Þriðjudagur 10.12.2013 - 18:05 - 12 ummæli

Frekja að vilja fatla umræðuna

Sögnin að fatlast hefur nokkrar merkingar, þar á meðal að forfallast (fatlast frá verki) og að skaðast eða meiðast.  Það er væntanlega það sem Vigdís Finnbogadóttir átti við þegar hún sagði að RÚV hefði fatlast svolítið.  Að orðið þýði líka að missa einhverja hæfni sem venjuleg er meðal fólks gerir ekki að verkum að orðið geti ekki lengur haft hinar merkingarnar, auk þess sem það getur með engu móti verið niðrandi fyrir fatlað fólk að talað sé um að stofnanir fatlist.
Það er þess vegna hrein og klár frekja að ætlast til að fólk hætti að nota þetta orð öðru vísi en sjálfskipuðum rétttrúnaðarlöggum þykir við hæfi.  Fatlað fólk getur verið frekjur eins og annað fólk, og það er hið besta mál.  Það er hins vegar vont ef svoleiðis frekjum tekst að fatla umræðuna með þeirri frekju sinni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.12.2013 - 20:44 - 8 ummæli

Svona virkar átak gegn kynbundnu ofbeldi

Svo virðist sem margir skilji ekki hvernig 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi virkar, svo ég ætla að útskýra hvernig þetta gerist:
Ég les grein eftir Hrafnhildi Ragnarsdóttur um að íslenskir karlmenn séu allir meðlimir i þeirri ógnarstjórn sem kúgar konur og beitir þær ofbeldi, eða grein eftir Stefán Mána um að það sé kynbundið ofbeldi þegar karl ryðst framfyrir konu í biðröð  (kannski man ég líka eftir greininni hans frá í fyrra um að kynlíf án ástar sé ofbeldi).  Þetta hvetur mig til að tala við nauðgarana í kunningjahópnum og útskýra fyrir þeim að það sé, faktískt, ljótt að nauðga.  Síðan tala ég við hina, og útskýri fyrir þeim að þetta bandalag þeirra um að kúga konur, og beita þær ofbeldi eins og biðraðatroðningi, sé brot á mannréttindum, fyrir utan að vera kynbundið ofbeldi (og minni þá líka á að segja „ég elska þig“ áður en þeir leyfa konunum sínum, eða einhverjum öðrum konum, að ríða sér).
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa.  Mér sýnist vinir mínir allir vera hættir að nauðga eftir þessa ádrepu sem þeir fengu frá mér, og hinir eru hættir að troðast í biðröðum (hins vegar hafa nokkrar vinkonur mínar komið að máli við mig og kvartað yfir þessu helv. stemmingardrepandi málæði þegar þær vilja bara fá að ríða í hvelli).

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.12.2013 - 12:18 - Rita ummæli

Rannsóknarnefnd manndrápa lögreglu

Þegar flugvél ferst á Íslandi fer strax á staðinn rannsóknarnefnd samgönguslysa (áður rannsóknarnefnd flugslysa).  Mikilvægt þykir að sérhvert flugslys sé rannsakað til hlítar, hvort sem manntjón hefur orðið eða ekki. Markmiðið  með starfinu er að fækka slysum og auka öryggi.  Því er reynt að greina eins og frekast verður unnt orsakir slyssins, í þeirri von að hægt sé að nota upplýsingarnar til að koma í veg fyrir fleiri sambærileg slys, hvort sem orsök slyssins er mannleg mistök eða bilun í búnaði.
Engum dytti í hug að láta sjálft flugfélagið sem á vélina, eða samtök flugmanna, sjá um rannsóknina, heldur er hún framkvæmd af óháðum aðilum, sem hafa það hlutverk eitt að komast að sannleikanum um hvað gerðist og af hverju, eins ítarlega og hægt er.
Þegar lögregla banar manneskju ætti að vera jafn sjálfsagt að samstundis fari af stað rannsókn óháðra utanaðkomandi aðila, sem hafi ótakmarkaðar heimildir ti að skoða öll gögn lögreglu og taka skýrslur af þeim sem einhvern þátt tóku í aðgerðinni.  Markmiðið væri að skilja hvað gerðist, og hvort manndrápið var óhjákvæmilegt, miðað við aðstæður, í þeim tilgangi að fækka slíkum tilfellum eins og unnt er í framtíðinni.
Lögreglan getur ekki rannsakað sjálfa sig, og það á heldur ekki að setja ríkissaksóknara í þá aðstöðu, enda er hann sérhæfður í að rannsaka athæfi sem fyrirfram leikur grunur á að sé saknæmt og á eingöngu að komast að niðurstöðu um hvort svo sé, en ekki að greina í smáatriðum hvað hafi gerst að öðru leyti.
Það er rangt, og til vansa, að gefa sér fyrirfram að lögregla hafi gert mistök í því manndrápsmáli sem nú breiðir skugga sinn yfir samfélagið.  En það er líka rangt að láta eins og allt hljóti þetta að hafa verið óhjákvæmilegt, því öll gerum við mistök, ekki síst við jafn hræðilega erfiðar aðstæður og hér var um að ræða.
Til að koma í veg fyrir grunsemdir og illmælgi sem ekki er á rökum reist, og umfram allt til að koma í veg fyrir ónauðsynleg manndráp lögreglu í framtíðinni, er nauðsynlegt að sérhvert mál af þessu tagi sé rannsakað í kjölinn af óháðum aðilum sem geta notið trausts almennings.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.12.2013 - 11:38 - 1 ummæli

Segir Hanna Birna satt?

Í gær sendi ég eftirfarandi fyrirspurn til innanríkisráðherra vegna þess sem virðist vera minnisblað frá ráðuneytinu sem lekið hafi verið til fjölmiðla.  (Ég hef ekki fengið svar enn.)  Greinilegt er að þessu minnisblaði hefur verið dreift víða, en svo virðist sem ráðuneytið hafi ekki ansað lögmönnum þess fólks sem fjallað er um og sem fóru fram á að fá minnisblaðið.  Ég læt fylgja með slitur úr texta minnisblaðsins sem ég sendi með fyrirspurninnni.  Ég birti fyrirsögnina (að fjarlægðu nafni) og allar millifyrirsagnir, og örlítið brot úr hverjum kafla, en ekkert sem beinlínis tengist því fólki sem um er fjallað.  Tilgangurinn með þeirri birtingu er bara að gera ljóst að þetta lítur út eins og skjal sem samið hafi verið í ráðuneytinu.
Það kæmi heldur ekki sérlega á óvart ef þetta minnisblað er upprunnið í ráðuneytinu, því aðstoðarmaður ráðherra, Gísli Freyr Valdórsson, „missti út úr sér“ óheppileg orð þar sem hann gaf í skyn að ef til vill hefðu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins sett saman punkta um þetta mál, þegar hann var spurður hvaðan minnisblaðið kæmi.
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, talaði í fordæmandi orðalagi á Alþingi í gær um þær vangaveltur að þetta minnisblað væri komið úr ráðuneytinu (og henni virðist í nöp við alla umræðu um málið, sem er ekki sérlega geðslegt af mannréttindaráðherra):
„Til að girða fyrir þá umræðu sem ég heyri að hv. þingmaður ætlar að fara hér með þegar hún vísar til leka úr innanríkisráðuneytinu vil ég segja að það er ekkert sem bendir til þess.
Ég minni líka þingheim á að þau gögn sem koma við í ráðuneytum, t.d. rökstuðningur er varðar svona mál, og það þekkja þingmenn mjög vel fara víða á milli stofnana, á milli lögmanna og annarra aðila sem tengjast málunum. Það að hv. þingmaður leyfi sér að fullyrða úr ræðustól að leki hafi orðið úr ráðuneyti án þess að nokkuð bendi til þess finnst mér ansi bratt.“
Þótt Hanna Birna hafi byrst  sig yfir þeirri „ósvífni“ að ætla að skjal sem lítur út eins og það sé samið í ráðuneytinu komi þaðan, þá gaf hún samtímis í skyn að vel gæti verið að gögn af því tagi sem um er rætt væru á flakki þar sem þau ættu ekki að vera, og nefndi í því sambandi aðrar stofnanir (Útlendingastofnun?) og lögmenn (fólksins sem fjallað er um í minnisblaðinu?).
Hér er eitthvað sem ekki gengur upp.  Hafi þetta minnisblað verið samið í ráðuneytinu er ekki annað að sjá en ráðherra hafi sagt ósatt.  Hafi það ekki verið samið í ráðuneytinu, hvernig í ósköpunum stendur þá á því að ráðuneytið hefur ekki kært til lögreglu eða saksóknara að verið sé að dreifa minnisblaði sem látið er líta út eins og það sé úr ráðuneytinu, og hlýtur því að vera alvarleg fölsun?
———————————————————————
Til innanríkisráðherra og ráðuneytisstjóra
Ég hef séð eftirfarandi texta sem virðist vera saminn í ráðuneytinu.  Ég spyr:
1.  Er þetta minnisblað samið af starfsmönnum ráðuneytisins?  Ef ekki, var starfsmönnum kunnugt um innihald skjalsins og hver samdi það?
2.  Hefur ráðuneytið afhent minnisblaðið aðilum utan ráðuneytisins?  Ef svo er, hvaða aðilum?
3.  Ef ráðuneytið kannast ekki við að minnisblaðið hafi verið samið innan ráðuneytisins, hefur ráðuneytið kært til lögreglu að verið sé að dreifa minnisblaði sem greinilega er samið í þeim tilgangi að líta út eins og minnisblað samið í ráðuneytinu?
Bestu kveðjur,
Einar
—————————————————————–
        Minnisblað varðandi NNNN NNNN
Málsmeðferð og niðurstaða Útlendingastofnunar
Rétt þykir að vekja athygli á neðangreindu: – Í umsókn um hæli, sem barst í …
Málsmeðferð og niðurstaða ráðuneytisins
Með kæru, dags. 23. maí 2012, kærði Stefán Karl Kristjánsson, hdl, talsmaður …
   …
Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 17. október 2013, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Úrskurður ráðuneytisins var birtur kæranda þann 8. október 2013.
Beiðni um frestun réttaráhrifa
Þann 14. október sl. barst ráðuneytinu beiðni um frestun réttaráhrifa til að bera málið undir dómstóla á grundvelli 33. gr. laga um útlendinga.
Í beiðninni kom meðal annars fram:
   …
Rökstuðningur ráðuneytisins er eftirfarandi:
   …
Í úrskurði ráðuneytisins er lagt til grundvallar að kærandi hafi ekki …
      …
Ráðuneytið tekur einnig fram að það telur ekki ástæðu til að líta svo á að flutningur …
      …
Vekur ráðuneytið athygli m.a. á dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. júní 2006 í máli nr. E-6286/2005, þar sem fjallað var um kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar þrátt fyrir að aðili máls hafi ekki verið staddur á landinu. Ennfremur vísast til úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2007 í máli E-4843/2007.
   …
Með ákvörðun ráðuneytisins, dags. 14. nóvember sl., var téðri beiðni, sem fjallað var um sem beiðni um endurupptöku á úrskurði ráðuneytisins frá 17. október 2013, synjað.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.11.2013 - 11:29 - 10 ummæli

Að mismuna börnum

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu í gær.

———————————————————————

Að mismuna börnum

Árið 1896 féll dómur í Hæstarétti Bandaríkjanna í málinu Plessy gegn Ferguson, sem er eitt af þekktustu málum bandarískrar lögfræðisögu. Ekki síður þekkt er sú hugmynd sem birtist í dómnum og hlaut nafngiftina „separate but equal“, en það gæti á íslensku útlagst sem „aðskilin en jöfn“. Hér er vísað í þá niðurstöðu réttarins að í lagi sé að skilja að fólk eftir kynþætti, að því tilskildu að aðbúnaður beggja sé jafn.

Þetta voru lög í landinu í rúma hálfa öld, þar til þeim var hnekkt í málinu Brown gegn Board of Education árið 1954, sem er ekki síður þekkt en Plessy, enda er síðari úrskurðurinn grundvallaratriði í bandarískum rétti fram á þennan dag. Í honum er því lýst yfir að aðskilnaður á grundvelli kynþáttar feli sjálfkrafa í sér ólögmæta mismunun.

Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hélt nýlega ræðu á kirkjuþingi, þar sem hún talaði um andstöðuna við trúboð ríkiskirkjunnar í grunnskólum, og hélt því m.a. fram að andstæðingarnir vildu „forða börnunum okkar frá boðskap um…kærleika“. Sóðalegar dylgjur af þessu tagi, sem eru í raun hrein lygi, hefðu í flestum nágrannalöndum okkar trúlega leitt til þess að ráðherrann hefði þurft að biðjast afsökunar á orðum sínum, eða segja af sér. Svo er ekki á Íslandi, enda ríkja þar óþroskaðar hugmyndir um siðferði og ábyrgð stjórnmálafólks.

Fáum hefði brugðið ef ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Stephensen, hefði bent kurteislega á að rakalausar svívirðingar af þessu tagi væru hvorki sæmandi ráðherra né líklegar til að vinna fylgi þeirri ríkiskirkju sem hann styður greinilega, miðað við fyrri skrif hans. Hann kaus í staðinn að verja, í nýlegum leiðara, framgöngu Hönnu Birnu, og reyndi að breiða yfir ofstækið sem felst í staðhæfingum hennar. Ólafur virðist vera á þeirri skoðun að nóg sé „að tryggja að börn foreldra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða engin þyrftu ekki að taka þátt í hefðum eða athöfnum sem væru þeim á móti skapi“ og á þar við athafnir í skólum sem tengjast boðskap ríkiskirkjunnar.

Það eru næstum sextíu ár síðan hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úr um að aðskilnaður á grundvelli kynþátta bryti gegn þeim mannréttindum sem bandaríska stjórnarskráin tryggði borgurum landsins, af því að slíkur aðskilnaður fæli sjálfkrafa í sér misrétti. Innanríkisráðherra, og ritstjóri Fréttablaðsins, telja hins vegar, enn þann dag í dag, í lagi að börn séu aðskilin í skólastarfi, á grundvelli lífsskoðana foreldra þeirra.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.11.2013 - 09:00 - Rita ummæli

Epli og gerviepli í Háskóla Íslands

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 7. nóvember 2013.

Hér er grein Eiríks Smára sem þessi er svar við.  Og hér er pistillinn sem Eiríkur var að svara.

———————————————————–

Til að bregðast við frétt í Fréttablaðinu um bloggpistil sem ég birti 25. október skrifaði Eiríkur Smári Sigurðarson grein í blaðið 30. október með yfirskriftinni „Epli og könglar“. Það er ánægjuefni, þar sem markmiðið með skrifum mínum um háskólamálin er að hvetja til opinberrar umræðu um það sem gott er og vont í íslenska háskólakerfinu.

Það eru hins vegar nokkur vonbrigði að Eiríkur (eins og aðrir sem gagnrýnt hafa staðhæfingar mínar opinberlega) lætur sér nægja að halda fram að sá samanburður sem ég gerði milli fræðasviða Háskóla Íslands sé ekki marktækur. Betra væri að Eiríkur útskýrði hver hinn eðlilegi samanburður sé, sem ætti að vera auðvelt fyrir hann, þar sem hann sýslar einmitt með slík mál í starfi sínu hjá HÍ.

Tvítugfaldur munur

Það sem er sláandi við þessar staðhæfingar Eiríks er að ég hef annars vegar margtekið fram í skrifum mínum að þessi samanburður sé ekki nákvæmur, og að til þess að hann yrði það þyrfti að taka tillit til ýmissa þátta, eins og þeirra sem Eiríkur nefnir.

En, eins og ég hef einnig bent á er augljóst öllum sem til þekkja, eins og Eiríki, að þeir þættir sem hann nefnir geta með engu móti útskýrt þann gríðarlega mun sem er á birtingatíðni ólíkra fræðasviða HÍ í svokölluðum ISI-tímaritum, samkvæmt tölum sem HÍ birtir sjálfur. Það er nefnilega fráleitt eðlilegt að munurinn sé tífaldur, eins og gildir um Félagsvísindasvið í samanburði við Verkfræði- og Náttúruvísindasvið, hvað þá tvítugfaldur, eins og gildir um Menntavísindasvið.

Það er rétt að taka fram að í hugvísindum er munurinn á birtingatíðni trúlega meiri á alþjóðavettvangi, vegna ólíkra hefða, en Eiríkur er ekki bara að fjalla um hugvísindin, heldur líka félags- og menntavísindin, sem eru þau svið sem gagnrýni mín hefur fyrst og fremst beinst að. Það virðast líka vera talsverðar ýkjur hjá Eiríki að það vanti „stóran hluta virtustu tímarita í þessum greinum í grunninn“ þegar félags- og menntavísindi eru annars vegar, enda styður hann þá staðhæfingu engum gögnum.

Það eru fleiri gögn aðgengileg á netinu sem sýna svart á hvítu að Eiríkur er að reyna að verja óverjandi meðferð rannsóknafjár, miðað við yfirlýsta stefnu HÍ um að komast í fremstu röð. Þar á meðal eru ritaskrár allra starfsmanna Menntavísindasviðs, en eina slíka skrá, frá 2007, má finna í heilu lagi á netinu.

Þar er allt tínt til sem hver starfsmaður telur til rannsóknaframlags. Fyrir utan örfáa starfsmenn sem greinilega eru duglegir, og sem sumir virðast öflugir á alþjóðavettvangi, er birtingaskráin aðallega eyðimörk, ef litið er til þess sem gjaldgengt er í alþjóðasamfélaginu. Og sú afsökun að íslensk menntavísindi séu svo sérstök að þau eigi ekki erindi á alþjóðavettvang er jafn fáránleg og kenningarnar um hin sérstöku lögmál sem útskýrðu snilld Íslendinga í fjármálum.

Að fegra bókhald

Talið um að koma HÍ í hóp hundrað bestu háskóla í heimi er óraunsætt miðað við þær aðferðir sem forysta skólans notar. (Og það segir sína sögu að ekki ein einasta af manneskjunum í æðstu akademísku valdastöðum skólans hefur reynslu af starfi við erlendan háskóla.) Það er líka beinlínis skaðlegt að einblína á að komast hátt á tilteknum mælikvörðum, í stað þess að leggja áherslu á að byggja upp gæði þeirrar starfsemi sem tryggir hátt mat á slíkum kvörðum til langframa.

Eitt dæmi um skaðlega áherslu er fjöldaframleiðsla á doktorsgráðum, þar sem leiðbeinendur eru í sumum tilfellum alls ekki hæfir til starfs síns. Með þessu er verið að fegra bókhald skólans, en vinna tjón á gæðum rannsóknastarfs hans.

Það er hins vegar mun auðveldara en margir halda að byggja upp miklu öflugri rannsóknir á Íslandi en nú er raunin. Og þótt það þurfi mikið fé til að byggja upp stóran og öflugan háskóla væri hægt að efla rannsóknastarfið til muna með því fé sem háskólar fá nú til þess.

En þá þarf að nota féð í gott rannsóknastarf, ekki dreifa því á alla akademíska starfsmenn ríkisháskólanna, líka þá sem aldrei hafa stundað rannsóknir, eða bara rannsóknir sem alls ekki ná máli í því alþjóðasamfélagi sem nánast öll vísindi eru. Til að það megi verða þarf hins vegar að hætta að segja ósatt um hvað er gott og hvað slakt í háskólastarfinu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur