Föstudagur 15.3.2013 - 12:50 - 3 ummæli

Magnús Orri spinnur þvæluvefinn

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, er á lista yfir þá þingmenn sem segjast vilja samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni.  (Ég skrifaði honum í gær og spurði hvort einhver misskilningur byggi að baki skráningunni á þessari síðu, en hef ekki fengið svar við því.)
Samt er Magnús í algeru uppnámi vegna breytingatillögu Margrétar Tryggvadóttur, sem leiðir af sér að þingið verður í raun að greiða atkvæði um heildarfrumvarpið áður en hægt er að greiða atkvæði um þá málamiðlun sem formenn stjórnarflokkanna, Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir, virðast hafa gert við þingmenn Bjartrar Framtíðar.  Af einhverjum ástæðum finnst Magnúsi vont að þurfa að tjá hug sinn í málinu á opinskáan hátt, kannski vegna þess að með því er hann og félagar hans að svíkja það sem flestir héldu að væri loforð stjórnarflokkanna, um að vinna að því að ný stjórnarskrá yrði samþykkt á þessu þingi.
Magnús hefur áður gripið til þess örþrifaráðs að segja beinlínis ósatt um þetta mál.  Í dag er hann við sama heygarðshornið, þar sem eftirfarandi er haft eftir honum:
Samkomulag hafði tekist á milli stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar um frumvarp og þingsályktunartillögu þess efnis að stjórnarskrárfrumvarpið yrði ekki afgreitt í heild heldur yrði hægt að ljúka heildarendurskoðun á næsta kjörtímabili og nýtt þing gæti samþykkt það.
 Magnús veit mæta vel að forysta þessara þriggja flokka ræður nákvæmlega engu um það hvað næsta þing gerir við stjórnarskrána.  Hér er hann því í besta falli að reyna að blekkja.  Það sem verra er, Magnús segir líka þetta samkvæmt ofangreindri frétt:
„Breytingatillaga Margrétar setur sáttaferlið í uppnám vegna þess að nú hafa andstæðingar stjórnarskrárferilsins fullkomna ástæðu til að drepa málið í málþófi. Nú er ekki bara verið að fjalla um sáttartillöguna heldur mun umræðan litast af heildarplagginu og stöðu þess,“
Þetta er sama þvælan og Magnús hefur áður borið á borð.  Ef það er meirihluti fyrir því að samþykkja hina útvötnuðu tillögu sem Magnús Orri styður, þá er einfalt mál fyrir þann meirihluta að fella breytingatillögu Margrétar og samþykkja svo hina.  Að gefa í skyn að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn muni halda uppi málþófi til að koma í veg fyrir að Magnús Orri og félagar geti fellt breytingatillögu Margrétar (og þar með lýst yfir andstöðu við stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni, sem ofangreindir flokkar hatast við), hljómar eins og  samhengislaus þvæla manns sem virðist vera á barmi örvæntingar yfir þeirri hryllilegu stöðu að þurfa að segja kjósendum hreinskilnislega hvað hann vill, og sýna þar með hvaða hagsmunum hann þjónar.  Eða hafa Magnús og félagar hans samið á bak við tjöldin við Framsóknar- og Sjálfstæðisþingmenn um hluti sem þeir vilja ekki segja okkur frá?
Vonandi munu þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem eru fylgjandi því að stjórnarskrárfrumvarpið verði samþykkt í heild sinni koma vitinu fyrir hina örvæntingarfullu félaga sína sem mega ekki til þess hugsa að styggja afturhaldsöflin í landinu með nokkrum hætti.  Vonandi tekst þeim að sannfæra þessa félaga sína um að réttara sé að ná sátt við þann yfirgnæfandi meirihluta almennings  sem vill nýja stjórnararskrá af því tagi sem felst í heildarfrumvarpinu, fremur en að standa í hrossakaupum við þau afturhaldsöfl sem vilja allar breytingar á stjórnarskrá feigar.  Að öðrum kosti er bara að vona að Samfylkingin og Vinstri Græn fái makleg málagjöld í komandi kosningum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.3.2013 - 19:43 - 2 ummæli

Chamberlain Samfylkingarinnar – biluð plata

Þegar ég var táningur átti vinur minn einn hljómplötu sem við hlustuðum oft á.  Ég man litið eftir henni nema hvað í einum textanum var fjallað um seinni heimsstyrjöldina.  Þar voru spiluð hin frægu orð Chamberlains forsætisráðherra Bretlands, þegar hann kom heim af fundi með kanslara Þýskalands í München í september 1938:
Við lítum á samkomulagið sem undirritað var í gærkvöldi […] sem táknrænt fyrir löngun þjóða okkar tveggja til að heyja aldrei aftur stríð hvor gegn annarri.
(We regard the agreement signed last night […] as symbolic of the desire of our two peoples never to go to war with one another again.)
Á plötunni var þetta endurtekið margsinnis, eins og platan væri biluð:  „… never to go to war with one another again … never to go to war with one another again … never to go to war with one another again …“
Í morgun póstaði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, þessu á Facebook-vegg sínum:
Í vantraustsumræðunni í gær kom skýrt fram að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi lýsa yfir vilja til að festa ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Framsóknarflokkur, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Græn eiga það sameiginlegt að hafa á síðasta áratug lagt fram frumvarp á Alþingi um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Af þeim frumvörpum og nýjustu tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 4. mars kemur í ljós sammæli um að kveða skuli á í auðlindaákvæði um allt eftirfarandi:
 1. Að útiloka eign, varanleg afnot og sölu réttinda tengdum auðlindum og skapa þannig nýja þjóðareign á auðlindum
 2. Að þjóðareign þýði að ríkisvaldið fyrir hönd þjóðarinnar fari með æðsta vald og ábyrgð yfir auðlindunum og veiti leyfi til afnota, hagnýtingar o.s.frv. svo fremi
a. leyfin séu tímabundin og afturkallanleg
b. eðlilegt gjald komi fyrir
c. leyfin séu veitt á jafnræðisgrundvelli
 3. Um hagkvæmustu nýtingu á sjálfbærum grunni
 4. Um auðlindaarð til hagsældar fyrir þjóðina
 Liggur ekki í augum uppi að nýta það lag sem nú er, til að koma þessum efnisatriðum í höfn? Getur einhver verið á móti því?
Þetta er sami söngurinn hjá Árna og þegar hann fór fyrst á fund formanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til að segja þeim að þeir mættu eiginlega alveg ráða hvernig þeir hefðu þetta með stjórnarskrána; hann ætlaði ekki að beita sér fyrir því að ný stjórnarskrá yrði samþykkt í óþökk þessara öðlinga og þeirra hagsmuna sem þeir og flokkar þeirra hafa staðið vörð um í áratugi.  Ekki virðist hafa verið minnst á afstöðu almennings í þessum samræðum; Árni treysti því væntanlega að hann og félagar hans í forystu þessara flokka væru fulltrúar þessa almennings og fullfærir um að semja um þann „frið“ sem væri almenningi fyrir bestu.
Platan sem vinur minn átti var ekki biluð; þetta var bara trix að margendurtaka þessi einfeldningslegu orð Chamberlains sem talaði eins og hann hefði verið að semja við heiðarlegan sómamann sem í öllu væri treystandi til að hafa hagsmuni þjóðanna tveggja að leiðarljósi.  Árni Páll er hins vegar einmitt farinn að hljóma eins og biluð plata:  „Getur einhver verið á móti því“ að semja við fulltrúa svartasta afturhaldsins um örlög stjórnarskrárinnar?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.3.2013 - 11:27 - Rita ummæli

Spuni Þórunnar Sveinbjarnardóttur

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrum alþingismaður og núverandi flokksstjórnarmeðlimur í Samfylkingunni, skrifaði pistil um stjórnarskrármálið á Eyjuna í gær.  Þar reynir hún að verja afstöðu formanns Samfylkingarinnar í málinu, en hann vildi sem kunnugt er „semja“ við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk um að málinu yrði haldið áfram á næsta þingi, fremur en að afgreiða það fyrir þinglok í vor.
Þórunn heldur fram sömu rökum, eða öllu heldur rökleysu, í málinu og Árni, nefnilega að þingsályktunartillaga á þessu þingi myndi binda hendur næsta þings.  Þetta er svo augljóslega rangt að það þarf ekki einu sinni að ræða það, því næsta þing getur gert það sem því sýnist í málinu, og til dæmis samþykkt nýja og gagnstæða þingsályktun.  Það er til vansa að manneskja sem þekkir þessa hluti jafnvel og Þórunn reyni með þessum hætti að slá ryki í augu almennings, að því er virðist í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum þeirra afturhaldsafla sem vilja allar teljandi breytingar á stjórnarskrá feigar.
Það er líka sláandi að þau sem talað hafa um málið á sömu nótum og Þórunn hafa ekki reynt að útskýra hvernig þau sjái fyrir sér það ferli á næsta þingi sem myndi leiða til þess að mikilvægustu breytingarnar sem felast í tillögu Stjórnlagaráðs næðu fram að ganga.  Enda er augljóst að næsta þing, ef það hirti yfirleitt um að fjalla um stjórnarskrána, gæti samþykkt hvaða breytingar sem er á henni, eða engar.
Annað sem er vægast sagt sérkennilegt í málflutningi Þórunnar er afstaða hennar til þess að beita því ákvæði þingskaparlaga sem gerir kleift að stöðva málþóf.  Hún segir:
Málþófið verður ekki stöðvað með 71.gr. bæði vegna þess að skilyrði greinarinnar eru ekki uppfyllt og vegna þess að það samræmist ekki gildum jafnaðarmanna.
 Þórunn útskýrir ekki hvaða skilyrði 71. greinar það eru sem ekki eru uppfyllt, enda er vandséð hvað það ætti að vera (sjá hér). Hitt er enn verra, að svo virðist sem Þórunn telji það „gildi jafnaðarmanna“ að leyfa minnihluta á þingi að koma í veg fyrir að sett sé ný stjórnarskrá, sem nýtur fylgis afgerandi meirihluta almennings.  Það er óskiljanlegt hvers konar jafnaðarmannagildi það eru sem setja hagsmuni þeirra valdaklíkna sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur vinna leynt og ljóst fyrir ofar hagsmunum almennings.   Þórunn útskýrir ekki heldur af hverju jafnaðarmannaflokkarnir á hinum Norðurlöndunum hafa ekki í heiðri þessi mikilvægu gildi jafnaðarmanna, en þar er málþóf af því tagi sem beitt hefur verið á Íslandi óþekkt, þótt fáir haldi fram að lýðræðið í þeim löndum standi langt að baki því íslenska.
Ég ætlaði að gera athugasemdir við málflutning Þórunnar á bloggi hennar í gærkvöldi.  Slíkar athugasemdir birtast þó ekki sjálfkrafa, heldur verður hún að samþykkja þær.  Skemmst er frá því að segja að enn hefur hún engar athugasemdir samþykkt.   Um flokkssystur Þórunnar, Valgerði Bjarnadóttur, sem unnið hefur einarðlega að því að fá nýja stjórnarskrá samþykkta á þessu þingi, gegnir öðru máli.  Hún skrifaði líka pistil í gær sem vert er að lesa, og þar sem hægt er að setja inn ummæli.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.3.2013 - 12:50 - 20 ummæli

Opið bréf til Árna Páls Árnasonar

Eftirfarandi póst sendi ég Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, í gærkvöldi.
______________________________________________________________________
Sæll Árni Páll
Nú hafa 32 þingmenn lýst yfir að þeir vilji samþykkja nýja stjórnarskrá á þessu þingi. Að vísu veit ég ekki hvort Kristján Möller er kominn aftur á þing og varamaður hans farinn út, en sé svo vantar hvort sem er ekki nema eitt atkvæði til að málinu sé tryggður meirihluti.
Það er í þínum höndum hvort málið fer í gegn, nema þú verðir of seinn og missir þau áhrif sem þú nú gætir haft. Valið á þessari stundu er enn þitt:
Að stíga fram fyrir skjöldu og lýsa yfir að þú viljir keyra málið gegnum þingið, í samræmi við vilja yfirgnæfandi meirihluta almennings, og meirihluta þingmanna.
Eða byrja (og enda?) feril þinn sem formaður Samfylkingarinnar með blóði drifnar hendur í stríðinu við almenning í landinu.
Bestu kveðjur,
Einar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 12:37 - 9 ummæli

Árni og Ásta ein eftir í dauðasveitinni

Samkvæmt þessari síðu hafa nú 30 þingmenn lýst yfir að þeir styðji stjórnarskrárfrumvarpið.  Það þýðir að einungis þarf tvo í viðbót til að frumvarpið verði samþykkt, þótt allir aðrir greiði atkvæði gegn því.  Á já-listann vantar bæði Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þingforseta.  Þegar Árni talar um að ekki sé hægt að koma frumvarpinu í gegnum þingið, og þegar Ásta neitar að setja það á dagskrá, þá eru þau því einungis að segja að þau myndu sjálf greiða atkvæði gegn því, væntanlega af því að þau vilja drepa það.
Vonandi tekst samflokksfólki Árna og Ástu að koma vitinu fyrir þau.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2013 - 17:04 - 9 ummæli

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur

Eftirfarandi póst sendi ég Katrínu Jakobsdóttur, ráðherra og formanni VG, fyrr í dag.
_______________________________________________
Sæl Katrín

Formaður Samfylkingarinnar leggur fram á Alþingi í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur formanni VG og Guðmundi Steingrímssyni formanni Bjartrar framtíðar frumvarp til breytingar á stjórnarskrá sem heimilar stjórnarskrárbreytingar á næsta kjörtímabili og tillögu til þingsályktunar um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014.

Þú veist, eins og aðrir á þingi, að núverandi þingmenn geta með engum hætti bundið næsta þing til að gera nokkurn skapaðan hlut.  Auk þess vitið þið vel að það eru talsverðar líkur á að Sjálfstæðisflokki og Framsókn verði í lófa lagið að koma í veg fyrir allar  breytingar á stjórnarskrá á næsta þingi.  Með þessari tillögu eruð þið því bara að senda bænaskjal til afturhaldsaflanna um að vera nú svo hugguleg að gefa okkur nýja og fallega stjórnarskrá, í lítilmannlegri tilraun til að breiða yfir eigin svik.
Þetta eru ekki bara svik við vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda, og þá sérstaklega þeirra sem hafa sett traust sitt á ykkur í stjórnarflokkunum.  Þetta er líka einhver versta þjónkun sem lengi hefur sést við þær valdaklíkur sem ráða lögum og lofum í landinu, því allir vita að það eru þær sem berjast með kjafti og klóm gegn því að ný stjórnarskrá verði samþykkt, og af skiljanlegum ástæðum.
Margir hafa bundið vonir við þig sem stjórnmálaleiðtoga, af því að þeir héldu að þú værir hreinskiptin og heiðarleg og settir almannahag ofar hagsmunum auðs og valds.  Vonbrigði þeirra eru væntanlega mikil þegar þú lætur það verða eitt þitt fyrsta verk sem formanns VG að taka þátt í að murka lífið úr þeirri stjórnarskrá sem almenningur hefur sýnt svo ótvírætt að hann vill að verði samþykkt.  Ekki bætir úr skák að þið ætlið svo að skila hræinu til afturhaldsaflanna til dysjunar og reyna þannig að þvo hendur ykkar af ódæðinu.
Ég vona að þú sjáir að þér, og beitir þér einarðlega fyrir því að stjórnarskrárfrumvarpið verði samþykkt í heild sinni.
Kveðjur,
Einar Steingrímsson

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur