Miðvikudagur 6.3.2013 - 11:49 - 7 ummæli

Þingmaður lýgur

Allir þingmenn vita að hendur næsta Alþingis verða ekki bundnar á nokkurn hátt (umfram það sem gildandi stjórnarskrá gerir hverju sinni).  Þess vegna er varla hægt að líta á það sem annað en einskæra lygi þegar Magnús Orri Schram heldur fram að hægt sé að „kveða á um“ annað eins og hann gerir hér:
Málamiðlun formanns Samfylkingar byggir á raunsæju mati á stöðu stjórnarskrárinnar. Með henni verður kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, aukið vægi beins lýðræðis í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur,  og að verkefninu um endurskoðun stjórnarskrár verði tryggt framhaldslíf á næsta kjörtímabili.
Auk þess að ekki er hægt að binda hendur Alþingis á næsta kjörtímabili er auðvitað ekki heldur á hreinu hvaða fólk mun sitja á því þingi, og tómt mál að tala um að núverandi þingmenn geti bundið hendur þeirra sem á eftir koma.
Magnús er ekki einn um þetta; fleiri stjórnarliðar, með formann Samfylkingar í fararbroddi, hafa talað um „málamiðlun“ sem gangi út á þetta.
Það er lágt lagst þegar þingmenn eru beinlínis farnir að ljúga til að reyna að lægja þá réttmætu reiði sem blossað hefur upp vegna yfirlýsinga margra stjórnarliða sem benda til að þeir ætli að svíkja almenning um þær stjórnarskrárbreytingar sem gífurleg vinna hefur verið lögð í síðustu árin.
Stjórnarliðar á þingi þurfa nú að velja á milli ótvíræðra óska yfirgnæfandi meirihluta kjósenda um nýja stjórnarskrá og þeirrar kröfu afturhaldssamra en voldugra sérhagsmuna, sem Sjálfstæðisflokkurinn er helsti málsvari fyrir, að barðar verði niður tilraunir almennings til að setja leikreglur þeim stjórnvöldum sem ættu með réttu að þjóna almannahagsmunum og engu öðru.
Þetta virðist því miður vera erfitt val, jafnvel fyrir fólk í flokkum sem kenna sig við vinstristefnu.  Svo erfitt að sumir þingmenn þeirra  skirrast ekki við að ljúga blákalt.  Ætla allir stjórnarliðar á þingi að  sitja undir þessu?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.3.2013 - 18:26 - 5 ummæli

Það sem Árni Páll myndi gera, vildi hann afla sér virðingar

Því hefur verið haldið fram að ekki sé „hægt“ að koma stjórnarskrárfrumvarpinu gegnum þingið.  Þetta er rangt; það snýst um vilja.  Þeir þingmenn sem helst eru nefndir sem líklegir til að standa í vegi fyrir málinu innan Samfylkingarinnar eru Ásta Ragnheiður þingforseti, Össur og Kristján Möller.  Svo vel vill til að sá síðastnefndi mun verða fjarverandi til þingloka, og varamaður kominn í hans stað.
Ef formaður Samfylkingarinnar lýsti yfir að hann legði allt í sölurnar til að koma frumvarpinu í gegn, og fengi með sér í það flestalla þingmenn flokksins, er ljóst að Ásta Ragnheiður þyrði ekki að standa nánast ein á bersvæði með blóði drifnar hendur sem banamaður málsins, og sama gildir um Össur.
Þegar þannig væri búið að tryggja stuðning allra þingmanna Samfylkingarinnar þá er útilokað að Vinstri Græn létu það verða sitt síðasta verk á þessu kjörtímabili að drepa nýja stjórnarskrá.
Flóknara er þetta ekki.  Allt sem Samfylkingin þarf að gera er að lýsa yfir að þetta mál sé sett á oddinn og að það verði keyrt í gegnum þingið.  Það þarf ekki einu sinni kjark í slíkt þegar yfirgnæfandi meirihluti kjósenda vill fá þessa nýju stjórnarskrá samþykkta.  Það þarf hins vegar að yfirgefa þá lífsskoðun, a.m.k. í nokkra daga, að alltaf beri að lúta kúgunarvaldi Sjálfstæðisflokksins.  Er það of stór biti að kyngja fyrir þingmenn Samfylkingar og VG?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.3.2013 - 21:35 - 8 ummæli

Hverjir eru svikararnir?

Margt innanbúðarfólk í Samfylkingunni sem reynt hefur að verja fótaskot formannsins síðustu sólarhringa hefur haldið fram að það sé einfaldlega ekki meirihluti fyrir því á þingi að samþykkja nýja stjórnarskrá.  Karl Th. Birgisson sem gjarnan tjáir sig um slík mál eins og hann viti meira en almennt er þekkt (en tilheyrir þeim málefnalega veikburða hópi á Eyjunni sem ekki leyfir athugasemdir við blogg sín) gengur skrefi lengra, og heldur fram að ekki einu sinni væri meirihluti fyrir því að stöðva það málþóf sem ljóst er að þingmenn Sjálfstæðisflokks (og sumir Framsóknarþingmenn) myndu beita ef þeir vissu að það kæmi í veg fyrir framgöngu málsins.
Ef Karl (og fleira fólk innan Samfylkingarinnar) veit um stjórnarliða sem myndu greiða atkvæði gegn nýrri stjórnarskrá, þótt flokkar þeirra stæðu að öðru leyti saman í málinu, af hverju eru þessir svikarar ekki afhjúpaðir?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.3.2013 - 16:05 - 8 ummæli

Árni Páll, foringjaræði, flokkshollusta

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í gær að ekki væri hægt að koma nýrri stjórnarskrá í gegnum þingið fyrir kosningar.  Margir hafa orðið æfir yfir þessu, þar á meðal sumt flokksbundið Samfylkingarfólk.  Flestir stuðningsmenn flokksins virðast hins vegar algerlega ráðvilltir, þótt sumir reyni af veikum mætti að bera í bætifláka fyrir formanninn, en nokkrir meðal þeirra sem mest hafa völdin og áhrifin í flokknum taka beinlínis undir þessar yfirlýsingar formannsins, með sömu „rökum“.
„Rök“ þeirra sem reyna að verja þetta fótarskot formannsins snúast um tímaleysi, og að það sé „bullandi ágreiningur“ um málið.  Hvort tveggja er ósatt.  Það er nægur tími fram að kosningum til að koma málinu gegnum þingið, ef vilji er fyrir hendi, enda er hægðarleikur samkvæmt þingskaparlögum að stöðva það málþóf sem líklegt er að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn reyndu.  Og það er eins lítill ágreininingur um þetta mál og hægt er að hugsa sér þegar jafn miklir hagsmunir eru í veði.  Yfirgnæfandi meirihluti studdi nánast allar breytingartillögur Stjórnlagaráðs í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var um málið í október, enda kemur það heim og saman við allt sem vitað er um afstöðu almennings í þessu máli, bæði út frá þjóðfundinum og skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið.
Það kemur varla nokkurri manneskju á óvart að það sé „bullandi ágreiningur“ við  þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um þetta mál.  Að telja það fram sem rök þýðir ekki annað en að þeir sem það gera telja mikilvægara að hafa þessa flokka góða (væntanlega í von um velvild þeirra í sinn garð á næsta kjörtímabili) en að fara að vilja þess almennings sem trúði því að stjórnarflokkunum væri alvara með að samþykkja nýja stjórnarskrá.
Það sem vekur þó ekki síst athygli í þessu máli er að það er greinilegt að formaður Samfylkingarinnar hefur leikið hér einleik, sem komið hefur alveg flatt upp á flesta flokksmenn og greinilega marga ef ekki flesta þingmenn flokksins líka.  Var þetta foringjaræði ekki eitt af því sem Samfylkingin ætlaði að leggja af, í kjölfar þeirrar endurskoðunar sem flokkurinn þóttist ætla að gera í kjölfar hrunsins?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.3.2013 - 14:41 - 9 ummæli

Skreytilist hins djöfullega

Stjórnarflokkarnir hafa þegar svikið illilega í kvótamálinu.  Nú virðist endanlega ljóst að þeir ætli líka að svíkja í stjórnarskrármálinu.  Náðarhöggið veitti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem þar með sýnir hvað vakir fyrir honum með yfirlýsingum um að láta af „tilgangslausu stríði“ í pólitíkinni.  Hann ætlar að „ræða málið við formenn annarra stjórnmálaflokka“.  Allir vita hver afstaða þessara „annarra stjórnmálaflokka“ er til málsins, nefnilega að hafa að engu þann vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda sem fram hefur komið með skýrum hætti, bæði í skoðanakönnunum, á þjóðfundi, í kosningum til Stjórnlagaþings og í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október.
Árni Páll ætlar að makka við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn um framtíð málsins (les:  morðið og eftirfylgjandi dysjun), en gefa skít í vilja almennings.
Hann, eins og aðrir stjórnarliðar sem hafa verið að undirbúa svikin í þessu máli síðustu vikurnar, talar eins og ekki sé hægt að klára málið.  Það vita allir sem vilja vita að það er þvæla; það er hægðarleikur að klára málið á þeim tíma sem eftir er til kosninga, ef viljinn er fyrir hendi.  En Árni vill frekar sýna Framsókn og Sjöllum að hann sé alveg til í að taka þátt í morðinu, alveg eins og þeir sem vilja komast í raðir Vítisengla þurfa að vinna óhæfuverk sem þeir eru kannski ekkert áfjáðir í í sjálfu sér, en láta sig hafa til að sanna fyrir stóru strákunum að þeir geti líka, svo þeir fái að vera með.
Oft er sagt að pólitík sé list hins mögulega.  Það virðist nokkuð ofmælt þegar íslensk pólitík er annars vegar.  Íslensk pólitík er sjaldan list hins mögulega, hún er oftast bara skreytilist hins djöfullega.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.2.2013 - 11:36 - 12 ummæli

Klíkuráðning í uppsiglingu í HÍ?

Athygli mín var um daginn vakin á sérkennilegri auglýsingu um lausa stöðu við Háskóla Íslands.  Sá sem benti mér á hana þóttist sjá á augabragði að búið væri að ákveða hvern ætti að ráða í viðkomandi stöðu.
Það sem er sérkennilegt við auglýsinguna, um stöðu „lektors í sagnfræði á sviði miðaldasögu á tímabilinu frá landnámi til siðbreytingar á 16. öld“, er að í henni er sagt „Æskilegt er að umsækjendur hafi háskólapróf í latínu og þekkingu á klassískum bakgrunni miðalda.“  Sjálfsagt þarf miðaldafræðingur að vera fær í latínu.  Ef svo er liggur hins vegar í augum uppi að það þarf ekki að krefjast sérstakrar kunnáttu í málinu; þeir sem ekki hafa hana ættu sjálfkrafa að vera undirmálsfólk í faginu.  Hitt er enn verra, að gefa þeim forskot sem hafa hákólapróf  í greininni [Leiðrétt kl. 17:15, sjá athugasemd hér í tjásukerfinu].  Eins og þeir sem samið hafa þessa auglýsingu vita örugglega (ef við gefum okkur að þeir séu alvöru fræðimenn), þá er það mjög algengt að fólk í ýmsum greinum vísinda afli sér þekkingar og færni á borð við þessa án þess að taka próf, einfaldlega af því að hún er nauðsynleg fyrir fræðastarfið, þótt formlegt háskólapróf í greininni sé  ónauðsynlegt.
Ég skrifaði þeim sem veita upplýsingar um stöðuna og spurði út í þetta.  Póstskiptin má sjá hér.  Skemmst er frá því að segja að við síðasta pósti mínum, sem ég sendi tvisvar (örlítið breyttan), með tveggja vikna millibili, fékk ég ekkert svar.
Af því að það er auðvelt fyrir marga að giska á hverjum staðan sé ætluð, og af því að ég óttast að það geti leitt hugsanlega umræðu um þetta á villigötur, finnst mér réttast að taka eftirfarandi fram áður en lengra er haldið:
Svo virðist sem staðan sé ætluð Sverri Jakobssyni, sem nú starfar við HÍ.   Margir vita líka að hann er bróðir núverandi menntamálaráðherra, en mér finnst fráleitt að ætla að hún hafi nokkuð með þetta að gera, eða að hún hefði geð í sér til að reyna það (en þetta gerir grunsemdirnar auðvitað ekki skárri í því klíkusamfélagi sem Ísland er).  Það er líka mikilvægt að hafa í huga að það eru ekki hugsanlegir umsækjendur um stöðu af þessu tagi sem bera ábyrgð á hvernig er farið með hana.  Ég  hvet því þá sem tjá sig um þennan pistil til að halda persónum þessa fólks utan við þá umræðu, þar sem málið snýst ekki um það heldur um starfshætti HÍ.
Það er líka rétt að undirstrika að við HÍ er talsvert af mjög góðu vísindafólki, sem sumt stendur framarlega á alþjóðavettvangi á sínu sviði, og sem gerir það þeim mun sorglegra hversu illa skólinn er rekinn að þessu leyti, en það eru ráðningar í akademískar stöður sem ráða úrslitum um gæði háskóla.
Tvennt er kaldhæðnislegt við þá hugsun sem virðist liggja að baki auglýsingunni, sé það rétt að staðan sé eyrnamerkt.  Öfugt við marga svokallaða fræðimenn HÍ virðist nefnilega sem Sverrir sé afar virkur fræðimaður  sem hefur birt mikið á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir tiltölulega stuttan feril (þótt ég hafi auðvitað ekki þekkingu til að meta gæði framlags hans).  Þar sem varla er til að dreifa mörgum öflugum fræðimönnum í heiminum á þessu sviði íslenskrar sögu, má því gera ráð fyrir að Sverrir standi vel að vígi, og að óþarfi ætti að vera að gefa honum forskot út á próf í latínu.  Hitt er líka sláandi, að maður með þennan feril, sem hefur starfað við HÍ jafn lengi og raun ber vitni (um sex ár í akademísku starfi), ætti í mörgum góðum háskólum erlendis rétt á því að fá fastráðningu án samkeppni, að því tilskildu að hann hafi staðið sig vel í starfi (aðallega í rannsóknum).  Það er ekki síður kaldhæðnislegt að svo virðist sem hann hafi þegar að baki rannsóknaferil sem er miklu umfangsmeiri  en áratuga ferill margra þeirra sem skreyttir eru með prófessorstitli við HÍ.
Það er margt brogað við HÍ, og margt sem gerir það að sorglegum brandara að forysta skólans þykist vilja hasla honum völl meðal bestu háskóla heims.   Í skólanum er víða landlægur klíkuskapur í stað þess verðleikasamfélags sem einkennir góða háskóla, þar er undirmálsfólk oft ráðið á kostnað annarra sem hafa einhverja burði, og þar kemst undirmálsfólk meira að segja stundum upp með að leggja í rúst góðar deildir, eins og nefnt er hér um Tölvunarfræðiskorina sálugu.  Auk þess er sjaldan reynt að laða að öflugt fólk erlendis frá, og ég mun fljótlega fjalla um nýlegt dæmi um slíkt sem segir dapra sögu um metnað forystunnar.  Í ofanálag fer HÍ líka oft mjög illa með ungt fólk, ræður það í þrælavinnu á lágum launum strax eftir doktorspróf, á þeim tíma sem gjarnan ræður úrslitum um hvort fólk nær að koma sér á skrið í rannsóknum, og sem getur því skipt sköpum um hvort það verður öflugt vísindafólk eða ekki.  Þetta getur bæði orðið til þess að slíkt fólk koðnar niður í stað þess að blómstra, en ekki síður er hætt við að þetta haldi í burtu efnilegu fólki erlendis frá sem ílengist svo þar sem betur er farið með það og þar sem það sér að framtíð þess veltur fyrst og fremst á frammistöðu þess í fræðunum en ekki hvort það er í réttu klíkunni.
Forysta HÍ einkennist af tvískinnungi.  Hún heldur því fram að HÍ sé að eflast í alþjóðlegum samanburði (sem er ekki efling heldur lánsfjaðrir eins og hér er bent á), en samtímis gerir hún ekkert af því sem þarf til að styrkja háskólann í þeim alþjóðlega samanburði sem talað er um.  Þessi forysta lifir í skröksögu um eigið ágæti og á alltaf skýringar á því af hverju ekki sé hægt að gera hlutina eins við HÍ og gert er í þeim skólum erlendum sem HÍ segist vilja líkjast.  Það er alltaf allt svo „sérstakt“ á Íslandi, eins og við höfum svo oft heyrt áður.  Dæmið sem rætt var í upphafi þessa pistils er ein slík sérkennileg skröksaga, eins og þeir eru fljótir að sjá sem annað hvort þekkja til í alþjóða fræðasamfélaginu, eða fletta upp nýlegum auglýsingum á alþjóðavettvangi, til dæmis um háskólastöður í sögu.
Lygi er alltaf vond.  Annars vegar lýgur fólk yfirleitt af því að það hefur eitthvað ljótt að fela, og þess eiga háskólar ekki að þurfa.  Hins vegar er það segin saga að þegar byrjað er að ljúga er afar erfitt að hætta.  Þess vegna eitrar lygin út frá sér, eins og hún hefur sannarlega gert í miklu af starfi HÍ, þar sem  yfirstjórnin hefur í raun unnið markvisst gegn opinberum markmiðum skólans, sem þó voru dregin upp fyrir tilstilli núverandi rektors.  Þegar lygin er regla í stofnun eins og HÍ ganga þeir á lagið sem vilja koma til leiðar hlutum sem aldrei ættu að viðgangast, og það er hægara sagt en gert að fara að segja sannleikann á ný.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur