Mánudagur 29.04.2013 - 12:51 - 17 ummæli

Lýðræði og 5% reglan

Þegar þingsætum er úthlutað til lista í hverju kjördæmi fyrir sig, þá er notuð regla D’Hondts.  Hún er tiltölulega einföld:
Fyrsti maður á tilteknum lista fær stig sem nema öllum atkvæðum listans, annar maður fær stig sem nema helmingi atkvæðanna, sá þriðji fær 1/3, og svo koll af kolli.  Þannig er sérhverjum frambjóðanda í kjördæminu úthlutað stigum, og svo er frambjóðendum raðað í þingsætin eftir þessum stigum, þar til búið er að úthluta öllum sætum.
Í núverandi kerfi eru 54 kjördæmakjörnir þingmenn, en jöfnunarsætunum níu er úthlutað með það fyrir augum að jafna eins og hægt er hlutfallslegan þingstyrk miðað við atkvæðafjölda hvers lista á landsvísu, enda er markmiðið að skipting þingsæta endurspegli sem best heildarskiptingu atkvæða.  Undantekningin er 5%-þröskuldurinn; framboð sem nær ekki 5% á landsvísu fær engin jöfnunarsæti.
Ef öllum þingsætunum 63 væri hins vegar úthlutað á grundvelli reglu D’Hondts, út frá atkvæðafjölda á landsvísu, og enginn væri þröskuldurinn, þá hefðu þingsæti skipst með eftirfarandi hætti í nýafstöðnum kosningum:
     18  D  Sjálfstæðisflokkur
     16  B  Framsókn
      8  S  Samfylking
      7  V  Vinstri Græn
      5  A  Björt Framtíð
      3  Þ  Píratar
      2  T  Dögun
      2  I  Flokkur heimilanna
      1  L  Lýðræðisvaktin
      1  G  Hægri Grænir
Regla D’Hondts hyglir listum með mörg atkvæði nokkuð.  Önnur regla, sem gerir það síður og sem sums staðar hefur verið notuð, er regla Sainte-Laguës.  Þar fær fyrsti maður á lista öll atkvæði listans, næsti maður 1/3 þeirra, þriðji maður 1/5, fjórði maður 1/7 og svo koll af kolli, og svo er sætum úthlutað með sama hætti og lýst er að ofan, eftir stigunum sem reiknuð eru hverjum frambjóðanda.  Ef þessi aðferð hefði verið notuð með sama hætti og í dæminu hér að ofan hefði útkoman orðið þessi:
     17  D  Sjálfstæðisflokkur
     15  B  Framsókn
      8  S  Samfylking
      7  V  Vinstri Græn
      5  A  Björt Framtíð
      3  Þ  Píratar
      2  T  Dögun
      2  I  Flokkur heimilanna
      2  L  Lýðræðisvaktin
      1  G  Hægri Grænir
      1  J  Regnboginn
Það er ekki hægt með einföldum hætti að úrskurða hver sé réttlátasta reglan hér (það er hægt að hugsa sé ýmsar fleiri aðferðir en þessar tvær), en það má t.d. spyrja hversu mörg atkvæði séu að meðaltali á bak við hvern þingmann tiltekins lista.  Í fyrra dæminu hér að ofan eru neðstu listarnir tveir, Lýðræðisvaktin og Hægri Grænir, með fleiri atkvæði á bak við þingmenn sína en nokkur hinna listanna.  Í síðara dæminu er Regnboginn hins vegar með umtalvert færri atkvæði á bak við sinn þingmann en nokkur hinna listanna; þau eru bara 2021, en næstlægsta meðaltalið (hjá Lýðræðisvaktinni) er 2329.
Einhvern tíma seinna langar mig að fjalla svolítið um hversu (ó)lýðræðisleg 5% reglan er (og hversu fáránleg mér finnast rökin fyrir henni, miðað við skilvirkni þings og ríkisstjórna síðustu áratugina, ekki síst ef miðað er við skilvirkni Stjórnlagaráðs).  Í bili læt ég nægja að segja að mér finnst hræðilega ólýðræðislegt að allt það fólk sem kaus framboð sem ekki náðu inn á þing fái enga fulltrúa þar, í staðinn fyrir þá að minnsta kosti sex þingmenn sem hefðu átt að fást fyrir þessi atkvæði, samkvæmt fyrra dæminu hér að ofan, ef séð væri til þess að atkvæði allra kjósenda vægju jafnt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Ertu ekki að hengja bakara fyrir smið? Það er kjördæmaskiptingin en ekki blessuð 5% reglan sem er að hafa áhrif. Ef ekki kæmi til hennar hefðu t.d. pírtar ekki náð manni á þing.

