Miðvikudagur 19.12.2012 - 12:10 - 5 ummæli

Mega dómstólar hunsa stjórnarskrá?

Þann 16. nóvember í fyrra var Lárus Páll Birgisson dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn  lögreglulögum af því að hann hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu, sem krafðist þess að hann yfirgæfi gangstéttina fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna þar sem hann stóð með skilti.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lárus er dæmdur fyrir svipað „brot“.  Hann var sakfelldur þann 9. júlí í fyrra fyrir að neita að hlýða lögreglu sem skipaði honum að fara af gangstéttinni fyrir framan sendiráðið þar sem hann stóð með skilti sem á stóð „elskum friðinn“ eða eitthvað í þeim dúr.  Hann var dæmdur fyrir að  brjóta gegn  19. gr. laga nr. 90/1996, þar sem stendur:  „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“
Að vísu segir í dómnum að „Lögreglumenn þeir sem komu á vettvang töldu ekki sérstakt tilefni til aðgerða.“  Hins vegar að starfsmenn  sendiráðsins hefðu beðið lögregluna „um að mótmælendurnir yrðu látnir flyja sig yfir götuna, á gangstéttina hinu megin.“  Af óskiljanlegum, og óútskýrðum, ástæðum virðist lögreglan hafa komist að þeirri niðurstöðu að óformlegar óskir ótilgreinds starfsmanns sendiráðsins væru æðri rétti borgaranna til að tjá skoðanir sínar á  almannafæri.
Í dómnum stendur líka „Ákærði kvaðst alsaklaus.  Hann hafi staðið á rétti sínum til tjáningar.“  Eins og allir dómarar vita er sá réttur verndaður í stjórnarskrá (í 73. grein) og þeir vita líka að stjórnarskráin er æðri öllum öðrum lögum í landinu.  Í stuttu máli — og þessi dómur er sjálfur afar stuttur — var Lárus dæmdur fyrir að óhlýðnast þeirri skipun lögreglunnar að flytja sig yfir götuna, af því að ónafngreindir starfsmenn sendiráðsins eru sagðir hafa beðið um það, þótt dómurinn hafi reyndar  ekkert fyrir sér  í því annað en frásögn lögreglumannanna.  Ekki er minnst einu orði á tjáningarfrelsi eða stjórnarskrá, þótt sakborningur hafi borið fyrir sig þann rétt.  Dómarinn hefur því meðvitað valið að sniðganga stjórnarskrána.
Í Nímenningamálinu svokallaða, þar sem dómur féll þann 16. febrúar í fyrra, voru sakborningar sýknaðir af öllum ákæruatriðum, nema hvað fjórir þeirra voru sakfelldir fyrir brot gegn valdstjórninni (lögreglu og þingvörðum).  Þau brot snerust annars vegar um að hafa óhlýðnast fyrirmælum, og hins vegar um að hafa reynt (með valdi) að stöðva þingverði sem reyndu að koma í veg fyrir að fólk kæmist á þingpallana, en sú hindrun brýtur gegn þeim stjórnarskrárvarða rétti almennings að fylgjast með þingfundum.
Það er mikilvægt að undirstrika að í öllum þessum málum eru sakborningar einungis sakfelldir  fyrir að hlýðnast ekki fyrirmælum valdstjórnarinnar og reyna að koma í veg fyrir að hún stöðvi fólk sem var í fulum rétti (enda voru sakborningar í Nímenningamálinu sýknaðir af öllum ákærum um „húsbrot“ og að hafa „ráðist á Alþingi“).  Það  sem gerðist var  þetta: Fólkið ætlaði að neyta stjórnarskrárvarins réttar síns, en valdstjórnin kom í veg fyrir það.  Valdstjórnin tók sem sagt þá röngu ákvörðun að hindra borgara í að neyta réttar sem þeir áttu samkvæmt stjórnarskrá.  Niðurstaðan dómsins er samt ekki sú að valdstjórnin fái á baukinn, heldur eru borgararnir dæmdir fyrir að óhlýðnast valdstjórninni.  Með þessu eru geðþóttaákvarðanir valdstjórnarinnar, sem fara í bága við rétt borgaranna, settar ofar stjórnarskrá.
Að hunsa stjórnarskrána, í málum sem augljóslega varða þau mannréttindi sem hún á að tryggja,  eru ófyrirgefanleg afglöp af hálfu dómstóla, burtséð frá því hver niðurstaða réttarins yrði um gildi viðkomandi ákvæða í umræddum málum, ef hann léti svo lítið að fjalla um þau.
Öfugt við marga sem ég er sammála um dýpt spillingarinnar í íslenskri stjórnsýslu hef ég lengi trúað að dómstólarnir séu faglegasti og áreiðanlegasti hluti ríkisvaldsins.  En, þeir dómarar sem dæmt hafa ofangreind mál grafa undan eðlilegu trausti á dómstólunum, og maður veltir fyrir sér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að dómarar hunsi gersamlega æðstu reglur þess starfs sem þeir sinna.  Þess vegna ætla ég að nefna nöfn dómaranna hér, enda kemur þar í ljós athyglisvert mynstur:

