Ég hef fjallað í nokkrum pistlum um íslenska háskólakerfið, þar sem er víða pottur brotinn. Síðasti pistillinn er hér, en fleiri hér og hér. Ég hef fyrst og fremst fjallað um Háskóla Íslands, af því að hann er um 75% háskólakerfisins að umfangi, og 90% af ríkisháskólakerfinu. Margt af því sem ég hef gagnrýnt á einnig við um Háskólann í Reykjavík (sem er með um 15% háskólanema landsins), svo sem glæsilega orðuð stefna sem er í raun lygi miðað við gerðirnar, og allt of litlar kröfur til akademískra starfsmanna í sumum deildum. En, af því að meðferð rannsóknafjár í HR er með öðrum hætti en í ríkisháskólunum hef ég haldið HR utan við þessa umfjöllun enn sem komið er, hvað sem síðar verður.
Kjarni vandans í HÍ (og öðrum ríkisháskólum, sem ég ætla ekki að nefna sérstaklega) er að gríðarlega stór hluti þess fjár sem eyrnamerkt er rannsóknum fer í laun til akademískra starfsmanna sem annað hvort hafa aldrei stundað neitt sem hægt er að kalla rannsóknir, eða þá að rannsóknirnar eru svo lélegar að ekki er reynt að birta þær þar sem slíkar rannsóknir eiga heima, á ritrýndum alþjóðavettvangi. Þessi misnotkun á fé er þó afar ólík eftir fræðasviðum HÍ. Á öllum sviðum skólans (og í öllum litlu háskólunum) má finna fólk sem er greinilega virkt á fræðasviði sínu, og sumt stendur jafnvel framarlega í því alþjóðasamfélagi sem vísindastarf er. Á öllum sviðum er líka til fólk sem aldrei hefði átt að fá fastráðningu í akademískar stöður, hvað þá prófessorsstöður, af því að það hefur aldrei lagt neitt af mörkum í rannsóknum. Að þessu sögðu er hins vegar athyglisvert að skoða þær tölur sem HÍ birtir á netinu.
Hí skiptist í fimm fræðasvið, Félagsvísindi, Heilbrigðisvísindi, Hugvísindi, Menntavísindi og Verkfræði- og Náttúruvísindi. Hér má sjá fjölda fastráðinna akademískra starfsmanna (lektora, dósenta og prófessora, sem allir fá helming launa sinna greiddan fyrir rannsóknir) árið 2012, og hér er heildarfjöldi birtinga starfsmanna hvers sviðs sama ár í svokölluðum ISI-tímaritum, en það eru tímarit sem finna má í einum víðtækasta alþjóðlega gagnagrunninum yfir greinar birtar í ritrýndum fræðiritum. Ég hef áður fjallað ítarlega um það af hverju birtingar fræðigreina á íslensku eru nánast aldrei framlag til viðkomandi fræðasviðs (því nánast öll fræðasvið eru alþjóðleg í eðli sínu og fræðafólki ber að birta niðurstöður sínar þeim sem starfa á sviðinu).
Hér er tafla með þessum upplýsingum, ásamt meðalfjölda birtra greina á hvern starfsmann:
[tafla head=“1″]
Svið | Starfsmenn | Greinar | Meðaltal
Verkfræði- og Náttúruvísindi | 109 | 345 | 3.17
Heilbrigðisvísindi | 187 | 330 | 1.76
Félagsvísindi | 116 | 33 | 0.28
Hugvísindi | 105 | 19 | 0.18
Menntavísindi | 127 | 18 | 0.14
[/tafla]
Hér eru þessar upplýsingar á myndrænu formi.
Ef meta á gæði einstakra akademískra starfsmanna er alls ekki nóg að skoða fjölda birtinga, þótt engar birtingar á löngum tíma (eins og er algengt t.d. á Menntavísindasviði) bendi auðvitað til þess að viðkomandi sé ekki virkur í fræðastarfi. Það er líka ljóst að birtingatíðni er mjög misjöfn eftir sviðum, og jafnvel innan sviða og einstakra greina. Það er hins vegar líka ljóst að birtingatíðni í sæmilegum erlendum háskólum í félags- og menntavísindum er ekki margfalt minni en í náttúru- og heilbrigðisvísindum, þótt einhverju muni. Það er t.d. alveg ljóst að birtingatíðni á alþjóðavettvangi í menntavísindum er miklu meiri en einn tuttugasti af því sem gerist í náttúrurvísindum, en þannig er staðan við HÍ. Og alþjóðleg birtingatíðni í félagsvísindum er miklu meiri en einn tíundi af tíðninni í náttúruvísindum.
Ef ætti að gera svona úttekt nákvæma, svo hún segði hvert frávikið í birtingatíðni við HÍ er frá alþjóðlegu meðaltali á hverju sviði, í þeim skólum sem HÍ vill bera sig saman við, þá þyrfti að taka tillit til ýmissa þátta sem ekki verður gert hér. Það er líka mikilvægt að átta sig á að birtingatíðni segir ekki mikið um gæði einstakra starfsmanna (því magn er alls ekki sama og gæði). En það er hins vegar ljóst að þegar um heilan háskóla er að ræða, með yfir hundrað starfsmenn á hverju sviði, þá segir samanburður á birtingartíðni sína sögu.
Það dylst engum sem skoðar þessar tölur að afrakstur þess fræðastarfs sem fram fer á Félagsvísindasviði, Menntavísindasviði og Hugvísindasviði HÍ er fáránlega litill, í ljósi þess að allir akademískir starfsmenn hafa haft 40% af launum sínum fyrir að stunda rannsóknir, og yfirlýst markmið skólans er að komast í hóp bestu háskóla í heimi.
Það er annars vegar sóun að borga fjölda akademískra starfsmanna laun fyrir vinnu sem þeir ráða ekki við, og hins vegar að nota ekki það fé sem skólinn hefur til rannsókna til að byggja upp rannsóknir á þeim sviðum þar sem það er hægt.
Ein lausn á þessum vanda væri að endurskipuleggja háskólakerfið frá grunni (eins og fyrri menntamálaráðherra talaði um að gera þyrfti, en heyktist á). Brýnast er að veita rannsóknafé til þeirra sem geta notað það í góðar rannsóknir. Hitt er líka mikilvægt að á þeim sviðum þar sem litlar eða engar rannsóknir fara fram séu akademískir starfsmenn einfaldlega ráðnir til að kenna í fullu starfi, og látnir njóta verðleika sinna í því starfi, í stað þess að leggja á þá mælikvarða vísindastarfs sem þeir sinna ekki. Í þessari álitsgerð eru tillögur um uppskiptingu háskólakerfisins í kennslu- og rannsóknaskóla. Hvort einhver menntamálaráðherra í fyrirsjáanlegri framtíð verður nógu kjarkaður til að reyna að láta endurskipuleggja háskólakerfið, og hvort slík tilraun kæmist í gegnum allar nauðsynlegar valdaklíkur til að hljóta samþykki þingsins, er hins vegar hæpið. Svo mikið er víst að núverandi forysta HÍ mun ekki beita sér fyrir teljandi úrbótum …
Til að laga svona, þarf kjark,—– mikinn kjark.
Hryggilegast er þó, að margir vita þetta, líkt og með Grunnskólann en menn þora ekki að lagfæra grunninn, þannig mun byggingin auðvitað hrynja.
Hef verið að hugleiða, hvort útþynningin á kröfum, sem viðgengist hefur um of lant skeið í grunn og framhaldsskólum, hafi smitast upp í efstu lög menntastofnana okkar líkt og húsasótt?
Við þorum ekki að gaumgæfa kerfið, af hræðslu við, að komast að því, að keisarinn er klæðalaus.
Þakka vel fyrir þessar greinar þínar, þær eru afar upplýsandi.
Án þess að ég ætli að fara í sérstaka vörn fyrir Háskóla Íslands vil ég benda á að ISI-birtingar eru ekki eini mælikvarðinn sem hægt er að nota. Það er vel þekkt að það er mikil náttúru- og heilbrigðisvísindaslagsíða á þeim kvarða, einfaldlega vegna þess að mjög mörg tímarit (misgóð, vissulega, en mörg góð) á öðrum sviðum eru ekki skráð í ISI. Það má svo skoða (og deila um) hvernig á því standi. En punkturinn er sá að ég held að a.m.k. Hugvísindasvið HÍ, sem ég þekki best, standi ekki verr í svona samanburði en sambærileg svið í erlendum skólum. Ég sá tölur um þetta fyrir nokkrum árum en finn þær ekki í fljótu bragði.
Það er rétt, Eiríkur, að í sumum greinum Hugvísindasviðs er birtingarhefðin á alþjóðavettvangi öðru vísi en á öðrum sviðum. Og það er líka rétt að það eru gloppur í ISI-kerfinu. Það er líka auðvelt að sjá, með því að skoða einstaklinga, að á Hugvísindasviði er talsvert af öflugu fólki. Það má því vera að þessi samanburður sé ekki alveg réttlátur gagnvart því.
Eftir stendur að á Félagsvísindasviði, og enn frekar á Menntavísindasviði, er staðan mjög vond. Og þá er rétt að endurtaka enn einu sinni að á þessum sviðum er samt til fólk sem virðist öflugt á alþjóðavettvangi. Það fólk er bara fátt á þessum sviðum, og hitt afar margt sem ekki leggur neitt af mörkum á sínu fræðasviði.
Slagsíðan sem Eiríkur nefnir hefur reyndar verið leiðrétt í HÍ með svokölluðum ERIH lista (góð ekki ISI rit). Ég er hinsvegar hræddur um að tölurnar sem Einar fer yfir breytist lítið þó það yrði tekið inn.
Ég veit að HÍ notar ERIH-listann en tölur Einars eiga eingöngu við ISI-rit og ég var bara að svara honum. Ég er nokkuð viss um að tölurnar breytast ef ERIH er haft með, en hversu mikið veit ég ekki. Aðalpunkturinn hjá Einari, sem ég var að bregðast við, er hins vegar sá að hlutfallslegur munur milli sviða í HÍ sé meiri en annars staðar. Það er ég alls ekkert viss um, og a.m.k. birtir Einar engar tölur því til sönnunar.
Gefum okkur nú (af því að ég hef engar tölur frekar en Einar) að hlutfallið milli sviða sé svipað í HÍ og í erlendum háskólum. Þá eru á því tvær hugsanlegar skýringar. Önnur er sú að háskólakennarar á tilteknum sviðum séu almennt minni vísindamenn en kennarar á öðrum sviðum. Hin hugsanlega skýringin væri sú að kvarðinn væri rangur og mismunaði sviðum.
Ef það er hins vegar rétt hjá Einari (sem hann sýnir ekki tölur um) að hlutfallslegur munur milli sviða sé mun meiri í HÍ en annars staðar þá er það vitanlega alvarlegt mál sem þarf að skoða betur og bregðast við.
Ég er ekkert ósammála þér Eiríkur.
Vandamálið held ég að sé reyndar þvert á sviðin, þ.e.a.s. hátt hlutfall starfsmanna sem stundar (nánast) engar rannsóknir.
Ég er nú eiginlega á því að við ættum að forðast það í lengstu lög að reyna að magngreina gæði rannsókna með fjölda greina. Það fólk sem ég vann með í Cambridge, kannski með tuttugu manns undir sér hefði ekki endilega skorað hátt á þessum lista af því að við stundum tilraunavísindi unnin á rannsóknarstofu, og svo að markið var sett hátt, að birta í bestu ritunum. Það tekur lengri tíma, en gæðin eru á allt öðrum standard.
Háskólinn sjálfur gerir þessi reginmistök, að reyna að magngreina rannsóknir út frá fjölda birtra greina og tengi gersamlega allt við það, frá launum fólks yfir í doktorsnemastyrki til akademískra starfmanna. Maður er hissa á því að það sé ekki raðað í matarröðina á árshátíðinni eftir þessu punktakerfi, svo rosalega er það misnotað.
Úr þessu verður eitthvað ótrúlegt meðalmoð þar sem fólki er verðlaunað dyggilega fyrir magn en ekki gæði, og einnig verðlaunað fyrir það að stunda ekki samvinnu af því að þú færð færri punkta með auknum fjölda meðhöfunda.
Erna: Ég er alveg sammála þér, enda hef ég eytt miklu púðri í að telja ungt vísindafólk af því að framleiða margar ómerkilegar greinar, til þess að reyna frekar að gera eitthvað verulega gott. 🙂
Og það er sannarlega rétt að stigakerfi HÍ verðlaunar beinlínis framleiðslu á rusli, þ.e.a.s. nauðaómerkilegum greinum sem er auðvelt að framleiða og fá birtar jafnvel í „viðurkenndum“ tímaritum fyrir þá sem geta yfirleitt nokkurn skapaðan hlut.
Það sem ég er að benda á hér er hins vegar að þegar stórir hópar akademískra starfsmanna skila engum birtingum, þá er auljóslega eitthvað mikið að.
stutt spurning: hvar færðu þessar tölur?
Freyja: Tölurnar eru hér:
http://www.hi.is/sites/default/files/starfsmenn_2012_0.xlsx
http://www.hi.is/adalvefur/fjoldi_greina_i_isi_timaritum
(Eins og fram kemur í pistlinum :))
Ég hef ýmislegt við samanburðarfræði Einars að athuga og birti í svargrein á Hugrás.is:
http://www.hugras.is/2013/10/logid-med-tolum-um-krossferd-einars-steingrimssonar/
Einar, ástæðan fyrir því að ég spurði er að ég get ekki opnað fyrri tengilinn, þennan með starfsmönnunum sem þú segir vera lektora, dósenta og prófessora.
Inni í tölum yfir birtingar hvers sviðs eru t.d. birtingar Raunvísindastofnunnar þar sem sérfræðingar, fræðimenn og vísindamenn eru í fullu starfi við rannsóknir en eru ekki lektorar, dósentar eða prófessorar. Þar eru líka nemar (meistara og doktors) sem væntanlega birta í nafni sviðsins. Einnig eru ýmsir starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar með einhvers konar gestaprófessorastöður í ýmsum deildum svo þeirra birtingar eru taldar með sbr. http://www.frettatiminn.is/frettir/montinn_ad_eiga_thatt_i_frabaerum_arangri_hi
Ég veit ekki hversu miklu þessar tölur breyta eða hvort þú ert búinn að taka þetta með í reikninginn. Það væri líka eðlilegt að taka með þær birtingar sem komast í ERIH gagnagrunninn en ég get ekki séð að HÍ birti upplýsingar um þetta.