Athygli mín var um daginn vakin á sérkennilegri auglýsingu um lausa stöðu við Háskóla Íslands. Sá sem benti mér á hana þóttist sjá á augabragði að búið væri að ákveða hvern ætti að ráða í viðkomandi stöðu.
Það sem er sérkennilegt við auglýsinguna, um stöðu „lektors í sagnfræði á sviði miðaldasögu á tímabilinu frá landnámi til siðbreytingar á 16. öld“, er að í henni er sagt „Æskilegt er að umsækjendur hafi háskólapróf í latínu og þekkingu á klassískum bakgrunni miðalda.“ Sjálfsagt þarf miðaldafræðingur að vera fær í latínu. Ef svo er liggur hins vegar í augum uppi að það þarf ekki að krefjast sérstakrar kunnáttu í málinu; þeir sem ekki hafa hana ættu sjálfkrafa að vera undirmálsfólk í faginu. Hitt er enn verra, að gefa þeim forskot sem hafa hákólapróf í greininni [Leiðrétt kl. 17:15, sjá athugasemd hér í tjásukerfinu]. Eins og þeir sem samið hafa þessa auglýsingu vita örugglega (ef við gefum okkur að þeir séu alvöru fræðimenn), þá er það mjög algengt að fólk í ýmsum greinum vísinda afli sér þekkingar og færni á borð við þessa án þess að taka próf, einfaldlega af því að hún er nauðsynleg fyrir fræðastarfið, þótt formlegt háskólapróf í greininni sé ónauðsynlegt.
Ég skrifaði þeim sem veita upplýsingar um stöðuna og spurði út í þetta. Póstskiptin má sjá hér. Skemmst er frá því að segja að við síðasta pósti mínum, sem ég sendi tvisvar (örlítið breyttan), með tveggja vikna millibili, fékk ég ekkert svar.
Af því að það er auðvelt fyrir marga að giska á hverjum staðan sé ætluð, og af því að ég óttast að það geti leitt hugsanlega umræðu um þetta á villigötur, finnst mér réttast að taka eftirfarandi fram áður en lengra er haldið:
Svo virðist sem staðan sé ætluð Sverri Jakobssyni, sem nú starfar við HÍ. Margir vita líka að hann er bróðir núverandi menntamálaráðherra, en mér finnst fráleitt að ætla að hún hafi nokkuð með þetta að gera, eða að hún hefði geð í sér til að reyna það (en þetta gerir grunsemdirnar auðvitað ekki skárri í því klíkusamfélagi sem Ísland er). Það er líka mikilvægt að hafa í huga að það eru ekki hugsanlegir umsækjendur um stöðu af þessu tagi sem bera ábyrgð á hvernig er farið með hana. Ég hvet því þá sem tjá sig um þennan pistil til að halda persónum þessa fólks utan við þá umræðu, þar sem málið snýst ekki um það heldur um starfshætti HÍ.
Það er líka rétt að undirstrika að við HÍ er talsvert af mjög góðu vísindafólki, sem sumt stendur framarlega á alþjóðavettvangi á sínu sviði, og sem gerir það þeim mun sorglegra hversu illa skólinn er rekinn að þessu leyti, en það eru ráðningar í akademískar stöður sem ráða úrslitum um gæði háskóla.
Tvennt er kaldhæðnislegt við þá hugsun sem virðist liggja að baki auglýsingunni, sé það rétt að staðan sé eyrnamerkt. Öfugt við marga svokallaða fræðimenn HÍ virðist nefnilega sem Sverrir sé afar virkur fræðimaður sem hefur birt mikið á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir tiltölulega stuttan feril (þótt ég hafi auðvitað ekki þekkingu til að meta gæði framlags hans). Þar sem varla er til að dreifa mörgum öflugum fræðimönnum í heiminum á þessu sviði íslenskrar sögu, má því gera ráð fyrir að Sverrir standi vel að vígi, og að óþarfi ætti að vera að gefa honum forskot út á próf í latínu. Hitt er líka sláandi, að maður með þennan feril, sem hefur starfað við HÍ jafn lengi og raun ber vitni (um sex ár í akademísku starfi), ætti í mörgum góðum háskólum erlendis rétt á því að fá fastráðningu án samkeppni, að því tilskildu að hann hafi staðið sig vel í starfi (aðallega í rannsóknum). Það er ekki síður kaldhæðnislegt að svo virðist sem hann hafi þegar að baki rannsóknaferil sem er miklu umfangsmeiri en áratuga ferill margra þeirra sem skreyttir eru með prófessorstitli við HÍ.
Það er margt brogað við HÍ, og margt sem gerir það að sorglegum brandara að forysta skólans þykist vilja hasla honum völl meðal bestu háskóla heims. Í skólanum er víða landlægur klíkuskapur í stað þess verðleikasamfélags sem einkennir góða háskóla, þar er undirmálsfólk oft ráðið á kostnað annarra sem hafa einhverja burði, og þar kemst undirmálsfólk meira að segja stundum upp með að leggja í rúst góðar deildir, eins og nefnt er hér um Tölvunarfræðiskorina sálugu. Auk þess er sjaldan reynt að laða að öflugt fólk erlendis frá, og ég mun fljótlega fjalla um nýlegt dæmi um slíkt sem segir dapra sögu um metnað forystunnar. Í ofanálag fer HÍ líka oft mjög illa með ungt fólk, ræður það í þrælavinnu á lágum launum strax eftir doktorspróf, á þeim tíma sem gjarnan ræður úrslitum um hvort fólk nær að koma sér á skrið í rannsóknum, og sem getur því skipt sköpum um hvort það verður öflugt vísindafólk eða ekki. Þetta getur bæði orðið til þess að slíkt fólk koðnar niður í stað þess að blómstra, en ekki síður er hætt við að þetta haldi í burtu efnilegu fólki erlendis frá sem ílengist svo þar sem betur er farið með það og þar sem það sér að framtíð þess veltur fyrst og fremst á frammistöðu þess í fræðunum en ekki hvort það er í réttu klíkunni.
Forysta HÍ einkennist af tvískinnungi. Hún heldur því fram að HÍ sé að eflast í alþjóðlegum samanburði (sem er ekki efling heldur lánsfjaðrir eins og hér er bent á), en samtímis gerir hún ekkert af því sem þarf til að styrkja háskólann í þeim alþjóðlega samanburði sem talað er um. Þessi forysta lifir í skröksögu um eigið ágæti og á alltaf skýringar á því af hverju ekki sé hægt að gera hlutina eins við HÍ og gert er í þeim skólum erlendum sem HÍ segist vilja líkjast. Það er alltaf allt svo „sérstakt“ á Íslandi, eins og við höfum svo oft heyrt áður. Dæmið sem rætt var í upphafi þessa pistils er ein slík sérkennileg skröksaga, eins og þeir eru fljótir að sjá sem annað hvort þekkja til í alþjóða fræðasamfélaginu, eða fletta upp nýlegum auglýsingum á alþjóðavettvangi, til dæmis um háskólastöður í sögu.
Lygi er alltaf vond. Annars vegar lýgur fólk yfirleitt af því að það hefur eitthvað ljótt að fela, og þess eiga háskólar ekki að þurfa. Hins vegar er það segin saga að þegar byrjað er að ljúga er afar erfitt að hætta. Þess vegna eitrar lygin út frá sér, eins og hún hefur sannarlega gert í miklu af starfi HÍ, þar sem yfirstjórnin hefur í raun unnið markvisst gegn opinberum markmiðum skólans, sem þó voru dregin upp fyrir tilstilli núverandi rektors. Þegar lygin er regla í stofnun eins og HÍ ganga þeir á lagið sem vilja koma til leiðar hlutum sem aldrei ættu að viðgangast, og það er hægara sagt en gert að fara að segja sannleikann á ný.
Það er annars merkilegt að ætla katrínu menntamálaráðherra það ekki að hún sé að sjá til eþss að bróðir hennar sé ráðinn. En svo var davíð ætlað að hafa komið syni sínum, vini og frænda inn í dómarastéttina og það þó að hann væri ekki ráðherra yfir þeirri deild. Merkilegt hvað vinstri menn halda að þeir séu heilagir
tvískinnungur? ráðherra í vinstriflokk er náttúrulega alsaklaus af öllu þó svo að það falli beint undir hennar ráðherrarstól en til hægri þá eru allir gjör spiltir. Er þetta ekki bara ágætis pistill um tvískinnung?
Það er út í hött að blanda Katrínu Jakobsdóttur í málið, sem er í raun ekkert „mál“. Sjálfsagt er að segja „æskilegt“ (engin krafa um það) að umsækjendur hafi háskólapróf í latínu og þekkingu á klassískum bakgrunni miðalda. Hafi einhver umsækjandi ekki próf í latínu er minnsta málið að benda á að kunnáttu í málinu hafi verið aflað eftir öðrum leiðum, nú eða þá að reyna að leiða rök að því slík kunnátta eigi ekki að skipta máli (sem væri nú frekar vafasamt).
Þessi pistill missir marks, Einar.
Takk fyrir ítarlega og góða grein, Einar. Klíkuráðningar eða klæðskerasniðnar auglýsingar á stöðum við HÍ er gömul saga og kannski ný einnig, eða ennþá.
Fannar: Mér finnst fáránlegt að ætla að ráðherra hafi verið með puttana í þessu máli. Sú tíð er liðin að ráðherra veiti stöður af þessu tagi, og ég sé alls enga ástæðu til að leita slíkra skýringa, þegar klíkuhugsunarháttur af þessu tagi hefur verið algengur lengi og víða (en alls ekki alls staðar) í HÍ.
Guðni: Ég er algerlega ósammála þér um að það sé minnsta ástæða til að nefna háskólapróf í latínu. Kunnátta væri eitt, en þess á ekki að þurfa, ef hún er nauðsynleg til að geta stundað rannsóknir á sviðinu, því þá hljóta þeir sem eru frambærilegir að hafa slíka kunnáttu. En að tala um háskólapróf lýsir afar sérkennilegri afstöðu, eins og útskýrt er í pistlinum.
Ég leyfi mér líka að fullyrða að svona sé nánast aldrei auglýst af hálfu góðra háskóla. Þess vegna þarf að útskýra af hverju HÍ gerir það. Og skýringin er augljós, miðað við þau viðhorf sem eru allt of algeng þar innan dyra.
Þess vegna finnst mér þessi athugasemd þín, Guðni, missa algerlega marks, því þú fjallar ekki um þá röksemdafærslu sem ég set fram.
Ég hafði ekki hugmynd að þessi staða væri klæðskerasniðin fyrir Sverrir Jakobsson og í raun finnst mér þessi auglýsing ekkert vera klæðskerasniðin fyrir hann. Það er gott fyrir háskólann að fá frambærilegan mann í miðaldfræðum og já skrif hans standast gæðakröfur í sinni fræðagrein.
Það má auðvitað gera athugasemd við próf í latínu en annars missir þessi grein marks. Því þótt þú segist ekki ætla Katrínu Jakobs koma að málum í þessari ráðningu að þá gerir þú það óbeint með því að nefna hana og Sverri í greininni og það vitna fyrstu tvö kommentin um að sumir ná einfaldlega ekki að lesa lengra.
Það er himinn og haf á milli ráðningu sonar Davíðs Oddsonar og Ólafs Barkar í embætti þar sem mál deila um hver var hæfastur í það.
Nú veit ég ekki hverjir aðrir eru að sækja um stöðu miðaldafræðings í HÍ en það er alveg ljóst að aðrir umsækjendur þurfa að vera með helvíti flotta ferilskrá til að ná Sverri J. og þess vegna þarf hann ekkert að njóta systur sinnar í þessu máli.
Sem fulltrúi MA-nema í sagnfræði sat ég fundinn þar sem auglýsingin um stöðu lektors í sagnfræði var rædd. Gerði ég sjálfur athugasemd við um að æskilegt þætti að umsækjandi hefði próf í latínu. Hins vegar var mér bent á að þetta fæli ekki í sér neina kröfu um slíkt próf og væri nóg að sýna fram á góða kunnáttu á tungumálinu eins og Guðni Th. bendir á. Skipti ég þá um skoðun hvað þetta varðaði.
Það er rétt hjá þér Einar að það er ýmsilegt sem má athuga við störf Háskóla Íslands, en þessi auglýsing er ekki eitt af því. Ef krafist hefði verið prófs í latínu hefði t.d. staðið „Nauðsynlegt er…“, í stað „Æskilegt er…“. Þetta mál er minnháttar stormur í afskaplega litlu vatnsglasi.
Þar sem ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum var beinlínist ætlast til að doktorsefni og verðandi prófessorar hleyptu heimdraganum og sæktu um stöður hjá öðrum háskólum en uppvaxtarskóla sínum. Það var gert til að koma í veg fyrir „andlega skyldleikaræktun“ innan háskólans og til að auka samkeppnishæfni og þekkingu innan hans. Það heyrði til undantekninga að prófessorar væru fyrrum nemendur skólans.
Það er best ég endurtaki röksemdafærslu mína fyrir því að það sé óeðlilegt að nefna sérstaklega háskólapróf í auglýsingunni (sem að sjálfsögðu verður til þess að það er auðveldara fyrir dómnefnd að nota það til að velja á milli tveggja annars jafngóðra umsækjenda):
Við gefum okkur að kunnátta í latínu sé nauðsynleg til að gegna þessari stöðu vel. (Það gildir væntanlega um nánast alla sem fást við miðaldasögu Evrópu, en ekki bara íslenska miðaldafræðinga.)
Því er útilokað að manneskja sem ekki hefur slíka kunnáttu sé hæf til að gegna stöðunni eins og hún er auglýst að öðru leyti.
Þess vegna þarf ekki að taka fram að kunnátta í latínu sé nauðsynleg.
Því er rangt að segja að háskólapróf sé æskilegt, því augljóst ætti að vera að ekki hafa allir miðaldafræðingar slíkt próf þótt þeir séu færir í latínu.
Ég skora líka á þá sem telja að þetta sé í lagi að skoða auglýsingar um sambærilegar stöður annars staðar í heiminum (það eru þó nokkur vefsetur sem safna saman slíkum auglýsingum), og gagnga úr skugga um hversu venjulegt sé að auglýst sé með þessum hætti.
Að síðustu hika ég ekki við að segja að flestir háskólar með einhvern metnað auglýsi nánast alltaf miklu opnar en þetta, af þeirri einföldu ástæðu að það er erfitt að vita hvað er í boði ef maður byrjar á því að takmarka umsækjendahópinn óþarflega, eða letja þá sem gætu haft áhuga og getu en passa ekki nákvæmlega lýsingunni. Í því sambandi má líka spyrja sig hvort skynsamlegt sé að einskorða stöðuna við tímabilið „frá landnámi til siðbreytingar á 16. öld“. Það væri væntanlega betra fyrir styrk HÍ að ráða afburðamanneskju sem sérhæfir sig í sögu eftir miðja sextándu öld en miðlungsmann í miðaldasögu (mér dettur þó ekki í hug að halda fram að Sverrir sé ekki afburðamaður; ég hef enga kunnáttu til að meta það en get hins vegar séð, sem leikmaður, að hann hefur verið gríðarlega afkastamikill á alþjóðavettvangi á sínu sviði).
Leiðrétting: Mér varð á að tala um að háskólaprófs væri krafist, sem er ekki gert í auglýsingunni, en hef breytt því, og merkt það í texta pistilsins, í annarri málsgrein.
Ég ætla ekki að skipta mér af inntaki greinarinnar, Einar. Hins vegar finnst mér það megi alveg ræða þessi mál.
Aftur á móti rak ég augun í svarið sem þú fékkst frá Guðmundi. Mér finnst það mjög sérkennilegt svar: „Latína var hið alþjóðlega mál miðalda, ritheimildir eru iðulega á þessari tungu og menningarheimur klassískrar fornaldar mótar mjög menningu miðalda“. Verandi í Mphil námi í miðaldafræðum finnst mér þetta mjög loðið svar og vægast sagt einföldun. Jú, jú eitthvað til í þessu en langt frá því að vera borðliggjandi.
Það mætti svo sem bæta við grísku, arabísku, hebresku, armenísku og fleiri tungumál en Guðmundur virðist skilja miðaldirnar aðeins öðruvísi en við hin eða miða við hugsunarhátt sem á meira skylt við nítjándu öldina.
Ritheimildirnar eru nú oft líka á ,,miðaldalatínu“ – og þá er nú gott að vera með sterkan grunn – og mér finnst það megi gera kröfur um BA próf í latínu.
Ef ekki BA próf þá væri réttast að miða við Toronto Exam prófið, ef viðkomandi einstaklingur sem fengi starfið væri með level 2 próf þá væri málið dautt.
Annars finnst mér mjög loðið að vísa í ,,þekkingu“.
Loðið svar….
Ég stúderaði sagnfræði á sínum tíma… var í tímum hjá Guðmundi Jónssyni.
Hann lét mig fá tvær greinar til að gera fyrirlestur úr, sem fjallði um Byggðastefnuna. Af þessum greinum var það mjög skýrt að byggðarstefnan hafi mistekist hrapalega.
Ég sagði það og uppskar í fyrsta og eina skipti á mínum námsferli, bæði hérlendis og erlendis að vera stoppaður af kennara strax eftir fyrirlestur og sagt að setjast með þeim orðum að það væri komið nóg, og að mig skorti „sagnfæðilegt innsæi“.
Mörgum þykir það loðið svar enn þann dag í dag….