Stjórnarflokkarnir hafa þegar svikið illilega í kvótamálinu. Nú virðist endanlega ljóst að þeir ætli líka að svíkja í stjórnarskrármálinu. Náðarhöggið veitti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem þar með sýnir hvað vakir fyrir honum með yfirlýsingum um að láta af „tilgangslausu stríði“ í pólitíkinni. Hann ætlar að „ræða málið við formenn annarra stjórnmálaflokka“. Allir vita hver afstaða þessara „annarra stjórnmálaflokka“ er til málsins, nefnilega að hafa að engu þann vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda sem fram hefur komið með skýrum hætti, bæði í skoðanakönnunum, á þjóðfundi, í kosningum til Stjórnlagaþings og í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október.
Árni Páll ætlar að makka við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn um framtíð málsins (les: morðið og eftirfylgjandi dysjun), en gefa skít í vilja almennings.
Hann, eins og aðrir stjórnarliðar sem hafa verið að undirbúa svikin í þessu máli síðustu vikurnar, talar eins og ekki sé hægt að klára málið. Það vita allir sem vilja vita að það er þvæla; það er hægðarleikur að klára málið á þeim tíma sem eftir er til kosninga, ef viljinn er fyrir hendi. En Árni vill frekar sýna Framsókn og Sjöllum að hann sé alveg til í að taka þátt í morðinu, alveg eins og þeir sem vilja komast í raðir Vítisengla þurfa að vinna óhæfuverk sem þeir eru kannski ekkert áfjáðir í í sjálfu sér, en láta sig hafa til að sanna fyrir stóru strákunum að þeir geti líka, svo þeir fái að vera með.
Oft er sagt að pólitík sé list hins mögulega. Það virðist nokkuð ofmælt þegar íslensk pólitík er annars vegar. Íslensk pólitík er sjaldan list hins mögulega, hún er oftast bara skreytilist hins djöfullega.
Leggur ekki bara Þór Saari fram vantraust tillöguna fram?
Sammála. Verri eru svikin í kvótamálinu, því það var nægur tími til að klára það mál fyrr á kjörtímabilinu. Hægt er að bjarga stjórnarskrármálinu með því að breyta stjórnarskrá þannig að hægt sé að kjósa um stjórnarskrá án þess að rjúfa þing.
Metnaðarlaust gutl hins ömurlega.
„Yfirsmiður skjaldborgarinnar um bankana og Vítisengill stjórnarskrárinnar“ mannlýsing sem gerir jafnvel íslendingasögunum skömm til.
Þeir tímar eru komnir aftur að „riðu hetjur um héruð“
Er ekki bara einfaldast að kenna sjálfstæðisflokknum um aumingjaskap vinstri flokkana?
Mér hefur alltaf fundist augljóst að þetta yrði svikið. SJS mun dúkka upp eftir nokkur ár sem ráðgjafi útgerðar eða olíu. JS var ekki manneskja til að breyta neinu þegar til kastanna kom. Of gömul, of lengi á þingi, fyrringin algjör. Fyrring er, þegar þingmenn eru komnir svo langt frá kjörum fólksins að þeir sjá ekki lengur hina slæmu stöðu sem almenningur er í.
Hugsanleg frestun á stjórnarskrármálinu eins og formaður Samfylkingar leggur til hefur vakið hörð viðbrögð eins og grein Einars ber með sér og stóryrtari er prófessorinn Þorvaldur Gylfason.
Miðað við stöðu málsins í þinginu og þess hve skammt er til þingloka er yfirlýsing Árna Páls frá því í dag byggð á raunsæju mati og af virðingu við stjórnarskrá lýðveldisins. Flas er ekki til fagnaðar í svo stóru máli og upphrópanir örfárra í tillfinningauppnámi mega ekki villa mönnum sýn. Sífelld vísun þessara manna í vilja þjóðarinnar styðst ekki við aðdraganda og þróun stjórnarskrármálsins og full ástæða til þess að hafa efasemdir um áhuga meirihluta þjóðarinnar á málinu yfirhöfuð.
Nýjustu skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokkanna benda einmitt til þess og hafa þeir flokkar sem harðast hafa fylgt málinu eftir í þinginu fengið heldur dapra útkomu og ekki hafði Lýðræðisvaktin af miklu að státa með sín 2%. Flestir hefðu haft hægt um sig eftir slíka útreið en ekki vaktstjórinn.
Kannski og þegar upp er staðið vildi þorri þjóðarinnar einungis lagfæringar á núgildandi stjórnarskrá en umfram allt er afkoma heimilanna og öflug atvinnustarfsemi henni ofarlega í huga.
Niðurstöður skoðanakannana benda til þess.
GSS: Þau atriði úr tillögum stjórnlagaráðs sem greidd voru atkvæði um 20. október fengu öll fylgi meira en 60% kjósenda (nema þjóðkirkjuákvæðið). Allar skoðanakannanir hafa sýnt það sama. Það er ekkert flas hér á ferðinni; þetta er nokkurra ára ferli og fá mál hafa verið rædd jafn mikið í þinginu og jafn margir fengnir til að segja álit sitt. Afstaða kjósenda til framboða í næstu kosningum er allt annað en afstaða þeirra til afdrifa stjórnarskrármálsins.
Yfirlýsing Árna er ekki „raunsætt mat“ heldur yfirlýsing um svik. Að kalla það virðingu fyrir stjórnarskrá er bull. Auk þess er dálítið seint að vera að sýna virðingu þeirri stjórnarskrá sem ekki ætti nema fáa mánuði ólifaða ef allt væri eðlilegt …
„Afstaða kjósenda til framboða í næstu kosningum er allt annað en afstaða þeirra til afdrifa stjórnarskrármálsins“
Athygglisvert! Hvernig skýra menn þetta?
Margir kjósendur of ruglaðir til að tengja þetta tvent? Hugsa eitt í einu og korslútta á tveimur breytum?
Eða eru stjórnarskrárbreytingar ekki nægilega mikilvægar til að þær skifti máli í afstöðu til stjórnmálaflokka?
Nú vill 1/4 kjósenda hverfur aldar1/4 aftur í tímann – kjósa Framsókn… flokk sem var löngu búinn að vera… búinn að svíkja sínar eigin hugsjónir – samvinnustefnuna og átti ekkert eftir nema dragúldna kalla til að éta hræið af helmingaskiftafélögum kaldastríðsins og andvana samvinnubáknum.