Samfylkingin var upphaflega stofnuð til að sameina fólk sem taldi sig til vinstri í samfélagsmálum, þ.e.a.s. félagshyggjufólk. Það tókst að vísu ekki fullkomlega þar sem sumt „vinstrafólk“ vildi frekar verða beinir arftakar Alþýðubandalagsins en að taka þátt í sameiningu allra á vinstri vængnum. Reyndar virðast Vinstri Græn hvorki vera sérstaklega vinstrisinnuð né græn miðað við framgöngu sína á kjörtímabilinu, og það er táknrænt að þau ætli að ljúka því með því að samþykkja milljarða styrki til þeirra stórkapítalista sem vilja byggja stóriðju á Bakka, með tilheyrandi náttúruspjöllum vegna nauðsynlegra virkjana. En það er annað mál …
Samfylkingin fékk mikinn meðbyr fljótlega á ferli sínum, enda þóttust margir sjá að þar væri kominn flokkur sem myndi standa vörð um hagsmuni almennings, og sérstaklega þeirra sem minna mega sín, samtímis því að verja frelsi í viðskiptum og svigrúm einkaframtaks, sem mörgum hugnast vel, þótt minni ánægja sé oft með raunverulegar gerðir á þeim sviðum, enda atvinnulíf landsins undirlagt af klíkuveldi sem hirðir um það eitt að maka eigin krók. Á því sviði, að brjóta upp það gegnrotna spillingarkerfi sem drottnað hefur yfir atvinnulífi og stjórnmálum landsins, hefur Samfylkingin lítið eða ekkert gert, en það er líka annað mál …
Efasemdaraddirnar þögnuðu samt aldrei hjá þeim sem töldu að hægrisinnaðir kratar, sem á Íslandi voru alltaf langt hægra megin við félaga sína á hinum Norðurlöndum, hefðu slík ítök í flokknum að hann yrði aldrei jafnaðarmannaflokkur af norrænni gerð, og allra síst ef hann skæri ekki í alvöru upp herör gegn því gegndarlausa ráni lítillar valdaklíku á auðlindum landsins sem einn Samfylkingarmaðurinn nefndi svo snilldarlega „Rányrkjubúið Ísland„. Til hægrikratanna töldu margir Árna Pál Árnason, nýkjörinn formann, sem gekk þó vel að kynna sig sem eitthvað allt annað í baráttu sinni um formannstignina, og í nokkrar vikur eftir það.
Árna þraut þó snemma örendið. Í krafti formennsku sinnar komst hann fljótlega í þá aðstöðu að hafa veruleg áhrif á eitthvað sem skipti máli, þ.e.a.s. stjórnarskrármálið. Miðað við það sem síðar kom á daginn, og sem Árni hefði verið fljótur að finna út sjálfur hefði hann kært sig um, var meirihluti þingmanna tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við að stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni yrði samþykkt á þessu þingi. Til þess þarf að stöðva væntanlegt málþóf þingmanna Sjálfsstæðisflokksins og einhverra úr Framsókn, svo valið stóð augljóslega á milli tveggja kosta:
- Að beygja sig fyrir kúgunarvaldi Sjálfstæðisflokksins, sem skírskotar til samtryggingarinnar sem felst í þeirri „hefð“ að stöðva ekki málþóf, hversu brjálæðislegt sem það er, og hversu hrikalega sem það fer í bága við augljósan og stöðugan vilja almennings (og sem er óþekkt fyrirbæri í nágrannalöndunum, enda fáránlega ólýðræðislegt).
- Eða að gerast sá leiðtogi sem sýndi að hann bæri hagsmuni almennings fyrir brjósti, og léti afturhaldsöflin ekki stöðva sig. Hefði Árni valið þann kostinn er nokkuð ljóst að nánast enginn Samfylkingarþingmaður hefði treyst sér til að standa einn á víðavangi með það á samviskunni að vilja drepa stjórnarskrárfrumvarpið, og Árna hefði ekki orðið skotaskuld úr að tryggja það áður en í odda skærist. Við þær aðstæður er líka útilokað að stjórnarliðar meðal VG hefðu þorað að láta það verða sitt síðasta verk fyrir kosningar að bana nýrri stjórnarskrá.
En Árna virðist aldrei hafa dottið í hug að hann gæti tekið sér slíkt leiðtogahlutverk. Í staðinn hóf hann afskipti sín af málinu með því að ganga á fund formanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og segja þeim nánast að þeir mættu alveg ráða því hvernig þeir færu að því að murka lífið úr stjórnarskrármálinu; hann ætlaði bara að vera hlutlaus áhorfandi að morðinu.
