Oft hefur verið um það talað að rétt væri að þýða skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið á ensku, til að gera útlendingum kleift að kynna sér þá ítarlegu úttekt sem þar var gerð á orsökum og atburðarás. Stjórnvöld hafa engan áhuga sýnt á því, og þess vegna hefur ekki verið hægt að benda útlendingum á neitt bitastætt um hrunið.
En, nýlega hélt Guðrún Johnsen fyrirlestur á ensku á vegum Google um bankahrunið og sá fyrirlestur er á netinu, hér. Hér er því loksins komin svolítil lýsing á þeim hamförum af mannavöldum sem hrunið var, sem hægt er að vísa enskumælandi fólki á.
Guðrún var starfsmaður Rannsóknarnefndar Alþingis, en er nú lektor í fjármálum hjá Viðskiptadeild Háskóla Íslands, auk þess að vera stjórnarmaður í Arion banka. Hún hefur líka skrifað bók á ensku um hrunið, Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland, sem hægt er að nálgast hér.
Úlfar Erlingsson sem kynnir Guðrúnu í upphafi myndbandsins starfar hjá Google, þar sem hann er yfirmaður tölvuöryggisrannsókna, en áður hafði hann stofnað sprotafyrirtækið GreenBorder, sem var keypt af Google og notað sem grundvöllur fyrir öryggið í Chrome-vafranum. Úlfar starfaði áður hjá Microsoft Research, en í millitíðinni hjá Háskólanum í Reykjavík. Þess má geta að Úlfar er einn af þeim fjórum bestu tölvunarfræðingum landsins sem tölvunarfræðiskor Háskóla Íslands hafnaði fyrir tæpum tíu árum, eins og minnst er á hér. Skorin var þá í akademískum sjálfsmorðsleiðangri sem heppnaðist afar vel.
Rita ummæli