Þriðjudagur 05.03.2013 - 18:26 - 5 ummæli

Það sem Árni Páll myndi gera, vildi hann afla sér virðingar

Því hefur verið haldið fram að ekki sé „hægt“ að koma stjórnarskrárfrumvarpinu gegnum þingið.  Þetta er rangt; það snýst um vilja.  Þeir þingmenn sem helst eru nefndir sem líklegir til að standa í vegi fyrir málinu innan Samfylkingarinnar eru Ásta Ragnheiður þingforseti, Össur og Kristján Möller.  Svo vel vill til að sá síðastnefndi mun verða fjarverandi til þingloka, og varamaður kominn í hans stað.
Ef formaður Samfylkingarinnar lýsti yfir að hann legði allt í sölurnar til að koma frumvarpinu í gegn, og fengi með sér í það flestalla þingmenn flokksins, er ljóst að Ásta Ragnheiður þyrði ekki að standa nánast ein á bersvæði með blóði drifnar hendur sem banamaður málsins, og sama gildir um Össur.
Þegar þannig væri búið að tryggja stuðning allra þingmanna Samfylkingarinnar þá er útilokað að Vinstri Græn létu það verða sitt síðasta verk á þessu kjörtímabili að drepa nýja stjórnarskrá.
Flóknara er þetta ekki.  Allt sem Samfylkingin þarf að gera er að lýsa yfir að þetta mál sé sett á oddinn og að það verði keyrt í gegnum þingið.  Það þarf ekki einu sinni kjark í slíkt þegar yfirgnæfandi meirihluti kjósenda vill fá þessa nýju stjórnarskrá samþykkta.  Það þarf hins vegar að yfirgefa þá lífsskoðun, a.m.k. í nokkra daga, að alltaf beri að lúta kúgunarvaldi Sjálfstæðisflokksins.  Er það of stór biti að kyngja fyrir þingmenn Samfylkingar og VG?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hreggviður

    Já, það er til of mikils mælst.
    Málið virðist vera að tryggja eigi gott veður og vingjarnlegheit á næsta þingi, það ræður þessu öllu saman.
    „Samræðustjórnmál“ um ekki neitt er kjörorðið.
    Dugleysið er algert og vændi hefur öðlast nýja merkingu.

  • Bíddu er ekki fagurgalinn í samfélaginu að „þingmenn séu einungis bundnir af samvisku sinni“? Er þá bara ekki í lagi að leyfa þessu fólki að fara að samvisku sinni? Eða er bara í lagi að beita flokksaga, sem meirihluti almennings virðist telja að sé annað hvort verkfæri hins illa eða baktjaldamakk, þegar tilgangurinn er „góður“? Nú fær fólk að kynnast því hvernig málin þróast þegar þingmenn fara að sannfæringu sinni og ekkert rangt við það eða hvað? Varla viltu að Árni fari að hvetja til stjórnarskrárbrots?

  • Einar Steingrimsson

    Marri: Ég sagði ekki að það ætti að þvinga neinn með óeðlilegum hætti. Bara að það ætti að sjá til þess að þeir stjórnarliðar sem væru á móti frumvarpinu þyrftu að gangast við því opinberlega. Væri það gert er ég nokkuð viss um, eins og ég útskýrði, að þeir myndu styðja frumvarpið.

  • Garðar Garðarsson

    Algjörlega sammála Einari hér.
    Látum reyna á þingviljann í stjórnarskrármálinu og nýtum 71 gr. þingskapa ef á þarf að halda.

  • „34. gr. Náttúruauðlindir

    Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í EINKAEIGU, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. “

    Fjórflokkurinn þarf einfaldlega tíma til að einkavæða auðlindir okkar þannig að þær verði í ævarandi eigu einkaframtaksins.

    Hitt sýstemið er litlu skárra þar sem auðlindirnar eru leigðar einkaframtakinu .

    Vissulega yrðum við flottustu leiguliðar á jarðríkinu, þar sem í framtíðinni getum opnað stollt umslög okur-orkureikninga okkar frá einkaframtakinu, því getum við sagt með stollti að við „eigum“ allt heila klabbið.

    Stofnun ESB-klúbbsins er auðvitað tær snilld þar sem auðvaldselítunni vex skipulega fiskur um hrygg á kostnað evrópskra hryggleysingja.

    En erum við ekki einfaldlega vitni að baráttu um auð og völd á Íslandi í boði fjórflokksins, þar sem einn armurinn er í kapphlaupi um auðlindir Íslands meðan hinn armurinn dreymir um störf hjá sælufasistaríkinu ESB og ber fyrir sig svartholskenningunni ef einhver mælir þar á móti …

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur