Fimmtudagur 31.10.2013 - 12:58 - 4 ummæli

Gauta Kristmannssyni svarað aftur um HÍ

Gauti Kristmannsson birti nýlega annað „svar“ við pistlum mínum um íslenska háskólakerfið, og gagnrýni minni á Háskóla Íslands.  Nýjasti pistill minn um þetta er hér.
Merkilegt nokk reynir Gauti ekki að hrekja beinlínis neitt af því sem ég hef sagt, auk þess sem hann skýtur sér hjá því að svara þeirri ábendingu minni, þegar talnasamanburðurinn er annars vegar, að þrátt fyrir ónákvæmni er útilokað að útskýra þann gríðarlega mun sem er á Íslandi og öðrum löndum, og þá skiptir ekki máli hvort munurinn er tífaldur (á hlutfallslegum fjölda nemenda í rannsóknaháskólum) eða „bara“ þrefaldur.  Ég ætla ekki að fara ítarlega gegnum málflutning Gauta, en nefna nokkur dæmi um rangfærslur hans.
Eitt og annað í þessari grein Gauta sé ég ekki betur en að sé kolrangt.  Meðal annars segir hann:
„Þannig er ein grein eftir t.d. fimm íslenska fræðimenn við HÍ talin fimm sinnum í þessari töflu.“
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hjá  Vísinda- og nýsköpunarsviði HÍ eru greinar því aðeins tvítaldar á þessum lista að höfundar séu af tveim ólíkum sviðum.  Þannig sé grein aldrei tvítalin fyrir sama svið, og hafi því ekki áhrif á þann samanburð sem ég gerði.
Annað dæmi:  Gauti hefur eftir mér:
„Til að skilja molbúaháttinn sem einkennir raunverulega stefnu forystu HÍ og HR, sem báðir segjast ætla að verða öflugir rannsóknaháskólar á alþjóðavettvangi, er gott að hafa þetta í huga: Af þeim 10-12 manneskjum sem mynda æðstu akademísku stjórn þessara skóla [HÍ og HR] hefur ekki ein einasta neina teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.“
Og svo segir Gauti:
„Þetta eru einfaldlega ósannindi og aðdróttun að mannorði fólks sem er hámenntað víða erlendis, hefur reynslu af starfi við erlenda háskóla og mikinn rannsóknaferil að baki.“
 Einfalt hefði verið fyrir Gauta að benda á konkret dæmi um þetta, þ.e.a.s. einhverja af þessum manneskjum sem hefur „teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.“  Það gerir hann ekki.  Ástæðan er einföld.  Hver sem er getur skoðað feril þessa fólks, og niðurstaðan er sú sem ég hélt fram.  (Og hér er e.t.v. rétt að taka fram að með akademísku starfi á ég ekki við það að vera í námi, heldur að hafa starfað sem akademískur starfsmaður.)
Óskandi væri að Gauti vildi ræða þessi mál í alvöru, og reyna að hrekja beinlínis það sem ég segi, í stað þess að halda bara fram að samanburðurinn sem ég geri sé ómarktækur.  Það ætti t.d. að vera auðvelt fyrir hann að útskýra hvort það er rangt hjá mér að á Íslandi séu allir akademískir starfsmenn ríkisháskólanna í rannsóknastöðum (fái umtalsverðan hluta launa sinna fyrir að stunda rannsóknir), og hvort það er algengt í öðrum löndum að það gildi um svo gríðarlega hátt hlutfall slíkra starfsmanna.  Staðreyndin, sem Gauti hefur ekki reynt að hrekjs, er að þetta er  óþekkt í nokkru öðru landi með  hlutfallslega jafn umfangsmikið háskólakerfi.  Skýringin er varla sú að Íslendingar séu ofurmenni á þessu sviði.
Óskandi væri líka að fleiri úr háskólasamfélaginu, sérstaklega það forystufólk sem ber ábyrgð á því sem gagnrýni mín beinist að, tækju þátt í þessari umræðu á  opinberum vettvangi.  Það á jú að vera aðal háskólasamfélags að stunda opinskáa og gagnrýna umræðu.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.10.2013 - 10:25 - 12 ummæli

Sláandi tölur um Háskóla Íslands

Ég hef fjallað í nokkrum pistlum um íslenska háskólakerfið, þar sem er víða pottur brotinn. Síðasti pistillinn er hér, en fleiri hér og hér. Ég hef fyrst og fremst fjallað um Háskóla Íslands, af því að hann er um 75% háskólakerfisins að umfangi, og 90% af ríkisháskólakerfinu. Margt af því sem ég hef gagnrýnt á einnig við um Háskólann í Reykjavík (sem er með um 15% háskólanema landsins), svo sem glæsilega orðuð stefna sem er í raun lygi miðað við gerðirnar, og allt of litlar kröfur til akademískra starfsmanna í sumum deildum. En, af því að meðferð rannsóknafjár í HR er með öðrum hætti en í ríkisháskólunum hef ég haldið HR utan við þessa umfjöllun enn sem komið er, hvað sem síðar verður.

Kjarni vandans í HÍ (og öðrum ríkisháskólum, sem ég ætla ekki að nefna sérstaklega) er að gríðarlega stór hluti þess fjár sem eyrnamerkt er rannsóknum fer í laun til akademískra starfsmanna sem annað hvort hafa aldrei stundað neitt sem hægt er að kalla rannsóknir, eða þá að rannsóknirnar eru svo lélegar að ekki er reynt að birta þær þar sem slíkar rannsóknir eiga heima, á ritrýndum alþjóðavettvangi. Þessi misnotkun á fé er þó afar ólík eftir fræðasviðum HÍ. Á öllum sviðum skólans (og í öllum litlu háskólunum) má finna fólk sem er greinilega virkt á fræðasviði sínu, og sumt stendur jafnvel framarlega í því alþjóðasamfélagi sem vísindastarf er. Á öllum sviðum er líka til fólk sem aldrei hefði átt að fá fastráðningu í akademískar stöður, hvað þá prófessorsstöður, af því að það hefur aldrei lagt neitt af mörkum í rannsóknum. Að þessu sögðu er hins vegar athyglisvert að skoða þær tölur sem HÍ birtir á netinu.

Hí skiptist í fimm fræðasvið, Félagsvísindi, Heilbrigðisvísindi, Hugvísindi, Menntavísindi og Verkfræði- og Náttúruvísindi. Hér má sjá fjölda fastráðinna akademískra starfsmanna (lektora, dósenta og prófessora, sem allir fá helming launa sinna greiddan fyrir rannsóknir) árið 2012, og hér er heildarfjöldi birtinga starfsmanna hvers sviðs sama ár í svokölluðum ISI-tímaritum, en það eru tímarit sem finna má í einum víðtækasta alþjóðlega gagnagrunninum yfir greinar birtar í ritrýndum fræðiritum. Ég hef áður fjallað ítarlega um það af hverju birtingar fræðigreina á íslensku eru nánast aldrei framlag til viðkomandi fræðasviðs (því nánast öll fræðasvið eru alþjóðleg í eðli sínu og fræðafólki ber að birta niðurstöður sínar þeim sem starfa á sviðinu).

Hér er tafla með þessum upplýsingum, ásamt meðalfjölda birtra greina á hvern starfsmann:

[tafla head=“1″]
Svið | Starfsmenn | Greinar | Meðaltal
Verkfræði- og Náttúruvísindi | 109 | 345 | 3.17
Heilbrigðisvísindi | 187 | 330 | 1.76
Félagsvísindi | 116 | 33 | 0.28
Hugvísindi | 105 | 19 | 0.18
Menntavísindi | 127 | 18 | 0.14
[/tafla]

Hér eru þessar upplýsingar á myndrænu formi.

Ef meta á gæði einstakra akademískra starfsmanna er alls ekki nóg að skoða fjölda birtinga, þótt engar birtingar á löngum tíma (eins og er algengt t.d. á Menntavísindasviði) bendi auðvitað til þess að viðkomandi sé ekki virkur í fræðastarfi. Það er líka ljóst að birtingatíðni er mjög misjöfn eftir sviðum, og jafnvel innan sviða og einstakra greina. Það er hins vegar líka ljóst að birtingatíðni í sæmilegum erlendum háskólum í félags- og menntavísindum er ekki margfalt minni en í náttúru- og heilbrigðisvísindum, þótt einhverju muni. Það er t.d. alveg ljóst að birtingatíðni á alþjóðavettvangi í menntavísindum er miklu meiri en einn tuttugasti af því sem gerist í náttúrurvísindum, en þannig er staðan við HÍ. Og alþjóðleg birtingatíðni í félagsvísindum er miklu meiri en einn tíundi af tíðninni í náttúruvísindum.

Ef ætti að gera svona úttekt nákvæma, svo hún segði hvert frávikið í birtingatíðni við HÍ er frá alþjóðlegu meðaltali á hverju sviði, í þeim skólum sem HÍ vill bera sig saman við, þá þyrfti að taka tillit til ýmissa þátta sem ekki verður gert hér. Það er líka mikilvægt að átta sig á að birtingatíðni segir ekki mikið um gæði einstakra starfsmanna (því magn er alls ekki sama og gæði). En það er hins vegar ljóst að þegar um heilan háskóla er að ræða, með yfir hundrað starfsmenn á hverju sviði, þá segir samanburður á birtingartíðni sína sögu.

Það dylst engum sem skoðar þessar tölur að afrakstur þess fræðastarfs sem fram fer á Félagsvísindasviði, Menntavísindasviði og Hugvísindasviði HÍ er fáránlega litill, í ljósi þess að allir akademískir starfsmenn hafa haft 40% af launum sínum fyrir að stunda rannsóknir, og yfirlýst markmið skólans er að komast í hóp bestu háskóla í heimi.

Það er annars vegar sóun að borga fjölda akademískra starfsmanna laun fyrir vinnu sem þeir ráða ekki við, og hins vegar að nota ekki það fé sem skólinn hefur til rannsókna til að byggja upp rannsóknir á þeim sviðum þar sem það er hægt.

Ein lausn á þessum vanda væri að endurskipuleggja háskólakerfið frá grunni (eins og fyrri menntamálaráðherra talaði um að gera þyrfti, en heyktist á). Brýnast er að veita rannsóknafé til þeirra sem geta notað það í góðar rannsóknir. Hitt er líka mikilvægt að á þeim sviðum þar sem litlar eða engar rannsóknir fara fram séu akademískir starfsmenn einfaldlega ráðnir til að kenna í fullu starfi, og látnir njóta verðleika sinna í því starfi, í stað þess að leggja á þá mælikvarða vísindastarfs sem þeir sinna ekki. Í þessari álitsgerð eru tillögur um uppskiptingu háskólakerfisins í kennslu- og rannsóknaskóla.  Hvort einhver menntamálaráðherra í fyrirsjáanlegri framtíð verður nógu kjarkaður til að reyna að láta endurskipuleggja háskólakerfið, og hvort slík tilraun kæmist í gegnum allar nauðsynlegar valdaklíkur til að hljóta samþykki þingsins, er hins vegar hæpið.  Svo mikið er víst að núverandi forysta HÍ mun ekki beita sér fyrir teljandi úrbótum …

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.10.2013 - 10:51 - 15 ummæli

Apar í búri og aðrir á lausagangi

Í gær sagði ég örlítið, á Facebook, frá samskiptum mínum við Vodafone á Íslandi í framhaldi af kvörtunum mínum vegna viðskiptahátta fyrirtækisins (breytinga á skilmálum og framkomu fyrirtækisins í sambandi við það).  Einn Facebook-vinur minn, sem hafði svipaða reynslu, sagði að fyrirtæki af þessu tagi væru yfirleitt með það sem hann kallaði „apa í búri“ til að fást við óánægða viðskiptavini.  Þetta er fyrirbæri sem ég hef oft rekið mig á, þótt mér hafi aldrei dottið í hug þessi snilldarlega lýsing.
Ég hef talsverða reynslu af að kvarta yfir viðskiptum í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Bretlandi, auk Íslands.  Það er um margt áhugaverð reynsla.  Í Bandaríkjunum, þar sem kvartferill minn hófst fyrir nokkrum áratugum, hefur reynsla mín nánast alltaf verið mjög góð.  Þar hefur oftast verið í heiðri höfð sú regla að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér.  Hún er yfirleitt útfærð þannig að hlustað er á kvörtunina, reynt að leysa málið ef það er hægt, en boðnar bætur af einhverju tagi annars.  Og algerlega látið eiga sig að útskýra fyrir viðskiptavininum að hann sé frekur asni, og því óalandi og óferjandi og bara fökkoffplís.
Þau fimmtán ár sem ég bjó í Svíþjóð fannst mér eins og ástandið batnaði umtalsvert frá því sem það var fyrst, en ég get ekki sagt að ég hafi nógu mikla kvartreynslu þaðan til að geta fullyrt mikið.  Sem gæti hugsanlega stafað af því hvað hlutirnir eru yfirleitt vel skipulagðir í Svíaríki (en vei þeim sem þvælist út fyrir lendur skipulagsins í þvísa landi).
Í Bretlandi, þar sem ég hef búið síðustu árin hefur mér löngum blöskrað klikkunin í ýmsu skrifræði (og áttaði mig að lokum á því að Monty Python var ekki grín heldur heimildaþáttaröð).  Hér virðast fyrirtæki sem ég hef þurft að eiga við undantekningalítið vera með vel þjálfaða og agaða apa í búri, og ekki bara einu, heldur stundum stafla af búrum, hverju ofan á öðru.
Apabúrin virka svona í Bretlandi:  Ef maður hringir til að kvarta er maður fyrst þreyttur ógurlega með því að þurfa að stimpla númerið sitt inn í símann, og fæðingardaginn, og hvenær maður fór síðast á klósettið og sitthvað fleira, áður en maður fær að tala við manneskju af holdi og blóði (eða einhvers konar eftirlíkingu af því), sem krefur mann svo um allar sömu upplýsingarnar aftur, áður en hún sendir mann til næstu manneskju, sem enn spyr um allt það sama áður en maður fær að bera upp erindið.  Það næsta sem gerist, þegar maður er loks kominn í samband við manneskju sem kann að tala, er að manni er sagt „that’s for your security“, sama  hvað það er sem maður er ósáttur við.
Í fyrstu skiptin sem ég lenti í þessu gafst ég bara upp þegar ég var búinn að eyða löngum tíma án nokkurs árangurs.  Svo datt mér í hug að krefjast þess að fá að tala við yfirmann viðkomandi, eða einhvern sem vissi svarið við spurningum mínum (eftir að hafa margútskýrt fyrir viðmælandanum að hann hefði alls ekki svarað spurningunni).  Það endaði með því að í mig hringdi manneskja sem nokkurn veginn var hægt að tala við, en sem fljótlega kom í ljós að ekki vissi svörin við spurningum mínum.  Með því að fara fram á að fá að tala við slíka manneskju lenti ég á endanum, eftir nokkur þrep upp virðingarstiga fyrirtækisins,  á einni sem skildi á augabragði hvert vandamálið var, sagðist myndu sjá til að þetta gerðist ekki aftur (krítarkortsgreiðsla stöðvuð á fáránlegum forsendum) og gerði greinilega eitthvað í því, þar sem vandamálið hvarf.   Og baðst margfaldlega afsökunar, fyrir hönd fyrirtækisins, á þessum hremmingum mínum.
Mér finnst það nokkuð ógeðfelldir viðskiptahættir að vera með apa í búri sem hrekja líklega burt langflesta sem reyna að bera upp kvartanir.  En, það er nokkur huggun að vita að standi maður fast á sínu er mögulegt að komast í samband við manneskju sem leysir vandann.
Reynsla mín í gær var hins vegar nokkuð á annan veg.  Ég var vissulega búinn að tala nokkrum sinnum við apa í búri (sem eru sem betur fer svo illa þjálfaðir á Íslandi að oft er hægt að fá þá til að ræða málin á tiltölulega heimskulausum nótum).  Og það tók langan tíma, og mikinn eftirrekstur, en á endanum komst ég í samband við manneskju sem hafði vald til að gera eitthvað í málinu.  Það var háttsettur stjóri, sem samkvæmt leit á netinu hefur verið stjóri í ýmsum öðrum voldugum fyrirtækjum á Íslandi síðustu árin.  En, hér var ekki komin manneskjan sem leysti vandamálið eða reyndi að bæta fyrir það sem viðskiptavinurinn var ósáttur við.
Í staðinn reyndi hann að sannfæra mig um að skoðanir mínar væru rangar, og skipti um umræðuefni þegar málið snerist augljóslega ekki um skoðanir.  Hann skammaði mig líka fyrir það hvernig ég talaði um þessi mál, og gerði allt sem í hans valdi stóð (sem var takmarkað, vegna hæfileikaskorts, það skal viðurkennt) til að sannfæra mig um að fyrirtækið bæri bara hag viðskiptavinanna fyrir brjósti, og að ég væri með algerlega óraunhæfar væntingar.  Að lokum ákvað ég að tilgangslaust væri að tala við manninn og þagnaði.  Hann hélt einn áfram í nokkrar mínútur …
Munurinn á Bretlandi og Íslandi (samkvæmt minni reynslu) virðist því vera sá að búraparnir á Íslandi eru skemmtilegri viðræðu en í Bretlandi (hvort sem það stafar af lítilli þjálfun eða því að þeir séu bara óhræddari við að haga sér eins og venjulegar manneskjur).  Og svo hitt, að þegar komið er nógu hátt í fyrirtækinu til að fólki hafi verið hleypt út úr búrinu þá er það, á Íslandi, samt sömu aparnir og þeir sem sitja í búrinu niðri á plani.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.10.2013 - 11:17 - 4 ummæli

Lygasagan um gæði íslenskra háskóla

[Breytt kl. 21:55, 7. apríl 2015:  Mér hefur verið bent á að staðhæfing mín í þessum pistli um samband Háskóla Íslands og Vilmundar Guðnasonar, forstjóra Hjartaverndar, sé röng. Ég vil ekki breyta pistlinum svo löngu eftir að hann er skrifaður, en set athugasemd við þetta í honum sjálfum líka. Og biðst hér með afsökunar á þessu ranghermi mínu.]
Gauti Kristmannsson birti s.l. föstudag grein á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, þar sem hann gagnrýnir þennan bloggpistil minn.  Ég hef nú svarað gagnrýni Gauta í löngu máli, á sama vettvangi, og  þann pistil birti ég líka hér (á undan þessum).  Af því að sá pistill er mjög langur tek ég hér saman helstu atriðin úr því sem ég sagði í upphaflega pistlinum, og sem ég  skýrði ítarlega í svarinu til Gauta.
1.  Á Íslandi er umfang hákólakerfisins hlutfallslega með því mesta sem gerist í heiminum (mælt í fjölda nemenda).  Í íslensku ríkisháskólunum eru allir (fastráðnir) akademískir starfsmenn í rannsóknastöðum, þ.e.a.s. fá stóran hluta af launum sínum fyrir að stunda rannsóknir.  Þetta er óþekkt í sambærilegum löndum, þar sem langt innan við helmingur háskólakennara  er í rannsóknastöðum
2.  Ef við göngum út frá því að Íslendingar séu ekki afburðafólk í alþjóðlegum samanburði, og að í öðrum löndum sé rannsóknageta ekki gríðarlega vannýtt, þá er ljóst að verið er að eyða miklu fé í rannsóknir sem annað hvort eru engar eða ná alls ekki máli á þeim alþjóðavettvangi sem nánast allar vísindagreinar tilheyra, og sem HÍ (og HR) segjast ætla að komast framarlega á.
3.  Gefinn er út fjöldi tímarita á islensku sem sögð eru ritrýnd (þ.e.a.s. að farið hafi fram strangt fræðilegt mat óháðra sérfræðinga á greinum áður en þær eru samþykktar til birtingar).  Þetta er fásinna, því íslenska fræðasamfélagið á tilteknu sviði er sjaldan meira en örlítið brot af því sem alþjóðasamfélagið er, og er þó oft ærið verk fyrir ritstjóra alþjóðlegra tímarita að finna hæfa rýnendur fyrir greinar.  Auk þess er óhjákvæmilegt að ritrýnendur séu oft ekki bara úr sama háskóla heldur úr sömu deildinni, sem býður upp á hagsmunaárekstra af því tagi sem þarf að forðast í slíku ferli.
4.  Ástæða þess að gefin eru út svo mörg tímarit á íslensku er nokkuð augljóslega sú, í flestum tilfellum, að í þeim eru birtar greinar sem erfitt eða ómögulegt er að fá birtar í sæmilegum alþjóðlegum tímaritum.  Auk þess eru höfundar oft alls ekki í tengslum við alþjóðasamfélagið á sínu sviði, þótt um sé að ræða svið sem eru alþjóðleg í eðli sínu, svo sem verkfræði, hjúkrunarfræði, sálfræði, viðskiptafræði eða menntavísindi.
5.  Að það sé þjónusta við almenning að birta fræðigreinar á íslensku er fráleitt, af því að leikmenn geta sjaldan lesið fræðilegar greinar sér til gagns, af því að nánast allir sem það geta lesa ensku hvort sem er, og af því að fræðimenn eiga að þjóna þessu hlutverki með því að tjá sig á öðrum vettvangi, með hætti sem er aðgengilegur almenningi. Gott dæmi um hið síðastnefnda er Vísindavefur Háskóla Íslands.
6.  Forysta Háskóla Íslands hreykir sér af því að  hann sé kominn á lista yfir 300 bestu háskóla í heimi.  Sannleikurinn er sá að skólinn hefur aðeins komist inn á einn slikan lista, þótt þeir séu talsvert fleiri.  Það sem verra er, þetta var gert með bókhaldsbrellum, þ.e.a.s. með því að gera Kára Stefánsson og Vilmund Guðnason [<< Rangt um Vilmund; sjá aths. í upphafi pistilsins] að prófessorum við skólann.  Það þýðir að HÍ getur talið sér til tekna nánast allar fræðigreinar sem hin geysiöflugu fyrirtæki Erfðagreining og Hjartavernd birta, án þess að skólinn hafi með þessu lagt nokkuð til þeirra rannsókna, né heldur eflt rannsóknastarf á Íslandi.
7.  Ríkisháskólarnir notast við stigakerfi (vinnumatskerfi) sem hvetur beinlínis til fjöldaframleiðslu á drasli, t.d. greinum í íslensk tímarit sem eru augljóslega innihaldslaus þvæla, eða eins ómerkilegum greinum og hægt er að fá birtar í alþjóðlegum tímaritum, í stað þess að meta að verðleikum það sem best er.
8.  Ef hætt væri að greiða laun fyrir rannsóknir sem annað hvort eru engar eða langt undir öllum viðunandi viðmiðum í gæðum væri hægt að nota féð til að stórefla það sem gott er í háskólum landsins.  Það væri áhrifaríkasta leiðin til að auka styrk háskólanna á alþjóðavettvangi.
9.  Ef háskólayfirvöld á Íslandi kærðu sig um að nota það fé sem veitt er til rannsókna til að efla rannsóknastarf gætu þau veitt miklu stærri hluta þess gegnum samkeppnissjóði, þar sem fram fer strangt mat (með óháðum erlendum matsmönnum) á umsóknum, í stað þess að afhenda það háskólum þar sem engar slíkar kröfur eru gerðar um gæði.
10.  Ef ríkisháskólarnir vildu efla rannsóknir sínar til muna myndu þeir hætta að hafa fjölda akademískra starfsmanna í rannsóknum sem ekki skila neinu sem er þess virði að styrkja.  Í staðinn væri hægt að nota féð til að byggja upp rannsóknahópa sem hafa til þess burði, með því að ráða til þeirra fleira fólk, bæði fastráðna, doktorsnema og nýdoktora.
11.  Til að skera úr um það hvaða starfsemi er þess virði að hlaða undir hana er tiltölulega einfalt mál að fá hóp óháðra (erlendra) sérfræðinga til að gera úttekt á starfinu, í alþjóðlegum samanburði.
12.  Andstaðan við slíka úttekt stafar af því að hún myndi óhjákvæmilega leiða í ljós miklar gloppur í kerfinu, þar sem mikið fé hverfur til einskis.  Meðal annars myndi koma í ljós að þótt á öllum sviðum háskólanna sé til gott fræðafólk, og sums staðar afburðafólk, þá eru heilu sviðin (t.d. Félagsvísindasvið og sérstaklega Menntavísindasvið HÍ) með gríðarlegan fjölda starfsmanna sem engu skila á alþjóðavettvangi.
13.  Ein leiðin til að stokka upp kerfið er að skipta því í einn rannsóknaháskóla og nokkra kennsluháskóla.  Í þeim síðarnefndu yrði lögð áhersla á góða kennslu, t.d. á sviðum eins og kennaramenntun og viðskiptafræði, og góðir kennarar metnir að verðleikum, en ekki stundaðar rannsóknir.  Nánari útfærslu á þeirri hugmynd má sjá hér, í álitsgerð sem lögð var fram í svokölluðum „rýnihópi ráðherra um endurskipulagningu háskólakerfisins“ sumarið 2009.  (Skemmst er frá því að segja að þessar tillögur voru algerlega hunsaðar, og hópurinn skilaði tillögum um engar breytingar á kerfinu.)
14.  Til að skilja molbúaháttinn sem einkennir raunverulega stefnu forystu HÍ og HR, sem báðir segjast ætla að verða öflugir rannsóknaháskólar á alþjóðavettvangi, er gott að hafa þetta í huga:  Af þeim 10-12 manneskjum sem mynda æðstu akademísku stjórn þessara skóla hefur ekki ein einasta neina teljandi reynslu af akademísku starfi við erlenda háskóla.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.10.2013 - 11:14 - Rita ummæli

Gauta svarað, um gæði íslenskra háskóla

(Þetta er mjög langur pistill.  Hér er hins vegar stutt samantekt á aðalatriðunum: Lygasagan um gæði íslenskra háskóla)
Síðastliðinn föstudag birti Gauti Kristmannsson grein á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, sem nefnist „Ritrýning á grein eftir Einar Steingrímsson“.  Grein mín, bloggpistill á Eyjunni, var gagnrýni á meðferð ríkisháskólanna á því fé sem þeir fá til rannsókna.  Háskólarnir greiða öllum akademískum starfsmönnum helming launa sinna fyrir rannsóknir (ekki 40% eins og ég hélt) þótt margir þessara starfsmanna hafi aldrei stundað neinar rannsóknir sem verðskulda að heita því nafni, og margir aðeins rannsóknir sem ekki ná því máli að vera gjaldgengar á þeim alþjóðavettvangi sem nánast öll vísindi tilheyra.
Hér reyni ég að svara flestum athugasemdum Gauta.  Auðvitað getur verið að ég sé að misskilja Gauta, því grein hans er skrifuð í þannig stíl að ekki er laust við að mann gruni að hann sé að skopast að þeirri afstöðu sem hann virðist kynna sem sína eigin, enda er grein hans full af háði, og einmitt ekki í þeim vísindalega anda sem hann virðist vera að gagnrýna pistil minn fyrir að skorta.  Enda er vandséð af hverju Gauti telur ástæðu til að fjalla um bloggpistil eins og um vísindaritgerð sé að ræða, og það án þess að reyna að hrekja þær staðhæfingar sem mikilvægastar eru í pistlinum.  Því má vel vera að ég gangi hér í þá gildru að taka alvarlega það sem er í raun kaldhæðin ádeila, sett fram í yfirlætislegum umvöndunartón.  En, af því ég veit að ekki líta allir á þetta sem brandara hjá Gauta tel ég rétt að svara því helsta sem hann segir.
Hvert var markmið bloggpistilsins?
Pistill minn ber yfirskriftina „Þarf að reka 80% háskólakennara á Íslandi úr 40% af starfi sínu?“ og Gauti segir:
„Við lestur greinarinnar kemur líka í ljós að þetta er ekki nein „rannsóknaspurning“ heldur einfaldlega retorísk spurning sem svara á með já, enda er það gert beinlínis í greininni þar sem segir „það er því varla ofreiknað að 80% akademískra starfsmanna háskóla á Íslandi séu á launum við að stunda rannsóknir sem ekkert vit er að setja peninga í“. Hvaðan höfundur hefur þekkingu til að kveða upp úr um hvaða rannsóknir vit sé að setja peninga í kemur ekki fram og ekki vísar hann til neinna rannsókna um það efni.“
Það er rétt  hjá Gauta að spurningin í fyrirsögninni er retórísk.  Hins vegar ekki að henni beri að svara með já, enda eru retórískar spurningar gjarnan settar fram til að fá fólk til að hugsa út frá nýju sjónarhorni, í þeirri von að það komist að niðurstöðu sem ekki er endilega jafn einföld og spurningin gefur til kynna.  Eins og ljóst er af lestri pistils míns bendi ég á að hægt er að fá óháða erlenda aðila til að meta gæði rannsókna íslensku háskólanna, og skipuleggja starf þeirra í samræmi við það, til dæmis með því að skipta upp í rannsóknaháskóla annars vegar og kennsluháskóla hins vegar.  Auk þess bendi ég í pistlinum á miklu ítarlegri tillögur um endurskipulagningu háskólakerfisins, þar sem ljóst er að ekki er verið að gefa sér fyrirfram hver hlutföllin ættu að vera í slikri skiptingu.
Varðandi það hvort ég hafi þekkingu til að „kveða upp úr um hvaða rannsóknir vit sé að setja peninga í“  legg ég einmitt ekki til að mitt mat á því yrði lagt til grundvallar.  Og auðvitað get ég alls ekki metið gæði rannsókna á öðrum sviðum en mínu eigin þrönga, ef um er að ræða eitthvað sem ekki er augljós þvæla.  En, það þarf  oft enga sérþekkingu til að sjá að tilteknar ritsmíðar, sem birtar hafa verið af starfsmönnum háskólanna á vettvangi sem haldið er fram að sæti ritrýningu, eru tóm þvæla.  Ég gæti hæglega talið upp slatta af slíkum greinum, en ætla að veigra mér við því enn um sinn, af því að með því er hætt við að ég særi fólk sem ekki er endilega sjálft við að sakast (heldur leiðbeinendur og ritstjóra sem eiga að vita betur).
Eru tölurnar sem ég nefni of ónákvæmar? 
Gauti fettir fingur út í þá ónákvæmni sem fram kemur í pistli minum varðandi hlutfallstölur, þótt ég bendi á strax í upphafi, eins og hann segir, að tölurnar séu ekki nákvæmar.  Ástæða þess að ég tel ekki þurfa nákvæmar tölur um þetta eru eftirfarandi: Á Íslandi er fjöldi nemenda í háskólanámi svipaður því sem mest gerist (hlutfallslega) í heiminum.  Allir akademískir starfsmenn ríkisháskólanna fá greitt fyrir að helga stóran hluta starfs síns rannsóknum og sama gildir um mjög marga starfsmenn í HR (þótt þar gangi ekki eitt yfir alla, sem er ástæða þess að ég undanskildi HR í upphafi pistils míns, og Gauta fannst furðulegt).  Það er nokkuð augljóst þeim sem einhverja innsýn hafa í háskólakerfi sambærilegra landa að þetta er einstakt fyrir Ísland; í engum öðrum löndum með jafn hátt hlutfall háskólanema er nema lítill hluti kerfisins með alla akademíska starfsmanna í rannsóknastöðum.  Til glöggvunar bæti ég hér við svolitlum upplýsingum um þetta mál, til að auðvelda lesendum að skoða samanburðinn sem ég gerði:
Til samanburðar við Ísland tók ég dæmið um Kaliforníu af því að þar er auðvelt að finna upplýsingar um fjölda nemenda og gróflega um skiptinguna milli rannsókna- og kennsluskóla.  Það er rétt hjá Gauta að upplýsingarnar um þennan nemendafjölda blasa ekki við á þeirri Wikipedia-síðu sem ég tengdi á, en í kaflanum sem ég tengdi beint á er lýst þrískiptingu kerfisins og þar eru tenglar á síður um hvern þessara þriggja hluta, þar sem koma fram tölur um nemendafjölda.  Hér er svo síða sem ég hefði átt að tengja líka á, með lista yfir nemendafjölda m.a. í stóru einkareknu háskólunum í Kaliforníu.  Með því að skoða þessar tölur er auðvelt að sjá að hlutfall nemenda í rannsóknaháskólum er lítið.  Í pistlinum sagði ég það líklega vera 10-15% (byggt á lauslegum útreikningi út frá þeim gögnum sem ég nefni hér), en þótt það væri 50% væri það samt gríðarlegur munur í samanburði við Ísland.
Ég nefni líka eitt og annað sem skekkir þennan samanburð, Íslandi í óhag, nefnilega að margt öflugt íslenskt háskólafólk starfar erlendis, að afar fáir útlendingar starfa við íslensku háskólana, en hins vegar mikill fjöldi útlendinga við rannsóknaskólana í Kaliforníu.  Burtséð frá því ætti niðurstaðan samt að vera ljós: Á Íslandi eru hlutfallslega margfalt fleiri á launum við rannsóknir í háskólum.  Sama gildir um Norðurlöndin, þar sem mikið er af kennsluháskólum auk rannsóknaskólanna.  Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð eru um 190.000 nemendur í þeim háskólum sem flokkaðir eru sem „universitet“, sem samsvarar, miðað við fólksfjölda, að um 7.000 nemendur væru í slíkum skólum á Íslandi, en ekki nánast allir 20.000, eins og raunin er. Þar að auki hafa mjög margir kennarar í þessum háskólum í Svíþjóð litlar eða engar rannsóknir sem hluta af starfi sínu, svo talan sem miða ætti við er ekki 7.000 nemendur (eða 35%) á Íslandi, heldur er hún miklu lægri.
Í stuttu máli þekkist það hvergi í löndum með jafn umfangsmikið háskólakerfi og það íslenska að (nánast) allir akademískir starfsmenn fái stóran hluta launa sinna fyrir rannsóknir.  Þessa staðhæfingu hefur Gauti ekki reynt að hrekja, af skiljanlegum ástæðum.
Spurningin er því ansi áleitin hverju þetta sæti:  Eru Íslendingar (nánar tiltekið þeir sem búa á Íslandi) svo miklu öflugra fræðafólk að upplagi að það skýri þennan gríðarlega fjölda?  Eða getur verið að meira sé gert úr gæðum rannsókna alls þessa fólks en efni standa til?  Mikið er gert úr þessum gæðum, því bæði HÍ og HR, sem samtals eru með 90% háskólastarfsins, þykjast ætla að komast framarlega á alþjóðavettvangi í rannsóknum og forysta HÍ hefur staðið stöðugan vörð um það kerfi sem greiðir öllum akademískum starfsmönnum fyrir rannsóknir, líka þeim sem engum afrakstri skila, eða bara afrakstri sem ekki er birtur á þeim alþjóðavettvangi sem HÍ segist vilja gera sig gildandi á.
Mælikvarðar á fræðastörf — undirmáls- og afburðafólk
Gauti gerir athugasemdir við að ég tali um „undirmálsfólk“ og að ég segi að talsvert sé af fólki í HÍ sem stendur framarlega á alþjóðavettvangi á sínu sviði, og segir:
„Hér verður að gera ráð fyrir að þetta góða fólk sé í mesta lagi 20% og það er sorglegt til þess að vita að það skuli líða fyrir hvernig fénu er varið í „undirmálsfólk“, en þetta hugtak og þessi hugsunarháttur á reyndar einkum heima í hugarheimi þeirra sem aðhyllast það sem í lýðræðis- og mannréttindaríkjum teljast vera býsna annarlegar skoðanir. Vegurinn þangað er a.m.k. ekki langur.“
Hér talar Gauti eins og ekki séu lagðir mælikvarðar á störf fræðafólks um allan heim, og að á þeim kvörðum lendi óhjákvæmilega margir í því að vera „undirmáls“, en aðrir taldir afburðafólk.  Auðvitað veit Gauti að þannig er þetta, svo dylgjur hans um að hugmyndir mínar séu fjandsamlegar „lýðræði“ og „mannréttindum“ eru ekki sérlega heiðarlegar.
Kannski hefði ég átt að útskýra þetta nánar fyrir þeim sem, öfugt við Gauta, eru ekki vel inni í þessum málum.  Þar sem ég var sífellt í pistlinum að tala um alþjóðleg viðmið  gerði ég ráð fyrir að mælikvarðarnir sem ég átti við lægju í augum uppi , nefnilega þeir mælikvarðar á gæði sem alþjóðavísindasamfélagið á hverju sviði hefur.  Þar er ekki um að ræða nákvæm mælitæki, og erfitt getur verið að meta framlag einstaklinga.  Það er hins vegar auðvelt í þeim tilfellum þegar viðkomandi hefur nánast ekkert lagt af mörkum á þeim alþjóðavettvangi sem nánast allt vísindastarf tilheyrir.  Um slíkt framlag eru til gagnagrunnar (t.d. Web of Knowledge og Google Scholar, þar sem sá síðarnefndi finnur nánast allt sem birt hefur verið á ritrýndum vettvangi, og margt fleira en það).  Það er því fljótlegt að skoða framlag fjölmargra starfsmanna íslensku háskólanna, og komast að því að margra þeirra sér hvergi stað.  Það er líka einfalt mál að skoða ritaskrár sem starfsmenn birta sjálfir á netinu, og þar er ekki síður fljótlegt að finna marga, jafnvel prófessora, sem aldrei hafa lagt neitt af mörkum á alþjóðavettvangi.  Aftur veigra ég mér við að nefna nöfn, því þeir sem kæra sig um að setja sig inn í þetta eiga auðvelt með það.  Ég myndi hins vegar með glöðu geði aðstoða forystu HÍ við að staðfesta þetta með ítarlegri úttekt, kærði hún sig um það.
Birtingar á íslensku
Gauti talar svo um gagnrýni mína á birtingar í íslenskum tímaritum:
„Höfundur agnúast síðan út í að verið sé að sinna vísindum og fræðum á íslensku og því að „gefinn út urmull af “ritrýndum fræðiritum” á íslensku, á sviðum eins og menntavísindum, hjúkrunarfræði, sálfræði, verkfræði og viðskiptafræði.““
Ástæða gagnrýni minnar er að ofangreind fræðasvið eru alþjóðleg í eðli sínu, og fræðafólki ber að birta niðurstöður sínar því fræðasamfélagi sem það tilheyrir.  Það gerir maður augljóslega ekki með því að birta á máli sem bara örlítill hluti þess samfélags getur lesið.  Auk þess fer það augljóslega í bága við yfirlýsta stefnu HÍ um sókn á alþjóðavettvangi að birta ekki á þeim vettvangi.
Ennfremur segir Gauti:
„… þá verður að spyrja sig hverjum höfundur telur að rannsóknirnar eiga að þjóna? Akademíunni einni og þeim fræðimönnum sem þar starfa eða því þjóðfélagi sem borgar brúsann í formi skatta? Rannsóknir tengjast kennslu og hún fer fram á íslensku að miklu leyti. Það er líka eðlilegt því fólkið sem kemur úr greinunum sem höfundur telur upp, og raunar fleirum, starfar síðan með fólki sem talar það mál fyrst og fremst og á fullan rétt á því.“
Fræðilegar birtingar á flestum sviðum eru þess eðlis að aðrir en sérfræðingar á viðkomandi sviði eiga mjög erfitt með að lesa þær sér til gagns, auk þess sem nánast allir þeir sem geta haft minnsta gagn af slíku lesa ensku, sem er það mál sem yfirgnæfandi meirihluti fræðigreina í heiminum er birtur á. Þess vegna er engum greiði gerður með því að birta á íslensku.  Að því ĺeyti sem háskólafólk á að miðla almenningi af fræðum sínum þarf það að gerast með allt öðrum hætti en birtingum í fræðiritum (og þar hefur t.d. Vísindavefur HÍ unnið frábært starf).
Ritrýni á íslensku
Gauti segir:
„Höfundur heldur því fram að það liggi „í augum uppi að það er ekki hægt að viðhafa alvöru ritrýningu í svo örlitlu fræðasamfélagi sem Ísland er, því þeir örfáu sérfræðingar sem til eru á hverju sviði þekkjast allir, og starfa gjarnan í sömu háskóladeildinni.“ Vont ef satt væri, en svona er það ekki. Höfundur benti sjálfur á í fyrri hluta greinar sinnar að margir Íslendingar væru háskólakennarar erlendis og ritstjórar tímarita á íslensku geta vel leitað til þeirra þegar þörf krefur bæði til að fá ritrýni og auk þess birta þeir líka greinar í tímaritunum íslensku.“
Þeir sem lesa íslensku í veröldinni eru varla fleiri en 400 þúsund, þ.e.a.s. um 0,00006% jarðarbúa, eða um 0,0004% af þeim milljarði sem býr í löndum með álíka umfangsmikið háskólakerfi og Ísland.  Á nánast engum fræðasviðum sem íslenskt háskólafólk starfar á eru þeir sem lesa íslensku nema örlítið brot af viðkomandi sviði, þótt með sé talið allt íslenskumælandi háskólafólk erlendis, auk þess sem langflest slíkt fræðafólk á þessum sviðum starfar við íslenska háskóla eða hefur mikil persónuleg tengsl við þá sem þar starfa.  Það er því fráleitt að tala um það sem kallað er óháð ritrýning í alþjóðlega fræðasamfélaginu inni í þessum örheimi sem íslenska háskólasamfélagið er, enda er jafnan talsverð vinna fyrir ritstjóra að finna hæfa ritrýnendur þótt þeir hafi úr að moða fræðasamfélagi alls heimsins á viðkomandi sviði.
Enn fremur segir Gauti um þetta:
„Höfundur kýs hins vegar að fullyrða án þess að benda á nokkurt dæmi að „engum sæmilegum háskóla [dytti]  í hug að vera með sín eigin tímarit, sem tækju við greinum bara frá starfsmönnum skólans, sem væru svo ritrýndar eingöngu af starfsmönnum sama skóla.“ Fyrir það fyrsta er það alls ekki óalgengt á háskólaútgáfur erlendis gefi út tímarit og í öðru lagi virðist hann einnig telja öll þessi svið svo ógnarlítil að ekki sé unnt að sinna nafnlausri ritrýni. Ég var um tíma ritstjóri Ritsins sem er ritrýnt tímarit Hugvísindastofnunar og veit um mörg dæmi þess að menn gagnrýndu og höfnuðu greinum kollega sinna enda vissi hvorugur af hinum og hafi þá grunað eitthvað létu þeir það ekki trufla sig, enda treystu þeir nafnleysinu.“
Ég er nokkuð viss um að engin háskólaútgáfa tekur bara við verkum frá starfsmönnum eigin skóla, hvað þá að hún láti ritrýnina fara fram innan sama skóla.  En auðvitað hefði verið betra hjá Gauta að benda á slík dæmi, ef hann telur þau vera til (og það getur hann auðvitað gert með ummælum við þennan pistil).  Í öðru lagi segir umrædd reynsla Gauta alls ekki að ritrýnin hafi verið í lagi; það sannast ekki af því að greinum sé hafnað, því slíkt getur líka gerst á ófaglegum forsendum, t.d. vegna persónulegrar óvildar.
Alþjóðlegt eðli rannsókna
Gauti segir:
„Höfundur telur reyndar „undirmálsfólkið“ skáka í skjóli tungumálsins sem hann telur ekki á vetur setjandi enda sé það „að sjálfsögðu fáránlegt að gefa út “fræðirit” á íslensku á sviðum sem augljóslega eru alþjóðleg í eðli sínu.“ Hugtakabeitingin hér er afar hæpin, enda er erfitt að skilgreina „alþjóðlegt eðli“. Er það eitthvað sem er bara á ensku? Eða eitthvað sem snertir ekki veruleika manna einungis á einum tilteknum stað eins og til dæmis loftslagsbreytingar? Eða eru það fræði sem enginn þarf að fjalla um eða skilja nema vísindamennirnir sem stunda þau? Undirrituðum sýnist að þetta þýði í þegar öllu er á botninn hvolft að vísindi hafi ekki neina merkingu nema þau séu sett fram á ensku.  Sé sú nærtæka ályktun rétt, mætti kannski segja (takið eftir fræðilegu fyrirvörunum og viðtengingarhættinum) að höfundur sé kominn í flokk með bisnesshetjum gróðærisins sem kölluðu eftir „tvítyngdri“ þjóð. Margir þeirra voru reyndar ágætlega menntaðir erlendis og einn sá frægasti við MIT, meira að segja, en eitthvað virtist „alþjóðlegt eðli“ viðskipta þvælast fyrir þeim.“
Það þarf enga nákvæma skilgreiningu á „alþjóðlegu eðli“ til að fullyrða að hjúkrunarfræði og verkfræði, til dæmis, séu alþjóðleg fræðasvið, þar sem þekkingarleitin á þessum sviðum er alls ekki háð þjóðerni.  Ágiskanir Gauta um enskuna og tvítyngið og meinta afstöðu mína eru svo augljóslega í engu samræmi við það sem ég sagði að ég læt vera að svara þeim hugarburði.
Stigakerfi ríkisháskólanna
Enn segir Gauti:
„… fram kemur mikil vandlæting yfir því hægt sé að fá fleiri rannsóknastig fyrir grein í íslensku tímariti en þau „mikilvægustu“ erlendis. Þetta er efnislega rangt þar sem fleiri stig eru gefin fyrir erlendu tímaritin í hæsta flokki, en í þeim er ekkert íslenskt tímarit. Höfundur tínir til að þetta stafi af fjölda höfunda á erlendu greinunum, en kemur svo með dæmi um grein þar sem hann nefnir einn höfund að grein í tímaritinu Nature sem á að fá færri stig en tveir höfundar greinar í einu af þessum íslensku tímaritum sem engu máli skipta í „alþjóðlegu“ vísindasamfélagi. Vafalaust hafa verið fleiri höfundar að þessari grein, en ekki er látið svo lítið að nefna þá breytu og sýna svona vinnubrögð ekki mikinn skilning á vísindalegum vinnubrögðum eða einfaldlega kröfuna um skýrleika í texta sem þekkt er frá Hórasi, a.m.k.“
Í ummælum (sem Gauti vísar hér til) við pistil minn sagði ég eftirfarandi:
„… stigagjöfin í þessu kerfi ríkisháskólanna er slík að það fást að jafnaði miklu fleiri stig fyrir grein birta í íslensku tímariti en einhverju af þeim tímaritum sem erfiðast er að fá inni í í heiminum. Af því að það eru, í svo mörgum greinum, nánast alltaf margir höfundar á grein, þótt flestir þeirra vinni óskaplega ĺitið verk. Eitt mest sláandi dæmið um þetta er grein í Nature þar sem Freysteinn Sigmundsson er fyrsti höfundur (um lærdóma af Eyjafjallajökulsgosinu). Fyrir hana fær hann miklu færri stig en fæst fyrir tveggja höfunda grein í Tímariti um stjórnmál og stjórnsýslu eða einhverju af öllum þessum íslensku tímaritum þar sem sumar “ritrýndu” greinarnar virðast vera skrifaðar af mistækum menntaskólanemum.“
Í þessum ummælum mínum (sem ekki eru hluti af pistlinum sjálfum) kemur fram að ástæða þessa misvægis er sá mikli fjöldi meðhöfunda sem er að jafnaði á greinum sem birtast í tímaritum á borð við það sem hér er um rætt, og sem er reyndar algengur á mörgum sviðum raunvísinda.  Skýringuna sem Gauti telur vanta til að þessi ummæli í athugasemd við bloggpistil geti talist „vísindaleg vinnubrögð“  er sem sagt að finna í ummælunum sjálfum.
Lokaorð
Að síðustu má svo velta fyrir sér af hverju Gauti telur ástæðu til að fjalla um bloggpistil á sama hátt og um fræðilega ritgerð væri að ræða, og enn fremur af hverju hann reynir ekki að hrekja þær tölfræðilegu staðhæfingar sem ég set fram, þrátt fyrir megna vandlætingu hans á þessum vinnubrögðum mínum.
En, kannski var þetta sem sagt tómur misskilningur hjá mér, og Gauti var einfaldlega að draga sundur og saman í háði þær molbúahugmyndir um vísindastarf sem eru því miður svo algengar, og svo ráðandi, í íslenska háskólakerfinu, og þá undirliggjandi sýn sem er náskyld fyrirhrunshroka fjármálafyrirtækjanna, þar sem Íslendingar voru kynntir sem slíkt afburðafólk að ekki væri hægt að bera þá saman við aulana sem búa í öðrum löndum.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.10.2013 - 11:53 - 25 ummæli

Þarf að reka 80% háskólakennara á Íslandi úr 40% af starfi sínu?

Það er best að taka fram strax að þær tölur sem hér eru nefndar eru alls ekki nákvæmar.  En þær eru nógu nálægt lagi til að gefa raunsanna mynd af fáránleika málsins.  Það er líka rétt að taka fram að þótt ég fjalli ekki um Háskólann í Reykjavík, þá er ekki allt í sómanum þar, þótt vandamálið sem ýjað er að í fyrirsögninni eigi síður við þar.
Á Íslandi er hlutfallslega álíka margt fólk í háskólanámi eins og mest gerist í heiminum.  Í flestum löndum með svo stórt háskólakerfi er það gjarnan tvískipt (eða jafnvel þrískipt).  Kalifornía er ágæt til samanburðar við Ísland, því þar er langstærstur hluti háskólakerfisins rekinn af ríkinu og auðvelt að finna nokkurn veginn fjölda nemenda í kerfinu öllu (og einnig í  einkaskólunum).
Að vísu eru líklega hlutfallslega miklu fleiri útlendingar í akademískum stöðum í Kaliforníu en á Íslandi og hlutfallslega miklu fleiri Íslendingar sem fara í nám erlendis, ekki síst framhaldsnám, auk þess sem mikill fjöldi íslenskra háskólakennara starfar erlendis.  Þannig má ganga út frá því að hlutfall hæfra akademískra starfsmanna sé miklu hærra í Kaliforníu, og hlutfall góðra nemenda (sem eiga erindi í nám í rannsóknaháskóla)  líka.
Í Kaliforníu, þar sem búa 38 milljónir, eru líklega um 10-15% háskólanemanna í rannsóknaháskólum, þar sem þær kröfur eru gerðar til kennara að þeir séu líka virkir í rannsóknum.  Það myndi varla samsvara nema 2.500 nemendum á Íslandi, ef Ísland væri með jafn öflugt framhaldsnám og Kalifornía, sem ekki er raunin.  En, á Íslandi eru allir háskólanemar, um 18.000, í skólum sem þykjast vera rannsóknaháskólar.  Af þeim eru um 15.000 í ríkisháskólunum, þar sem allir akademískir starfsmenn fá 40% launa sinna fyrir að stunda rannsóknir.

Er Ísland eitthvað sérstakt?

Það er því varla ofreiknað að 80% akademískra starfsmanna háskóla á Íslandi séu á launum við að stunda rannsóknir sem ekkert vit er að setja peninga í.  Nema við göngum út frá því að þetta hafi allt verið satt sem sagt var fyrir hrun, og Íslendingar séu í raun ofurmenni í alþjóðlegum samanburði.
Hitt er svo annað mál að það þarf varla tölfræðilegan samanburð af þessu tagi til að komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað mikið sé að; það er nóg að kynna sér af handahófi rannsóknaframlag akademískra starfsmanna íslensku ríkisháskólanna.  (Og þá þarf að geta þess fyrst að í þessum háskólum, aðallega HÍ, er að finna mikið af góðu vísindafólki, og talsvert af fólki sem stendur framarlega á alþjóðavettvangi á sínu sviði.  Það fólk líður einmitt fyrir það hvernig takmörkuðu rannsóknafé ríkisskólanna er varið í undirmálsfólk, á meðan umhverfi þeirra sem eitthvað geta versnar í mörgum tilfellum ár frá ári.)
En, þótt til sé talsvert af góðu vísindafólki á Íslandi hafa ansi  margir starfsmanna ríkisháskólanna aldrei stundað neinar rannsóknir sem eru gjaldgengar í því alþjóðasamfélagi sem íslensku skólarnir þykjast vilja standa framarlega í.  Þess vegna er líka gefinn út urmull af „ritrýndum fræðiritum“ á íslensku, á sviðum eins og menntavísindum, hjúkrunarfræði, sálfræði, verkfræði og viðskiptafræði.  Það liggur í augum uppi að það er ekki hægt að viðhafa alvöru ritrýningu í svo örlitlu fræðasamfélagi sem Ísland er, því þeir örfáu sérfræðingar sem til eru á hverju sviði þekkjast allir, og starfa gjarnan í sömu háskóladeildinni.  Enda dytti engum sæmilegum háskóla í hug að vera með sín eigin tímarit, sem tækju við greinum bara frá starfsmönnum skólans, sem væru svo ritrýndar eingöngu af starfsmönnum sama skóla.  Hvað þá á tungumáli sem bara einn af hverjum tuttugu þúsund jarðarbúum les.  Þetta er eitt af því sem er hollt að reyna að útskýra fyrir útlendingum, sem jafnan stara á mann eins og maður sé að segja mjög ófyndinn brandara.
Það er að sjálfsögðu fáránlegt að gefa út „fræðirit“ á íslensku á sviðum sem augljóslega eru alþjóðleg í eðli sínu.  Tilgangurinn er auðvitað sá að akademískir starfsmenn háskólanna geti safnað sér þeim stigum sem þarf til að fá framgang og auknar launagreiðslur, fyrir ritverk sem ekki er hægt að fá birt einu sinni í lökum alþjóðlegum tímaritum, af því að verkin eru einfaldlega of ómerkileg.  Það er fleira galið við stigakerfi ríkisháskólanna, því það mælir nánast bara magn, en ekki gæði, og hvetur því til framleiðslu á ómerkilegum rannsóknum.  Enda er það engin furða að hvergi utan Íslands hefur nokkrum sæmilegum háskóla dottið í hug að nota slíkt kerfi.
Hvað væri hægt að gera?
Ég hef stundum velt fyrir mér að skrifa um þetta langa grein þar sem bent væri á dæmi um fáránlegar „ritrýndar“ birtingar, t.d. greinar sem byggja á skoðanakönnunum um viðhorf fólks til einhverra óljósra hluta  þar sem þáttakendur eru örfáir, ekki valdir af handahófi, svarshlutfallið innnan við 50% og niðurstöðurnar segja greinilega ekki nokkurn skapaðan hlut, þótt dregnar séu ályktanir um að hlutirnir „gætu“ kannski verið svona eða hinsegin, og að rétt væri að gera „eigindlega“ rannsókn til að komast að einhverju sem engin leið er að sjá að svaraði neinum spurningum sem ættu erindi lengra en í vangaveltur um daginn og veginn í dagblaði.  Eða manneskjur sem fengið hafa framgang í prófessorsstöðu án þess að hafa birt eina einustu ritrýnda grein, hvað þá að hafa lokið doktorsprófi.  Eða prófessora með doktorspróf en nánast engar birtingar á alþjóðavettvangi eftir það.   Ef þetta væru einstaka undantekningar væri ástæðulaust að gera mikla rellu út af því, en þetta er miklu algengara en flesta grunar sem ekki hafa kynnt sér málið.
Vandamálið við að skrifa slíka grein er að í eins litlu samfélagi og á Íslandi er ekki gott að benda opinberlega á þá einstaklinga sem um ræðir, því auðvitað er það sárt fyrir þá, og ekki við þá að sakast, heldur hina sem bera ábyrgð á sjálfu kerfinu.  Auk þess er vandamálið ekki endilega  þessi öfgafyllstu dæmi, heldur hitt að  mikill fjöldi akademískra starfsmanna íslensku háskólanna nær ekki því máli að vera gjaldgengir á þeim alþjóðavettvangi sem þessir skólar ættu að starfa á.  En, það væri hægur leikur að gera úttekt á þessum málum og manni getur fundist það skrítið að yfirvöld menntamála skuli aldrei hafa látið gera alvöru slíkar úttektir, til að fá raunsætt mat (óháðra erlendra aðila) á stöðunni.  Slíkar úttektir eru gjarnan gerðar í erlendum háskólum, og ekki í þeim tilgangi að kaupa falskan gæðastimpil heldur til að fá mat á hver raunverulegur styrkur er á hinum ýmsum sviðum rannsóknastarfsins.  Á grundvelli slikrar úttektar væri hægt að skipta íslenska háskólakerfinu upp í lítinn rannsóknaskóla og svo kennsluskóla sem ekki þættist vera með rannsóknir, heldur bara áherslu á góða kennslu.
Helsta ástæða þess að slíkar kannanir eru ekki gerðar er auðvitað hið undursamlega íslenska klíkusamfélag (auk skiljanlegrar hræðslu forystu HÍ við útkomu slíkrar könnunar).  Undirmálsfólkið sem hefur tögl og hagldir í háskólakerfinu er nefnilega í afar góðu „talsambandi“ við þau yfirvöld sem bera æðstu ábyrgð á þessu kerfi, og þess vegna ríkir djúpur og gagnkvæmur skilningur á tilgangsleysi þess að rugga bátnum, hvað þá að benda á að hann er hriplekur.
Ef svo ólíklega vildi til að nýr menntamálaráðherra hefði aðrar skoðanir á þessu en fyrirrennarar hans ætla ég að benda honum á að lesa þessa álitsgerð, þar sem reifaðar eru tillögur um hvernig hægt væri að stórefla íslenska hákólakerfið.  Það væri meira að segja hægt að gera án þess að auka fjárframlög, ef hætt væri að greiða fólki fyrir rannsóknir sem annað hvort eru engar eða svo lélegar að þær fást ekki birtar fyrir utan landsteina þessa smáríkis.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur