[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]
Í seinni heimsstyrjöldinni voru íslenskar stúlkur sem leyfðu sér að umgangast erlenda hermenn fangelsaðar fyrir vikið og beittar harðræði. Svo virðist sem fáir hafi þá leyft sér að gagnrýna þetta opinberlega og framáfólk í samfélaginu var fremst í flokki í þessum ofsóknum.
Árið 1951 stóðu dönsk yfirvöld fyrir því að 22 grænlensk börn voru tekin af heimilum sínum og flutt til Danmerkur, í óþökk foreldra þeirra. Þau áttu að læra að verða fyrirmynd annarra grænlenskra barna þegar þau sneru aftur til heimalandsins ári síðar, þar sem þeim var komið fyrir á sérstökum barnaheimili, en ekki hjá eigin fjölskyldum. Samtökin Barnaheill (Red Barnet) og Rauði Krossinn í Danmörku sáu um framkvæmdina. Börnunum farnaðist mörgum illa í lífinu, og sum styttu sér aldur.
Á sjötta og sjöunda áratugnum voru ungir drengir teknir af heimilum sínum og sendir vestur í Breiðavík þar sem þeim var misþyrmt andlega og líkamlega. Allt var þetta á vegum yfirvalda, og aftur voru ýmsir „virtir“ góðborgarar með í ráðum og fáir sem hreyfðu andmælum opinberlega.
Langt fram á nítjándu öld voru börn undir tíu ára aldri látin vinna allt að sextán tíma á dag í Bretlandi, meðal annars í kolanámum.
Fyrir tvö hundruð árum var þrælahald útbreitt í Bandaríkjunum, og þurfti borgarastyrjöld löngu síðar til að útrýma því.
Í öllum þessum tilfellum, og ótalmörgum öðrum, voru framin grimmdarverk á varnarlausu fólki, með þegjandi samþykki samfélagsins, og jafnvel litið á þau sem sjálfsagðan hlut. Svo snerist almenningsálitið og í dag eru allir sammála um að fordæma það sem okkur finnst augljós grimmd.
En þeir sem voru uppi á þessum tímum gátu fæstir séð nokkuð athugvert við það sem síðar var fordæmt sem óbærilegt mannúðarleysi. Þannig var þrælahaldið almennt álitið sjálfsagt árið 1800 í Bandaríkjunum og barnaþrælkunin í Bretlandi fyrir rúmum hundrað árum. Á Íslandi var álitið eðlilegt upp úr 1940 að refsa ungum konum harðlega fyrir að umgangast hermenn. Tuttugu árum síðar var sjálfsagt mál að rífa unga drengi frá fjölskyldum sínum og vinum og koma þeim fyrir í vist þar sem níðst var á þeim varnarlausum. Og í dag, árið 2015 er álitið fullkomlega eðlilegt að …
Já, hvað gæti það verið í dag sem við kippum okkur ekki upp við en verðum fordæmd fyrir eftir hundrað ár? Því varla var fullkomnun mannsandans náð á sviði mannúðar í fyrra? Eða erum við einmitt endastöð hinnar mannlegu fullkomnunar?
Til að svara spurningu þinni Einar í lok greinarinnar vil ég nefna eftirfarandi. Það deyja 21 000 börn á aldrinum 0-5 ára á dag í heiminum. 900 börn á klukkustund alla daga ársins. Flest öll deyja vegna ástands eða sjúkdóma sem auðvelt er að koma í veg fyrir. Allt skráð samviskusamlega á heimasíðu Sameinuðu Þjóðanna.
Í nýjustu bók sinni Útlaganum fjallar Jón Gnarr um veru sína á Núpi í Dýrafirði og fer um ófögrum orðum. Til eru þeir sem draga í efa ýmislegt sem Jón segir í bókinni, kalla ýkjur og í vissum tilvikum sé um að ræða hreinræktaðan uppspuna til þess eins að gera bókina söluvænni.
Það er samt staðreynd, að margt miður fallegt átti sér stað á Núpi, í Breiðuvík og Reykjanesi við Ísafjarðardjúp sem einnig hefur dregist inn í umræðuna. Fjölmargir unglingar af Reykjavíkursvæðinu voru á árum áður rifnir upp frá fjölskyldum sínum og sendir í annan landshluta og er saga Jóns Gnarr til vitnis um það. Þessir unglingar áttu við vandamál að stríða. Voru frá brotnum heimilum, voru í vímuefnaneyslu, afbrotum og þrifust ekki í almennum skólum. Þrautaráðið var að losna við óværuna og senda í annan landhluta og safna þeim saman í stofnanir eins og að Breiðuvík, Núpi og Reykjanesi við Djúp. Fjölmiðlar hafa á undanförnum árum farið mikinn í umfjöllun sinni um ýmis óhæfuverk sem þar áttu sér stað, refsingar, átök og yfirgengilegt einelti og margir sem þar dvöldu biðu þess aldrei bætur. Vafalaust áttu þessar lýsingar fjölmiðlanna við rök að styðjast en eitt hefur þó algerlega gleymst í umræðunni. Ábyrgð skóla og barnaverndaryfirvalda til dæmis í Reykjavík. Það er verðugt rannsóknarefni hvað þeim gekk til að firra sig allri ábyrgð á vanda þessara unglinga og smala þeim saman í stofnanir í öðrum landshluta þar sem þeim mátti vera ljósar afleiðingarnar. Það er líka verðugt rannsóknarefni hvað varð til þess, að sveitarfélög á Vestfjörðum samþykktu að opna þessar stofnanir sínar fyrir vandræða unglinga af Reykjavíkursvæðinu þar sem þeim mátti vera ljóst, að þessir skólar sem nutu um langt skeið virðingar sem menntastofnanir, myndu fyrr en síðar af þessum ástæðum fá á sig illt orð og undan þeim fjara sem menntastofnunum eins og reyndin varð.
,,Og í dag, árið 2015 er álitið fullkomlega eðlilegt að …“
… sjúkdómsgera eðlilegan gauragang drengja og bæla hann niður með lyfjum.
… ráðast með eggjárnum á kynfæri nýfæddra drengja og stórskadda þau og afskræma. Þetta er gert á Íslandi. Læknar og hjúkrunarfólk þegja þunnu hljóði. Hvað þá aðrir.
Er umskurður drengja algengur á Íslandi?
Það sem Baldur sagði. Það er í það minnsta eitt af því.
Merkilegt líka að skoða að þegar limlesting á kynfærum stúlkna komst í umræðu hér á landi var það bannað um leið á Alþingi. En af einhverjum ástæðum datt engum í hug að minnast á að banna umskurð drengja í leiðinni. Ekki einn einasti þingmaður minntist á drengi í ræðum sínum. Ekki einn.
Hvoru tveggja er limlesting á kynfærum barna, algerlega tilgangslaust annað en að halda í eldgamla hefð og kreddur, og veldur mörg hundruð dauðsfalla á ári hverju.
Ég er alveg sammála því að umskurður drengja sé viðurstyggilegur. Engum myndi í dag detta í hug að verja það að skorinn væri burt hluti af eyrum barna við fæðingu.
Af dæmigerðu hugleysi þorðu íslenskir alþingismenn ekki að banna kynferðislegar limlestingar á sveinbörnum þegar enn verri afskræmingar á meybörnum voru bannaðar. Þeir hefðu getað notað tækifærið. En þeir gerðu það ekki. Heldur kusu þeir að gera upp á milli barnanna á Íslandi eftir kyni: Það má skemma kynfæri nýfæddra barna á Íslandi ef þau eru sveinbörn. Af þessum ástæðum verður mér flökurt þegar ég sé og heyri íslensk þingmenni tala fjálglega um hið dýrmæta ,,kynfrelsi“ kvenna. – Já, umskurður drengja er of algengur á Íslandi. Og mun verða algengari. Ætlum við að þola það?
Já, það er ömurlegt að byggja inn kynjamun í lög með þessum hætti, þegar það er nákvæmlega engin ástæða til þess. Lögin gegn umskurði kvenna hefðu í engu veikst þótt þau hefðu verið kynlaus, enda hefði mátt útskýra, eins og væntanlega er gert í greinargerð, að þeim væri meðal annars beint gegn umskurði kvenna.
Hvort sem okkur líkar betur eða ver lifum við ennþá sem fyrr í Darwinskum heimi.
Þú býrð kanski í Darwinskum heimi. En stundum þegar fólk er veikt – þá fær það stundum aðstoð á landspítalanum og eða velferðarkerfinu, hjá fagfólki og með stuðningi þjóðfélagsins. Heimurinn er ekki allur eintómt helvíti – þó vissulega sé ýmislegt sem gengur á.
Hvernig við mengum og völdum gróðurhúsaáhrifum sem kunna að ógna komandi komandi kynslóðum jarðarbúa. Hvernig við förum með dýr á svínabúunum og eggjabúunum. Hvernig við kjósum frekar að kaupa einhvern óþarfa en að hjálpa þeim sem búa á ruslahaugum úti í heimi.
Að sama skapi er annað sem við gerum vel. Eins og þegar einhver er veikur, þá fær hann stundum aðstoð hjá Landspítalanum og eða velferðarkerfinu, þar sem fagfólk og þjóðfélagið vinnur saman og hjálpast að.