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.12.2012 - 19:14 - 22 ummæli

Berjumst gegn ofbeldi bænda

Á Íslandi ríkir bændaveldi.  Í þúsund ár voru það bændur sem réðu lögum og lofum, kúguðu hjúin og komu í veg fyrir að almenningur gæti um frjálst höfuð strokið, hvað þá að alþýðan gæti starfað við það sem henni sýndist, og engir komust til mennta nema þeir sem áttu ríka bændur að.  Allar valdastöður í landinu voru í þúsund ár mannaðar bændum; bæði sýslumenn og prestar voru bændur, sem og allir héraðshöfðingjar aftur til landnámsaldar.  Bændur réðu öllu atvinnulífi landsins í meira en tíu aldir, ekki bara landbúnaðinum heldur einnig öllum sjávarútvegi fram á síðustu öld, þar sem þeir kúguðu vinnumenn sína til sjósóknar og meinuðu öðrum að sækja sjó.
Auðvitað eru bændur í dag ekki allir illmenni (og reyndar er það líklega lítill hluti þeirra sem enn fremur það ofbeldi gagnvart alþýðu sem er einkennandi fyrir þá kúgun sem fylgdi bændaveldinu  gegnum aldirnar).  En, þessi hugsunarháttur er svo djúprættur í þjóðinni, bæði meðal bænda og almennings, að honum verður ekki útrýmt nema með stöðugu átaki í langan tíma.  Það er hættulegur barnaskapur að halda að kúgunarveldi af þessu tagi, með meira en þúsund ára sögu, hverfi sjálfkrafa þótt löngu sé búið að setja lög til að tryggja almenningi kosningarétt og aflétta vistarböndum.  Áhrif bændaveldisins birtast enn mjög víða, því óhætt er að segja að bændur njóti ýmissa forréttinda miðað við almenning, og bændur eru víða í valdastöðum þar sem þeir hygla enn sínum á kostnað almennings.
Bændaveldið gegnsýrði svo hugarfar þjóðarinnar að það mun taka marga áratugi í viðbót að létta þessum klafa af hugum flestra.  Þess vegna er mikilvægt að berjast alltaf og alls staðar gegn ofbeldi bænda, og það ætti að vera sjálfsagt að kenna alþýðufræði í skólum, þar sem útskýrt er fyrir börnum og unglingum hvers konar ofbeldi alþýðan varð fyrir af hálfu bænda, og hvernig hugsunarháttur bændaveldisins liggur enn til grundvallar þeirri útbreiddu hugmynd að bændur eigi að njóta forréttinda og megi níðast á öðrum.
Að sjálfsögðu á að banna bændum algerlega að ráða til sín vinnufólk, og við því eiga að liggja harðar refsingar (en þó á auðvitað ekki að refsa vinnufólkinu sem ræður sig í vist; það er fórnarlömb, og oftar en ekki flutt hingað inn frá öðrum löndum og alveg bjargarlaust og hjálparlaust gagnvart kúguninni).  Að halda fram að til sé „hamingjusamt“ vinnufólk á bændabýlum er svívirðileg afneitun á þeirri kúgun sem bændur stunda enn í skjóli hugsunarháttar bændaveldisins.
Enn fremur ætti að setja lög til að koma í veg fyrir að bændur verði nokkurn tima hlutfallslega of margir í nokkrum eftirsóknarverðum stöðum og starfsstéttum, og það þarf að sjálfsögðu lýðréttisnefnd sem almenningur getur snúið sér til þegar bóndi er ráðinn í starf þar sem hlutfallslega of margir bændur eru fyrir og gengið er fram hjá alþýðuumsækjanda sem er jafnhæfur bóndanum.
Einnig þarf að taka upp alþýðlega fjárlagagerð, svo hægt verði að rétta alls staðar af þann halla sem þar er að finna, almenningi í óhag.  Einnig ætti að skylda öll fyrirtæki með yfir 5 starfsmenn, og allar opinberar stofnanir, til að vera með lýðréttisáætlun, og opinberar stofnanir með yfir tíu starfsmenn ættu allar að vera með sérstaka lýðréttisráðgjafa, sem þurfa að vera menntaðir í lýðfræðum.
Brýnt er að efla rannsóknir og kennslu í lýðréttismálum á háskólastigi, enda ekki vanþörf á að greina á fræðilegan hátt hvernig bændaveldishugsunarhátturinn einkennir allt samfélagið.  (Talandi um það, er búið að lýðgreina skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?)
Bændaveldið er staðreynd, og þeir sem afneita því eru algerlega blindir á skuggahliðar samfélags okkar.  Við verðum að halda vöku okkar, og því hef ég ákveðið að búa til Facebook-siðu þar sem ég safna saman ýmsum ummælum bænda sem sýna hvernig hugsunarháttur bændaveldisins lifir enn góðu lífi á meðal vor.  Ég er að hugsa um að kalla síðuna „Bændur sem hata almenning“.
Að sjálfsögðu mun þessi afstaða verða fyrir rætnum árásum frá bændum, sem eru dauðhræddir um að missa þau völd sem þeir hafa haft til að kúga alþýðuna.  En, það sannar bara hversu rótgróinn og óhuggulegur hann er þessi hugsunarháttur sem gegnsýrir enn samfélagið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.12.2012 - 12:03 - 18 ummæli

Íslenskir háskólar — alveg einstakir

Af einhverjum ástæðum varð ég óskaplega dapur yfir miklu af umræðunni um þennan pistil Evu Hauksdóttur (og þennan), sem fjallar um höfundarrétt og hvort háskólar eigi að starfa fyrir opnum tjöldum eða vera einhvers konar frímúrarareglur.
Umræðan hefur ekki síst snúist um eftirfarandi spurningar (sem annars vegar var beinlínis spurt í ofannefndum pistlum, og sem hins vegar hafa verið ræddar í ýmsum tjásukerfum, bæði við pistlana og á Facebook):
  • Er eðlilegt að háskólakennarar sem dreifa tilteknu námsefni (t.d. fyrirlestraglærum) til allra nemenda í tilteknu námskeiði vilji alls ekki að efnið verði gert aðgengilegt almenningi?
  • Gerir höfundarréttur kennara á kennsluefni að verkum að háskóli megi alls ekki krefjast þess að allt efni sem birt er nemendum námskeiðs (sem í geta verið tugir eða hundruð nemenda) sé birt á opnum vef, þannig að það verði aðgengilegt almenningi?
  • Kæmi umræddur höfundarréttur (sem margir virðast rugla saman við réttinn til dreifingar) í veg fyrir að háskóli gæti krafist þess að allir nemendur skólans hefðu aðgang að kennsluefni sérhvers námskeiðs í skólanum, til dæmis til að nemendur geti betur valið sér námskeið við hæfi?
  • Er höfundarréttur háskólakennara, á kennsluefni sem þeir dreifa til nemendanna sem þeir kenna, frábrugðinn höfundarrétti fréttafólks á fjölmiðlum (og þeirra sem senda inn greinar í blöð), sem ekki hefur neitt að segja um dreifingu fréttanna sem það skrifar?
  • Er það virkilega rétt ályktað hjá einum háskólakennara sem tjáði sig um málið að ef HÍ ákvæði einfaldlega að hafa engan lokaðan vef fyrir kennsluefni, bara opinn, þá myndu margir kennarar skólans hverfa aftur til fortíðar og hætta að nota netið til að birta efni?
Það sem mér hefur fundist sorglegast við umræðuna er hversu margir hafa tekið undir þá afstöðu að það sé vont, ómögulegt, og líklega lögbrot, að ætlast til að almenningur geti fengið aðgang að kennsluefni sem birt er á innrivef HÍ.
Auðvitað gera sér allir grein fyrir því að um leið og tugir nemenda hafa aðgang að kennsluefni á vef skólans getur hver sem er komist yfir það sem hann hefur sérstakan áhuga á, því Ísland er nógu lítið til að allir þekkja einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem er skráður í viðkomandi námskeið.  Það er því augljóst að efni sem birt er á innrivef HÍ er ekki lengur „leynilegt“.
Það er líka sérkennilegt að almenningur, sem borgar alla starfsemi HÍ, þar með talin laun kennaranna fyrir að setja saman kennsluefni, megi ekki fá aðgang að því kennsluefni sem dreift er til nemenda skólans.
Það sem er þó verst við þetta, finnst mér, er leyndarhyggjan sem birtist í mótbárunum sem svo margir flýta sér að leita að.  Örfáir þeirra sem hafa tjáð sig teljandi um málið tala um að það væri auðvitað gott að gera sem mest kennsluefni aðgengilegt almenningi.  Flestir tala hins vegar um það eins og sjálfsagðan hlut að halda verndarhendi yfir þessari leynd, og leita að alls konar rökum og lagabókstöfum til að útskýra mikilvægi þess að sem minnst ljós fái að skína inn í þennan ryðhjall sem reynir svo oft að vera fílabeinsturn.
Nánast engum virðist detta í hug að það væri ef til vill eftirsóknarvert að starf HÍ væri opið almenningi að því leyti sem auðvelt er að opna það.  Það þarf til dæmis bara að „ýta á einn takka“ til að gera kennsluefnið aðgengilegt umheiminum í stað þess að loka það inni í afmörkuðum hópi innan skólans.
Fáum virðist heldur detta í hug að það gæti verið eftirsóknarvert að feta í fótspor þeirra skóla erlendis (t.d. Tübingen, Michigan, TU Delft, MIT, Yale …) sem vilja veita almenningi aðgang að því sem þeir hafa fram að færa.  Nei, það væri hræðilegt „brot á höfundarrétti“ að veita almenningi aðgang að þeim leyndardómum sem fjallað er um í hinum sérstaka Háskóla Íslands.
Ég veit svo sem af hverju margir kennarar við HÍ óttast innsýn almennings í kennslu sína.  Þótt í HÍ sé talsvert af mjög öflugu vísindafólki er mikill fjöldi kennara skólans, sérstaklega á Menntavísinda- og Félagsvísindasviði,  alls engir þátttakendur á þeim vettvangi sem skólinn segist, opinberlega, ætla að gera sig gildandi á, þ.e.a.s. á þeim alþjóðavettvangi sem vísindastarf er.  Þótt sérhver kennari við íslensku ríkisháskólana fái 40% launa sinna greidd fyrir að stunda rannsóknir er það opinbert leyndarmál að stór hluti þeirra hefur aldrei stundað rannsóknir, og annar stór hluti stundar rannsóknir sem ná engu máli í því alþjóðasamfélagi sem skólinn hefur sem yfirlýsta stefnu að tilheyra.
(Það er svo efni í annan pistil að þótt ofangreind tvö svið innan HÍ séu samanlagt umtalsvert fjölmennari en bæði Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið, þá er framlag þeirra fyrrnefndu til alþjóðasamfélags vísindanna innan við einn tíundi af framlagi hvors hinna sviðanna, eins og sjá má í þessari samantekt úr gagnagrunninum Web of Science, yfir fjölda birtra greina á ritrýndum alþjóðlegum vettvangi. Rétt er að hafa í huga hér að þetta yfirlit, sem ég mun fjalla betur um síðar, er yfir allar birtingar íslenskra stofnana.  Það þýðir meðal annars að  stór hluti birtinga í heilbrigðisvísindum er frá Erfðagreiningu og Hjartavernd.)
Það er þó ekki þetta sem gerir mig dapran, því það hef ég vitað lengi.  Heldur hitt, hversu fátt af því frambærilega vísindafólki sem HÍ þó á skuli vera tilbúið að standa upp og útskýra fyrir almenningi og stjórnvöldum þá lygi sem svo stór hluti af starfi HÍ byggir á, og sem er ein ástæða þeirrar leyndarhyggju sem hér hefur verið fjallað um.  Lygi undirmálsliðsins, sem hefur tögl og hagldir í æðsta valdakerfi skólans, um að það sé alvöru vísindafólk, en ekki dæmigerðir íslenskir fúskarar sem þjást samtímis af (skiljanlegri) minnimáttarkennd og (óskiljanlegu) mikilmennskubrjálæði.
Ísland er svo óskaplega sérstakt.  Um það gilda allt aðrar reglur og lögmál en þessa aula sem búa í öðrum og vanþróaðri löndum.  Það er af því að Íslendingar eru afburðafólk, sem hafa ekkert til annarra að sækja …

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.12.2012 - 22:38 - 2 ummæli

Sighvatur Björgvinsson, fæddur 1942

Skoðið sérstaklega hreyfimyndina fyrir neðan fyrstu tvær myndirnar:

http://www.actuary.is/hagur/netto-eignir-og-skuldir-kynsloda/

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.12.2012 - 21:09 - 10 ummæli

Kynjagleraugu, með brotið á báðum

Nýlega kom út skýrsla stýrihóps hjá Reykjavíkurborg um Kynjaða fjárhags- og áætlunargerð.  Hér að neðan rek ég nokkur dæmi úr þessari skýrslu, og geri svolitlar athugasemdir til skýringa.
Það er lítil ástæða til að ræða þetta mikið, því geggjunin er svo augljós.  Eina spurningin sem ástæða er til að spyrja er hvort Reykjavíkurborg muni fljótlega fara sömu leið og Vinstri Græn og lýsa beinlínis yfir að markmið starfsins sé ekki kynjajafnrétti heldur að hygla konum með ólýðræðislegum hætti.  Hins vegar virðist ekki þurfa að spyrja hvort femínistar borgarinnar muni halda áfram að eyða peningum í þrugl af þessu tagi; um það eru þegar tillögur í umræddri skýrslu.
Ein er þó huggun harmi gegn:  Á meðan starfsfólk borgarinnar, þ.á.m. „Mannréttindaskrifstofunnar“, hamast í þessu er það þó ekki á kafi í að mála klámskrattann á alla auða veggi.
Niðurstöður sýna að fleiri karlmenn en konur sækja sundlaugar eða 54%.
Þetta er nokkuð óljóst orðað í skýrslunni, en ljóst er af því sem á eftir kemur að 54% gesta eru karlar og 46% konur.  Einhverjum gæti fundist það lítill munur, auk þess sem hér er ekki um úthlutun gæða að ræða heldur ákveður fólk það sjálft hvort það fer í sund.  En, það er víst misskilningur:
Þar sem augljós kynbundinn munur er á aðsókn er brýnt að skoða hvort eitthvað í þjónustu, aðstöðu eða ímynd sundlauga hafi áhrif á mismunandi aðsókn kynja. Að tillögu hópsins gæti verið gagnlegt að gera eigindlega og megindlega rannsókn á viðhorfi gesta til þessara þátta.
Það verður án efa spennandi að lesa níðurstöðu þeirra rannsókna.
Konur voru í miklum meirihluta þeirra sem nýttu sér almenna ráðgjöf við innflytjendur.   Ástæður að baki kynjamunar á notkun teljast málefnalegar og ekki telst þörf á að grípa til sérstakra aðgerða.  Kynjamunur í notkun á almennri ráðgjöf á ensku til innflytjenda  reyndist verulegur.   Ástæðurnar teljast að hluta til málefnalegar enda leita margar konur til ráðgjafa vegna ofbeldis á heimili. Hins vegar gæti menningarlegur bakgrunnur hindrað suma karlmenn í að nýta sér þjónustuna og gæti því verið kostur að geta einnig ráðið karlkyns ráðgjafa.
Hins vegar er ekki útskýrt hvað geri þennan mikla kynjamun „málefnalegan“.
Verkefnið fólst í því að rannsaka – með hliðsjón af kyni umsækjenda — allar umsóknir um styrki sem sótt var um til Menningar- og ferðamálaráðs 1. október ár hvert í fimm ár og styrkveitingar í kjölfar þeirra. Rannsakaðar voru styrkveitingar vegna áranna 2007-2011.  Markmið verkefnisins var að kanna hvort halli á annað kynið í styrkveitingum Menningar- og ferðamálaráðs og gera tilllögur að því hvernig unnt er að jafna mun kynjanna og/eða halda jafnræði milli kynja í styrkumsóknum og styrkveitingum. Jafnréttismarkmið verkefnisins voru þau að kynin eigi að hafa jafna möguleika á styrkveitingum Menningar– og ferðamálaráðs til verkefna og starfsemi á sviði menningarmála og menningartengdrar ferðaþjónustu. Frá árinu 2007 til 2011 hefur orðið merkjanleg og stígandi aukning á hlut kvenna í styrkjaumsóknum og styrkveitingum Menningar- og ferðamálaráðs hvað varðar fjölda, heildarupphæð og meðalupphæð umsókna og heildar- og meðalupphæð úthlutunar. Á árunum 2007 til 2011 jókst:
Hlutur kvenna í fjölda umsókna m.v. karla úr 49% í 55%.
Heildarupphæð úthlutunar til kvenna m.v. karla úr 47% í 63%.
Ekkert er hins vegar rætt í skýrslunni um þennan mikla kynjamun, hvað þá að gerðar séu „tillögur að því hvernig unnt er að jafna mun kynjanna“.  Hér er þó um að ræða úthlutun á gæðum, öfugt við aðgang að sundstöðum borgarinnar.
Einnig var fjallað um innkaup Borgarbóksafns á bókum eftir karla og konur, og kom í ljós að titlar kvenhöfunda voru keyptir í stærra upplagi en titlar karla, og var munurinn nánast sá sami og í sundlaugaheimsóknum.  Það er hins vegar ekki ástæða til að gera neitt í því:
Fjöldi bóka sem koma út eftir karla er fleiri en kvenna. Talsvert af þeim ritum er utan þess sem kalla má meginstraumsbókmenntir sem skýrir að hluta til færri keypt eintök.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.11.2012 - 23:54 - 2 ummæli

Gleymið fjármagn

Í þessari frétt er talað um að hjúkrunarheimilið Eir þurfi „þolinmótt“ fjármagn til að brjótast út úr þeirri kreppu sem misvitrir stjórnendur virðast hafa komið stofnuninni í.  Það virðist hins vegar hafa gilt um þessa stjórnendur, og marga aðra sem vélað hafa með fé almennings og annars saklauss fólks í Íslandi síðustu árin, að þeir óskuðu þess frekar að hafa undir höndum annars konar fjármagn.   Nefnilega gleymið fjármagn.


Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur