[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]
Nýlega undirritaði Dagur borgarstjóri samning um byggingu 332 íbúða á Gelgjutanga í Reykjavík. Markmiðið er væntanlega að létta svolítið þann gríðarlega þrýsting sem er á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Það er góðra gjalda vert, og kannski algert aukaatriði þótt það sé kaldhæðnislegt, að eigandi fyrirtækisins sem samið var við, og sem væntanlega mun græða þokkalega á þessu, er Ólafur Ólafsson. Hann er einn af þeim sem ábyrgð bera á hruninu, sem er ein af orsökum hins hryllilega ástands í húsnæðismálunum.
En það er samt dapurlegt að sjá borgarstjóra svokallaðra félagshyggjuflokka semja við dæmdan stórkapítalista um að byggja örfáar af þeim þúsundum íbúða sem þarf til að koma þessum málum í skikkanlegt horf, í stað þess að vinna að því að leysa vandann í eitt skipti fyrir öll.
Húsnæðisvandinn á Íslandi er margs konar. Að kaupa er brjálæðislega dýrt vegna þeirra okurvaxta sem fólk þarf að borga; þeir hafa lengi verið þrefaldir til fimmfaldir á við það sem gerist í nágrannalöndum. Hin hliðin á vandanum er að það er enginn áreiðanlegur leigumarkaður á Íslandi, öfugt við það sem gildir í flestum löndum sem við þekkjum.
Vaxtaokrið verður erfitt að losna við, geri ég ráð fyrir, meðan við höldum í örmyntina ISK. En það er einfalt mál að búa til skikkanlegan leigumarkað. Það er hægt að gera svona:
Hið opinbera (ríkið, hugsanlega fyrir sveitarfélögin) tekur erlend lán til langs tíma (t.d. 50 ára) til að byggja svo sem tíuþúsund leiguíbúðir á næstu 10 árum (og svo fleiri eftir það). Slík lán ætti að vera hægt að fá með 1% vöxtum (sjá t.d. þetta).
Með því að byggja mikinn fjölda íbúða í einu, með skipulegum hætti, má ná byggingarkostnaðinum talsvert niður. Með 1% raunvexti á lánunum gæti leigan orðið miklu lægri en gerist á höfuðborgarsvæðinu í dag, og alveg sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum, enda græða jafnvel einkaaðilar þar á því að leigja út húsnæði á hóflegu verði. Hið opinbera þyrfti ekki einu sinni að niðurgreiða vextina, þótt það væri ekki endilega frágangssök, enda fullt af slíkum niðurgreiðslum í gangi til ýmissa aðila (t.d. fá bílaleigur milljarða í afslátt af tollum á bíla sem þær kaupa).
Einkaaðilar munu aldrei sjá sér hag í að leigja út íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði meðan raunvextir eru eins háir og raun ber vitni á Íslandi, auk þess sem þeir ætla sér jafnan talsverðan hagnað. Hið opinbera getur hins vegar auðveldlega komið á fót slíkum leigumarkaði, þar sem verðið væri viðunandi, og leigjendur gætu búið eins lengi og þeim sýndist í íbúðum sínum, í stað þess að vera allt í einu hent út af því að dóttir eigendanna var að koma heim úr námi.
Hvernig í ósköpunum stendur á því að hinir svokölluðu félagshyggjuflokkar á Íslandi hafa ekki hunskast til að beita sér fyrir þessu, og það fyrir löngu? Af hverju eru þeir að tala um að byggja nokkur hundruð íbúðir eins og það sé stórmál, og berja sér á brjóst fyrir það, í stað þess að vinna að því af alefli að ríki og sveitarfélög byggi þá tugi þúsunda leiguíbúða sem þarf til að húsnæðismálin komist í þokkalegt og varanlegt horf?
Hvað er svona erfitt við að losna við vaxtaokrið? Vextir eru bara ákvörðun og það er alveg hægt að taka aðra ákvörðun en að hafa þá háa. Alveg eins og maður ákveður þegar maður klæðir sig á morgnana hvort maður fer fyrst í vinstri eða hægri sokkinn. Háir vextir eru ekki náttúrulögmál og málflutningur sem gerir ráð fyrir slíkri firru felur annað hvort í sér vanþekkingu eða hreinlega uppgjöf fyrir vandamálinu.
Já, það mætti auðvitað líka láta ríkið taka erlend langtímalán til að lána til fasteignakaupa. Þar er hins vegar aðeins meiri áhætta á ferð, nema ströng skilyrði séu sett um greiðslugetumat.
Sammála Guðmundi Ásgeirssyni. Okurvextirnir hér eru ekkert náttúrulögmá, þeim er handstýrt hér af Má Guðmundssyni og öðrum í ráðum og nefndum Seðlabanka Íslands og þeim sem halda þeim við völd: Engeyjarfrændum! (og sá nýi, sjálfur fjármálaráðherrann, hefur ekki nægilegt fylgi til að haldast inni á þingi, „Viðreisn“ er með 3,1% fylgi skv. nýjustu skoðanakönnun!)
Niður með vaxtaokrið! Setjum 2% hámarksþak á verðtryggða vexti, það er hægt að gera strax!
Krafa Ísl. þóðfylkingarinnar er hér um afnám verðtryggingar, en ella um 2% vaxtaþak á íbúðalán. Af 15 millj. kr. láni hjá Íbúðalánasjóði myndi þessi lækkun úr 5% verðtryggðum vöxtum í 2% verðtryggða vexti þýða lækkun vaxtanna úr 48.719 kr. á mán. í 19.488 kr. Sparnaðurinn af því eina láni yrði þannig hátt í 30.000 kr. á mánuði! Fjölskyldur munar um minna! En gegn slíkri lækkun standa hinir eilífu augnakarlar í embættum: Már Guðmundsson og … hver annar en sjálfur forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson!
En Einar: „Með því að byggja mikinn fjölda íbúða í einu,“ yrði það ekki verulegur verðbólguhvati? Er ekki betra að gera mikla gangskör að þessu strax, þó ekki óhófi, en halda svo uppi jöfnum gangi í þessu framvegis?
Taka erlent lán segir þú.
Menn eru fljótir að gleyma.
Hver á að taka gengisáhættuna?
Ríkið, eða á að velta henni út í leiguna?
Þetta er lykilatriði í þessari hugmynd.
Við hljótum að gefa okkur að laun (þ.e.a.s. kaupmáttur) á Íslandi þróist með svipuðum hætti til lengri tíma og í þeim löndum sem lánin eru tekin í, og þá er „gengisáhættan“ bara fólgin í skammtímasveiflum, sem ríkið á ekki í neinum vandræðum með að taka á sig. Það á auðvitað ekki að hækka og lækka leiguna í takt við slíkar sveiflur; hugmyndin er að búa til húsaleigumarkað með stöðugu verð til langs tíma, og öryggi fyrir leigjendur.
Ríkið á að borga gengissveiflurnar segir þú.
Ok.
Ef ríkið á að reka tugþúsundir leiguíbúða, án hagnaðar með 1% vöxtum.
Fara þá ekki allir að leigja?
Hvers vegna ætti ég að kaupa fasteign og greiða 7-15 % vexti þegar ég get leigt áhyggjulaust til langtíma margfalt ódýrara húsnæði?
Mun þetta ekki verða til þess að hver einasti landsmaður selur og fer í svona leigu?
Getur ríkið skaffað öllum íbúð á þessum kjörum?
Það væri auðvitað í fínu lagi ef allir vildu leigja, ef leigan stendur undir kostnaðinum, sem markmiðið er. Ég hef hins vegar enga trú á að það gerist.
Og ríkið á ekki að borga neitt fyrir gengissveiflurnar til lengri tíma, bara jafna þær út.
Telur þú að ríkið geti skaffað öllum landsmönnum leiguhúsnæði?
Afhverju finnst þér ólíklegt að allir landsmenn myndu losa sig við fasteignir sínar og skipta yfir í margfalt hagstæðara húsnæði?
Mér finnst ólíklegt að allir landsmenn myndu losa sig við húsin sín og íbúðir til að flytja í leiguíbúðir. Annars vegar af því að svo margir vilja búa stærra en boðið væri upp á, og margir vilja búa í einbýli eða raðhúsum með eigin garð, auk þess sem margir vilja fá að ráða algerlega hvað er gert við húsnæðið og hvenær.
En við getum líka alveg haft áhyggjur af þessu þegar við teljum að ásóknin í leiguhúsnæði sé orðin of mikil. Það er ansi langt í það …
Mér finnst hæpið að venjulegt fólk sé tilbúið að borga aukalega miljón(ir) á ári fyrir garð.
Vextir af 40 miljónum eru 400 þúsund á ári af ríkisíbúðinni, en 3-4 miljónir af eigin íbúð.
Það þarf ekkert að ræða það að hver einasti íbúðareigandi myndi umsvifalaust selja og leigja frekar.
Fyrir utan hvað þetta myndi margfalda vandann á leigumarkaðnum, þá hlýtur einnig að fylgja þessu verðhrun á fasteignum.
Það væri svo sem hægt að taka annan hring á 110% leiðinni….
Sigurður, þú ert voða neikvæður út í þetta! 🙂
Í fyrsta lagi, allir landsmenn gæti ekki flutt í þessar íbúðir, af því að þær yrðu skv. þessari hugmynd bara 10.000.
Í öðru lagi, fullt af fólki borgar í dag milljónir fyrir eigin garð og pall. Ætli sérbýli kosti ekki svona 10-15 milljónum meira en jafn stór íbúð í blokk.
Samkvæmt þinni nálgun ættu allir alltaf að reyna að búa í sem allra ódýrustu húsnæði, þ.e.a.s. því ódýrasta sem fólk kæmist af með, en það er bara ekki þannig.
Í þriðja lagi, munurinn á kostnaði eins og þú leggur hann upp er EKKI svona mikill vegna þess að þessar íbúðir yrðu svona fáránlega ódýrar, heldu vegna þess að „hefðbundinn“ vaxtakostnaður er fáránlega hár. Þessi leið sem Einar bendir á væri einmitt almennt séð góð leið til að þrýsta niður hefðbundnum fjármagnskostnaði með því að búa til ódýrari valkost, sem myndi þá vonandi skapa þrýsting á markaðinn að lækka kostnað á venjuleg lán.
Einar Karl,
Að vera raunsær er ekki sama og neikvæður.
Við skulum bara bera saman epli og epli og sleppa öllu tali um garð.
Bara venjulegar íbúðir í fjölbýli.
Hvers vegna ætti einhver að kaupa slíka á 7-x% vöxtum ef hann getur leigt hjá óhagnaðardrifnu leigufélagi með 1% fjármagnskostnaði?
Myndu ekki allir selja sínar íbúðir í hvelli og taka slíka íbúð?
Þetta yrði engin smáræðis lækkun á húsnæðiskostnaði og engin áhætta vegna gengisfellinga eða verðbólguskots.
Ég myndi halda að þetta margfaldaði eftirspurnina eftir leiguhúsnæði í stað þess að leysa vandann.
Sigurður, ég skil ekki þetta „hvað ef“ scenario þitt.
Þessar 10.000 leiguíbúðir myndu ekki vera byggðar á sama ári og myndu þ.a.l. ekki rjúka út allar í einu, Einar nefnir að byggja þær á 10 ára tímabili. svo það yrði aldrei þannig að 10.000 leigjendur þeirra myndu setja 10.000 aðrar íbúðir á sölu (enda aldrei allir þessir leigjendur sem myndu eiga íbúðir að selja).
Þetta er fín hugmynd en getur ekki gengið upp nema segja upp EES samningnum sem bannar ríkisaðstoð af þessu tagi í samkeppni við almennan markað
En það er hægt að breyta vöxtum á Íslandi til þess þarf að hætta kjósa Sjálfstæðisflokkinn.