Miðvikudagur 13.2.2013 - 19:58 - 7 ummæli

Barnaníðingar og fjölmiðlar

Það þykir sjálfsagt að barnaníðingar séu afhjúpaðir í fjölmiðlum (og ég er ekki að mótmæla því hér, þótt ég efist um að það sé skynsamlegt að útskúfa þeim algerlega úr mannlegu samfélagi). En einhver versti yfirhylmari barnaníðs í heiminum í margra áratugi gengur ennþá laus. Hann hefur aldrei verið dæmdur, þótt hann hafi forðað fjölda níðinga undan réttvisinni og gert þeim kleift að halda uppteknum hætti með því að flytja þá á nýjar slóðir. Hann hefur aldrei beðist fyrirgefningar á eigin framferði, og ekki er að sjá að hann iðrist. Þessi maður er beint og óbeint hylltur í fjölmiðlum, og alveg sérstaklega þessa dagana.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.2.2013 - 21:49 - 18 ummæli

Er hagfræði vísindi?

Það hefur talsvert verið deilt um gildi hagfræðinnar sem áreiðanlegra vísinda, eða yfirleitt hvort hún sé vísindi, þ.e.a.s. samsafn áreiðanlegrar þekkingar og áreiðanlegra aðferða til að komast að einhverjum sannleika.  Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að nánast allir hagfræðingar brugðust gersamlega í því að sjá fyrir einhverjar hrikalegustu efnahagshamfarir sem hafa dunið yfir Ísland og talsverðan hluta heimsins.  Þórólfur Matthíasson var spurður að því í Spegli RÚV í fyrra (byrjar á 18:03) hvort hagfræði væri vísindi, eða yfirleitt til einhvers gagns.  Auðvitað má vera að aðrir hefðu getað svarað þessu betur, en að dæma af því sem Þórólfur hafði að segja sýnist mér svarið vera nei.
Ég er reyndar nokkuð sannfærður um að hagfræði sé ekki eintóm þvæla eða bara illa grundaðar pólitískar skoðanir.  En því er ekki að leyna að ansi margir hagfræðingar hafa talað tóma vitleysu, og  margir þeirra eru enn á fullyrðingafylleríi og ekki að sjá að á því verði nokkurt slot.  Þessar endalausu staðhæfingar hagfræðinga um hluti sem þeir hafa margir greinilega ekkert vit á væru ekki skaðlegri en það sem spákonur segja fólki um mikla peninga, utanlandsferðir og hávaxna dökkhærða karlmenn (eða hvað það nú er sem  tíðkast um þessar mundir) ef ekki vildi svo illa til að fjölmiðlar ætu einlægt upp eftir þeim kristalskúlurövlið.
Nýlegt og átakanlegt dæmi um þetta er viðtal við Þráin Eggertsson, prófessor í hagfræði, sem „hefur vakið mikla athygli“ sem aftur leiddi til þess að eigendur blaðsins Frjálsrar Verslunar ákváðu að birta það í heild á netinu.  Hér segir viðmælandinn ýmis almælt tíðindi og rabbar um hvað gæti ef til vill hugsanlega mögulega kannski gerst, þótt það sé reyndar ómögulegt að vita hvað muni gerast.  Það sem er athyglisvert hér er því ekki neitt af því sem Þráínn segir, heldur hitt að viðtalið skuli talið athyglisvert.  En, kannski voru það aðallega „Atlagan að kvótakerfinu“ og „Atlagan að stjórnarskránni“ sem eigendur blaðsins vildu koma á framfæri?
Ég ætla ekki að fjalla um það sem Þráinn segir í þessu viðtali, því það er nóg að láta hann sjálfan tala til að sjá að hér eru ekki á ferðinni fræði, heldur vangaveltur manns sem ómögulegt er að sjá að byggi á öðru en því sem umræðurnar í heitapottinum í Laugardalslauginni gera að öllu jöfnu.  Ég set hins vegar nokkrar athugasemdir mínar í hornklofa.
Mikil vandi blasir við þeim sem um þessar mundir bera ábyrgð á stjórn efnahagsmála. Mörg vestræn ríki eru stórskuldug, meðal annars vegna bankahruns, og jafnframt hrjáir þau kreppa og mikið atvinnuleysi. Hvað er til ráða? Er brýnast að jafna ríkisfjármálin með skattahækkunum og niðurskurði ríkisútgjalda og greiða niður skuldirnar eða er farsælast að vinna fyrst bug á atvinnuleysinu með því að auka ríkisútgjöldin og lækka skatta – og þar með dýpka skuldirnar?
[Og svo fylgja fleiri spurningar sem við spyrjum okkur öll sem lesum fjölmiðla, en engin svör]
Í Bandaríkjunum var nýlega gefin út skýrsla sem Öryggisráð ríkisins (National Intelligence Council) vann að í fjögur ár. Í skýrslunni eru metnar horfurnar í heiminum næstu 18-20 ár með áherslu á efnahagsmál og stöðu Bandaríkjanna. Þar segir að mikilvægasta breytingin næstu tvo áratugina verði upprisa voldugrar millistéttar á heimsvísu – væntanlegir neytendur með þokkalega menntun og tekjur.
[Byggja hagfræðingar spár sínar á svona „gögnum“?]
Ég útiloka ekki að Bandaríkin, Kína og Þýskaland eigi eftir að leiða uppsveiflu á næstu árum en margt getur breytt þeirri spá. Mannkynssagan er skrifuð eftirá en ekki fyrirfram.
[Kjarni málsins, þetta með mannkynssöguskrifin. Þráinn er heiðarlegur að viðurkenna að hann viti ekkert um þróun þessara mála.  Hins vegar veltir maður fyrir sér af hverju forsvarsmenn FV töldu þetta allt svo athyglisvert …]
Ég á von á því að eftirspurn eftir háskólamenntuðu fólki verði mikil á næstu áratugum. Við erum stödd í fyrsta áfanga róttækrar byltingar í upplýsingatækni, líftækni og á fleiri sviðum sem skapar mikla þörf fyrir háskólamenntað fólk. […] Ýmislegt bendir til að Íslendingar hafi vanrækt verk- og tæknimenntun.
[Verulega djúp greining …]
Erik Brynjolfsson, prófessor í MIT, segir í nýlegri grein að …
Margir hagfræðingar eru andsnúnir því að ríkið bjargi einkabönkum í stað þess að láta eigendur bankanna taka skellinn og bera ábyrgð gerða sinna. Til dæmis var Mervyn King, yfirmaður Englandsbanka, andsnúinn björgunaraðgerðum þegar kreppan 2007-8 reið yfir, en hann virðist síðan hafa skipt um skoðun.
Ég las nýlega grein þar sem höfundurinn hélt því fram að fjórar fjármálastofnanir í Bandaríkjunum hefðu náð þeirri stærð að hrun þeirra væri ógnun við þjóðarbúskapinn en jafnframt væru þessir bankar svo stórir í sniðum að ríkið hefði ekki bolmagn til að bjarga þeim. Too big to fail, too big to save, sagði höfundurinn.
[Gaman að heyra hvað þetta fólk heldur.  En hvað með það?]
Það þarf að hugsa skipulag fjármálastofnana upp á nýtt. Við höfum lært í fjármálakreppunni að eftirlitsstofnanir, bæði hér og erlendis, hafa ekki roð við fjármálafyrirtækjunum. […]  Það er nauðsynlegt að breyta umhverfi bankanna, breyta leikreglunum og þar með hvata fjármálamanna og endurskoða einnig tölvutæknina sem bankar og eftirlitsstofnanir nota.
[Ekki orð um hvernig þurfi að breyta, og ekki að sjá að Þráinn hafi minnstu hugmynd um það.  Hann sýnir hins vegar að hann hefur lesið helstu fyrirsagnir fjölmiðla síðustu árin, en hann kemur ekki upp um það hvort hann hafi til dæmis lesið sjálfar greinarnar í sæmilegum dagblöðum.]
Nýlega var sagt frá því í fréttum að lán þýskra banka til Suður-Evrópu væru lítill hluti af vanda bankanna. Þýsku bankarnir hefðu lánað margfalt hærri upphæðir til smíða á flutningaskipum en til jaðarríkjanna á evrusvæðinu.
Ég hef óljósa hugmynd um það að bankar í norðrinu standi almennt verr en gefið hefur verið í skyn.
[Ég hef líka  lesið eina og eina frétt, og ég hef fullt af óljósum hugmyndum.  Ef Frjálsa verslun skyldi vanta efni í næsta blað …]
Ég svaraði þessari spurningu hér í Frjálsri verslun haustið 2011 og sagðist ekki eiga von á því að Grikkir hættu í evrusamstarfinu.
[Frjáls Verslun spurði mig að vísu ekki þessarar spurningar, en ég sagði þeim sem heyra vildu, og ýmsum fleiri, nákvæmlega það sama.  Ég er nokkuð viss um að svar mitt byggði á jafntraustum forsendum og svar Þráins.]
Ég sagði áðan að engin einföld lausn á efnhagsvandanum í Evrópu blasir við vegna þess að uppsafnaðar skuldir takmarka úrræðin sem koma til greina.
[Það hefði ég líka sagt, en ég hefði hins vegar vikið mér hjá að láta hafa svona sjálfsagða og ómerkilega hluti eftir mér í fjölmiðlum.]
Ein lausn á vanda evrusvæðisins, sem ég hef séð og sel ekki dýrar en ég keypti, …
[Til þess eru sérfræðingar, að greina kaffihúsaspjall frá traustri þekkingu, fyrir okkur hin …]
Mig dreymir um að Ísland verði eins konar nýtt Hong Kong með öfluga samvinnu í efnahagsmálum við Norðurlöndin og Grænland, við Evrópusambandið og Bandaríkin og við rísandi ríki í þriðja heiminum.
[Draumurinn um Ísland sem miðstöð alþjóðlegra viðskipta er ekki nýr.  Flestir sem töluðu um hann fyrir hrun hafa þó farið með hann eins og mannsmorð síðan, af skiljanlegum ástæðum.]

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.1.2013 - 12:03 - 8 ummæli

Forstjóri UTL níðir hælisleitendur

Í gær var eftirfarandi haft eftir forstjóra Útlendingastofnunar, Kristínu Völundardóttur, í þessari frétt:
„Það getur verið dálítið aðlaðandi fyrir fólk sem að er ekki beinlínis hælisleitendur, sem ætla að vinna ólöglega eða koma í öðrum tilgangi, að koma til Íslands. Þetta getur verið fýsilegur kostur, að fá frítt fæði og húsnæði þegar málsmeðferðin er svona hrikalega löng.“
Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit.
„Þá er fólk bara að fara til útlanda og kynnast landi og þjóð og nýti sér þá þjónustu sem hælisleitendum stendur til boða.“
 Hún segist ekki geta sagt til um hversu stór hópur þetta sé. Stofnunin sé undirmönnuð og því ekki mikið svigrúm til að stunda fræðimennsku og rannsóknir.
Kristín hefur sem sagt ekki tíma til að stunda „fræðimennsku og rannsóknir“ (sem er ansi hrokafullt svar við spurningunni), en hún hefur nægan tíma til að dylgja í fjölmiðlum um fólk sem á framtíð sína, og jafnvel líf og heilsu, undir því að hún vinni faglega, en á því hefur verið talsverður misbrestur.  Þar sem hún neitar að tilgreina um hversu marga geti verið að ræða og gefur til kynna að hún viti það ekki, og þar sem hælisleitendur á Íslandi eru ekki sérstaklega margir, varpar þetta augljóslega grun á þá alla.
Með því að dylgja svona á opinberum vettvangi um það fólk sem stofnunin fjallar um hefur Kristín gert sig vanhæfa til að fara með mál þeirra.  Ef hún sæi að sér (í raun) og bæðist strax vandlega fyrirgefningar á þessum dylgjum sínum mætti fyrirgefa það.  Að öðrum kosti á hún að víkja úr starfi.  Geri hún það ekki sjálfviljug þarf innanríkisráðherra að reka hana.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.1.2013 - 16:33 - 30 ummæli

Birgi Þór Runólfssyni svarað

Vegna pistils sem ég skrifaði um óheiðarlegan málflutning Birgis Þórs Runólfssonarí gær svaraði hann mér í dag, vegna stóryrtra árása minna.  Það er alveg rétt hjá Birgi að ég var stórorður og að þetta var árás.  Hvort tveggja finnst mér ekki bara sjálfsagt heldur líka nauðsynlegt þegar fólk sem kynnir sig sem fræðafólk við háskóla hefur í frammi jafn óheiðarlegan málflutning og Birgir gerir í bloggi sínu. Þar sem Birgir leyfir ekki ummæli við blogg sitt verð ég að svara honum hér, en svar hans er í svipuðum stíl og skrif hans öll: útúrsnúningur og afvegaleiðing.
Í upphafi gerir Birgir sig sekan um enn eina rökvilluna, þegar hann segir
„… á bak við þá tilgátu, að orsakasamband sé á milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara, stendur hvort tveggja, öflug kenning hagfræðinnar allt frá dögum Adams Smiths, sem hefur sífellt verið aukin og endurbætt, og reynsla þjóða heims af kapítalisma og sósíalisma, sem hefur aðeins leitt til einnar niðurstöðu: Lífskjör eru miklu betri við kapítalisma en sósíalisma.“.
Í fyrsta lagi getur engin kenning stutt staðhæfingu um orsakasamband, það er aðeins hægt að gera með rökum og gögnum, sem Birgir hefur ekki lagt fram.  Hitt er líka ljóst öllum sem vita hið minnsta um hagfræði, þótt ekki sé nema af lestri íslenskra fjölmiðla, að „kenning hagfræðinnar“ er ekki ein, þær eru margar, og á mörgum sviðum, ekki síst þeim sem Birgir hefur fjallað um, algerlega andstæðar.  Auk þessa hefur Birgir ekki einu sinni útskýrt hvaða lönd hann telur kapítalísk og hver sósíalísk, né heldur hefur hann útskýrt hvernig hann mæli lífskjör.  (Eru lífskjör góð í Bandaríkjunum?  Fyrir hverja?)
Það er líka athyglisvert að lesa hvað Birgir segir um samanburð sinn á tekjudreifingu á Íslandi rétt fyrir hrun og þrem árum eftir það, sem hann notar sem rök fyrir því að þeir fátæku hagnist ekki á því að hinir ríku lækki í tekjum: „Það kemur þessu máli í sjálfu sér ekkert við, að hér á Íslandi varð bankahrun árið 2008.“  Ef það kemur málinu ekkert við að tekjubreytingarnar sem koma fram í þessu línuriti eru augljóslega afleiðing hrunsins, hver er þá tilgangurinn með að birta það?  Þegar Birgir segir að hann hefði í staðinn getað tekið „dæmi af tveimur löndum á sama tíma með tvenns konar tekjudreifingu“ gerir hann sig enn sekan um rökvillu: Slík fylgni getur aldrei sagt neitt, ein sér, um orsakasamband, auk þess sem enginn hagfræðingur með sómatilfinningu myndi láta sér detta í hug að eitt slíkt dæmi sannaði eitt eða neitt.
Þegar ég benti á að heimildir Birgis væru oftar en ekki rit pólitískra áróðurssamtaka átti ég ekki við þær tvær færslur sem ég tilgreindi sérstaklega í bloggi mínu, eins og augljóst er þeim sem les það.  Það má hins vegar skilja það sem ég sagði þar sem svo að ekkert af þeim gögnum sem Birgir vísar í sé marktækt og þar var ég of ónákvæmur; sú staðhæfing á aðeins við heimildir frá umræddum áróðurssamtökum.  Þetta breytir hins vegar í engu gagnrýni minni á þær ályktanir sem Birgir gefur í skyn að megi draga, jafnvel af þeim gögnum hans sem ekki eru áróðursþvæla.
Varðandi Lafferbogann sem Birgir talar mikið um er réttast að segja að hann er ekki til.  Hann er ekkert annað en gríðarlega einfölduð útlistun á þeirri augljósu staðreynd að skatttekjur hækka ekki stöðugt með hækkuðu skatthlutfalli.  Ég hef hins vegar aldrei séð sannfærandi útgáfu af honum fyrir nokkurt land, og það er ekkert sem segir að á ferlinum sem þessi bogi á að lýsa séu ekki fleiri en eitt hámark, auk þess sem það er ekki einu sinni ljóst að um sé að ræða feril falls, í þeim stærðfræðilega skilningi sem hann er kynntur.  Myndin sem Birgir endurtekur í þessu svarbloggi sínu er þar að auki hreint og klárt hugarfóstur hans; það má draga óendanlega marga ferla gegnum þá þrjá punkta sem Birgir notar.
Að síðustu er athyglisvert að Birgir vitnar í Adam Smith, sem frjálshyggjumenn kynna gjarnan sem hugmyndafræðing sinn.  Adam þessi var nefnilega andsnúinn því að eigendur hlutafélaga töpuðu engu nema hlutafé sínu, en gætu haldið öðrum eignum, á meðan kröfuhafar eiga það á hættu að bíða gríðarlegt tjón vegna misgjörða annarra.  Um þetta eru ótal dæmi úr íslenska hruninu, eins og allir vita.  Hér er eitt slíkt dæmi, og svo kaldhæðnislega vill til að þar er Birgir sjálfur í aðalhlutverki.  Vegna þess að hann er varamaður í stjórn Seðlabankans skora ég á hann, sóma hans vegna, að skýra almenningi frá því hver staða þeirra mála er sem fjallað er um í ofangreindri frétt.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.1.2013 - 18:18 - 22 ummæli

Óheiðarlegur hagfræðidósent

Birgir Þór Runólfsson, sem kynnir sig sem dósent í hagfræði við Háskóla Íslands á bloggi sínu, hefur bloggað í mánuð hér á Eyjunni.  Pistlar hans eru allir stuttir, sem er ekki frágangssök í sjálfu sér, en ein ástæða þess er að hann færir aldrei nein rök fyrir máli sínu.  Hann birtir mikið af einföldum línritum, sem yfirleitt sýna samband tveggja breytna.  Þótt Birgir fullyrði sjaldan beinlínis neitt ganga allir pistlar hans út á að gefa í skyn tiltekin orsakasambönd, út frá fylgni þar sem engin rök eru færð fyrir orsakasambandi. Auk þess er augljóslega oft um gríðarlega einföldun að ræða, af því að alveg er sleppt að velta fyrir sér hvaða þættir geti haft áhrif á viðkomandi breytur, aðrir en þeir sem Birgir kýs að nota.
Hér er eitt dæmi, þar sem Birgir ber saman skatthlutföll og skatttekjur í Svíþjóð og Sviss, og heldur fram að sömu skatttekjur hafi fengist í báðum löndum, með gerólíku skatthlutfalli.  Gefið er í skyn, en aldrei sagt berum orðum, að skatttekjur yrðu ekkert lægri í Svíþjóð þótt skatthlutfallið yrði lækkað.  Engin tilraun er gerð til að rýna í aðra þætti sem haft gætu áhrif á skatttekjur, auk þess sem talað er um hinn svokallaða Lafferboga, sem er tilbúin einfölduð mynd sem nákvæmlega ekkert segir um líklegt samband skatthlutfalls og skatttekna (umfram hið augljósa að tekjurnar eru engar bæði við 0% og 100% skatt).
Heimildir Birgis eru oftar en ekki rit pólitískra áróðurssamtaka í Bandaríkjunum, en ekkert sem nokkur fræðimanneskja myndi kalla áreiðanlegt.
Í öðru dæmi ber Birgir saman ráðstöfunartekjur á Íslandi árin 2008 og 2011, og varpar fram spurningu um hvor dreifingin væri æskilegri, rétt eins og það snúist um pólitíska afstöðu en ekki að hrun hafi orðið síðla árs 2008.
Þetta er frámunalega óheiðarlegur málflutningur, því Birgir talar um þessi mál eins og hann sé nautheimskur, en ég gef mér að það sé hann ekki.  Ég gef mér líka að honum dytti ekki í hug að bera svona subbuskap á borð fyrir nemendur sína við Háskóla Íslands.  Því vaknar spurningin:  Af hverju eys Birgir, sem veit betur, svona þvælu yfir almenning?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.12.2012 - 12:17 - 2 ummæli

Sölumenn óttans á Alþingi

Í gær birtist á forsíðu Fréttablaðsins grein um yfirvofandi vopnaleit á gestum í húsi Alþingis.  „Fréttin“ er dæmigerð íslensk kranablaðamennska; þetta er löng og nánast samfelld athugasemdalaus tilvitnun í skrifstofustjóra þingsins, sem virðist alveg hafa misst tökin á tilverunni, hvað þá þeirri skynsemi og yfirvegun sem óskandi væri að maður í hans stöðu byggi yfir.
Á sama tíma og ofbeldisbrotum fækkar stöðugt í okkar heimshluta, og þótt ekki sé að sjá að íslenskum þingmönnum hafi nokkurn tíma verið ógnað með neinum hætti við störf í þinghúsinu, er skrifstofustjórinn að leggja í mikinn leiðangur sem virðist hafa það helst að markmiði að espa upp ótta og áhyggjur af ofbeldi sem einhver gæti ef til vill framið einhvern tíma í framtíðinni.
Helgi „útskýrir“ líka af hverju þessi þörf stafar:
„Það er mikill skilningur í forsætisnefnd og meðal forystumanna á því að sá tími sé liðinn þegar sakleysi og einlægni birtist hér í samskiptum. Það er miður og mjög sorglegt.“
En hver var þá atburðurinn sem Helgi virðist líta á sem einhvers konar vatnaskil í sögu þingsins varðandi ofbeldi og varnir gegn því?  Jú, maður nokkur laumaði sér inn á klósett í þinghúsinu, og hann var með „lítið skurðtæki meðferðis sem hann skar sig með.“  Augljóslega var það ekki markmið mannsins að særa aðra, hvað þá að ráðast á alþingismenn.  Hins vegar trúlega að vekja athygli á sér við þessa iðju sína.  Það er því varla af ótta við ofbeldi gegn starfsfólki í þinghúsinu sem þessi atburður er notaður sem afsökun fyrir því að víggirða húsið, eins og virðist vera ætlun skrifstofustjórans.  Helgi virðist hins vegar ekkert hafa velt því fyrir sér hvað manneskja með markmið af því tagi sem þessi maður virðist hafa haft taki sér fyrir hendur ef hún kemst ekki inn í þinghúsið.  Hvert mun manneskja í slíkum hugleiðingum fara til að vekja athygli á sér, og eru það skárri staðir fyrir slíkt athæfi en klósett Alþingis?
Kranavörður Fréttablaðsins sprautar líka eftirfarandi yfir lesendur sína:
Helgi segir öryggismálum í húsinu ábótavant og nauðsynlegt sé að horfast í augu við að Ísland er ekki frábrugðið nágrannalöndum sínum hvað varðar afbrot og fyrirbyggjandi aðgerðir um öryggi þingmanna.
„Þingmenn eru mjög óvarðir í þingsal. Það þarf næstum því ekkert til, því miður. Og þetta er enn ein áminningin um að við erum stödd á sama stað í tilverunni og löndin í kring um okkur.“
Ekki er vikið orði að því hvaða ógnir þetta séu í nágrannalöndunum sem Helgi talar um, hvað þá að hann sé þýfgaður um skýringar á staðhæfingum sínum.  Blaðamanni hefur heldur ekki dottið í hug að grennslast fyrir um framgöngu Helga í fyrri „ofbeldismálum“ og afstöðu hans til sannsögli um slíkt, sem er ekki beinlínis sæmandi manni í hans stöðu.  Helgi Bernódusson virðist í stuttu máli vera með afar óheppilegar hugmyndir um ógnir sem steðji að Alþingi og um eðlilega meðferð við þessum fóbíum sínum.
Ekkert bendir til þess að ofbeldi sé að færast í vöxt í samfélagi okkar, eða í nágrannalöndunum, heldur virðist þróunin hafa verið nokkuð stöðug í gagnstæða átt í nokkra áratugi.  Þeir sem þrátt fyrir það ala á ofstækisfullum ótta eins og Helgi gerir vinna samfélaginu ógagn með því að mála sífellt skrattann á vegginn.  Það er til þess fallið að veikja þá öryggistilfinningu sem einkennir gott samfélag, en kemur með engum hætti í veg fyrir ofbeldi eða minnkar það.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur