Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, er á lista yfir þá þingmenn sem segjast vilja samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni. (Ég skrifaði honum í gær og spurði hvort einhver misskilningur byggi að baki skráningunni á þessari síðu, en hef ekki fengið svar við því.)
Samt er Magnús í algeru uppnámi vegna breytingatillögu Margrétar Tryggvadóttur, sem leiðir af sér að þingið verður í raun að greiða atkvæði um heildarfrumvarpið áður en hægt er að greiða atkvæði um þá málamiðlun sem formenn stjórnarflokkanna, Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir, virðast hafa gert við þingmenn Bjartrar Framtíðar. Af einhverjum ástæðum finnst Magnúsi vont að þurfa að tjá hug sinn í málinu á opinskáan hátt, kannski vegna þess að með því er hann og félagar hans að svíkja það sem flestir héldu að væri loforð stjórnarflokkanna, um að vinna að því að ný stjórnarskrá yrði samþykkt á þessu þingi.
Magnús hefur áður gripið til þess örþrifaráðs að segja beinlínis ósatt um þetta mál. Í dag er hann við sama heygarðshornið, þar sem eftirfarandi er haft eftir honum:
Samkomulag hafði tekist á milli stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar um frumvarp og þingsályktunartillögu þess efnis að stjórnarskrárfrumvarpið yrði ekki afgreitt í heild heldur yrði hægt að ljúka heildarendurskoðun á næsta kjörtímabili og nýtt þing gæti samþykkt það.
Magnús veit mæta vel að forysta þessara þriggja flokka ræður nákvæmlega engu um það hvað næsta þing gerir við stjórnarskrána. Hér er hann því í besta falli að reyna að blekkja. Það sem verra er, Magnús segir líka þetta samkvæmt ofangreindri frétt:
„Breytingatillaga Margrétar setur sáttaferlið í uppnám vegna þess að nú hafa andstæðingar stjórnarskrárferilsins fullkomna ástæðu til að drepa málið í málþófi. Nú er ekki bara verið að fjalla um sáttartillöguna heldur mun umræðan litast af heildarplagginu og stöðu þess,“
Þetta er sama þvælan og Magnús hefur áður borið á borð. Ef það er meirihluti fyrir því að samþykkja hina útvötnuðu tillögu sem Magnús Orri styður, þá er einfalt mál fyrir þann meirihluta að fella breytingatillögu Margrétar og samþykkja svo hina. Að gefa í skyn að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn muni halda uppi málþófi til að koma í veg fyrir að Magnús Orri og félagar geti fellt breytingatillögu Margrétar (og þar með lýst yfir andstöðu við stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni, sem ofangreindir flokkar hatast við), hljómar eins og samhengislaus þvæla manns sem virðist vera á barmi örvæntingar yfir þeirri hryllilegu stöðu að þurfa að segja kjósendum hreinskilnislega hvað hann vill, og sýna þar með hvaða hagsmunum hann þjónar. Eða hafa Magnús og félagar hans samið á bak við tjöldin við Framsóknar- og Sjálfstæðisþingmenn um hluti sem þeir vilja ekki segja okkur frá?
Vonandi munu þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem eru fylgjandi því að stjórnarskrárfrumvarpið verði samþykkt í heild sinni koma vitinu fyrir hina örvæntingarfullu félaga sína sem mega ekki til þess hugsa að styggja afturhaldsöflin í landinu með nokkrum hætti. Vonandi tekst þeim að sannfæra þessa félaga sína um að réttara sé að ná sátt við þann yfirgnæfandi meirihluta almennings sem vill nýja stjórnararskrá af því tagi sem felst í heildarfrumvarpinu, fremur en að standa í hrossakaupum við þau afturhaldsöfl sem vilja allar breytingar á stjórnarskrá feigar. Að öðrum kosti er bara að vona að Samfylkingin og Vinstri Græn fái makleg málagjöld í komandi kosningum.
Þingmaður sem þarf að skrifa Manifesto á miðju kjörtímabili og gefa út á bók, er sennilega í vitlausum flokki…
Æ, æ. Samviskan mín stynur, þegar Magnús Orri kemur með yfirlýsingar sínar, sem eru næsta óskiljanlegar og í meira lagi leiðinlegar. Maður áttar sig bara ekki á honum. Hann var eini maðurinn, sem hreinlega röflaði í Silfur Egils þættinum á sunnudaginn var. Það eru einhver umbrot í honum og best væri að ráðleggja honum að segja ekkert meir fyrr en hann er búinn að jafna sig.
Maðurinn heldur að við kjósendur séum fábjánar, hann kemst að öðru í næstu kosningum og kannski veit hann að ef persónukjör kemst í lög þá á hann og ýmsir aðrir ekki afturkvæmt við kjötkatlana !!!