Með þessu tiltæki reitti Árni til reiði mikinn fjölda þess fólks sem kosið hefur Samfylkinguna síðustu árin, en vandséð er að hann hafi í staðinn laðað til sín nokkra nýja kjósendur, enda finnst þeim fæstum ástæða til annars en að kjósa ómengaða útgáfu þess afturhalds sem Árna er svo í mun að ná „sáttum“ við.
Sé það markmið Samfylkingarinnar að vera stór flokkur með afgerandi áhrif í íslenskum stjórnmálum er ljóst að hún gerði hrikaleg mistök með því að kjósa Árna yfir sig sem formann (þótt eini valkosturinn í formannskjörinu hafi ekki heldur verið gæfulegur). Sé það markmið Samfylkingarinnar að vera krataflokkur að norrænni fyrirmynd (sem er ekki endilega djarfasta pólitíska hugmynd sem skotið hefur upp kollinum á Íslandi), þá er Árni á góðri leið með að breyta þeim draumi í martröð, því hans eina markmið virðist vera að verða hækja Sjálfstæðisflokksins, svo mjög sem hann hamrar á nauðsyn samninga við Sjálfstæðisforystuna, án þess að hafa nokkurn tíma minnst á hagsmuni þess almennings sem Samfylkingin hefur gert út á að vera málsvari fyrir. Það kom enda glöggt í ljós í löngu viðtali Ingva Hrafns við Árna Pál á ÍNN nýlega að Árni virðist hugsa um stjórnmál eingöngu sem samninga milli valdaklíkna í fjórflokknum, sem komi þessum almenningi lítið við.
Það er ýmislegt sem ég er ósáttur við í tillögu Stjórnlagaráðs. Ég er hins vegar mjög ánægður með vinnubrögð þess, og það er hægt að sætta sig við að vera í minnihluta þegar vinnubrögðin eru lýðræðisleg. Sama gildir um Samfylkinguna. Þótt ég myndi varla kjósa hana í bráð þá tæki ég því fagnandi ef á Íslandi yrði til það sem kalla mætti heiðarlegan krataflokk (með sterkri áherslu á „heiðarlegan“), enda myndi ég helst lýsa stjórnmálaskoðunum mínum sem svo að ég sé frjálslyndur félagshyggjumaður (með áherslu á frjálslyndi ef ég er að tala við „vinstrafólk“ og félagshyggju þegar ég tala við „hægrafólk“).
Núverandi formaður flokksins er hins vegar að leiða hann yfir í undirlægjuhlutverk gagnvart þeim sótsvörtu afturhaldsklíkum sem hafa drottnað yfir atvinnulífi og pólitík í landinu í áratugi. Verði formanninum ekki fljótlega fundinn annar staður í tilverunni má allt eins búast við að flokkurinn verði sundurtætt rekald í þeirri ólgu sem nú kraumar á Íslandi, og sem ekkert útlit er fyrir að lægi í bráð.
Frábær grein Einar. Mikið er ég sammál þér.
Saga Jafnaðarmanna á skerinu er ein sorgarsaga og núna heitir protogonistinn Árni Páll, Séð og Heyrt týpa, „tanned and Ray-Banned“.
Maður ar farinn að sakna Jóns Baldvins, jafvel blind fullan.
Teitur Atlason skrifaði eftirfarandi; „Það sem skilur jafnaðarmenn frá hægri mönnum er sagan og fyrirmyndirnar. Jafnaðarmenn „eiga“ Palme, Brandt og Ben Gurion en hægri menn „eiga“ Reagan, Thatcher og Pinochet. Jafnaðarmenn eiga frelsi, jafnrétti og bræðralag” en hægri menn eiga “frelsi einstaklingsins”, sem er eiginlega bara innantómur belgingur og skálkaskjól fyrir sérhagsmunagæslu eins og ótal dæmi sanna. Ólíkt hægri mönnum er það ekki markmið jafnaðarmanna að halda um valdataumana, heldur að skapa réttlátt og fagurt samfélag með jöfnum tækifærum fyrir alla“,
En íslenskir kratar hafa gleymt sínum pólitísku rótum, sem voru til og sterkar. Mín vegna má þessi svokallaða Samfylking (þvílíkt nafn!) fara til fjandans í næsti kosningum.
Við sem erum vinstrisinnaðir Social Democratar munum ekki sakna þeirra.
Einar minn þú miskilur Nýjafnaðarhyggjuna og „visionary“ hlutverk ÁPÁ fyrir gamla góða Íslandi.
Ágætis pistill, en hrikalega mótsagnakenndur. Sumir verða aldrei sáttir. Einar þú kallar þig „frjálslyndan félagshyggjumann“ og bíður um norrænan krataflokk í ætt við systurflokkana. Við þig segi ég: samningar og sættir og framsýni í stjórnarskrármálinu eru nauðsynlegir og einmitt eins og norrænir krataflokkar starfa. Þeir þvinga mál ekki í gegn með miklum látum og viðhafa góð og heiðarleg vinnubrögð. Þá er stanslaust verið að ýja að „brjóta upp það gegnrotna spillingarkerfi sem drottnað hefur yfir atvinnulífi og stjórnmálum landsins“ og þar hafi Samfylkingin lítið gert. Í fyrsta lagi eru hlutirnir ekki svona svart hvítir og ég spyr – hverjir heldur þú að kjósi? Mér sýnist vilji þjóðarinnar ekki benda til þess að þeir vilji breytingar á strúktur atvinnulífsins skv nýafstöðnum skoðanakönnunum. Þá var kannski ekki hægt að gera ALLT á fjögurra ára kjörtímabili, þar sem verkefnið var að koma ríkisfjármálum úr gjaldþroti. Vanþakklæti er mér efst í huga. Samfylkingin setti stjórnlagaráð af stað og er áfram um málið- en markmiðið að lokum er að ná fram nauðsynlegum stjórnarskrárbreytingum m.a. um auðlindir og annað. Af hverju helduru að það sé? Er það ekki einmitt til að koma í veg fyrir gróðastarfsemi einstaklinga um auðlindir landsins?
hér er búið að rétta af jöfnuð og koma á þrepaskiptu skattkerfi. Skrifa auðlindastefnu – að reyna að koma ESB aðildarumsókn í skjól svo það verði ekki rifið niðru áður en við fáum að kjósa – að vinna að nýrri peningarstefnu – auðlindastefnu – herða reglur á fjármagnsmarkaði, bæta eftirlit, setja af stað rannsóknarnefnd – sem skýrsla var svo framsýn að annað hafði ekki sést. Leggja á veiðigjaldið – reyna að setja gott frumvarp um fiskveiðistjórnum og ég veit ekki hversu lengi ég á að telja þetta upp, náttúruverndarlög, ný almannatryggingarlög o.s.frv.
Ástæðan fyrir að þetta hefst ekki – eru menn eins og þú Einar. Fólk sem á að vera í klappliðinu – en ekki aðstoða hina við sitt eina markmið – að rífa góð mál niður.
Aftur – vanþakklæti og óraunsæi er mér efst í huga.
Einar – svona hugsa svo margir og þess vegna virðist þjóðin oft ekki eiga annað en Framsókn skilið.
Frábær grein. Furðulegt að SF fólk skyldi kjósa ÁPÁ sem formann þegar þeir hafa í sínum röðum manneskju eins og Oddný Harðardóttur.
Árni er úlfur í sauðagæru og það versta er að hann fer ekki leiynt með það þótt kjósendur hans hafi ekk séð það.
Er hann ekki frekar sauður í sauðargæru?
@Eva
Ég held að það sem okkur sem kusum Samfylkinguna eða VG svíði allra
sárast svik þeirra við gefin loforð og vinstri/krata hugsjónina . Þjónukun þeirra við stórfyrirtæki og fjármálaheiminn er hreint beint ógeðfelld – næstum klámfengið rúnk við þjófa.
Vonandi er fólk ekki orðið svo rosalega dofið að það ætli sér að „verðlauna“ þetta lið með atkvæði sínu.
Eva Baldursdóttir: Mesta ógæfa íslenskra stjórnmála, ekki síst á vinstri vængnum, eru einmitt klappliðin. Klapplið klappa fyrir öllu, sama hvað liðið gerir eða gerir ekki.
Þegar þú talar um „samninga og sættir“ í stjórnarskrármálinu, þá er mörg hundruð sinnum búið að benda á að það ríkir gríðarleg sátt um málið. Meðal almennings (og ekki síst þeirra sem hafa kosið Samfylkinguna og VG). Árni Páll einblínir hins vegar á „sátt og samninga“ við forystu Sjálfstæðisflokksins. Flóknara er þetta ekki, og það sjá það allir núna. Meira að segja innan þingflokks Samfylkingarinnar er allt farið í bál og brand vegna framgöngu Árna.
Og talandi um hvað hafi verið gert á kjörtímabilinu þá er stjórnarskrármálið ekki einu svikin. Sama gildir um annað stórmál, kvótamálið.
Ég læt mér í léttu rúmi liggja að vera álitinn ábyrgur (meðal annarra) fyrir illu gengi „vinstriflokkanna“ í komandi kosningum. Þeir þurfa enga utanaðkomandi óvini til að kafkeyra sig þegar forysta þeirra er eins og raun ber vitni.
„Mesta ógæfa íslenskra stjórnmála, ekki síst á vinstri vængnum, eru einmitt klappliðin. Klapplið klappa fyrir öllu, sama hvað liðið gerir eða gerir ekki.“
Það er mikið til í þessu. Þetta er óþolandi. Og þetta, einmitt þetta sem þú nefnir þarna, Einar, er held ég ástæðan fyrir því að hér hefur aldrei náðst að hafa einn sterkan vinstri flokk þar sem inni eru allt frá róttækum sósíalistum til frjálslyndra jafnaðarmanna. Þannig flokkur hefur t.d. breski Verkamannaflokkurinn verið í gegnum árin – þó í dag hafi þeim fækkað ískyggilega þeim róttæku.
Hér „þurfa“ alltaf allir að hafa sömu skoðun, sama hve vitlaus hún er, skoðunina sem flokkurinn hefur ákveðið að sé skoðunin. Því er þetta innantóma klapp. Fyrir slíkum skoðunum er klappað. Sem auðvitað getur aldrei vitað á gott.
Aftur segi ég bara: Einar – þínum kröftum hefði verið betur varið í þátttöku við eitthvað sem þú virðist eða virtist hafa aðhyllst að eigin sögn í stað þess að vera í klappliði fyrir hitt liðið og skrifa fordómafulla pistla.
Ekkert þrífst á atvinnulífs – ekki velferð, heilbrigðis eða sterkt menntakerfi – róttækar breytingar verða ekki gerðar án þeirra samvinnu. Þetta vita norrænir jafnaðarmenn – og þeir hafa áttað sig á að við verðum að búa við mikla verðmætasköpun til að geta staðið undir öflugu, hámenntuðu nútímaþjóðfélagi.
Ef þú ert að tala um breytingar á grundvallar hugmyndafræði þá er það bara svo að samfélagið hefur færst nú til miðju frá því sem áður var. Árið 2007 vorum við útópía frjálslyndis og kapítalista – með engar takmarkanir á fjármagnsflutninga og flata skattprósentu. Svo lága fyrirtækjaskatta – að við vorum nánast skattaparadís. Skattkerfið þjónaði bara þeim sem höfðu háar tekjur.
Ég held þið þurfið bara öll að fara aðeins yfir það hvert við erum komin. Kannski var rangt að þykjast geta breytt öllu á 4 árum en það er bara því miður ekki hægt. Ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í vinnubrögðunum þá er það væntingarstjórnun og að halda að hægt væri að breyta öllu á fjórum árum OG að standa fyrir heiðarlegum samræðustjórnmálum. Og að leggja þær kröfur á Samfylkinguna eina – í stað þess að byrja bara á sjálfum sér – er fásinna.
Staðreyndin er að í lýðræðisríki þar sem er mikil krafa um samráð taka hlutirnir miklu lengri t´ma en að smella fingri ef maður vill þá vel gerða. Það veit fólk sem er ekki skyni skroppið – svo ég leyfi mér bara að vera á pari við þann hroka sem birtist í þínum skrifum Einar.
Þá er umboð ríkisstjórnar og þingmeirihluta sem samanlagt hefur á bilinu 20-30% fylgi þjóðarinnar til ýmissa verkefna ekki gott. Tökum sem dæmi þær breytingar sem Obama hefur reynt að gera á fjórum árum, eins og healtcare reform – sem hefur mætt mikilli andstöðu – hann hefur ekki náð næstum eins góðum árangri og þessi ríkisstjórn en fékk þó umboð til að halda áfram vegferðinni. Af hverju? Af því að það er ekki hægt að gera allt á fjórum árum.
Ég þekki þetta stjórnarskrármál býsna vel þó ég segi sjálf frá og er mjög áfram um það. En að leggja fram stjórnarskrárfrumvarp fyrst fullbúið og ætla að ræða það til fullnustu á 7 dögum þings – og svona 50 önnur frumvörp – er bara pardon my french bull og slæm vinnubrögð.
Ég er ekki í neinu klappliði – en ég er áfram um það að hér verði landinu stjórnað af raunsæi – ekki af einhverju skyndilausnaloforðum og þjónustu við kvótaeigendur. Meðan aðrir eru að ljúga um hábjartan dag upp í geðið á kjósendum.
Svo væri fínt ef einhver nefnir dæmi um það sem er þjónusta við fjármálakerfið og stórfyrirtæki. Hvað á það svo sem að vera?
Ef maður þekkir fjórflokkinn rétt átti stjórnarskrármálið alltaf að fara svona eins og það er að fara núna.
Eva: Ég sé nákvæmlega ekkert raunsætt við það að svíkja loforðin um kvótakerfið og stjórnarskrána. Það er margoft búið að svara þessum staðhæfingum um að það síðarnefnda hafi verið rætt allt of ĺitið. Auk þess er leikur einn að framlengja þingið um nokkrar vikur ef málið er að það ræði stjórnarskrána miklu meira. Staðhæfingarnar um að ekki sé hægt að stöðva málþóf eru ekkert annað en yfirlýsing um að hversu lítill minnihluti á þingi sem er geti stöðvað hvað sem er. Þetta er óþekkt í nágrannalöndunum enda í algerri andstöðu við allt lýðræði.
Stjórnarflokkunum hefði verið í lófa lagið að samþykkja stjórnarskrána á þessu þingi, ef hún hefði talið það mikilvægara en að ná „sátt“ við Sjálfstæðisflokkinn. Það er fáránlegt að ætla að koma á „heiðarlegum samræðustjórnmálum“ með því að ræða við forystu sjalla og framsóknar á kostnað þess að hlusta á vilja almennings. Slík „samræðustjórnmál“ eru að drepa Samfylkinguna akkúrat núna, og klikkað að kenna einhverjum öðrum um þær ófarir.
Varðandi fjármálakerfið og stórfyrirtækin, þá á t.d. að fara að samþykkja milljarða ríkissstuðning við stóriðjuver á Bakka, og útgerðarfyrirtækin raka saman ofsagróða sem ríkisstjórnin er hætt við að gera neitt í (Nei, auðlindagjaldið getur næsta ríkisstjórn lækkað niður úr öllu valdi). Auk þess ákvað ríkisstjórnin að gefa makrílkvóta sem var margra milljarða virði, Hitt er miklu alvarlegra að það hefur nákvæmlega ekkert verið gert til að breyta í grundvallaratriðum því fjármálakerfi sem við búum við. Þú veist, þessu sem hrunið varð til í. Enda hafa bankarnir grætt 250 milljarða frá hruni. Hverjir heldurðu að fái þann gróða?
Í stuttu máli: Stjórnarflokkarnir hafa ekkert gert til að breyta því gegnrotna (já) og gerspillta valdakerfi sem við búum við. Ekkert. Þeir vildu bara komast til valda innan þess. Þessir flokkar munu aldrei standa fyrir þeim framförum sem við þurfum á Íslandi. Þeir fengu frábært tækifæri, og þeir gerðu illilega í nytina sína.
FLokkinn átti að vera búið að banna fyrir löngu –
Alltaf er svolítið gaman að lesa greiningar þar sem skrifarinn veit minna en ekkert um innra starf þess sem hann skrifa um.
Veist þú meira um þetta „innra starf“ (umfram það sem birtist svo glögglega í „ytri fjölmiðlum“), Jón Ingi? Viltu þá kannski fræða okkur svolítið um það?
Flokkur sem hefur ekkert annað á stefnuskrá sinni en að sækja um aðild að ESB, en hefur beitt öllum brögðum til að forðast að taka til hér innanlands, hann veit ekki hvað snýr upp né niður, hvað þá hvað snýr til vinstri og hvað snýr til hægri. Hann spyr nú sem vegmóður vitfirringur: Er ég auli? Og honum og formanninum, núverandi sem fyrrverandi er svarað með bergmáli auli, aulí, ulí, líú.
Dæmigerð saga um sérhygli valdakratanna:
Til að koma Liðsstyrk samfylkingarmannsins Runólfs Ágústssonar á koppinn og að skipa hann þar forstjóra, þá varð að kasta 1600 manns út á guð og gaddinn um síðustu áramót. Runólfur á sé skrautlega fjármálasögu. Þannig mönnum er helst hampað af Samfylkingunni.
Liðsstyrkurinn fer nú allur í sjálfan sig, Runólf og innvígt og innmúrað tæknkratastóð og sérbakaða vínarbrauðsfundi þeirra. Úti eru hinir 1600 sem fórnarkostnaður fyrir makindalega froðu tæknikratanna. Samfylkingin er samsafn sérgóðrar og sjálfskammtandi og fégráðugrar sérhagsmunelítu í útvistuðum ríkisstofnunum í slagtogi með
einkafrjálsu ráðningarskrifstofunum, sem ríkið kostar, en kastar veslingunum á guð og gaddinn. Endalok Samfylkingarinnar verða í næstu kosningum.
Björt framtíð tapar svo gríninu yfir til sjóræningjanna.