  • Viktor Orri Valgarðsson

    Góð grein! Afrita hér ummæli mín af Facebook:

    Góð og einföld skýring á kosningakerfinu okkar og göllum þess hjá Einar Steingrimsson. Hvað hlutfallskerfi varðar er það rétt að Sainte-Laguë kerfið endurspeglar atkvæðafjölda yfirleitt betur og hyglir stórumm flokkum síður en d’hondt.

    Eins og Einar bendir á getur það kerfi þó hyglt litlum flokkum óþarflega mikið; til að bregðast við því hafa Norðmenn, Svíar og Nepalbúar (jebb) víst notast við „Adjusted Sainte-Laguë“ kosningakerfi sem deilir fyrsta sætinu í 1,4 í stað 1 (þá eiga oddvitar smærri lista ekki alveg jafn létt með að komast yfir smærri spámenn stærri lista)…

    Að mínu viti er það (eða enn aðlagaðari regla – allt eftir því hvað endurspeglar oftast atkvæðafjöldan best) því eðlilegasta og lýðræðislegasta hlutfallskerfið – og auðvitað burt með þennan fokkings þröskuld og misvægi atkvæði eftir kjördæmum 😉

    Til að aðlaga það kerfi að einstaklingskjöri eða blönduðu lista/einstaklingskjöri er síðan lítið mál að færa einstaklingum þessi sömu stig eftir því í hvaða sæti kjósendur merkja við þá, alveg eins og við gerðum í Stúdentaráð Háskóla Íslands í fyrsta sinn núna í vor 🙂

  • Hans Haraldsson

    Er það markmið í sjálfu sér að koma manni á þing?

    Ég myndi halda að þeir sem eru svo miklir smákóngar að þeir geta ekki verið í 5% flokki myndu ekki hafa mikil áhrif innan eða utan þings – þ.e.a.s ekki þau áhirf að koma fram sínum stefnumálum. Kraðak smáflokka á þingi gæti hinsvegar haft þau áhrif að framkalla ítalskt ástand.

  • Hans Haraldsson

    Leiðrétt:“…innan frekar en utan þings“.

  • Haldið þið í alvörunni að það væri betra að hafa 11 flokka á 63 fulltrúa þingi?

  • Einar Steingrimsson

    TómasHa: Greinilega hef ég ekki verið nógu skýrmæltur, því það er rétt að til að fá þessi úrslit sem ég nefndi dæmi um þarf yfirleitt fleiri jöfnunarsæti en þau níu sem nú eru raunin, og útreikningar mínir byggjast á þeirri forsendu að ekki sé neitt kjördæmakjör, eða a.m.k. að það séu nógu mörg jöfnunarsæti til að fá rétta skiptingu þingsæta miðað við atkvæðafjölda á landsvísu.

  • Einar Steingrimsson

    Einar Karl: Ég held í alvörunni að það væri betra að öll atkvæði hefðu jafnt vægi, þegar kemur að úthlutun þingsæta.

    Og, heldurðu í alvörunni að starf þingsins geti orðið mikið verra og óskilvirkara en það var á síðasta kjörtímabili, ef fjór/fimmflokkurinn missti nokkur sæti til minni framboðanna?

  • Já.

    Ég held að starf þingsins hefði alveg geta verið verra en á síðasta kjörtímabili. Þar með er ég ekki að gefa þinginu neina toppeinkunn, en já, starfið hefði getað verið verra. Að mínu mati gerði fráfarandi ríkisstjórn og þingmeirihluti mjög margt gott. Því eru fjölmargir erlendir álitsgjafar og blaðamenn sammála.

    Ég er ekki sannfærðum um að það sé endilega betra að hleypa að 1-2 manna framboðum. Það hefur auðvitað kosti, en líka galla.

    Þar fyrir utan, þó svo við tökum alveg í burtu 5% þröskuldinn þá er ekki þar með sagt að lítil (2-5% fylgis) framboð nái inn þingmönnum, meðan við höfum kjördæmi.

  • Gunnar Ari

    Hef aldrei skilið rökstuðningin fyrir þessari reglu

    Mér fynnst það ríflegt og ofbeldisfullt brot á annsi mörgum – ef af 1.58.. prósent kosningabæra manna er hrifsuð sú eina rödd sem þeir treysta best.

    Þá er skárra að leyfa þeim að halda sínum eina talsmanni.

    Sérstaklega þar sem þetta gerist ávallt og reglulega.

    Ég hef ekki , né mun nokkurn tímann kjósa fjórflokkinn , og þar afleiðandi hefur verið og mun allt mitt líf vera sérstaklega brotið á mínum lýðræðislega rétt.

    við sjáum að núna var rétt yfir 80% kjörsókn, og af þeim atvkæðum féllu yfir 10% dauð… sem þýðir bara í grófum dráttum að þessar kosningar voru ekki sérlega lýðræðislegar.

    Ég hef síðan aldrei séð neinn sem ekki er flokksbundin fjórflokknum mæra þessa reglu… einungis slíkir cult meðlimir sjá eitthvað gott við hana eftir því sem ég best sé

  • Þeir sem halda að algjört þröskuldaleysi sé hin fullkomna lausn á lýðræðinu ættu að kynna sér stjórnmálasögu ítalíu, en lýðveldistíminn allan seinni helming 20. aldar einkenndist af mikill flokkaflóru á landsþinginu og veikburða samsteypustjórnum margra flokka sem oftar en ekki entust ekki nema 1-2 ár.

  • PS
    Ég er ekki flokksbundinn neinum flokki.

  • Einar Steingrimsson

    Einar Karl: Ég tel ekki að þröskuldsleysið sé einhver stórkostleg lausn á vanda lýðræðisins. Mér finnst bara rangt, af grundvallarástæðum, að ætla að láta skoðanir fólks á því hvað sé gott fyrir auðveldar sjótrnarmyndanir svipta aðra réttinum til að eiga fulltrúa.

    Svo finnst mér þessi fylgni sem þú bendir á í tilfelli Ítalíu afar vafasöm „röksemd“. Enginn hefur hér sýnt fram á neitt orsakasamband, hvað þá að sé í tíltekna átt. Það er reyndar segin saga að öllum tillögum um nýjungar í lýðræðiskerfinu er mætt með fullyrðingum af svipuðu tagi, sem ekki styðjast við neina teljandi reynslu, enda er oft um að ræða hluti sem ekki hafa verið reyndir áður. Gott dæmi um þetta er Stjórnlagaráð og kosningin til þess. Margir hafa allt á hornum sér varðandi það, en gríðarlegur meirihluti þjóðarinnar er sammála tillögum þess. Er hægt að læra eitthvað af því?

    Og þegar samanburðurinn á milli skilvirkni Stjórnlagaráðs og Alþingis er eins og hann er, af hverju ekki að prófa Stjórnlagaráðsaðferðina á þingi?

  • Einar Steingrimsson

    Annað sem er afleitt við 5% þröskuldinn er að hann er líklegur til að letja fólk frá því að kjósa framboð sem mælast aðeins undir honum í könnunum. Það eru afar ólýðræðisleg áhrif á það hverja fólk getur valið sem sína fulltrúa.

  • Gunnar Ari

    Tek undir það sem Einar segir… að telja fram Ítalíu segir afskaplega lítið… við vitum vel að mafíustarfsemi og spilling er alltof mikil þar til þess að hægt sé að tala um þeirra lýðræði sem einhverja hreina tilraun sem allt annað má miða útfrá.

    Það eru engin sterk rök fyrir 5% reglunni… hún er hönnuð af flokksmeðlimum, fyrir flokksmeðlimi. (og mögulega „óháða“ verndara þeirra fjórra flokka)

  • Þorsteinn Egilson

    Frábært innlegg. Bæði er 5% reglan ranglát og ólýðræðisleg, ekki sízt hvernig hún skekkir kosninguna með áhrifum skoðanakannana. Hitt getur svo einnig verið að hún hafi áhrif við skoðanakannanir (?)

  • Sko, ég er enginn harður fylgismaður þessa 5% þröskuldar, en mér finnst hérna ansi margir tala eins og þetta sé alveg hreint og klárt að þröskuldaleysi væri miklu betra, og að þetta sé eintóm mannvonska að þessi regla skuli vera í gildi.

    Svona svipaðar reglur um lágmarksþröskulda eru víða. Í Svíþjóð er þröskuldurinn 4% á landsvísu til að fá inn mann þing (þeir eru með 349 þingmenn) sem þýir að þingflokur telur lágmark 14 manns. (Nema þú fáir meira en 12% í einu kjördæmi.) Í Þýskalandi er 5% þröskuldur. Í Noregi er 4% þröskuldur til að geta fengið jöfnunarsæti.

    Svo þetta er langt í frá einhver sér-íslensk uppfinning. Margar þjóðir sjá ekki hag í því að fylla þjóðing af pínulitlum flokkum og flokksbrotum, oft með jaðar- eða öfgaskoðanir, sem svo geta lent í odda-aðstöðu.

  • Gunnar Ari

    Það er engin ábyrgð fyrir því að þröskuldarleysi væri alltaf miklu betra – alveg örugglega ætti einhverntímann eftir að koma fyrir kjörtímabil þar sem það gæti haft vond áhrif.

    En þetta er engu að síður mikil mismunun og stuðull að því frændhyglis þjóðfélagi sem hér hefur skapast.

    Íslenskir flokkar eru meira en lítið líkir sértrúarsöfnuðum… Fólk er bókstaflega alið uppí þessu eins og trúarbragði, og þeir sem eru það ekki eiga yfirleitt mikið erfiðara uppdráttar en þeir sem lúta frændhyglinni – og þurfa að tileinka sér einstrengislegar, og oft furðulegar hugmyndir söfnuðarins til að ná eitthvað áfram.

    það er síðan alls ekki lítill hópur sem gæti aldrei (eða sjaldan) hugsað sér að kjósa þessa söfnuði, og margir sem kjósa úllen dúllen doff, bara til að kjósa — Með því að hafa 5% reglu er verið að mismuna þeim hópi af fólki, allt sitt líf.

    Á íslandi er algjörlega borðleggjandi að 5% reglan er samtrygging þessara sértrúarsöfnuða, sem hjálpar þeim að draga kraftin úr, og berja niður ný öfl.

    Ég persónulega held að ástæðan fyrir þeim kjánalegum þingsköpum sem hefð er fyrir á þing, sé að sérviska fjögurra trúarhópa hefur verið einangruð þar inni , ekki sýst útaf umtalaðri reglu

    Að svipaðar hefðir hafi skapast annarstaðar en hér á sama tíma segir ekkert til um ágæti þeirra. Rök segja til um ágæti hefða… og öll sanngirnisrök mæla gegn 5% reglunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur