Mánudagur 20.2.2012 - 12:59 - 20 ummæli

Áskorun til stjórnar FME

Samkvæmt þessari frétt hefur Ástráður Haraldsson átt í deilum við skilanefnd Glitnis um hundruða milljóna viðskipti vegna framvirkra samninga með skuldabréf Kaupþings. Það gerir Ástráð augljóslega óhæfan til að skrifa álitsgerðir fyrir Fjármálaeftirlitið. Því ætti stjórn FME að henda í snarhasti skýrslunni sem Ástráður skrifaði um forstjóra FME.

Vegna þessara alvarlegu mistaka, og þess fárviðris sem fylgt hefur þeim, ætti stjórn FME síðan að segja af sér. Geri hún það ekki innan fárra klukkutíma þarf ráðherra að reka hana. Það yrði svo verkefni nýrrar stjórnar að ákveða hvort ástæða er til að aðhafast frekar í máli Gunnars.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.2.2012 - 13:43 - 52 ummæli

Snorri, hatursáróður og ríkiskirkjan

Nýlega var Snorri í Betel sendur í launað leyfi úr starfi sínu sem kennari, vegna bloggpistils sem hann birti. Hafi ég skilið rétt var það vegna eftirfarandi orða:

„Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“

Mér finnst í meira lagi vafasamt að refsa manni fyrir að halda því fram að þetta sé „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra“. Ekki síst vegna þess að ég sé ekki að hér sé um að ræða staðhæfingar sem fallið geti undir hatursáróður, því eingöngu er verið að lýsa afstöðu tiltekins trúarhóps. Þessi afstaða byggist vissulega á viðurstyggilegu manneskjuhatri, en ég fæ ekki séð að verið sé að halda einhverju fram sem staðreyndum, hvað þá að hvetja til ofsókna gegn samkynhneigðum. Hvað er „synd“, og hvernig þessi trúarhópur telur að guð hans refsi fyrir syndina, kemur okkur hinum nefnilega ekkert við.

Það vill gleymast að tjáningarfrelsið er ekki til fyrir þá sem okkur geðjast að, heldur hina sem okkur finnst hafa ógeðfelldar skoðanir. Þess vegna vona ég að Snorri kæri úrskurðinn, svo það fáist á hreint hvar mörk tjáningarfrelsisins liggja á Íslandi.

Þetta er hins vegar ekki helsta efni þessa pistils. Heldur hitt, að Snorri var einungis að benda á það sem sagt er með ótvíræðum hætti í Biblíunni. Bókin sú er yfirlýst trúarrit íslensku ríkiskirkjunnar, sem þýðir meðal annars þetta:

Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.

Vegna þess að Snorri var að lýsa afstöðu sem birtist í Biblíunni verður það áleitin spurning, ef litið er á þessa afstöðu sem ólögmætan hatursáróður, hvort ekki ætti að banna Biblíuna (sem ég er ekki hlynntur, en það er annað mál). Það er hins vegar ekki heldur efni þessa pistils …

Það er óþarfi að tína hér til hin vel þekktu dæmi um hatursboðskap Biblíunnar og þá ógeðfelldu afstöðu sem þar birtist í mörgum málum, t.d. gagnvart samkynhneigðum og konum, og almennt um þær viðbjóðslegu refsingar sem fyrirskipaðar eru þeim sem fara út af sporinu.

Sem betur fer gildir það um marga, og líklega langflesta, presta kristinnar kirkju á Íslandi að þeir hafna algerlega haturs- og kúgunarboðskapnum sem svo mikið er um í Biblíunni, og margir þeirra eru meira að segja áberandi í baráttu fyrir ýmsum þeim mannréttindum sem fara í bága við boðun Biblíunnar. Í því ljósi er hins vegar óskiljanlegt af hverju þeir lýsa því samt yfir að þeir líti á þetta rit sem „uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.“

Það vill svo til að Biblían er ekki óbreytanlegt tvö þúsund ára gamalt rit. Á það er m.a. bent hér. Það er því ljóst að kirkjan telur sig hafa svigrúm til að endurskoða hvað eigi að tilheyra þessu riti sem hún grundvallar afstöðu sína á.

Mér er að vísu fyrirmunað að skilja hvernig sæmilega hugsandi fólk, og þá sérstaklega þeir sem augljóslega eru miklir manneskjuvinir, lætur sér detta í hug að hampa Biblíunni i heild, þótt þetta fólk aðhyllist margt af því fallega sem þar er að finna. En, það væri áhugavert að heyra skoðanir þess frjálslynda fólks á þessu máli. Sérstaklega ef það er tilbúið til að rökræða þessi mál, frekar en að flýja inn í heim hálfkveðinna vísa og þokukenndra þversagna, eins og algengt er meðal forsvarsmanna kirkjunnar, t.d. í þessu litla dæmi.

Því skora ég hér með á alla „frjálslynda“ presta og guðfræðinga að útskýra fyrir okkur af hverju þeir stíga ekki skrefið til fulls og setja saman það sem þeir í raun líta á sem trúarrit sitt, og birta það opinberlega, frekar en að dragnast áfram með núverandi Biblíu sem boðar hatur og refsingar á svo mörgum hópum fólks.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.2.2012 - 19:42 - 21 ummæli

Jón og séra Jón ræningjakapítalisti

Síðustu daga hafa farið fram svolitlar umræður á bloggsíðu Vilhjálms Þorsteinssonar, og á minni bloggsíðu, um húsnæðisskuldir, framferði bankanna og kröfuhafana eigendur þeirra, sem og ræningjakapítalisma. Það er gott að ræða þessi mál, og velta upp ýmsum hliðum og möguleikum. En, ég held að það geti tekið áratugi að græða þau samfélagslegu sár sem hrunið skilur eftir, og sem enn eru flakandi, svo lengi sem þetta viðgengst:

Hálfsárs gömul frétt.

Frétt frá í dag.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.2.2012 - 12:54 - 32 ummæli

Vilhjálmur Þorsteinsson og Gamla Ísland

Vilhjálmur Þorsteinsson skrifaði bloggpistil í gær um niðurfærslu lána, þar sem hann kemst í aðalatriðum að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fara í neinar róttækar aðgerðir, en leggur til mildari aðgerðir á lengri tíma. Þetta er ágætis pistill að því leyti að Vilhjálmur færir ítarleg rök og gögn fyrir máli sínu, og því er þetta gott innlegg í málefnalega umræðu (þótt sjálfsagt verði margir til að gera athugasemdir við ýmsar staðhæfingar Vilhjálms).

Ég efast ekki um að Vilhjálmur hafi margt til síns máls, þótt ég ætli ekki fara í saumana á því sem hann segir. Mér finnst hitt nefnilega mikilvægara, að málflutningur Vilhjálms byggir á forsendu sem auðvitað er hægt að aðhyllast, en sem ég tel vera svo meingallaða að tilgangslítið sé að ræða niðurstöður og tillögur Vilhjálms eins og þær standa.

Vilhjálmur gengur nefnilega út frá því að það efnahags- og stjórnmálakerfi sem við búum við sé í aðalatriðum í lagi, eða að minnsta kosti að ekki sé annað í boði en að gera lagfæringar á því til að sníða af verstu vankantana.

Ég tel, þvert á móti, að íslenska valdakerfið sem drottnað hefur yfir efnahagslífi og stjórnmálum landsins í áratugi sé gegnrotið af spillingu, og gersamlega ófært um, og óviljugt, að gera þær grundvallarbreytingar sem gera þarf til að hagsmunir almennings séu ekki endalaust fyrir borð bornir í þágu hinna útvöldu ræningjakapítalista.

Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur nýlega lagt til að ríkið yfirtaki húsnæðisskuldirnar sem bankarnir keyptu með miklum afslætti, og greiði aðeins það verð sem bankarnir greiddu fyrir þær, og það notað til að færa þær niður. Miðað við reynsluna af íslensku bönkunum síðustu árin tel ég að það eigi að ganga skrefi lengra og yfirtaka bankana alveg. Segja kröfuhöfum að kröfur þeirra yrðu skoðaðar í rólegheitum, þeir fengju peningana ef til vill til baka, þó aldrei meira en þeir borguðu, og það gæti tekið mörg ár, jafnvel áratugi áður en þeir fengju þá. Alveg sérstaklega myndu engir kröfuhafar sem áttu þátt í að setja Ísland á hliðina fá krónu tilbaka ef þeir hafi verið svo ósvífnir að kaupa kröfur í bankana.

Það vill nefnilega svo vel til, að kostnaðurinn sem Vilhjálmur telur að yrði af niðurfærslu lána í takt við tillögur Hagsmunasamtaka Heimilanna, um 260 milljarðar, er nokkurn veginn það sem bankarnir hafa grætt frá hruni.

Það ætti ekki að þurfa að bera í þann bakkafulla læk sem eru dæmin um brjálæðisleg mistök, lögbrot, yfirgang og stjórnlausa græðgi sem einkennt hefur íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf, og sem ekki er að sjá að verið sé að koma í veg fyrir að endurtaki sig. En, það er kannski, þrátt fyrir allt, nauðsynlegt að rifja upp nokkur dæmi:

  • Íslensku bankarnir voru gefnir vildarvinum stjórnmálamanna. Þeir voru ekki bara tæmdir heldur fyrst blásnir svo upp að gjaldþrot þeirra eru þrjú af tíu stærstu gjaldþrotum mannkynssögunnar. Miðað við höfðatölu voru þessi gjaldþrot um tvö hundruð sinnum stærri en samanlögð tvö stærstu gjaldþrotin í sögu Bandaríkjanna (Lehman Brothers og Washington Mutual).
  • Íslensku lífeyrissjóðirnir sem eru undir stjórn samkrulls kapítalista, verkalýðsforystunnar og stjórnmálamanna, tóku þátt í brjálæðinu sem olli hruni hagkerfisins, en þar ber enginn neina ábyrgð, og nánast enginn forkólfa þeirra hefur sagt af sér, hvað þá verið rekinn.
  • Og svo eitt lítið, en talandi dæmi: Fyrirtækið sem rekur Ja.is hefur verið til umfjöllunar vegna þeirrar sérkennilegu ákvörðunar að láta kvenfyrirlitningarpostula „hanna“ símaskrána. Það er að vísu illskiljanlegt af hverju þarf að gera annað við símaskrána en að gefa hana út óskreytta. En verður skiljanlegra að fyrirtækinu detti þvílíkt rugl í hug þegar í ljós kemur að hér er um að ræða þess konar yfirgengilegan einokunarkapítalisma, í skjóli ríkisvaldsins, sem margir héldu að enginn treysti sér lengur til að verja opinberlega. Ofsagróði af því tagi sem þetta fyrirtæki (í eigu fjárfestingasjóðs) hefur rakað saman gerir forsvarsmönnum þess nefnilega kleift að stunda úrkynjað rugl af því tagi sem fyrir hrun fólst helst í því að leggja sér gull til munns, í bókstaflegum skilningi.

Það má vel vera að málflutningur Vilhjálms Þorsteinssonar væri góðra gjalda verður ef við létum okkur nægja að lappa aðeins upp á þetta sjúka valdakerfi, og sættum okkur við að gullæturnar væru skammaðar svolítið öðru hverju. Ef við viljum nýtt Ísland, í stað þess sora sem gegnsýrir allt valdakerfið nú, þá þarf hins vegar annars konar aðgerðir.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.2.2012 - 18:30 - 8 ummæli

Vill fjármálaráðherra láta virkja?

Eftirfarandi var haft eftir Oddnýju Harðardóttur fjármálaráðherra í kvöldfréttum RÚV:

„Það er nauðsynlegt fyrir okkur að nýta okkur okkar orkuauðlindir til þess að að halda hér uppi velferð í landinu“, sagði Oddný og bætti því við að hún vissi ekki hvort það yrði byrjað að virkja í neðri hluta Þjórsár fljótlega, …

 Iðnaðarráðherra segir að ferlið um virkjun í neðri hluta Þjórsár verði að vera faglegt, ekki pólitískt. Ráðherrann vill ekki virkja hafi það skaðleg áhrif á lífríkið.

Þetta er afar óljóst, sumt rangt og annað þversagnakennt:

  • Það er pólitísk ákvörðun hvort meira verður virkjað.
  • Það er ekki nauðsynlegt að virkja meira til að halda uppi velferð í landinu.
  • Það er ljóst að virkjun í neðri hluta Þjórsár myndi hafa skaðleg áhrif á lífríkið.

Vonandi stafa þessar þversagnir í málflutningi Oddnýjar ekki af því að hún sé eindregið fylgjandi virkjunum en vilji ekki viðurkenna það.  En það er dapurlegt að heyra enn einn nýliðann á valdastóli tala í tómum þversögnum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.2.2012 - 19:53 - 20 ummæli

Lífeyrissjóðaforkólfar segja af sér

Djók.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur