Fimmtudagur 12.02.2015 - 09:15 - 12 ummæli

Sæki um starf rektors við Háskóla Íslands

Ég hef ákveðið að sækja um stöðu rektors við Háskóla Íslands. Ástæðan er sú að ég þykist vita hvernig hægt væri að bæta skólann til muna, í samræmi við yfirlýsta stefnu hans, og því finnst mér sjálfsagt að bjóðast til að leiða slíkt breytingastarf.

Það eru starfsmenn og stúdentar háskólans sem velja rektor, og af því að ég er ekki í aðstöðu til að koma stefnu minni á framfæri við þá innan skólans ætla ég að gera það með því að birta hana hér, og á Facebook-síðu sem ég hef sett upp í þeim tilgangi. Ég mun leitast við að svara spurningum sem fólk kann að hafa um stefnu mína og hvernig ég hyggst ná markmiðum hennar, á báðum þessum síðum. Spurningum er hægt að koma á framfæri með því að tjá sig í athugasemdakerfinu hér að neðan, eða á Facebook-síðunni, og með því að senda mér póst, annað hvort á þá síðu eða á netfang mitt, einar@alum.mit.edu.

Eins og að ofan segir lít ég svo á að það þurfi að gera umtalsverðar breytingar á starfi HÍ til að skólanum miði vel áfram í þá átt sem stefna hans markar. Því legg ég áherslu á það sem þarf að breyta, í stefnu minni sem ég birti hér að neðan, og sem ég mun skila með umsókn minni.

Ég veit ekki hvernig háskólinn hyggst standa að kynningu á þeim umsækjendum sem verða metnir hæfir, en mér skilst að hingað til hafi enginn utan skólans áður sótt um starf rektors (enda var það lengi vel ómögulegt), og svo virðist sem skipulagið á þessu ferli miðist enn við að umsækjendur séu úr skólanum, eða a.m.k. búsettir á Íslandi. Ég vona þó að skólinnn sjái til þess að umsækjendur utan skólans fái tækifæri til að kynna stefnu og hugmyndir sínar vandlega fyrir þeim sem munu kjósa rektor.

Á heimasíðu minni við University of Strathclyde í Glasgow má meðal annars finna ferilskrá mína.

Hér að neðan er stefna mín, og hér á pdf-formi.


 

Stefna mín fyrir Háskóla Íslands

Yfirlýst stefna Háskóla Íslands er að verða umtalsvert betri, í samanburði við það sem best gerist í heiminum í rannsóknum og kennslu. Þessi stefna er í aðalatriðum góð, en til að markmið hennar geti orðið að veruleika þarf að gera eftirfarandi breytingar:

  • Efla rannsóknastarf skólans með því að veita rannsóknafé hans fyrst og fremst til þeirra sem eru virkir og öflugir þátttakendur á þeim alþjóðavettvangi sem nánast allt fræðastarf tilheyrir.
  • Gera þeim sem aðallega munu stunda kennslu kleift að einbeita sér að henni, og umbuna þeim fyrir gott starf á þeim vettvangi.
  • Afleggja núverandi vinnumatskerfi og meta í staðinn gæði framlags starfsmanna, bæði í rannsóknum og kennslu.

Rannsóknir

Til að efla rannsóknastarf skólans þarf að nota það fé sem ætlað er til rannsókna í það starf sem stenst gæðakröfurnar sem yfirlýst stefna skólans miðast við. Það þýðir meðal annars að ekki ættu allir akademískir starfsmenn að hafa rannsóknaskyldu. Horfast verður í augu við að hluti akademískra starfsmanna skólans stundar ekki rannsóknir af þeim gæðum og umfangi sem miða verður við, og því ættu þeir starfsmenn að einbeita sér að kennslu. Þannig yrði hægt að veita meira fé í rannsóknir þeirra sem stunda gott fræðastarf í alþjóðlegum samanburði.

Sérstaklega þarf að stuðla að uppbyggingu góðra rannsóknahópa, af því að það örvar starf þeirra sem fyrir eru og laðar að öflugt vísindafólk á öllum stigum. Uppbyggingu slíkra hópa á að hafa í huga þegar rannsóknafé er útdeilt í samkeppni innan skólans.

Til að gera okkur grein fyrir stöðu hinna ýmsu deilda skólans í alþjóðavísindasamfélaginu ætti að láta gera ítarlega óháða úttekt á rannsóknastarfi þeirra. Slíkar úttektir ætti svo að endurtaka á fimm ára fresti, til að meta framfarir. (Hér má t.d. benda á úttektir sem gerðar voru í háskólunum í Helsinki, Uppsölum og Lundi árin 2005-8, en þeir eru meðal samanburðarháskóla HÍ sem nefndir eru í stefnu skólans.)

Kennsla

Það er of algengt að háskólar láti sig litlu varða hvernig kennsla fer fram og hversu vel hún gagnast nemendunum. Þótt ekki séu til neinar töfraaðferðir sem allir geta notað þá eru til vondar kennsluaðferðir sem enn tíðkast of víða, og sem ekki eru til þess fallnar að hjálpa nemendum að menntast á skilvirkan hátt. Góður háskóli verður að vinna markvisst að því að bæta kennsluna og skapa umhverfi sem gerir kennarum kleift að leggja metnað sinn í það. Hlutverk kennara er fyrst og fremst að aðstoða nemendur við að ná sjálfstæðum tökum á því sem námið snýst um, en ekki bara að tileinka sér þekktar aðferðir við að leysa þekkt viðfangsefni. Sérstaklega verður að styðja þá sem vilja prófa nýjungar, halda saman reynslunni af slíku og sjá til að hún sé aðgengileg öðrum kennurum.

Séu nemendur óánægðir með kennsluna er það undantekningalítið merki um að eitthvað sé að, og við því þarf alltaf að bregðast. Það er því mikilvægt að fá fram skoðanir nemenda um það sem miður fer, og reyna að bæta úr því sé um réttmæta gagnrýni að ræða. Því þarf að sjá til þess að stöðugt sé fylgst með viðhorfum nemenda, og að þeir geti alltaf komið skoðunum sínum á framfæri við óháða aðila innan skólans, sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif til úrbóta.

Það er ekki auðvelt að meta gæði kennslu, en þar sem hún er annað af tveimur aðalhlutverkum háskóla verður ekki vikist hjá því. Þetta er sérlega mikilvægt þegar rannsóknaskylda verður aflögð hjá sumum starfsmönnum, sem verður þá umbunað fyrst og fremst fyrir það sem þeir gera vel í kennslunni. Á þessu verða yfirmenn deilda og sviða að bera ábyrgð.

Skipa þarf sérstakan aðstoðarrektor yfir kennslumálin, sem ber ábyrgð á að unnið sé af alefli að því að bæta kennsluna stöðugt í öllum skólanum.

Vinnumat

Núverandi vinnumatskerfi HÍ fyrir rannsóknastarf hefur afgerandi áhrif á framgang og laun. Það hvetur starfsmenn til að birta mikið, og í mörgum smáum hlutum, en gerir nánast engan greinarmun á gæðum. Þetta fer í bága við markmið skólans um að verða sterkur í rannsóknum í alþjóðlegum samanburði. Í staðinn þarf að meta gæði rannsóknastarfs einstakra starfsmanna á þann hátt sem almennt er gert í alþjóðlega fræðasamfélaginu, með jafningjamati.

