Föstudagur 29.11.2013 - 11:29 - 10 ummæli

Að mismuna börnum

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu í gær.

———————————————————————

Að mismuna börnum

Árið 1896 féll dómur í Hæstarétti Bandaríkjanna í málinu Plessy gegn Ferguson, sem er eitt af þekktustu málum bandarískrar lögfræðisögu. Ekki síður þekkt er sú hugmynd sem birtist í dómnum og hlaut nafngiftina „separate but equal“, en það gæti á íslensku útlagst sem „aðskilin en jöfn“. Hér er vísað í þá niðurstöðu réttarins að í lagi sé að skilja að fólk eftir kynþætti, að því tilskildu að aðbúnaður beggja sé jafn.

Þetta voru lög í landinu í rúma hálfa öld, þar til þeim var hnekkt í málinu Brown gegn Board of Education árið 1954, sem er ekki síður þekkt en Plessy, enda er síðari úrskurðurinn grundvallaratriði í bandarískum rétti fram á þennan dag. Í honum er því lýst yfir að aðskilnaður á grundvelli kynþáttar feli sjálfkrafa í sér ólögmæta mismunun.

Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hélt nýlega ræðu á kirkjuþingi, þar sem hún talaði um andstöðuna við trúboð ríkiskirkjunnar í grunnskólum, og hélt því m.a. fram að andstæðingarnir vildu „forða börnunum okkar frá boðskap um…kærleika“. Sóðalegar dylgjur af þessu tagi, sem eru í raun hrein lygi, hefðu í flestum nágrannalöndum okkar trúlega leitt til þess að ráðherrann hefði þurft að biðjast afsökunar á orðum sínum, eða segja af sér. Svo er ekki á Íslandi, enda ríkja þar óþroskaðar hugmyndir um siðferði og ábyrgð stjórnmálafólks.

Fáum hefði brugðið ef ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Stephensen, hefði bent kurteislega á að rakalausar svívirðingar af þessu tagi væru hvorki sæmandi ráðherra né líklegar til að vinna fylgi þeirri ríkiskirkju sem hann styður greinilega, miðað við fyrri skrif hans. Hann kaus í staðinn að verja, í nýlegum leiðara, framgöngu Hönnu Birnu, og reyndi að breiða yfir ofstækið sem felst í staðhæfingum hennar. Ólafur virðist vera á þeirri skoðun að nóg sé „að tryggja að börn foreldra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða engin þyrftu ekki að taka þátt í hefðum eða athöfnum sem væru þeim á móti skapi“ og á þar við athafnir í skólum sem tengjast boðskap ríkiskirkjunnar.

Það eru næstum sextíu ár síðan hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úr um að aðskilnaður á grundvelli kynþátta bryti gegn þeim mannréttindum sem bandaríska stjórnarskráin tryggði borgurum landsins, af því að slíkur aðskilnaður fæli sjálfkrafa í sér misrétti. Innanríkisráðherra, og ritstjóri Fréttablaðsins, telja hins vegar, enn þann dag í dag, í lagi að börn séu aðskilin í skólastarfi, á grundvelli lífsskoðana foreldra þeirra.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • @Einar Steingrímsson:

    ,,Það eru næstum sextíu ár síðan hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úr um að aðskilnaður á grundvelli kynþátta bryti gegn þeim mannréttindum sem bandaríska stjórnarskráin tryggði borgurum landsins, af því að slíkur aðskilnaður fæli sjálfkrafa í sér misrétti. Innanríkisráðherra, og ritstjóri Fréttablaðsins, telja hins vegar, enn þann dag í dag, í lagi að börn séu aðskilin í skólastarfi, á grundvelli lífsskoðana foreldra þeirra.“

    Nja … sá er munurinn að engum er bannað og enginn er skyldaður til þess að meðtaka ,,boðskap um kærleika“ í skólanum.

    Nema ég, foreldrið, ákveði á grundvelli lífsskoðanna minna, að banna það börnunum mínum, eða skylda þau til þess.

    Ef það felur sjálfkrafa í sér misrétti ætti ég kannski að hugsa minn gang.

    Það kemur innanríkisráðherra og ritstjóra fréttablaðsins lítið við.

    • Á Íslandi er skólaskylda ekki bara námskylda eins og í sumum öðrum löndum (t.d. Danmörku). Það þýðir að foreldrum og forráðaönnum barna ber skv. lögum skylda til að senda börn í skóla á aldrinum 6-15 ára.

      Foreldrar ættu að geta treyst því að börnin þeirra, sem lögum skv. eiga að sækja skóla fái þar almenna menntun, m.a um trúarbrögð, sbr námskrá, en ekki sé verið að boða þar einhver tiltekin trúarbrögð.

      Það eru ekki allar fjölskyldur í landinu í trúfélagi, hvað þá að þær aðhyllist allar sömu trú eða lífskoðanir. Það er alveg óverjandi að börn sem sækja opinbera skóla, séu neydd til að sitja undir bænahaldi eða a öðrum kosti séu látin víkja afsíðis meðan samnemendur þeirra stunda helgihald í skólatíma. Það er punkturinn hjá Einari – í því felst mannréttindabrotið, þ.e. að setja börn í þá stöðu að vera hornreka vegna þess að ákveðinn þrýstihópur (t.d. þjóðkirkjufólk) krefst þess í krafti fjöldans að hans trúarbrögð séu iðkuð innan veggja skólans.

      Hlutverk skóla er að mennta nemendur, en ekki boða ákveðna trú, svo sem með bænahaldi eða öðrum trúarathöfnum á skólatíma. Er þetta umdeilt? Er til of mikils mælst að vitsmunalega varnarlaust barn njóti verndar gagnvart trúarlegri innrætingu meðan það sækir skóla?

      Trúuðu fólki stendur til boða að sækja helgiathafnir hjá sínu trúfélagi og senda börn sín í barnastarf síns trúfélags. Íslenskt þjóðkirkjufólk nýtur meira að segja þeirra forréttinda að allir skattgreiðendur óháð lífskoðunum greiða rekstur þeirra trúfélags og laun presta.

  • Einar Steingrímsson

    Það er nógu slæmt, og ætti að vera stjórnarskrárbrot að mínu viti, að skólinn láti nota sig fyrir trúboð gagnvart börnunum.

    Að setja börn í þá stöðu að vera stíað frá öðrum börnum í skóla sínum, og skilin útundan, af því að foreldrar þeirra vilja hugsanlega ekki að þau taki þátt í slíku, finnst mér vera grimmdarlegt.

    Og ég skil ekki hvernig sæmilegt fólk getur fengið af sér að styðja slík grimmdarverk, eða yppt öxlum yfir þeim.

  • Hmm … ætli ég sé þá nokkuð að setja þau í þá stöðu að vera stíað frá öðrum börnum og skilin útundan.

    Ég ræð því sjálfur enda er ég umsjónarkennarinn og yfirkennarinn í lífi þeirra.

    Ekki er öll vitleysan eins og oft hlæ ég hástöfum að vitleysunni sem þau heyra í skólanum.

    Og leiðrétti hana svo.

  • Vandamálið við þetta er að börnin eru neydd í stöðu þar sem þeim er stíað frá félögum sínum, með áberandi hætti. Þau taka ekki þessa ákvörðun sjálf, en þurfa að líða fyrir hana. Skólinn á ekki að setja börnin í þá stöðu.

    Það ætti að gilda sú grundvallarregla að skólinn standi ekki fyrir neinni starfsemi þar sem þetta getur komið upp, því hann á að vera fyrir öll börn jafnt, og ekki mismuna þeim með neinum hætti.

    Starfsemi sem nauðsynlegt er að foreldrar geti bannað börnum sínum þátttöku í á einfaldlega ekki heima í starfi skóla sem á að vera fyrir öll börn jafnt.

  • @Einar Steingrímsson:

    ,,Starfsemi sem nauðsynlegt er að foreldrar geti bannað börnum sínum þátttöku í á einfaldlega ekki heima í starfi skóla sem á að vera fyrir öll börn jafnt.“

    Á hverjum degi er alls konar þvættingi haldið að nemendum í starfi skóla sem á að vera fyrir öll börn jafnt.

    Hann er daglegt fóður á þeim bænum og reyndar víðast hvar annars staðar.

    Ef börnin fá sæmilegt viðurværi heima hjá sér þá læra þau fljótt að velja og hafna.

  • Það má svosem alveg halda að börnum (og foreldrum þeirra) hver lagði fyrstur manna áherslu á jöfnuð og virðingu allra.

    Að líkja því við aðskilnað kynþátta er líkast til til merkis um furðu frjótt ímyndunarafl.

    Og fremur ósmekklegt.

  • Er það virkilega svo að það er bænastund í íslenskum skólum? Það var það ekki þegar ég gekk í skóla.

  • Einna merkilegust þykir mér sú staðhæfing ritstjóra fréttablaðsins og fleiri að fólk geti ekki skilið íslenska menningu án þess að þekkja kristni þ.e.a.s. að þekking á kristinni trú sé forsenda þess að menn fái skilið íslenskt þjóðlíf og menningu.

    Hvað með þann fjölda útlendinga sem hér býr og kemur ekki frá ríkjum þar sem kristni er viðtekin trú?

    Með þessu eru ritstjórinn og fleiri að segja að þetta fólk geti ekki skilið það samfélag sem það tilheyrir.

    Makalaus málflutningur sem ég sé ekki betur en feli í sér einhvers konar útskúfun.

  • @Hlynur:

    ,,Er til of mikils mælst að vitsmunalega varnarlaust barn njóti verndar gagnvart trúarlegri innrætingu meðan það sækir skóla?“

    Fyrr á árum skrifuðu virðulegir íhaldsmenn gjarnan í blöðin og höfðu voða miklar áhyggjur af því að vinstri sinnuð kennarastétt ,,innrætti“ vitsmunalega varnarlausum börnum ósæmilegar hugmyndir í skólanum milli þess að hún sæti á sellufundum.

    Þetta var nokkru áður en nýfrjálshyggjan gerði innreið sína.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur