Flokkar: Óflokkað
Flokkar: Óflokkað
Flokkar: Óflokkað
„Til að girða fyrir þá umræðu sem ég heyri að hv. þingmaður ætlar að fara hér með þegar hún vísar til leka úr innanríkisráðuneytinu vil ég segja að það er ekkert sem bendir til þess.Ég minni líka þingheim á að þau gögn sem koma við í ráðuneytum, t.d. rökstuðningur er varðar svona mál, og það þekkja þingmenn mjög vel fara víða á milli stofnana, á milli lögmanna og annarra aðila sem tengjast málunum. Það að hv. þingmaður leyfi sér að fullyrða úr ræðustól að leki hafi orðið úr ráðuneyti án þess að nokkuð bendi til þess finnst mér ansi bratt.“
Flokkar: Óflokkað
Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu í gær.
———————————————————————
Árið 1896 féll dómur í Hæstarétti Bandaríkjanna í málinu Plessy gegn Ferguson, sem er eitt af þekktustu málum bandarískrar lögfræðisögu. Ekki síður þekkt er sú hugmynd sem birtist í dómnum og hlaut nafngiftina „separate but equal“, en það gæti á íslensku útlagst sem „aðskilin en jöfn“. Hér er vísað í þá niðurstöðu réttarins að í lagi sé að skilja að fólk eftir kynþætti, að því tilskildu að aðbúnaður beggja sé jafn.
Þetta voru lög í landinu í rúma hálfa öld, þar til þeim var hnekkt í málinu Brown gegn Board of Education árið 1954, sem er ekki síður þekkt en Plessy, enda er síðari úrskurðurinn grundvallaratriði í bandarískum rétti fram á þennan dag. Í honum er því lýst yfir að aðskilnaður á grundvelli kynþáttar feli sjálfkrafa í sér ólögmæta mismunun.
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hélt nýlega ræðu á kirkjuþingi, þar sem hún talaði um andstöðuna við trúboð ríkiskirkjunnar í grunnskólum, og hélt því m.a. fram að andstæðingarnir vildu „forða börnunum okkar frá boðskap um…kærleika“. Sóðalegar dylgjur af þessu tagi, sem eru í raun hrein lygi, hefðu í flestum nágrannalöndum okkar trúlega leitt til þess að ráðherrann hefði þurft að biðjast afsökunar á orðum sínum, eða segja af sér. Svo er ekki á Íslandi, enda ríkja þar óþroskaðar hugmyndir um siðferði og ábyrgð stjórnmálafólks.
Fáum hefði brugðið ef ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Stephensen, hefði bent kurteislega á að rakalausar svívirðingar af þessu tagi væru hvorki sæmandi ráðherra né líklegar til að vinna fylgi þeirri ríkiskirkju sem hann styður greinilega, miðað við fyrri skrif hans. Hann kaus í staðinn að verja, í nýlegum leiðara, framgöngu Hönnu Birnu, og reyndi að breiða yfir ofstækið sem felst í staðhæfingum hennar. Ólafur virðist vera á þeirri skoðun að nóg sé „að tryggja að börn foreldra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða engin þyrftu ekki að taka þátt í hefðum eða athöfnum sem væru þeim á móti skapi“ og á þar við athafnir í skólum sem tengjast boðskap ríkiskirkjunnar.
Það eru næstum sextíu ár síðan hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úr um að aðskilnaður á grundvelli kynþátta bryti gegn þeim mannréttindum sem bandaríska stjórnarskráin tryggði borgurum landsins, af því að slíkur aðskilnaður fæli sjálfkrafa í sér misrétti. Innanríkisráðherra, og ritstjóri Fréttablaðsins, telja hins vegar, enn þann dag í dag, í lagi að börn séu aðskilin í skólastarfi, á grundvelli lífsskoðana foreldra þeirra.
Flokkar: Óflokkað
Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 7. nóvember 2013.
Hér er grein Eiríks Smára sem þessi er svar við. Og hér er pistillinn sem Eiríkur var að svara.
———————————————————–
Til að bregðast við frétt í Fréttablaðinu um bloggpistil sem ég birti 25. október skrifaði Eiríkur Smári Sigurðarson grein í blaðið 30. október með yfirskriftinni „Epli og könglar“. Það er ánægjuefni, þar sem markmiðið með skrifum mínum um háskólamálin er að hvetja til opinberrar umræðu um það sem gott er og vont í íslenska háskólakerfinu.
Það eru hins vegar nokkur vonbrigði að Eiríkur (eins og aðrir sem gagnrýnt hafa staðhæfingar mínar opinberlega) lætur sér nægja að halda fram að sá samanburður sem ég gerði milli fræðasviða Háskóla Íslands sé ekki marktækur. Betra væri að Eiríkur útskýrði hver hinn eðlilegi samanburður sé, sem ætti að vera auðvelt fyrir hann, þar sem hann sýslar einmitt með slík mál í starfi sínu hjá HÍ.
Tvítugfaldur munur
Það sem er sláandi við þessar staðhæfingar Eiríks er að ég hef annars vegar margtekið fram í skrifum mínum að þessi samanburður sé ekki nákvæmur, og að til þess að hann yrði það þyrfti að taka tillit til ýmissa þátta, eins og þeirra sem Eiríkur nefnir.
En, eins og ég hef einnig bent á er augljóst öllum sem til þekkja, eins og Eiríki, að þeir þættir sem hann nefnir geta með engu móti útskýrt þann gríðarlega mun sem er á birtingatíðni ólíkra fræðasviða HÍ í svokölluðum ISI-tímaritum, samkvæmt tölum sem HÍ birtir sjálfur. Það er nefnilega fráleitt eðlilegt að munurinn sé tífaldur, eins og gildir um Félagsvísindasvið í samanburði við Verkfræði- og Náttúruvísindasvið, hvað þá tvítugfaldur, eins og gildir um Menntavísindasvið.
Það er rétt að taka fram að í hugvísindum er munurinn á birtingatíðni trúlega meiri á alþjóðavettvangi, vegna ólíkra hefða, en Eiríkur er ekki bara að fjalla um hugvísindin, heldur líka félags- og menntavísindin, sem eru þau svið sem gagnrýni mín hefur fyrst og fremst beinst að. Það virðast líka vera talsverðar ýkjur hjá Eiríki að það vanti „stóran hluta virtustu tímarita í þessum greinum í grunninn“ þegar félags- og menntavísindi eru annars vegar, enda styður hann þá staðhæfingu engum gögnum.
Það eru fleiri gögn aðgengileg á netinu sem sýna svart á hvítu að Eiríkur er að reyna að verja óverjandi meðferð rannsóknafjár, miðað við yfirlýsta stefnu HÍ um að komast í fremstu röð. Þar á meðal eru ritaskrár allra starfsmanna Menntavísindasviðs, en eina slíka skrá, frá 2007, má finna í heilu lagi á netinu.
Þar er allt tínt til sem hver starfsmaður telur til rannsóknaframlags. Fyrir utan örfáa starfsmenn sem greinilega eru duglegir, og sem sumir virðast öflugir á alþjóðavettvangi, er birtingaskráin aðallega eyðimörk, ef litið er til þess sem gjaldgengt er í alþjóðasamfélaginu. Og sú afsökun að íslensk menntavísindi séu svo sérstök að þau eigi ekki erindi á alþjóðavettvang er jafn fáránleg og kenningarnar um hin sérstöku lögmál sem útskýrðu snilld Íslendinga í fjármálum.
Að fegra bókhald
Talið um að koma HÍ í hóp hundrað bestu háskóla í heimi er óraunsætt miðað við þær aðferðir sem forysta skólans notar. (Og það segir sína sögu að ekki ein einasta af manneskjunum í æðstu akademísku valdastöðum skólans hefur reynslu af starfi við erlendan háskóla.) Það er líka beinlínis skaðlegt að einblína á að komast hátt á tilteknum mælikvörðum, í stað þess að leggja áherslu á að byggja upp gæði þeirrar starfsemi sem tryggir hátt mat á slíkum kvörðum til langframa.
Eitt dæmi um skaðlega áherslu er fjöldaframleiðsla á doktorsgráðum, þar sem leiðbeinendur eru í sumum tilfellum alls ekki hæfir til starfs síns. Með þessu er verið að fegra bókhald skólans, en vinna tjón á gæðum rannsóknastarfs hans.
Það er hins vegar mun auðveldara en margir halda að byggja upp miklu öflugri rannsóknir á Íslandi en nú er raunin. Og þótt það þurfi mikið fé til að byggja upp stóran og öflugan háskóla væri hægt að efla rannsóknastarfið til muna með því fé sem háskólar fá nú til þess.
En þá þarf að nota féð í gott rannsóknastarf, ekki dreifa því á alla akademíska starfsmenn ríkisháskólanna, líka þá sem aldrei hafa stundað rannsóknir, eða bara rannsóknir sem alls ekki ná máli í því alþjóðasamfélagi sem nánast öll vísindi eru. Til að það megi verða þarf hins vegar að hætta að segja ósatt um hvað er gott og hvað slakt í háskólastarfinu.
Flokkar: Óflokkað