Einn möguleiki er að fá, á fárra ára fresti, hóp óháðs (erlends) fræðafólks til að meta framlag hvers starfsmanns síðustu fimm árin eða svo. Niðurstaða úr slíku mati myndi ráða skiptingu rannsóknafjárins milli sviða, eða hugsanlega deilda, en ekki til einstakra starfsmanna. Það væri síðan á ábyrgð sviðs- og/eða deildarforseta að ákvarða rannsóknahlutfall hvers starfsmanns. Kerfi af þessu tagi hefur verið notað við Háskólann í Reykjavík í nokkur ár og mat á gæðum rannsókna háskóladeilda, sem hefur áhrif á útdeilingu rannsóknafjár frá hinu opinbera, fer t.d. fram með ofangreindum hætti í Bretlandi (þar sem metnar eru fjórar bestu greinar hvers starfsmanns frá siðustu fimm árum, a.m.k. í raunvísindum).

Skynsamlegast er að afnema það kerfi launauppbóta sem fást á grundvelli vinnumats, og miða við að hver starfsmaður sé á föstum launum.

Ákvörðun launa þarf að byggjast á mati á gæðum starfs, bæði í kennslu og rannsóknum, en ekki á magni framlags. Þær ákvarðanir verða að vera á ábyrgð sviðs- og deildaforseta, og byggjast á eins vönduðu mati og hægt er að koma við. Nauðsynlegt er að starfsmenn geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við slíkar ákvarðanir, og hugsanlega væri hægt að skipa fulltrúa starfsmanna sem gætu talað máli þeirra og gætt þess að sanngirni væri viðhöfð.

Ráðningar og framgangur

Til að styrkja rannsóknir skólans er nauðsynlegt þegar ráðið er í akademískar stöður að ráða alltaf öflugt (eða efnilegt ungt) rannsóknafólk. Nánast allar slíkar stöður á að auglýsa á alþjóðavettvangi og sjá til þess að umsóknarfrestur og aðrar tímasetningar geri stöðurnar samkeppnishæfar alþjóðlega. Kröfur fyrir framgang í starfi þurfa að vera sambærilegar við þá skóla sem raunhæft er að við getum náð að gæðum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nýdoktorastöður, sem eru mikilvægar fyrir frjótt rannsóknaumhverfi, þurfa að vera aðlaðandi á alþjóðamarkaðnum. Ekki ber að líta á þær sem fordyri að föstu akademísku starfi innan skólans, því slíkar stöður eiga ekki síst að stuðla að hreyfanleika í alþjóðasamfélaginu. Í lektorsstöður á að ráða fólk sem mjög líklegt er að uppfylli kröfur um framgang í prófessorsstöðu innan 10 ára, og styðja það vel í uppbyggingu rannsókna sinna og kennslu.

Akademískir starfsmenn eiga að bera uppi kennslu skólans, með aðstoð doktorsnema og nýdoktora. Stundakennara á að nota sem minnst, og fyrst og fremst þar sem nauðsynleg sérþekking er ekki sjálfsagður hluti af fræðasviðum fastra starfsmanna.

Hvert getum við náð?

Í stefnu HÍ 2006-11 voru taldir upp átta háskólar sem HÍ vildi bera sig saman við og sem lenda gjarnan á listum yfir hundrað bestu háskóla í heimi. Það er óraunsætt að gera ráð fyrir að HÍ geti orðið jafn góður þessum skólum á næstu tíu árum, og tilgangslítið að reyna að horfa lengra fram í tímann þegar starf skólans er skipulagt. Við stefnum samt í rétta átt með því að bera okkur saman við þessa skóla.

Það er ekki skynsamlegt að reyna að ná hátt á listum yfir góða háskóla með því að einblína á þau atriði sem þar eru mæld. Til dæmis getur ekki verið markmið í sjálfu sér að fjölga doktorsnemum; fjölgun þeirra á að vera afleiðing þess að skólinn bjóði upp á sterkt og aðlaðandi rannsóknaumhverfi á sumum sviðum. Við þurfum einfaldlega að bæta starf skólans, og þótt það sé ekki auðvelt er það ekki heldur flókið mál. Til þess þurfum við að laða til okkar æ fleira gott rannsóknafólk, búa því umhverfi sem það þrífst í, og leggja okkur fram um að bæta alla kennslu skólans.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Ummæli (12)

  • Haukur Hauksson

    stefnan þín varðandi vinnumatið er mjög góð

  • Gott hjá þér að sækja um embætti rektors. Hefur að baki ágæta menntun en hætt er við að háskólasamfélagið súpi hveljur. Í þess augum ertu sjálfsagt nokkurs konar infant terrible, vígreifur og óheflaður.
    Takist þér ætlunarverkið tekurðu við góðu búi. Kristín Ingólfsdóttir fráfarandi rektor hefur um árabil gegnt embættinu af einurð og virðuleika og getið sér hvarvetna hið besta orð.
    Hún myndi án vafa sóma sér vel í embætti forseta Íslands. Það er líka kominn tími til þess að kona gegni því embætti. Frá lýðveldisstofnun hafa fjórir karlar gegnt því embætti, aðeins ein kona og með þeim ágætum að ljóma stafar af í sögu landsins.

    • Hrekkjalomur

      Vá, GSS er tæpast alvara. Núverandi rektor hefur komið Háskólanum í tóm vandræði. Engin mál má ræða, sussað á allt og alla og eilíflega talaða um 300 bestu. Matskerfið hefur verið geirneglt í alla ferla og stjórnsýslan veður uppi og ræður öllu. Kristín skilur varla hvað Háskóli er.

  • Gangi þér allt í haginn!

  • Grétar Thor Ólafsson

    Flott hjá þér, Einar, og gangi þér allt í haginn. Er viss um að nú eru viðbrögðin í HÍ af tvennum toga: Fögnuður hjá þeim sem hafa mikinn metnað í rannsóknarstörf og framþróun annars vegar og svo ótti hjá þeim sem eru komin í þægileg innistörf til langs tíma.

  • Þessi stefna miðar að því að gera H.Í að háskóla.

    Tími til kominn.

    Eftir hundrað ár verður þá kannski hægt að reyna að gera H.Í að einum af hundrað bestu háskólum í heimi.

  • Sigurjón Vigfússon

    Gangi þér allt í haginn Einar.

  • Ég styð Einar eindregið.

    Háskólinn er í tómu tjóni og núverandi rektor hefur orðið ber að dómgreindarleysi og tómum þvættingi.

    Furðulegt er að háskóli sem kveðst taka sig alvarlega haldi uppi námsbrautum á borð við „kynjafræði“.

    Þarna þarf að hreinsa út og Einar er rétti maðurinn til þess.

  • Sigmundur Guðmundsson

    Tannlæknadeild Háskóla Íslands hefur útskrifað tvo doktora – þegar þeir vörðu ritgerðirnar sínar var annar deildarforseti og hinn varadeildarforseti sömu Tannlæknadeildar.

    Telur þú Einar Steingrímsson að þetta séu eðlileg vinnubrögð ???

  • Sigmundur Guðmundsson

    Það gerðist fyrir nokkrum árum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands að varin var doktorsritgerð sem hafði verið skrifuð á tungumáli sem andmælandinn skildi ekki.

    Telur þú Einar Steingrímsson að þetta séu eðlilegt vinnubrögð ???

  • Steingrímur Einarsson

    Sé það í anda að maður sem frægur er (alræmdur) fyrir vanstillingu, ruddaskap og kvenfyrirlitningu verði kjörinn rektor Háskóla Íslands.

    Já, svo má bæta dómgreindarleysi á listann, eftir að þú lést þau orð falla í samtali við Vísi að þú gerir þér vonir um sigur í rektorskjörinu. Einmitt.

    • Sigmundur Guðmundsson

      Ég skora á Steingrím Einarsson að leggja fram dæmi sem styður þá fullyrðingu hans að Einar Steingrímsson sé frægur (alræmdur) fyrir kvennfyrirlitningu !!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur