Miðvikudagur 05.11.2014 - 10:15 - 7 ummæli

Löggan má drepa þig. Þú mátt ekki vita af hverju.

Í gær fengu nokkrir þingmenn, þeir sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd, að skoða þær reglur sem lögreglan hefur sett um notkun sína á vopnum. Það hefur væntanlega verið lögreglan sjálf sem allra náðarsamlegast leyfði nokkrum manneskjum á þinginu, sem á að fara með æðsta vald þjóðarinnar, að berja augum þessar leynilegu reglur, með því skilyrði að þingmennirnir tækju ekki afrit og segðu alls engum frá.

Alþingi á reyndar, eðlilega, að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu, en eins og gildir um fleiri mál (t.d. mannréttindi mótmælenda) virðist lögreglan vera hafin yfir öll lög í landinu, þar með talda stjórnarskrána.

Lögreglan er sem sagt með reglur, sem hún hefur sett sjálf, um það hvenær hún megi drepa þig. En þú mátt ekki vita við hvaða aðstæður hún telur að henni sé það leyfilegt. Og nei, það er enginn sem hefur neitt eftirlit með þessu, lögreglan ræður því alveg sjálf hverja hún má drepa og hvenær.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Textinn hér að ofan lýsir engu nema vænisýki. Íslenska lögreglan nýtur almennt velvildar og skorar hátt í könnunum um traust á opinberum stofnunum. Ísland er friðsælt land og lögreglan alla jafna óvopnuð í daglegum störfum. Víkingasveitin er að sjálfsögðu vopnuð en til kasta hennar kemur sem betur fer sárasjaldan. Um margt var haldið klaufalega á vopnamálinu og eru einstaka fjölmiðlar óþreytandi við að benda á hinar og þessar veilurnar. Og stjórnarandstaðan á þingi ætlaði sannarlega að gera sér mat úr málinu en þegar Landhelgisgæslan upplýsti, að fyrsta vopnasendingin hafi borist á árinu 2011 þögnuðu þær raddir.
    Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að ræða vopnabúnað íslensku lögreglunnar en það verður að gera á skynsamlegum nótum. Ekki með því að kasta fram vænisjúkum staðhæfingum á borð við:Lögreglan ræður því sjálf hverja hún má drepa og hvenær“. Særandi aðdróttanir og í engu samræmi við veruleikann.

    • Einar Steingrimsson

      Hvað er rangt við þessa staðhæfingu, GSS?: „Lögreglan ræður því sjálf hverja hún má drepa og hvenær“

  • Einar Steingrimsson

    Það er ekki alls staðar sem lögregla telur nauðsynlegt að leyna reglum um beitingu skotvopna:

    http://www.app.college.police.uk/app-content/armed-policing/use-of-force-firearms-and-less-lethal-weapons/

  • @GSS: ,,Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að ræða vopnabúnað íslensku lögreglunnar en það verður að gera á skynsamlegum nótum.“

    Eftir að hin vel liðna íslenska lögregla er staðin að að því að smygla vélbyssum á bak við borgarana telur hún sjálfsagt og eðlilegt að ræða vopnaburð lögreglunnar.

    En ekki áður?

  • Brynjólfur Þorvarðsson

    Er þörf á því að íslensk lögregla vopnbúist, m.a. með hríðskotabyssum? Hugsanlega, þó ég eigi erfitt með að sjá það. Hvar er hin faglega, hlutlausa, úttekt ásamt tillögum um eftirlit, öryggismál og aukna þjálfun?

    Á lögreglan að vopnbúast laumulega, hafa leynilegar valdbeitingarreglur, og smygla vopn inn til landsins? Nei, auðvitað ekki, þeim sem dettur slík fásinna í hug, og hinir sem reyna að verja hana, eru raunveruleg ógn við íslenskt samfélag.

    Nýverið kom upp mál á Þórshöfn þar sem ölvaður maður ráfaði um með haglabyssu, sem hann síðan lagði frá sér. Átti hinn einsami lögreglumaður á staðnum að vera vopnaður hríðskotabyssu svo hann gæti plaffað fyllibyttuna niður af löngu færi? Átti hann að vera með skammbyssu svo hann gæti læðst aftan að fyllibyttunni og skotið hana í hnakkann?

    Til hvers ætti hin einsama lögga á Þórshöfn að vera þungvopnaður ef ekki til að plaffa niður fyllibyttur með haglabyssur? Til að verjast innrás islamista? Eða vopnuðum glæpagengjum?

    Hvernig væri nú að þeir sem hafa votustu vopnadraumana opni augun fyrir raunveruleikanum?

  • Eftir Hraunbæjar klúðrið þá er maður alla varan á.

  • Anna María

    Algerlega óskiljanlegt af hverju lögreglan hefur slíkan sjálfsákvörðunarrétt og ekki síður af hverju það er allt leyndarmál hérna.
    Að segja þetta hefur ekkert með afstöðu til lögreglunnar að gera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur