Þriðjudagur 12.03.2013 - 19:43 - 2 ummæli

Chamberlain Samfylkingarinnar – biluð plata

Þegar ég var táningur átti vinur minn einn hljómplötu sem við hlustuðum oft á.  Ég man litið eftir henni nema hvað í einum textanum var fjallað um seinni heimsstyrjöldina.  Þar voru spiluð hin frægu orð Chamberlains forsætisráðherra Bretlands, þegar hann kom heim af fundi með kanslara Þýskalands í München í september 1938:
Við lítum á samkomulagið sem undirritað var í gærkvöldi […] sem táknrænt fyrir löngun þjóða okkar tveggja til að heyja aldrei aftur stríð hvor gegn annarri.
(We regard the agreement signed last night […] as symbolic of the desire of our two peoples never to go to war with one another again.)
Á plötunni var þetta endurtekið margsinnis, eins og platan væri biluð:  „… never to go to war with one another again … never to go to war with one another again … never to go to war with one another again …“
Í morgun póstaði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, þessu á Facebook-vegg sínum:
Í vantraustsumræðunni í gær kom skýrt fram að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi lýsa yfir vilja til að festa ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Framsóknarflokkur, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Græn eiga það sameiginlegt að hafa á síðasta áratug lagt fram frumvarp á Alþingi um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Af þeim frumvörpum og nýjustu tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 4. mars kemur í ljós sammæli um að kveða skuli á í auðlindaákvæði um allt eftirfarandi:
 1. Að útiloka eign, varanleg afnot og sölu réttinda tengdum auðlindum og skapa þannig nýja þjóðareign á auðlindum
 2. Að þjóðareign þýði að ríkisvaldið fyrir hönd þjóðarinnar fari með æðsta vald og ábyrgð yfir auðlindunum og veiti leyfi til afnota, hagnýtingar o.s.frv. svo fremi
a. leyfin séu tímabundin og afturkallanleg
b. eðlilegt gjald komi fyrir
c. leyfin séu veitt á jafnræðisgrundvelli
 3. Um hagkvæmustu nýtingu á sjálfbærum grunni
 4. Um auðlindaarð til hagsældar fyrir þjóðina
 Liggur ekki í augum uppi að nýta það lag sem nú er, til að koma þessum efnisatriðum í höfn? Getur einhver verið á móti því?
Þetta er sami söngurinn hjá Árna og þegar hann fór fyrst á fund formanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til að segja þeim að þeir mættu eiginlega alveg ráða hvernig þeir hefðu þetta með stjórnarskrána; hann ætlaði ekki að beita sér fyrir því að ný stjórnarskrá yrði samþykkt í óþökk þessara öðlinga og þeirra hagsmuna sem þeir og flokkar þeirra hafa staðið vörð um í áratugi.  Ekki virðist hafa verið minnst á afstöðu almennings í þessum samræðum; Árni treysti því væntanlega að hann og félagar hans í forystu þessara flokka væru fulltrúar þessa almennings og fullfærir um að semja um þann „frið“ sem væri almenningi fyrir bestu.
Platan sem vinur minn átti var ekki biluð; þetta var bara trix að margendurtaka þessi einfeldningslegu orð Chamberlains sem talaði eins og hann hefði verið að semja við heiðarlegan sómamann sem í öllu væri treystandi til að hafa hagsmuni þjóðanna tveggja að leiðarljósi.  Árni Páll er hins vegar einmitt farinn að hljóma eins og biluð plata:  „Getur einhver verið á móti því“ að semja við fulltrúa svartasta afturhaldsins um örlög stjórnarskrárinnar?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Ég held að það sé hyggilegt að láta það koma í ljós hvort B&D meina eitthvað með því að þeir vilji framgang vissra mála (?) varðandi stjórnarskrána. Þeir geta þá ekki borið af sér að hafa tafið málið án þess að hafa komið með tillögur. Málinu er ekki lokið.

  • Ásgeir Baldursson

    Aðeins ein leið er í boði. Að þetta þing samþykki stjórnarskránna eins og hún liggur nú fyrir. Þar með er Stjórnarskráin orðin að aðalmáli kosninganna í vor, og í höndum okkar að kjósa þing sem klárar staðfestingu hennar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur