Laugardagur 15.3.2014 - 10:30 - 7 ummæli

Um hvað spyr Mikael Hönnu Birnu?

Á morgun, sunnudag, ætlar Mikael Torfason að tala við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í þætti sínum Mín skoðun á Stöð 2.  Það gæti orðið áhugavert, enda er Mikael í þeirri lykilstöðu að vera aðalritstjóri frétta á 365 miðlum, öðrum þeirra tveggja fjölmiðla sem minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu var lekið til í nóvember.  Sá leki hefur verið viðfangsefni lögreglurannsóknar síðastliðinn mánuð, eftir að ríkissaksóknari hafði rannsakað málið í tvo mánuði og kveðið upp úr um að gera þyrfti sakamálarannsókn. 
Fréttastofa Mikaels hefur að vísu ekki staðið fyrir mikilli fréttamennsku um þetta stórmál, og það þótt hún hafi fengið minnisblaðið fyrst fjölmiðla (ásamt Mogganum), og viti þannig væntanlega hvaða leið það barst úr ráðuneytinu.
En, ég ætla að leyfa mér að vera vongóður, og trúa því að á morgun geri Mikael bragarbót á þessu og spyrji þeirra sjálfsögðu, og óþægilegu, spurninga sem sérhver metnaðarfull fréttamanneskja myndi spyrja ráðherra sem sætti sakamálarannsókn vegna gruns um alvarlegt hegningarlagabrot.  Til að hjálpa Mikael svolítið í þessu (af því að undirmenn hans virðast hafa verið svo tregir til þess hingað til) ætla ég telja upp nokkrar af þessum spurningum sem það væri nánast glæpsamlegt að krefja Hönnu Birnu ekki svara um á morgun:
  • Það er komið í ljós að í ráðuneytinu er til skjal sem er nánast samhljóða minnisblaðinu sem var lekið.  Hvað áttirðu við þegar þú sagðir að í ráðuneytinu væri ekki til neitt sambærilegt skjal við minnisblaðið?
  • (Ef Hanna Birna neitar þessari staðhæfingu):  Ertu að halda því fram að minnisblaðið sem lekið var í fjölmiðla (og sem þér hefur verið sent afrit af), sé ekki nokkurn veginn samhljóða neinu skjali sem til er í ráðuneytinu, þótt  haft hafi verið eftir heimildarmönnum innan ráðuneytisins að slíkt skjal sé þar til, og sé á málaskrá?
  • Af hverju vékst þú ekki tímabundið þegar ríkissaksóknari ákvað, eftir eigin rannsókn, að láta fara fram lögreglurannsókn á hendur þér og undirmönnum þínum?
  • Hvernig á almenningur að geta treyst því að rannsóknin fari fram með eðlilegum hætti þegar þeir sem bera ábyrgð á henni eiga starf sitt undir þér, eins og t.d. lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem þú getur rekið hvenær sem er, auk þess sem skipunartími hans rennur út á kjörtímabilinu og þá á hann framhaldsráðningu undir þér?
  • Af hverju hélstu því fram að ekki væri um að ræða sakamálarannsókn þegar ríkissaksóknari lagði fyrir lögreglu að gera slíka rannsókn?
  • Af hverju hélstu því fram að rannsókn ríkissaksóknara væri meðal annars að undirlagi ráðuneytisins?
  • Af hverju komst þú ekki í veg fyrir að Tony Omos, sem var rægður við fjölmiðla í þessu minnisblaði, sem allt bendir til að hafi verið viljandi lekið úr ráðuneytinu, væri vísað úr landi, í skjóli myrkurs, án þess að haft væri samband við lögmann hans, og án þess þú værir búin að úrskurða í máli hans sem var enn til meðferðar hjá ráðuneytinu?

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.3.2014 - 11:11 - Rita ummæli

Fyrirlestur um hrunið, á ensku

Oft hefur verið um það talað að rétt væri að þýða skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið á ensku, til að gera útlendingum kleift að kynna sér þá ítarlegu úttekt sem þar var gerð á orsökum og atburðarás.  Stjórnvöld hafa engan áhuga sýnt á því, og þess vegna hefur ekki verið hægt að benda útlendingum á neitt bitastætt um hrunið.
En, nýlega hélt Guðrún Johnsen fyrirlestur á ensku á vegum Google um bankahrunið og sá fyrirlestur er á netinu, hér.  Hér er því loksins komin svolítil lýsing á þeim hamförum af mannavöldum sem hrunið var, sem hægt er að vísa enskumælandi fólki á.
Guðrún var starfsmaður Rannsóknarnefndar Alþingis, en er nú lektor í fjármálum hjá Viðskiptadeild Háskóla Íslands, auk þess að vera stjórnarmaður í Arion banka.   Hún hefur líka skrifað bók á ensku um hrunið, Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland, sem hægt er að nálgast hér.
Úlfar Erlingsson sem kynnir Guðrúnu í upphafi myndbandsins starfar hjá Google, þar sem hann er yfirmaður tölvuöryggisrannsókna, en áður hafði hann stofnað sprotafyrirtækið GreenBorder, sem var keypt af Google og notað sem grundvöllur fyrir öryggið í Chrome-vafranum.  Úlfar starfaði áður hjá Microsoft Research, en í millitíðinni hjá Háskólanum í Reykjavík.  Þess má geta að Úlfar er einn af þeim fjórum bestu tölvunarfræðingum landsins sem tölvunarfræðiskor Háskóla Íslands hafnaði fyrir tæpum tíu árum, eins og minnst er á hér.  Skorin var þá í akademískum sjálfsmorðsleiðangri sem heppnaðist afar vel.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.2.2014 - 10:15 - 12 ummæli

Pólitískur drullusokkur

Í sjónvarpsfréttum RÚV  í gærkvöldi var talað við einn af ráðherrum landsins.  Þetta var frábært viðtal, sem er allt of sjaldgæft á RÚV, því ráðherrann fékk allar þær augljósu spurningar sem hann átti að fá.  Sýnd var klippa úr Silfri Egils þar sem ráðherrann lýsti vandlega afstöðu sinni til ESB-málsins, sem var sú að þjóðin fengi að segja sinn hug í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðum skyldi haldið áfram eða ekki.  Framhaldið af því átti, samkvæmt ráðherranum, að vera þetta:
„Og ef það er þannig, að þjóðin segir já við því, þá eru allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.“
Aðspurður um það af hverju hann hafi breytt afstöðu sinni engist ráðherrann svolítið, og svarar á þá leið að ekki sé hægt að neita því að þessi ummæli séu til (sem honum virðist finnast slæmt).  Og  svo segir ráðherrann  eitthvað um að hann sé að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar, og gefur í skyn að það sé þess vegna sem hann sé orðinn  algerlega afhuga því að þessi sama þjóð fái nokkru að ráða um málið.
Fréttakonan gerir það sem hefur verið allt of sjaldgæft á RÚV (og fleiri miðlum); hún spyr hinnar augljósu spurningar:  Voruð þið ekki að hugsa um hagsmuni íslensku þjóðarinnar þegar þið sögðuð, hvert á fætur öðru, að það yrði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu?
Hér dettur ráðherranum það snjallræði í hug að bera fyrir sig tilvitnun í ónefndan mann (sem áheyrandinn á væntanlega að fá á tilfinninguna að hafi verið djúpvitur, þótt ráðherrann nefni ekki nafn hans). Tilvitnunin er þessi:
„Ef staðreyndirnar breytast, og mat mitt á þeim, þá breyti ég um afstöðu. En þú?“
Fréttakonan lætur ekki slá sig út af laginu, heldur spyr aftur hinnar augljósu spurningar:  „Hvaða staðreyndir hafa breyst?“
Svar ráðherrans er á þá leið að það sem hafi breyst sé það hvernig þingið og  ríkisstjórnin séu saman sett, og að það „lá ekki fyrir fyrir kosningar“.
Fyrir kosningar fannst ráðherranum rétt að þjóðin fengi að taka ákvörðun í þessu máli, og að af þeirri ákvörðun væru „allir menn og allir flokkar bundnir“. Eftir kosningar eru flokkur hans og hinn stjórnarflokkurinn hins vegar alls ekki bundnir af afstöðu þjóðarinnar.  Þeir eru í yfir- og næturvinnu þessa dagana við að reyna að koma í veg fyrir að þjóðin fái nokkurn skapaðan hlut um málið að segja, og það þótt yfirgnæfandi meirihluti kjósenda allra flokka vilji einmitt að þjóðin fái að segja sitt.
Fólk sem tjáir sig opinberlega er oft skammað fyrir að nota of stór og ókurteisleg orð.  Það er rétt að ofnotkun slíkra orða er slæm.  En, mér finnst hitt ekki síður mikilvægt, að segja skýrt og skorinort það sem stundum liggur í augum uppi, í stað þessa að hlífa fólki í valdastöðum við sannleikanum.  Því ætla ég að segja það sem mér finnst vera augljós niðurstaða af framkomu þessa manns:
Hann er pólitískur drullusokkur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.2.2014 - 10:50 - 2 ummæli

Til varnar Vítisengli

Fyrir tæpum 40 árum voru nokkur ungmenni hneppt í gæsluvarðhald, og beitt harðræði sem nánast allir eru í dag sammála um að hafi verið viðurstyggilegt.   Þetta fólk sat í gæsluvarðhaldi árum saman, sumt í algerri einangrun, og var bókstaflega pyntað, bæði andlega og líkamlega.  Þetta gerðist á Íslandi og þótt nú séu langflestir sammála um að þetta hafi verið svívirðileg meðferð gilti allt öðru máli þá.
Þegar málaferlin stóðu yfir voru fjölmiðlar landsins nokkuð samtaka í að fordæma sakborninga (sem voru ákærðir fyrir morð sem fátt bendir til að hafi verið framin, hvað þá af þessu fólki).  Þótt ég hafi sjálfur þegar þetta var haft tiltölulega lítinn áhuga á þessum málum, og engar sérstakar efasemdir um sekt sakborninga, er mér þó minnisstætt að mér blöskraði gersamlega þegar Þjóðviljinn (sem átti að vera málsvari þeirra sem áttu undir högg að sækja í samfélaginu) birti sem fyrirsögn, án athugasemda, staðhæfingu ríkissaksóknara um að þjóðfélagið ætti „rétt á vernd gegn þessum mönnum“.
Það er heldur ekkert sérlega langt síðan sérstakur saksóknari, settur vegna beiðni um endurupptöku málsins, sagði að þetta væru nú engir „kórdrengir sem hefðu verið sóttir í fermingarveislu“, en á Íslandi ríður subbuskapurinn sjaldan við einteyming í stjórnsýslunni; hann hefur jafnan marga til reiðar.
Á þeim tíma sem þetta mál var í „rannsókn“ og svo fyrir dómstólum voru fáir sem efuðust um sekt þeirra sem ákærðir voru.  Núna, 40 árum síðar, eftir ötula baráttu ýmiss fólks sem aldrei gafst upp á að benda á þá hatursfullu geðveiki ákæruvalds og dómsvalds sem kom svo glöggt fram í þessu máli, hefur almenningsálitið snúist.  Það er vel, en það er  auðvelt að vera vitur eftirá, og sorglega erfitt að vera vitur fyrirfram, eða að minnsta kosti að vera vitur á réttum tíma …
Fyrir rúmu ári var kveðinn upp dómur í Hæstarétti, sem staðfesti sýknudóm héraðsdóms frá árinu áður, yfir manni sem í dómi Hæstaréttar er nefndur „X“.  Lesi maður dóm Hæstaréttar (sem inniheldur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur) er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að lögreglan sem hélt X í gæsluvarðhaldi hafi aldrei haft nokkra minnstu ástæðu, aðra en eigin fordóma eða eitthvað þaðan af verra, til að gruna X um aðild að því broti sem nokkrir kunningjar hans voru sakfelldir fyrir.  Samt sat X í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði, þar af í fjórar vikur í einangrun þar sem hann fékk ekki einu sinni að hafa sambandi við nánustu ættingja.
Af hverju þurfti þá þessi maður, sem ómögulegt var að tengja við umrædd brot, að sæta þessu harðræði, sem flest fólk gerir sér sennilega grein fyrir að er líklegt til að valda meiriháttar sálarkvölum, auk þess tjóns sem fjölskylda viðkomandi varð fyrir?  Svarið er einfalt.  Hann er ekki neinn „kórdrengur sóttur í fermingarveislu“.  Maðurinn heitir Einar Ingi Marteinsson, hefur viðurnefnið „Boom“, og tilheyrði á tímabili samtökum Vítisengla.  Það er erfitt að sjá annað en að það sé eina ástæðan fyrir þessari svívirðilegu framkomu lögreglu gagnvart honum, sem dómstólar samþykktu, þótt þeir sýknuðu hann síðar algerlega, af því að ekkert benti nokkurn tíma til aðildar hans.
Ég efast ekki um að meðlimir Vítisengla séu (sumir) ofbeldismenn (þótt staðhæfingar lögreglu og sumra lýðskrumandi ráðherra um hættuna af þeim, samanborið við „venjulega“ glæpastarfsemi, séu augljóslega lygar, miðað við hversu auðvelt lögregla hefur átt með að loka stóran hluta þeirra inni langtímum saman).  En, mannréttindi eru ekki bara fyrir okkur góða fólkið.  Þau eru ekki bara fyrir kórdrengi sótta í fermingarveislur.  Mannréttindi heita mannréttindi af því að þau eru réttindi alls fólks.  Þeir einir eru í raun hlynntir mannréttindum sem finnst sjálfsagt að „vonda“ fólkið njóti þeirra líka til hins ítrasta.  Hinir, sem telja að „vonda“ fólkið eigi ekki skilið að njóta mannréttinda eru ekki mannréttindasinnar heldur óvitar eða hræsnarar.
Að halda manni í gæsluvarðhaldi mánuðum saman, og í algerri einangrun frá ástvinum sínum vikum saman, þegar ekkert bendir til að hann sé sekur um alvarlegt afbrot, er augljóst brot á mannréttindum.  Þar er greinilega um að ræða kúgunar- eða hefndaraðgerðir af hálfu fólks sem misnotar það vald sem því hefur verið falið, fólks sem ætti sjálft að sæta refsingu fyrir svívirðuna.  En á Íslandi eru yfirvöld aldrei ábyrg fyrir neinu.  Þau geta þess vegna pyntað fólk, jafnvel fólk sem réttarkerfið hlýtur að líta á sem saklaust, án þess að nokkrum vörnum verði komið við, og án þess að fólkið sem pyntar þurfi nokkurn tíma að svara til saka, eða þeir sem bera ábyrgð á böðlunum.
Það er, sem betur fer, auðvelt að finna til með sakborningum í Geirfinnsmálinu.  Núna.  Flestum veitist okkur hins vegar erfiðara að finna til með þeim sem verið er að pynta þá og þá stundina, hvað þá að gera eitthvað í málinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.2.2014 - 15:19 - 4 ummæli

Hvar eru allir lögfræðingarnir?

Síðan ríkissaksóknari lagði fyrir lögreglustjórann í Reykjavík að gera lögreglurannsókn á lekamáli innanríkisráðuneytisins  (þ.e.a.s. sakamálarannsókn, öfugt við það sem ýmsir ráðherrar hafa haldið fram) hef ég velt því fyrir mér af hverju í ósköpunum nánast engir lögfræðingar tjái sig um þetta mál á opinberum vettvangi.

(Jú, Brynjar Níelsson gerði það í Pressupistli, en sagði tóma þvælu, þar sem hann gaf í skyn að það væri engin sakamálarannsókn í gangi.  Sem er auðvitað til skammar fyrir hann, þar sem hann er ekki bara þingmaður heldur líka hæstaréttarlögmaður og veit því að hann var að segja ósatt.)

Alveg sérstaklega er ég hissa á því að heyra ekki í neinum af þeim fjölmörgu háskólalögfræðingum landsins sem maður gerir ráð fyrir að finnist það áhugavert hvernig staðið er að rannsókn á einstöku sakamáli þar sem ráðherra er meðal hinna kærðu.  Ekki síst vegna þess að hér er  ekki bara um einhvern ráðherra að ræða, heldur innanríkisráðherra, sem er æðsta vald yfir öllu réttarkerfinu í landinu.

En, af því að það er grafarþögn meðal lögfræðinga skrifaði ég á endanum smá pistil, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, um það sem mér sýnist vera augljóst vanhæfi lögreglustjórans sem á að rannsaka lekamálið.

Ég vona samt að einhverjir af öllum þeim skara lögmanna sem ættu að vita talsvert  um mál af þessu tagi tjái sig.  Alveg sérstakega er háskólasamfélagið ekki að standa sig ef það uppfræðir ekki almenning í prinsípmálum eins og þetta er.  Því varla eru lögfræðingar landsins hræddir við að tjá sig um mál sem snýst um meint hegningarlagabrot ráðherra og undirmanna hennar í ráðuneytinu?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.2.2014 - 10:15 - 6 ummæli

Stefán Eiríksson rannsakar yfirmann sinn

Nýlega fékk lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Stefán Eiríksson, til rannsóknar frá ríkissaksóknara lekamál innanríkisráðuneytisins.  Í því máli hafa starfsmenn ráðuneytisins, þ.á.m. ráðherra, verið kærðir vegna gruns um hegningarlagabrot.
Ég spurði Stefán í tölvupósti hvort rannsókn málsins væri hafin, og hvort hann teldi sig ekki vanhæfan til að rannsaka málið.  Stefán neitar að svara þessu og segir að embættið muni ekki tjá sig um málið, þótt spurningarnar hafi alls ekki snúist um málið sjálft.
Stefán er lögfræðimenntaður, og hlýtur auðvitað að gera sér grein fyrir því hversu vafasamt það er að hann sé hæfur til að rannsaka málið, samkvæmt 3. grein stjórnsýslulaga, en þar stendur meðal annars:
Starfsmaður … er vanhæfur til meðferðar máls … ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta …  Sama á við ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. … ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
 Af þessum ákvæðum að dæma er þetta reyndar varla neitt vafamál.  Embætti Stefáns heyrir nefnilega undir innanríkisráðherra, sem hefur gríðarleg áhrif á fjárveitingar til embættisins og störf þess að öðru leyti, og sama gildir um næsta yfirmann Stefáns, ríkislögreglustjóra, sem heyrir beint undir ráðherra.
Það sem verra er, það er innanríkisráðherra sem skipar í embætti Stefáns, og getur því rekið þann sem situr í því.  Þar að auki vill svo til að skipunartími Stefáns rennur út um mitt ár 2016, á þessu kjörtímabili.  Það þýðir að ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem nú sætir lögreglurannsókn sem Stefán ber ábyrgð á, situr áfram í embætti, þá á Stefán áframhaldandi skipun sína undir Hönnu Birnu sjálfri.
Lögreglustjórinn sem á að rannsaka kærur á hendur ráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins á sem sagt framtíð sína og starfsskilyrði undir sama ráðherra.
Það er til nafn yfir ríki þar sem svona aðfarir eru taldar eðlilegar.  Þau eru kölluð bananalýðveldi.  En vonandi gengur Stefán ekki niður í það víðfeðma fúafen sem spillingin í íslenskri stjórnsýslu er …

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur