[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]
Það hafa lengi staðið yfir átök milli tónlistarskóla og þeirra sveitarfélaga sem hafa borgað skólunum, að hluta, fyrir þá menntun sem þeir veita. Ég hef ekki fylgst náið með þessu, en sýnist að þessi átök séu að harðna, í kjölfar þess að þrengt sé að þessu námi, hugsanlega vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélaga, sem virðist a.m.k. eiga við um Reykjavíkurborg.
Það er rétt að taka fram að ég er enginn sérstakur áhugamaður um tónlist og á engra hagsmuna að gæta varðandi þetta mál. Mér finnst hins vegar illskiljanlegt af hverju eftirfarandi lausn virðist ekki einu sinni vera til umræðu:
Tónlistarnám verði flutt inn í grunn- og framhaldsskóla, sem val fyrir þá nemendur sem það kjósa.
Auðvitað þyrfti eitthvað annað að detta út í staðinn hjá þeim nemendum sem velja slíkt nám í grunnskólunum, en er líklegt að það gæti haft einhver slæm áhrif á menntun þeirra nemenda?
Rökin fyrir þessu væru að tónlistarnám er síst minna gefandi og „mikilvægt“ en annað nám (ég held að flest nám í grunnskóla sé mun minna „mikilvægt“ en flestir vilja vera láta, og í framhaldsskólum hafa nemendur umtalsvert val). Af hverju ætti til dæmis frekar að hafa kennslu í dönsku og eðlisfræði í grunnskóla, eða bjóða frekar upp á efnafræði og rússnesku en tónlist í framhaldsskóla?
Ein afleiðing af því að innlima tónlistarkennslu í grunnskólana yrði augljóslega sparnaður fyrir sveitarfélögin, því þá þyrftu þau ekki lengur að borga sérstaklega fyrir tónlistarkennslu eins og nú er.
Yrðu þá ekki allir ánægðir?
Sæll,
Mörg sveitarfélaganna bjóða nú þegar uppá tónlistarnám á blásturhljóðfæri og slagverk í formi svokallaðra skólahljómsveita.
Margir framhaldsskólar hafa tónlistarnám svo sem val þó svo að tónlistarnámið sjálft fari fram í tónlistarskólunum sjálfum.
Vandinn núna hefur meira með það að gera að Reykjavíkurborg finnst að nám í tónlist á framhaldsstigi eigi að vera á herðum ríkis en ekki sveitarfélaganna.
Virðist vera meira prinsipp mál þó að einhverjum peningaupphæðum sé slengt fram í umræðunni þó svo að í stóra samhenginu eru það bara einhverjir brauðmolar sem fara inní málaflokkinn.