Sunnudagur 03.02.2013 - 21:49 - 18 ummæli

Er hagfræði vísindi?

Það hefur talsvert verið deilt um gildi hagfræðinnar sem áreiðanlegra vísinda, eða yfirleitt hvort hún sé vísindi, þ.e.a.s. samsafn áreiðanlegrar þekkingar og áreiðanlegra aðferða til að komast að einhverjum sannleika.  Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að nánast allir hagfræðingar brugðust gersamlega í því að sjá fyrir einhverjar hrikalegustu efnahagshamfarir sem hafa dunið yfir Ísland og talsverðan hluta heimsins.  Þórólfur Matthíasson var spurður að því í Spegli RÚV í fyrra (byrjar á 18:03) hvort hagfræði væri vísindi, eða yfirleitt til einhvers gagns.  Auðvitað má vera að aðrir hefðu getað svarað þessu betur, en að dæma af því sem Þórólfur hafði að segja sýnist mér svarið vera nei.
Ég er reyndar nokkuð sannfærður um að hagfræði sé ekki eintóm þvæla eða bara illa grundaðar pólitískar skoðanir.  En því er ekki að leyna að ansi margir hagfræðingar hafa talað tóma vitleysu, og  margir þeirra eru enn á fullyrðingafylleríi og ekki að sjá að á því verði nokkurt slot.  Þessar endalausu staðhæfingar hagfræðinga um hluti sem þeir hafa margir greinilega ekkert vit á væru ekki skaðlegri en það sem spákonur segja fólki um mikla peninga, utanlandsferðir og hávaxna dökkhærða karlmenn (eða hvað það nú er sem  tíðkast um þessar mundir) ef ekki vildi svo illa til að fjölmiðlar ætu einlægt upp eftir þeim kristalskúlurövlið.
Nýlegt og átakanlegt dæmi um þetta er viðtal við Þráin Eggertsson, prófessor í hagfræði, sem „hefur vakið mikla athygli“ sem aftur leiddi til þess að eigendur blaðsins Frjálsrar Verslunar ákváðu að birta það í heild á netinu.  Hér segir viðmælandinn ýmis almælt tíðindi og rabbar um hvað gæti ef til vill hugsanlega mögulega kannski gerst, þótt það sé reyndar ómögulegt að vita hvað muni gerast.  Það sem er athyglisvert hér er því ekki neitt af því sem Þráínn segir, heldur hitt að viðtalið skuli talið athyglisvert.  En, kannski voru það aðallega „Atlagan að kvótakerfinu“ og „Atlagan að stjórnarskránni“ sem eigendur blaðsins vildu koma á framfæri?
Ég ætla ekki að fjalla um það sem Þráinn segir í þessu viðtali, því það er nóg að láta hann sjálfan tala til að sjá að hér eru ekki á ferðinni fræði, heldur vangaveltur manns sem ómögulegt er að sjá að byggi á öðru en því sem umræðurnar í heitapottinum í Laugardalslauginni gera að öllu jöfnu.  Ég set hins vegar nokkrar athugasemdir mínar í hornklofa.
Mikil vandi blasir við þeim sem um þessar mundir bera ábyrgð á stjórn efnahagsmála. Mörg vestræn ríki eru stórskuldug, meðal annars vegna bankahruns, og jafnframt hrjáir þau kreppa og mikið atvinnuleysi. Hvað er til ráða? Er brýnast að jafna ríkisfjármálin með skattahækkunum og niðurskurði ríkisútgjalda og greiða niður skuldirnar eða er farsælast að vinna fyrst bug á atvinnuleysinu með því að auka ríkisútgjöldin og lækka skatta – og þar með dýpka skuldirnar?
[Og svo fylgja fleiri spurningar sem við spyrjum okkur öll sem lesum fjölmiðla, en engin svör]
Í Bandaríkjunum var nýlega gefin út skýrsla sem Öryggisráð ríkisins (National Intelligence Council) vann að í fjögur ár. Í skýrslunni eru metnar horfurnar í heiminum næstu 18-20 ár með áherslu á efnahagsmál og stöðu Bandaríkjanna. Þar segir að mikilvægasta breytingin næstu tvo áratugina verði upprisa voldugrar millistéttar á heimsvísu – væntanlegir neytendur með þokkalega menntun og tekjur.
[Byggja hagfræðingar spár sínar á svona „gögnum“?]
Ég útiloka ekki að Bandaríkin, Kína og Þýskaland eigi eftir að leiða uppsveiflu á næstu árum en margt getur breytt þeirri spá. Mannkynssagan er skrifuð eftirá en ekki fyrirfram.
[Kjarni málsins, þetta með mannkynssöguskrifin. Þráinn er heiðarlegur að viðurkenna að hann viti ekkert um þróun þessara mála.  Hins vegar veltir maður fyrir sér af hverju forsvarsmenn FV töldu þetta allt svo athyglisvert …]
Ég á von á því að eftirspurn eftir háskólamenntuðu fólki verði mikil á næstu áratugum. Við erum stödd í fyrsta áfanga róttækrar byltingar í upplýsingatækni, líftækni og á fleiri sviðum sem skapar mikla þörf fyrir háskólamenntað fólk. […] Ýmislegt bendir til að Íslendingar hafi vanrækt verk- og tæknimenntun.
[Verulega djúp greining …]
Erik Brynjolfsson, prófessor í MIT, segir í nýlegri grein að …
Margir hagfræðingar eru andsnúnir því að ríkið bjargi einkabönkum í stað þess að láta eigendur bankanna taka skellinn og bera ábyrgð gerða sinna. Til dæmis var Mervyn King, yfirmaður Englandsbanka, andsnúinn björgunaraðgerðum þegar kreppan 2007-8 reið yfir, en hann virðist síðan hafa skipt um skoðun.
Ég las nýlega grein þar sem höfundurinn hélt því fram að fjórar fjármálastofnanir í Bandaríkjunum hefðu náð þeirri stærð að hrun þeirra væri ógnun við þjóðarbúskapinn en jafnframt væru þessir bankar svo stórir í sniðum að ríkið hefði ekki bolmagn til að bjarga þeim. Too big to fail, too big to save, sagði höfundurinn.
[Gaman að heyra hvað þetta fólk heldur.  En hvað með það?]
Það þarf að hugsa skipulag fjármálastofnana upp á nýtt. Við höfum lært í fjármálakreppunni að eftirlitsstofnanir, bæði hér og erlendis, hafa ekki roð við fjármálafyrirtækjunum. […]  Það er nauðsynlegt að breyta umhverfi bankanna, breyta leikreglunum og þar með hvata fjármálamanna og endurskoða einnig tölvutæknina sem bankar og eftirlitsstofnanir nota.
[Ekki orð um hvernig þurfi að breyta, og ekki að sjá að Þráinn hafi minnstu hugmynd um það.  Hann sýnir hins vegar að hann hefur lesið helstu fyrirsagnir fjölmiðla síðustu árin, en hann kemur ekki upp um það hvort hann hafi til dæmis lesið sjálfar greinarnar í sæmilegum dagblöðum.]
Nýlega var sagt frá því í fréttum að lán þýskra banka til Suður-Evrópu væru lítill hluti af vanda bankanna. Þýsku bankarnir hefðu lánað margfalt hærri upphæðir til smíða á flutningaskipum en til jaðarríkjanna á evrusvæðinu.
Ég hef óljósa hugmynd um það að bankar í norðrinu standi almennt verr en gefið hefur verið í skyn.
[Ég hef líka  lesið eina og eina frétt, og ég hef fullt af óljósum hugmyndum.  Ef Frjálsa verslun skyldi vanta efni í næsta blað …]
Ég svaraði þessari spurningu hér í Frjálsri verslun haustið 2011 og sagðist ekki eiga von á því að Grikkir hættu í evrusamstarfinu.
[Frjáls Verslun spurði mig að vísu ekki þessarar spurningar, en ég sagði þeim sem heyra vildu, og ýmsum fleiri, nákvæmlega það sama.  Ég er nokkuð viss um að svar mitt byggði á jafntraustum forsendum og svar Þráins.]
Ég sagði áðan að engin einföld lausn á efnhagsvandanum í Evrópu blasir við vegna þess að uppsafnaðar skuldir takmarka úrræðin sem koma til greina.
[Það hefði ég líka sagt, en ég hefði hins vegar vikið mér hjá að láta hafa svona sjálfsagða og ómerkilega hluti eftir mér í fjölmiðlum.]
Ein lausn á vanda evrusvæðisins, sem ég hef séð og sel ekki dýrar en ég keypti, …
[Til þess eru sérfræðingar, að greina kaffihúsaspjall frá traustri þekkingu, fyrir okkur hin …]
Mig dreymir um að Ísland verði eins konar nýtt Hong Kong með öfluga samvinnu í efnahagsmálum við Norðurlöndin og Grænland, við Evrópusambandið og Bandaríkin og við rísandi ríki í þriðja heiminum.
[Draumurinn um Ísland sem miðstöð alþjóðlegra viðskipta er ekki nýr.  Flestir sem töluðu um hann fyrir hrun hafa þó farið með hann eins og mannsmorð síðan, af skiljanlegum ástæðum.]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Þú virðist vera hræddur við hluti sem þú skilur ekki og gerir lítið úr þeim til að réttlæta eitthvað fyrir þér. Algengt meðal raunvísindafólks sem skilur ekki félagsvísindi. Kynntu þér málin betur í stað fyrir að gera þig að fífli með yfirlætisfullu rausi.

    Hér eru nokkrar spurningar fyrir þig. Er lögfræði vísindi? Er sálfræði vísindi? Er stjórnmálafræði vísindi? Er mannfræði vísindi? Er fornleifafræði vísindi? Er afbrotafræði vísindi?

  • Guðmundur Ólafsson

    Þetta sagði Þráinn líka:

    „Ég var í Berlín í leyfi frá Háskóla Íslands haustið 2008, þegar íslensku bankarnir þrír hrundu. Ég skrifaði þá grein í Morgunblaðið og sagðist óttast félagslegar og pólitískar afleiðingar hrunsins meira en fjármálalegu afleiðingarnar. Sem betur fer var þessi ótti minn ástæðulaus, hér hafa ekki risið upp voldugar pólitískar öfgahreyfingar. En eðli svokallaðrar umræðu hefur versnað, margir hafa sýnt sínar verstu hliðar og eiturský neðan úr dýpstu holræsum netheima hvílir yfir landinu. Hvar sem ég kem kvarta nær allir meira undan eitraðri umræðu en efnahagsvandanum. Fólk hefur dregið sig í hlé, forðast það að tjá skoðanir sínar til að losna við svívirðingastraum úr munni þeirra sem að mestu ráða umræðunni. Jafnt prófessorar sem æðstu ráðamenn ríkisins reyna að þagga niður gagnrýni með ógeðfelldum persónulegum svívirðingum. Mál er að linni.“

    Hollt fyrir þá sem ekki skilja mun á raunvirði og nafnvirði.

  • helga völundardóttir

    Guðmundur Árni Stefánsson sagði einu sinni þegar hann var ungur stjórnmálamaður að hagfræði væri skrýtin ófreskja, hún væri eigilega örendur skugginn af sjálfri sér.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Hagfræðingar geta alveg stundað sín fræði, rétt eins og sagnfræðingar. En spámenn eru þeir ekki umfram aðra.

    Kannski þess vegna sem sagnfræðingar eru afar lítið að spá.

  • Hans Haraldsson

    Það er rétt hjá Þorsteini að þjóðhagfræði (sem er auðvitað ekki eina grein hagfræðinnar) og sagnfræði eru hliðstæðar greinar.

    Báðar greinar safna staðreyndum um fortíðina. Fræðimennirnir geta reynt að greina orsakasambönd röklega en hafa litla eða enga möguleika á að prófa tilgátur sínar (sagnfræðingar hafa reyndar ekki endilega mikinn áhuga á orsakasamböndum – oft frekar á upplifunum og ætlunum þeirra sem lifðu tímana sem þeir fjalla um – en það er annað mál).

    Sagnfræðingur sem hefur fjallað um samtímasögu einhvers lands getur líklega komið með áhugaverða punkta um þróun mála í því landi og trúlega gæti hann giskað marktækt betur en einstaklingur valinn af handahófi um framvindu mála en því fer víðsfjarri að hann gæti greint orsakasamböndin með sama hætti og vísindamenn sem stunda tilraunagreinar af einhverjum toga eða eiga kost á að gera vel stýrðar samanburðarrannsóknir geta oft greint efni sem falla innan þeirra sviðs.

    Sagnfræðingar skilja takmarkanir sínar yfirleitt ágætlega. Þjóðhagfræðingar skilja sínar yfirleitt verr og oft virðist sem stór hluti almennings hafi enga hugmynd um þær.

  • anna benkovic

    Eg tel Hagfræði ekki vísindi, allavega byggir hún ekki á einföldum stærðfræðilögmálum.

  • Stefán Snævarr

    Einar, það er svo litið varasamt að dæma um vísindagildi fræðigreinar út frá viðtali í vemjulegu blaða, í slíkum viðtölum einfalda menn eins og þeir gera í bloggfærslum.

    Ég er reyndar mjög gagnrýninn á hagfræði þótt ýmislegt sé vel athugað í þessum fræðum, í bók minni Kredda í kreppu er kafli um hana sem nefnist „Eymd hagfræði, vesöld frjálshyggju“.

    Þar bendi ég á að hagfræðin eigi við prófanlekavanda að stríða, bæði séu kenningar oft sjálfssögð (ó)sannindi) og að glæst stærðfræðilíkön séu með þeim ósköpum að oft sé ekki hægt að leiða af þeim prófanlegar kenningar.

    Forspágildi þeirra sé lítið sem bendi til að hagfræði sé ekki a.m.k. enn orðin lögmálsskýrandi vísindi.

    Sú staðreynd að nánast enginn hagfræðingur skyldi að hið alþjóðlega fjármálakerfi var rotið segir sitt.

    „Stórt orð hákot“, vísindi líka. Það má læra margt af hagfræði svo fremi menn hafi takmarkanir fagsins í huga.

  • Merkileg umræða um þekkingarsamfélagið. Í því sambandi spyr ég: Úr hvaða samfélagi voru þeir sem leiddu HRUNIÐ yfir þjóðina? Nei ég bara spyr.

  • Hagfræðin fæst við kerfi sem eru flókin og full af handahófi (randomness). Greinin er ung og líkönin sem hún hefur gefið af sér eru frumstæð og hafa lítið forspárgildi. Þrátt fyrir þetta hafa hagfræðingar fallið í þá gryfju að tala af mikilli sannfæringu um framtíðina.

    Höfuðvandamálið er eðlisfræðiöfund (physics envy).

    Hér er skemmtilegur pappír:
    http://web.mit.edu/alo/www/Papers/physics8.pdf

  • Elís Másson

    Þrír menn eru í lest. Einn þeirra er hagfræðingur og einn rökfræðingur og einn er stærðfræðingur. Þeir eru nýkomnir yfir skosku landamærin … og út umlestargluggann sjá þeir rauða kú standa úti á akri (og kýrin snýr hliðinni að lestarteinunum).
    Og hagfræðingurinn segir: „Sjáið þið, kýrnar í Skotlandi eru rauðar.“
    Og rökfræðingurinn segir: „Nei. Það eru kýr í Skotlandi og að minnsta kosti ein þeirra er rauð.“
    Og stærðfræðingurinn segir: „Nei. Í Skotlandi er að minnsta kosti ein kýr og önnur hliðin á henni virðist vera rauð.“
    Og þetta er fyndið, því að hagfræðingar eru ekki alvöru vísindamenn og rökfræðingar hugsa skýrar en þeir, en stærðfræðingarnir eru …
    Furðulegt háttalag hunds um nótt. 2003. Mark Haddon.

  • Gunnar Ari

    Gunnar nafni

    “ Er lögfræði vísindi? Er sálfræði vísindi? Er stjórnmálafræði vísindi? Er mannfræði vísindi? Er fornleifafræði vísindi? Er afbrotafræði vísindi?“

    Nei.. þetta eru allt fræðigreinar sem hinsvegar styðjast við vísindalega aðferð eins vel og þær geta (oftast, en ekki alltaf). Þegar talað er um þessar greinar sem vísindi, þá er það í mjög lauslegum skilningi, því stóru spurningarnar í þessum greinum eru þess eðlis að ekki er víst hvot hægt er að rannsaka þær með skotheldri vísindalegri aðferð.

    Allar þessar greinar eru þekktar fyrir að vera með mörg mismunandi sect/cult , sem slást svo sín á milli, oft innan háskólaveggjana. T.d má ennþá finna félags“vísinda“ fólk sem aðhyllist blank slate mótunarkenningu…. þ.e.a.s gervivísindi (þar sem síðustu 50 ár raunvísinda, sem eru nota bene afkastameiri en 1500 árin þar á undan; hafa algjörlega ýtt nature ‘over’ nurture kenningum útaf borðinu með framförum í genavísindum, taugasálfræði, evolutionary psychology og fl.

    Og þess má geta að á íslandi er námskrá grunnskólanna á sumum stöðum búinn til á forsendum mótunarkenningu… sem er álíka gáfulegt og ef höfundar námskrár myndu styðjast við stjörnuspeki“fræði“ við skilgreiningar á raunvísindanámi í grunnskólum.

  • Pössum okkur á því að flokka ekki alla hagfræðiskólana (neóklassíski, new Keynesian, post Keynesian, Austrian, institutional, Marxian…) í sömu körfuna. Mér finnst hart að segja að engir skólar innan hagfræðinnar hegði sér á vísindalegan hátt þótt það sé vissulega hárrétt með marga þeirra. Það er því miður staðreynd að neóklassíski og new Keynesian (stundum flokkað með „the neoclassical synthesis“ hugtakinu) skólarnir halda sig fast við ó-staðreyndir sem margir þeirra einfaldlega vita ekki af.

    Tökum dæmi: það er hægt með einni einustu línu af algebru að afsanna þá „staðreynd“ í neóklassískri hagfræði að fyrirtæki í fullkominni samkeppni setji verð vöru sinnar jafnt jaðarkostnaði sem á sama tíma á að vera jafnt jaðarhagnaði, þ.e. P = MR = MC (margir viðskipta- og hagfræðimenntaðir einstaklingar þekkja þetta).

    Þetta er rangt! Ekki aðeins er þetta empírískt rangt heldur er þetta stærðfræðilega rangt. Og það versta er að aðeins handfylli af hagfræðingum vita þetta. Þeir sem vilja sjá hvers vegna geta lesið fyrstu tvær bls í þessum pappír: http://arxiv.org/pdf/nlin/0604061.pdf

    Hvers vegna í ósköpunum neóklassískir hagfræðingar vilja ekki viðurkenna þetta og mörg önnur vandamál í neóklassískri hagfræði (heildareftirspurnarkúrfa non-Giffon vöru er ekki endilega alltaf niðurhallandi, það er engin heildarframboðskúrfa, það þarf enginn að spara fyrst svo banki geti veitt lán, o.fl.) og breyta sinni aðferðafræði þegar þeir nálgast efnahagsleg vandamál er ofar mínum skilningi. Það er a.m.k. klárlega ekki í samræmi við hina vísindalegu nálgun: kenning – gögn – skoðun – niðurstaða – endurbætt kenning. Partinum „endurbætt kenning“ er að því er virðist einfaldlega sleppt.

    Eftir stendur að það eru margir hagfræðingar innan austrian og post Keynesian skólanna (ég þekki þá best) sem haga sér í samræmi við hina vísindalegu aðferðafræði. Sumt innan skólanna er vafasamt en fólk viðurkennir það strax, ólíkt mörgum neóklassískum hagfræðingum sem svara stundum „þetta er bara víst svona!“ þegar maður bendir þeim á eitthvað sem getur ekki gengið upp.

    Svo ef við ætlum að segja að forsenda „vísindagreinar“ sé að hún notist við hina vísindalegu aðferðafræði þá getum við ekki blákalt haldið því fram að „hagfræði er ekki vísindi“. Við getum hins vegar haldið því fram að „sumir hagfræðiskólar innan hagfræðinnar haga sér ekki í samræmi við hina vísindalegu aðferð.“

  • @ Gunnar Ari:
    Sammála. Það eru tvær hliðar á þessu, held ég.
    1. Hvaða aðferð er beitt við rannsóknina?
    2. Hvaða aðferð er beitt við að túlka niðurstöðurnar?
    Ef báðar hliðar eru skv. vísindalegri aðferð, þá er um vísindi að ræða, annars ekki. Sumar fræðigreinar gera þetta betur að meðaltali en aðrar.

    @ Ólafur Margeirsson:
    Skynsamlega mælt. Ég hefði átt að segja „flestir hagfræðingar“ eða „margir hagfræðingar“ hér að ofan.

  • Hallur Magnússon

    Nei, trúarbrögð 🙂

  • Gunnar Ari

    Eiður Alfreðsson

    Já… alveg sammála þessum tveimur atriðum og hef ekkert á móti félagsvísindum ef þau eru unnin af heilindum… mikið af mikilvægum spurningum sem sá geiri gerir sitt besta við að svara.

    Hinsvegar er mikið um það á íslandi og víðar að fólk sem er í raun bara að leita af staðfestingu á sínum pólitísku skoðunum sæki í þessi fræði og misnoti þau. Mikið af þessu fólki vinnur hjá hinu opinbera.. og mikið af þessu fólki hefur fengið allskyns verkefni frá núverandi ríkisstjórn. Verkefni sem eru þá áróðursvinna undir því yfirskyni að vera vísindavinna.

    þegar pólitíkusar eru farnir að mæra niðurstöður „vísindafólks“ sem eru fengnar með aferðum sem ég gæti leikandi notað til að sanna tilvist guðs (viðtals-aðferð) þá er greinilega búið að gengisfella B.s nám allsvakalega.

    Staðreyndin er sú að félagsvísindadeild Háskóla íslands er útungunarstöð fyrir pólitíkussa og opinbera starfsmen, langt um fremur en útungunarstöð fyrir vísindamenn. Það er nánast engin vísindaleg vinna í þessum geira stunduð hér á landi nema með pólitískum formerkjum.

    Þetta á að sjálfsögðu við um hagfræði líka (hér og víðar)

  • anna benkovic

    Takk, Elís Másson, ég tek heilshugar undir bæði svör rökfræðingsins og stærðfræðingsins, þó að ég hallist meira að stærðfræðingnum.

    (sjá; „Og hagfræðingurinn segir: „Sjáið þið, kýrnar í Skotlandi eru rauðar.“
    Og rökfræðingurinn segir: „Nei. Það eru kýr í Skotlandi og að minnsta kosti ein þeirra er rauð.“
    Og stærðfræðingurinn segir: „Nei. Í Skotlandi er að minnsta kosti ein kýr og önnur hliðin á henni virðist vera rauð.“)

  • Mer finnst Isaac Newton hitta beint i mark

    “I can calculate the motion of heavenly bodies, but not the madness of people.”

    , en hann tapadi tøluverdum penningum i frægi bolu ( South Sea Bubble).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur