgir segir að hann hefði í staðinn getað tekið „dæmi af tveimur löndum á sama tíma með tvenns konar tekjudreifingu“ gerir hann sig enn sekan um rökvillu: Slík fylgni getur aldrei sagt neitt, ein sér, um orsakasamband, auk þess sem enginn hagfræðingur með sómatilfinningu myndi láta sér detta í hug að eitt slíkt dæmi sannaði eitt eða neitt.
Þegar ég benti á að heimildir Birgis væru oftar en ekki rit pólitískra áróðurssamtaka átti ég ekki við þær tvær færslur sem ég tilgreindi sérstaklega í bloggi mínu, eins og augljóst er þeim sem les það.  Það má hins vegar skilja það sem ég sagði þar sem svo að ekkert af þeim gögnum sem Birgir vísar í sé marktækt og þar var ég of ónákvæmur; sú staðhæfing á aðeins við heimildir frá umræddum áróðurssamtökum.  Þetta breytir hins vegar í engu gagnrýni minni á þær ályktanir sem Birgir gefur í skyn að megi draga, jafnvel af þeim gögnum hans sem ekki eru áróðursþvæla.
Varðandi Lafferbogann sem Birgir talar mikið um er réttast að segja að hann er ekki til.  Hann er ekkert annað en gríðarlega einfölduð útlistun á þeirri augljósu staðreynd að skatttekjur hækka ekki stöðugt með hækkuðu skatthlutfalli.  Ég hef hins vegar aldrei séð sannfærandi útgáfu af honum fyrir nokkurt land, og það er ekkert sem segir að á ferlinum sem þessi bogi á að lýsa séu ekki fleiri en eitt hámark, auk þess sem það er ekki einu sinni ljóst að um sé að ræða feril falls, í þeim stærðfræðilega skilningi sem hann er kynntur.  Myndin sem Birgir endurtekur í þessu svarbloggi sínu er þar að auki hreint og klárt hugarfóstur hans; það má draga óendanlega marga ferla gegnum þá þrjá punkta sem Birgir notar.
Að síðustu er athyglisvert að Birgir vitnar í Adam Smith, sem frjálshyggjumenn kynna gjarnan sem hugmyndafræðing sinn.  Adam þessi var nefnilega andsnúinn því að eigendur hlutafélaga töpuðu engu nema hlutafé sínu, en gætu haldið öðrum eignum, á meðan kröfuhafar eiga það á hættu að bíða gríðarlegt tjón vegna misgjörða annarra.  Um þetta eru ótal dæmi úr íslenska hruninu, eins og allir vita.  Hér er eitt slíkt dæmi, og svo kaldhæðnislega vill til að þar er Birgir sjálfur í aðalhlutverki.  Vegna þess að hann er varamaður í stjórn Seðlabankans skora ég á hann, sóma hans vegna, að skýra almenningi frá því hver staða þeirra mála er sem fjallað er um í ofangreindri frétt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Einar Steingrímsson

    PS. Það er rétt að ég taki eftirfarandi aftur fram: Ég held alls ekki fram að háir skattar geti ekki dregið úr skatttekjum, né heldur tel ég að háskattastefnan í Svíþjóð sé skynsamleg. Ég er bara að gagnrýna óheiðarlegan málflutning manns sem veit að um hreinan loddaraskap að ræða.

  • Gunnar Ari

    Ég elska hagfræði true-believers , úr báðum áttum, – þeir að rífast er svona eins og ef tveir hópar af eðlisfræðingum væru að rífast um hvort væri betri fasi , liquid eða solid

    • Er það svipað eins og þegar eðlisfræðingar ræða um hvað gerðist fyrir Miklahvell eða hvað gerist innan svarthola. Þar eru settar fram kenningar, ekki satt?

      Er það ekki rétt að hin ,,heilögu vísindi“, eðlisfræðin, getur ekki einu sinni staðsett agnir nákvæmlega og sagt fyrir um hraða þeirra agna á sama tíma, eða öfugt. Það eru sem sé líkindi sem ráða för innan eðlisfræðinnar, ekki satt? Og ein frægasta kenning eðlisfræðinnar, almenna afstæðiskenningin, tekur ekki tillit til líkinda?

      Þetta eru nú meiri platvísindin, ha, það hlýtur bara að vera.

      Ert þú true-believer á almennu afstæðiskenninguna eða skammafræðikenninguna? Ertu ,,true believer?“

      Sannleikurinn er sá að í hagfræðinni er stundum betra fyrir þjóðfélagið að vera ,,liquid“ en á öðrum tímum er betra að vera ,,solid“. Kenningar rekast hins vegar á og þvi eru menn svona ósammála. Frekar einfalt. Enginn heldur því fram að hagfræðin sé eins og eðlisfræðin nema raunvísindafólk, sér í lagi ekki hagfræðingar sjálfir.

  • Snæbjörn Brynjarsson

    Ég verð að taka undir þessa gagnrýni.

    Auk þess finnst mér aumt að leyfa ekki komment. Geri ráð fyrir að hann leyfi heldur ekki spurningar í tímum hjá sér. (Allavega er það svipað í eðli sínu).

  • Ef þú hugsar aðeins um út á hvað Laffer boginn gengur þá er mjög erfitt að heimfæra hann upp á heilu löndin. Það er mun auðveldara að heimfæra hann upp á einstakling. Til þess að setja fram rétta Laffer kúrvu þarf að gera tilraunir og það er erfitt að standa í tilraunastarfsemi með skatthlutföll.
    Einar, hver er þinn Laffer bogi? Hvar á boganum myndir þú fara að slaka á þínu vinnuframlagi eða myndirðu hjakka áfram þrátt fyrir að jaðarskattarnir á þig væru 100%? Ég er nokkuð viss um að Laffer boginn er ekki svona normal dreifður eins og hann er settur fram ég er nokkuð viss um að hann vex rólega en hrynur svo á einhverjum tímapunkti og að núllinu í skatttekjum sé náð áður en 100% skattlagningu er náð.

    Varðandi Adam Smith þá er sem betur fer búið að uppfæra hann síðan hann kom fram með sínar hugmyndir, flestar hugmyndir hafa verið lagfærðar í gegnum tímann í samræmi við þróun þó að grunnurinn standi undir sér.

    Það að benda á einhver fyrirtæki sem dósentinn hefur orðið gjaldþrota með eru ekki málefnaleg rök gegn því sem hann hefur skrifað heldur kallast það að fara í manninn en ekki boltann enda er skiljanlega erfitt að færa rök gegn frelsi og þess vegna bregða menn fyrir sig skítkasti.

  • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

    Ég lærði í tölfræðinni hérna í gamla daga að draga aldrei of miklar ályktanir út frá fylgni. Í mínum raunvísindum notum við fylgnina nær eingöngu til að skoða hversu gott/slæmt línulegt samband milli tveggja breytna er. Mjög auðvelt að misnota fylgni í annarlegum tilgangi.

  • Dude: Mér finnst hafa komið í ljós síðustu árin að það hafi verið eðlileg tortryggni sem Adam Smith sýndi gagnvart ábyrgðarleysi eigenda hlutafélaga. Því finnst mér sjálfsagt að hafna því sem þú kallar „uppfærslur“, sem eru væntanlega afstaða þeirra frjálshyggjumanna sem samt veifa honum.

    Ég nefndi þessa afstöðu Adams Smith eftir að ég hafði útskýrt gagnrýni mína á Birgi, svo þar var ég ekki að fara í manninn, þótt ég breytti örlítið um umræðuefni. Það umræðuefni er þó nátengt málflutningi Birgis, sem fjallar um hvað séu hagkvæmustu hagkerfin, því í ljós hefur komið að raðgjaldþrot er mikið notuð leið margra þeirra sem mest hafa hagnast í hagkerfi okkar síðustu árin.

    Ég tel heldur ekki að það sé að fara í manninn að fara fram á að Birgir segi frá þessum gjaldþrotamálum. Lögfræðingur sem verður gjaldþrota missir réttindi sín. Það er ekki síður mikilvægt að maður sem situr í stjórn Seðlabankans, sem fer með stjórn peningamála í landinu, sé með hreinan skjöld í málum af þessu tagi, eða þurfi a.m.k. að gera vandlega grein fyrir hagsmunum sínum.

  • Haukur Kristinsson

    Ekki vissi ég að Birgir Þór hefði verið á kafi í kúlulánum og braski ásamt eiginkonunni í gegnum SpKef. Að það hafi orðið að afskrifa mörg hunduð milljónir af skuldum hjónanna.
    Og þessi maður kennir hagfræði við HÍ, siðfræði kannski líka?
    Var SpKef “heimaskóli” fyrir sjallana í braski, kúlulánafyrirgreiðslum og innherjaviðskiptum? Framkvæmdastjóri FLokksins, Jónmundur Guðmarsson, var einnig nemandi í þessu “skóla” og stóð sig víst bara nokkuð vel. Fékk því starfið í Valhöll.

    Í hverskonar samfélagi lifum við eiginlega?

  • Jakob Andersen

    Varðandi Laffer boginn þá er til eftirfaranda skýrslu frá 2012 (Taxes and the Economy: An Economic Analysis of the Top Tax Rates Since 1945) frá Congressional Research Service í USA. Skýrsla sem Repúblikanarnir lagðist gegn væri birt (The New York Times, 1. nóv. 2012). Niðurstaða skýrslans er: „The evidence does not suggest necessarily a relationship between tax policy with regard to the top tax rates and the size of the economic pie, but there may be a relationship to how the economic pie is sliced.“

  • Skjöldur

    Yfirlætisfullt raus hjá Einari sem telur sig höndla sannleikann en er í raun ekkert annað en vel pennafær

    • Sigurður

      Það er ekki annað hægt en að dást að þessari röksemdafærslu. Svei mér þá!

  • stefán benediktsson

    Laffler boginn á margt skylt með regnboganum. Það er hægt að ræða um eiginleika hans en eina sem víst er að það er ekkert undir endum hans.

  • Einar, þú nefnir einhver áróðurssamtök. Hvernig komstu að þeirri niðurstöðu að um áróðurssamtök væri að ræða?

    Hvað kallar þú frjálshyggju? Telur þú að hægt sé að vera á móti félagshyggju og frjálshyggju samtímis?

    Telur þú að þegar Birgir ræðir um atvinnufrelsi, að þá eigi hann við algjört frelsi í öllum geirum atvinnulífsins?

  • Við höfum S/Sc fyrir Science (stærðfræði, eðlisfræði, …) og A fyrir Arts (fiðluspil, mannkynssaga, …). Það vantar eiginlega eitt tákn í viðbót í háskólastafrófið fyrir hagfræði, kyn(ja)fræði, nálastungur, reikiheilun og svoleiðis.

    B/Bu fyrir Bullshit (eða Bollocks/Bo eða Baloney/Ba). BBu í hagfræði – hljómar bara ágætlega.

  • Gunnar: Ég „komst að því“ að um áróðurssamtök væri að ræða með því að skoða vefsíður þeirra. Það er álíka flókið að úrskurða þetta eins og ef vitnað væri í Sjálfstæðisflokkinn sem heimild um íslensk efnahagsmál.

    Ég tel sannarlega að það sé hægt að vera á móti bæði frjálshyggju og félagshyggju samtímis.

    Ég tel ekkert sérstakt um hvað Birgir eigi við með atvinnufrelsi, enda er það eitt dæmi um hversu ömurlegur málflutningur hans er að hann lýsir ekki hvað hann eigi við með því, sem gerir það sem hann segir innihaldslítið.

    • Þú komst að því að samtökin væru áróðurssamtök með að skoða síðu þeirra. Þetta er ekkert svar. Ég gæti alveg eins skoðað blogg á eyjunni.is eða mbl.is t.d. og svo sagt að eyjan.is og mbl.is væru áróðurssíður. Enginn rökstuðningur fyrir þessu hjá þér. Þú reynr það hins vegar með að bendla Sjálfstæðisflokkinn við rökfærslu þína. Afar slakt. Þú mátt endilega segja mér hvað það var á þeirri heimasíðu sem gerði það að verkum að þú telur samtökin vera áróðurssamtök… eitthvað annað en orð Stefáns Ólafssonar, sem nú sjálfur er þekktur fyrir að spúa áróðri flesta vikudaga ársins.

      Þú telur að það sé hægt að vera bæði á móti félagshyggju og frjálshyggju samtímis. Telur þú að þjóðfélagið geti verið með OF MIKLA félagshyggju í gangi á ákveðnum tíma? Ef svo er, telurðu að skref í átt að aukinni frjálshyggju, án þess að leggja félagshyggjuna niður, geti verið gott skref fyrir þjóðfélagið í heild sinni? Þ.e. telur þú að það sé einhver ákveðin blanda af félagshyggju og frjálshyggju geti gefið þjóðfélagið mestu velmegunina (og blandan breytis m.v. hvaða aðstður eru í gangi hverju sinni). Ef svo er, geturðu útilokað að það sé það sem Birgir á við? Sú félagshyggja sem ríkir hér á t.d. voðalega lítið skylt við þá félagshyggju sem er á öðrum Norðurlöndum og það er ekki erfitt að sjá hvers vegna þegar rýnt er í þær stjórnmálalegu aðstæður sem Íslendingar eru í þessa stundina.

      Málflutningur þinn er engu skárri en ,,Laffer“ málflutningur Birgis. Laffer kúrfan er afar umdeild en það sem hann hefur nefnt áður varðandi atvinnufrelsi er hins vegar nokkuð sannfærandi. Það er kominn tími til að vakna.

  • Góður Einar!

    Hér er hvað Krugman segir um Laffer:

    http://krugman.blogs.nytimes.com/2012/05/25/more-laffering/

  • Takk fyrir ábendinguna, Kristinn. Hér er niðurlag greinar Krugmans:

    „So why is this junk research getting so much attention from the Wall Street Journal, right-wing think tanks, etc.? Hmm. Seems deeply mysterious. Is there any possibility that these people are always looking for new excuses to cut taxes on the wealthy? Nah.“

  • Gunnar Ari

    Eiður Alfreðsson

    Stendur Ba. ekki fyrir Bullshit artist nú þegar?

  • Steingrímur Jónsson

    Af hverju er það sjálfgefið að skatttekjur væru engar ef það er 100% skattur?

    Málið er ekki hvaða upphæð það er sem maður borgar í skatt, heldur hvað þú færð fyrir skattinn. Í þjóðfélagi sem setur á 100% skatt hljóta skatttekjurnar að nýtast aftur fyrir þá sem greiða skattinn.

    Að sjálfsögðu myndi ég taka þátt í því að vinna fyrir slíku samfélagi, þó ég sé síður en svo að mæla með því, hvað þá óska eftir því.

    Það hefur því miklu meiri áhrif hvernig talað er um skattana en nákvæmlega prósentan. Menn eins og Birgir Þór gera valda þjóðfélaginu miklu meiri skaða en ef skattprósentan væri hækkuð um nokkur prósent!

  • Heinrich Heine

    B.A stendur fyrir Bullshit Artist.

    B.S stendur fyrir Bull Shit.

    B.A hefur vinninginn.

    • Gunnar Ari

      Já, þannig að bókmenntafræði, stjórnmálafræði, kynjafræði og félagsfræði eru hörðu vísindin, en eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði, rafeindafræði og verkfræði eru bara eitthvað soft-science áhugamál hjá kverúlöntum ??

  • Gunnar Ari

    Gunnar

    „Sannleikurinn er sá að í hagfræðinni er stundum betra fyrir þjóðfélagið að vera ,,liquid“ en á öðrum tímum er betra að vera ,,solid“.

    My point exactly

    Hagfræði true believers, eins og t.d. Bjarni Spen og fleiri, halda að sömu brögðin (einkavæðing, lágir skattar, flæði á markaði og etc) séu alltaf, á öllum tímum svarið – og síðan eru true belivers á hinum sem halda hinu öfuga fram, alltaf á öllum tímum, í ölluim aðstæðum.

    Ég var ekki að ræða skammtafræði eða eðlisfræði, en það er góð ástæða fyrir því að líkindi eru minna notuð í eðlisfræði hins stóra (afstæðiskenning) heldur en eðlisfræði hins smáa (skammtafræði)

    • Nei, það er einmitt ekki þitt point. Það að halda einhverju fram trekk í trekk í hvora áttina sem er einfaldlega ekki hagfræði. Stjórnmál snúast um að halda alltaf ákveðinni stefnu fram trekk í trekk, sama hvaða aðstæður eru í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni og sama hvort sú sama stefna sé best fyrir þjóðarhag, það kemur hreinni hagfræði lítið sem ekkert við. Oft fær stjórnmálaflokkur meira fylgi (allavega til skemmri tíma) með að taka ranga hagfræðilega ákvörðun, sem er mikið vandamál í stjórnmálum. Reyndar vil ég ganga svo hart fram og segja að slíkt gerist á hverjum einasta degi í íslenskum stjórnmálum. Þannig að halda því fram að Bjarni Ben sé einhver hagfræði true believer á ekki við nein rök að styðjast. Þú hefur ekki hugmynd um hvort hann telji þetta vera hagfræðilega besta ákvörðunin fyrir þjóðina í heild sinni eða ekki, þú gefur þér það bara að hann starfi eftir einhverjum hagfræðikenningum fremur en stjórnmálakenningum. Ef þú lendir á „true believer“ hagfræðingi, þá eru það afar vísbendingar um að sá hagfræðingur sé ekki góður hagfræðingur. Hann gæti hins vegar verið afar fær stjórnmálamaður.

      Svo er líka mjög umdeilanlegt hvenær eigi að einkavæða ríkisfyrirtæki og hvenær ekki. Ég tel persónulega þetta vera lúalegt bragð til einkavæðingar hjá Bjarna. Hann nefnir slæma skuldastöðu; að Íslendingar verði að selja ríkishlutinn til að greiða niður opinberar skuldir. Hann hefur rétt fyrir sér að vissu leyti en það sem hann segir ekki er það mikilvægasta. Skuldastaðan er slæm en ríkið er ekki í hættu að lenda í greiðsluþroti. Þar að auki munu skuldirnar lækka á nk. misserum sem hlutfall af landsframleiðslu, þá sér í lagi vegna þess að efnahagsbatinn á ansi mikið inni (og ástæðan fyrir því að hann á mikið inni er vegna gagnsleysis og skemmdarverka þessarar ríkisstjórnar). Þar með eru rökin hans fallin. Svo er eitt mjög mikilvægt til viðbótar sem hann nefnir heldur ekki. Það er sú staðreynd að innan skamms mun Landsvirkjun byrja að greiða út arð til eigenda sinna og það vill svo til að við, þjóðin, erum eigendurnir. Segjum sem svo að lífeyrissjóðir kaupi hlut í Landsvirkjun. Mættu þeir selja hlutinn hvenær sem þeir vildu? Ef svo er, hvert? Maður þarf ekki að hugsa lengi til að komast að þeirri niðurstöðu að þetta væri slæm hugmynd. En þeir munu samt sem áður reyna eftir fremsta megni eftir kosningar. Að útiloka einkavæðingu í einu og öllu er hins vegar ekki rétta leiðin áfram.

  • Gunnar Ari

    Gunnar

    p.s það væri semsagt eins og ef líf-eðlisfræðingar í efnafræðitilraunum væru að rífast um að ALLTAF væri betra að nota efni í fasa liquid eða solid, óháð efninu, óháð hvaða efnasamband væri verið að reyna að framkalla, og óháð undir hvaða kringumstæðum.

    Bottom line er að fólk sem kennir sig við vinstri eða hægri (solid miðstýrt hagkerfi – eða lauslegt „frjálst“) eru intellectual morons.. og þá er þar með talin hver einasti maður sem situr á alþingi.

    Og þó þeir slysist til að gera einn og einn hlut rétt, heppni sinnar vegna þá er það bara eins og að bilaðar klukkur sýna réttan tíma tvisvar á dag.

    Skynsamt fólk gæti aldrei verið í flokk

    • Og það sem ég segi við þig er að þú ert að rugla saman stjórnmálafræði og hagfræði.

  • Gunnar Ari

    Gunnar

    Erum við ekki full mikið talking semantics hérna?

    Mér sýnist dáldið mikið af hagfræðingum, en ekki ég sérstaklega, séu einmitt að rugla saman stjórnmálafræði og hagfræði – meiri parturinn yfirleitt

    Og sumir eru það miklir true-believers að það getur varla kallast stjórnmálafræði (hagfræði-light) heldur. Meirihlutinn af þeim sem tjá sig um þetta hérlendis og víðar eru augljóslega ideologists en ekki stundandi hreina (þú meinar þá væntanlega „vísindalega“?) hagfræði.

    En jújú, ég veit alveg að það er hægt að stunda vísindalega fræði sem hefur með hag macro hagkerfa að gera – er ekkert að afneita því in principle. Gallinn er að það er bara ekki gert af þessum einfeldingum, þeir eru miklu uppteknari í að vera í liðum og að upphefja egóið sitt innan þeirra í one-upmanship keppnum um piety varðandi trúnna sína, þó þeir ljái því fræðilegt yfirbragð – sjáðu bara þessi fífl eins og Hannes Hólmstein, Birgi Þór Runólfsson, Stefán Ólafsson og Þorvald Gylfa.

    • Margir hagfræðingar rugla saman stjórnmálafræði og hagfræði – það er rétt. Kannski augljósara hér vegna smæðar þjóðfélags en það eru nokkrar ástæður fyrir því, örugglega ekki tæmandi samt. T.d. má nefna að þjóðfélagið okkar er mjög lítið og ef þú ert ekki í „rétta stjórnmálaliðinu“, þá færðu ekki viss störf og mörg hagfræðistörf eru hjá hinu opinbera. Stundum er reynt að þrýsta á þig hvar þú stendur í stjórnmálum í starfsviðtölum hjá hinu opinbera. Svo má nefna að þrátt fyrir að margir, ef ekki flestir hagfræðingar segi sína skoðun hjá hinu opinbera, er stundum ekki hlustað á þá sökum þess að sú skoðun hentar ekki þeim stjórnmálaskoðunum sem ríkja hverju sinni. Einnig má nefna að hagfræðikennsla sl. áratugi, allavega á Vesturlöndum, hefur miðað að því að kenna hina svokölluðu nýklassísku hagfræði. Hún miðar að því að allir frjálsir markaðir lagi allt, alltaf. Það er ekki raunin. Nýklassíska hagfræðin gengur einungis upp ef aðilar gefa sér þær forsendur að tekjudreifing breytist ekki og að allir aðilar eyði sama hlutfalli tekna sinna til að kaupa ákveðnar vörur, sama hverjar tekjurnar eru. Þær forsendur standast ekki, hver einstaklingur sem kynnir sér það í klukkutíma getur séð það. Mig minnir m.a.s. að nýklassískur hagfræðingur hafi komið auga á það á sínum tíma. Nýklassíska hagfræðin réði (og er farinn að ráða aftur) ríkjum á Vesturlöndum og leyfði beinlínis fjármálageiranum að ná þeim völdum sem hann hefur í dag, hvort sem litið er til USA, Íslands eða meginlands Evrópu. Hins vegar fá hagfræðinemar litla eða enga kennslu í öðrum hagfræðikenningum, sem er mikil synd, eins og t.d. austurrísku hagfræðinni eða Keynes-isma. Vísindalegu hagfræðin væru þau að fá yfirsýn yfir allar þessar kenningar, en slíkt hefur ekki verið til staðar á Vesturlöndum í marga áratugi vegna þeirra valda sem fjármálageirinn hefur haft (og hefur enn). T.d. eru margir kúrsar í grunnnámi í hagfræði við HÍ sem ÆTTU að vera skyldukúrsar sökum þess að þá myndu vakna upp ýmsar spurningar varðandi nýklassísku hagfræðina. Þeir kúrsar eru hins vegar bara valkúrsar og örfáir nemendur sem taka þá.

      Það erfiðasta í hagfræðinni er í raun að yfirfæra hagfræði einstaklingsins yfir í hagfræði þjóðar. Því miður er hagfræðin bara svo skammt á veg komin og það þarf örugglega marga áratugi til viðbótar áður en slíkt tekst. Ef við lítum t.d. á lögfræði, þá má sjá hversu erfitt þetta er. Í lögfræði er ekki hægt að semja lög fyrir allar mögulegar athafnir fólks, hegðun mannkyns er einfaldlega of flókin til þess. Lögfræði hefur verið til mun lengur en hagfræðin og hagfræðin glímir við svipuð vandamál og lögfræðin.

      Alveg sammála þér með þessa fjóra fræðimenn sem þú nefnir. Hins vegar hafa þeir sagt margt gott í gegnum tíðina en skoðanir þeirra virðast litast af stjórnmálum. Öfgar leiða til öfga.

  • Gunnar Ari

    Gunnar

    P.s ég geri mér grein fyrir að þetta eru ekki allt hagfræðingar… en þeir þykjast tala fyrir „rétthugsaðri“ hagfræði, það er á hreinu

  • Gunnar Ari

    Og p.p.s

    Ég held að stærsti gallinn við stjórnmál sé einmitt að þau laða að sér athyglissjúka intellectual morons sem halda að Ísland sé farartæki fyrir þeirra eigin egó. Og allir varpa þeir því þannig og sverja, að þeir séu að gera þetta af rosalegri fórnfýsi fyrir okkur hin… svo keng-ruglaðir og sjálfumglaðir eru þeir.

    Hafið þið sem dæmi nokkurn tímann séð mann með meira sense of entitlement heldur en Bjarna Spen? (nenni bth ekki að skjóta niður hinn vænginn því þeir virðast ekki eiga séns, en nóg eru skotfærin þar líka)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur