Miðvikudagur 1.2.2012 - 11:15 - 8 ummæli

Dæmisaga um grimmd?

Talsvert hefur verið fjallað um mál Mohammeds Lo, rúmlega tvítugs manns sem flúði frá Máritaníu, þar sem hann hafði verið þræll alla ævi, og kom til Íslands fyrir rúmu ári. Í þessum pistli er saga hans rakin í aðalatriðum. Eins og fram hefur komið var Mohammed synjað um hæli á Íslandi, og ákveðið að hann skyldi fluttur aftur til Noregs, þaðan sem hann kom til Íslands. Því til stuðnings var vitnað í Dyflinnarreglugerðina svokölluðu, sem heimilar ríki innan Schengen-svæðisins að senda fólk sem sækir um hæli tilbaka til þess lands innan svæðisins sem það kom frá.

Í þessari skýrslu frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er hins vegar útskýrt að ekki megi beita þeirri sjálfvirkni sem íslensk yfirvöld hafa gjarnan borið fyrir sig í þeim efnum:

Ljóst er að dómur Mannréttindadómstólsins leggur þær skyldur á íslensk stjórnvöld eins og stjórnvöld annarra Evrópuríkja að ganga ekki út frá því sem vísu að annað aðildarríki í samstarfinu, jafnvel þótt bæði séu skuldbundin af Mannréttindasáttmála Evrópu, geti tryggt hælisleitendum viðunandi aðbúnað sem samrýmist kröfum 3. gr. sáttmálans. Sú sjálfvirkni sem almennt er ráðgerð í Dyflinnarreglugerðinni um endursendingu hælisleitanda til annars aðildarríkis, þar sem ríki ákveður aðeins í undantekningartilvikum að taka umsókn til efnislegrar meðferðar, er því ekki ásættanleg.

Ég hef séð nokkuð af þeim gögnum sem varða mál Mohammeds. Af þeim er ljóst að hann fékk í upphafi ekki túlk sem kunni móðurmál Mohammeds, heldur bara frönsku, sem Mohammed getur alls ekki tjáð sig á með fullnægjandi hætti. Því varð í upphafi ýmiss misskilningur sem virðist hafa leitt til þess að Útlendingastofnun áttaði sig ekki á alvarleika þeirra aðstæðna sem Mohammed flúði. Það er samt til fólk á Íslandi sem talar móðurmál Mohammeds, wolof, en Útlendingastofnun hafði ekki rænu á að finna það, og virðist ekki hafa talið sérlega mikilvægt að skilja um hvað málið snerist, þótt það sé lögboðið hlutverk hennar. Enda eru ýmsar staðhæfingar í gögnum Útlendingastofnunar sem eru hreinn þvættingur, til dæmis að Mohammed hafi stolið sauðfé sér til matar.

Það er líka ljóst að enginn dregur í efa að Mohammed hafi verið þræll, enda tekur fáar mínútur að kynna sér ástand þeirra mála í Máritaníu, t.d. hér. Þess vegna er ljóst að Mohammed á skýlausan rétt á hæli sem flóttamaður samkvæmt íslenskum lögum og þeim alþjóðasáttmálum sem við erum aðilar að. Þegar Útlendingastofnun ákveður að beita fyrir sig Dyflinnarreglugerðinni, sem er nauðsynjalaus illmennska, er það gert í krafti fullyrðinga um að Mohammed muni örugglega fá réttláta málsmeðferð í Noregi. Það virðist hins vegar vera gegn betri vitund, því í tölvupósti sem stofnunin fékk frá Interpol í Noregi segir m.a. þetta:

„Mouhamed Lo applied for asylum in Norway on 15.04.10. The application was rejected by the Directorate of Immigration on 22.09.10, and he has been ordered to leave the country. The Directorate of Immigration has confirmed today by phone that Lo can be returned to Norway. Norwegian authorities will then transport him to his home country.“

Ljóst er af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, eins og nánar er útlistað í ofangreindu skjali frá Mannréttindastofnun HÍ, að þetta þýðir að Íslandi er óheimilt að senda Mohammed til Noregs þar sem hann á þá á hættu að verða sendur aftur til Máritaníu.

Þegar Útlendingastofnun hafði ákveðið að synja Mohammed um hæli, og að honum yrði því vísað úr landi, var farið fram á við Innanríkisráðuneytið að það frestaði réttaráhrifum, þ.e.a.s. að Mohammed yrði ekki sendur úr landi fyrr en ráðuneytið hefði lokið meðferð kæru vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar. Því var synjað. Það sem er ef til vill nöturlegast við meðferð þessara yfirvalda á máli Mohammeds er að þau virðast lítinn áhuga hafa á að komast að hinu sanna í máli hans, en eyða hins vegar miklum tíma og miklum pappír í að útskýra í smáatriðum alla lagakróka sem þau geti beitt fyrir sig til að komast hjá því að vinna þá lögboðnu vinnu sína að grafast vandlega fyrir um aðstæður þess sem sækir um hæli.

Í stuttu máli er ekki annað að sjá en að málsmeðferð Útlendingastofnunar og Innanríkisráðuneytis einkennist af fúski. Það er ekkert nýtt í íslenskri stjórnsýslu, og kannski bjartsýni að halda að á því verði teljandi bætur á næstunni. Það er hins vegar óbærileg tilhugsun öllu sæmilegu fólki ef slíkt fúsk verður til þess að þræll sem leitað hefur á náðir okkar verður sendur aftur á vit örlaga sinna í Máritaníu. Það er um slíka hluti sem skrifaðar eru dæmisögur um grimmd, og aldrei að vita nema starfsmönnum þessara stofnana takist að gera sig ódauðlega með þeim hætti.

Það mætti hins vegar leysa þetta mál umsvifa- og vandræðalaust ef menn vildu, og vísa einfaldlega til mannúðarsjónarmiða, í samræmi við lög. Ákveða að það væri grimmúðlegt að maður sem hefur verið þræll allt sitt líf, sem þekkir enga manneskju í heimalandi sínu nema nokkra samþræla sína, en á orðið vini og kunningja á Íslandi, að það væri of ómanneskjulegt að senda hann tilbaka, þar sem hann á það á hættu að verða pyntaður og limlestur og hnepptur aftur í ævilangan þrældóm. En til þess þarf auðvitað mannúð. Hún mun hvorki vera í tísku hjá Útlendingastofnun né Innanríkisráðuneytinu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 13:20 - 8 ummæli

Sérfræðingar og sjálffræðingar

Í opinberri umræðu um flókin mál er oft gott að fá sérfræðinga sem skýrt geta hluti sem ekki liggja í augum uppi fyrir leikmönnum. Sé vel að slíku staðið er þá oft hægt að lyfta umræðunni á hærra plan, þegar við leikmennirnir höfum áttað okkur á grundvallaratriðum sem ekki voru á hreinu og flæktu því umræðuna að nauðsynjalausu. Í þessu standa íslenskir fjölmiðlar sig oft illa og sama er því miður hægt að segja um margt íslenskt háskólafólk, sem ætti þó að geta lagt mikið af mörkum til að gera umræðuna markvissari.

Fjölmiðlar á Íslandi eru sífellt að birta viðtöl við meinta sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, þar sem viðmælandi talar óhindrað um eigin skoðanir og fær í mesta lagi nokkrar lotningarfullar jánkandi athugasemdir fréttamannsins. Þetta er ömurleg fréttamennska þegar fjallað er um hluti sem ekki er til óyggjandi fræðileg þekking um, eins og gildir til dæmis um nánast alla fjölmiðlaframkomu stjórnmálafræðinga á Íslandi. Þeir geta haft áhugaverða hluti að segja, en það er fráleitt að kynna þá sem fræðimenn þegar þeir tjá sig um stjórnmálaklæki líðandi stundar sem þeir vita ekkert meira um en hver annar. Háskólafólk sem kemur fram í fjölmiðlum til að úttala sig um eigin skoðanir en ekki sérfræðiþekkingu á sviði sínu ætti að kynna sem sjálffræðinga en ekki sérfræðinga.

Þetta er ljóður á ráði íslenskra fjölmiðla, en auðvitað líka á ábyrgð viðkomandi háskólafólks, og stundum til vansa fyrir háskólann sem hýsir það. Ég benti, í framhjáhlaupi, á eitt slíkt dæmi í þessum pistli, þar sem kynjafræðiprófessor við HÍ úttalaði sig í löngu máli um launamun kynjanna vegna könnunar sem hún hafði augljóslega ekkert kynnt sér og vissi því ekkert um hvort nokkuð var að marka meintar niðurstöður hennar. Nýlega var viðtal í Speglinum við annan prófessor við HÍ, Aðalheiði Jóhannsdóttur, prófessor í lögfræði og sérfræðing i umhverfisrétti.

(Það má skjóta þvi að hér að Aðalheiður er ein af örfáum lagaprófessorum í HÍ sem hafa lokið doktorsprófi, sem er í flestum fræðigreinum litið á sem upphaf rannsóknaferils sem leiðir, ef vel gengur, til prófessorsnafnbótar mörgum árum síðar. Á Íslandi virðist það hins vegar nánast vera regla að doktorspróf tryggi prófessorsstöðu í lögfræði, sem er svipað og að veita doktorsnafnbót þeim sem nær að útskrifast úr menntaskóla, og þeir eru reyndar miklu fleiri lagaprófessorarninr sem aldrei hafa stundað fræðastarf sem nær máli, en verða samt prófessorar).

Aðalheiður fjallaði í þessu Spegilsviðtali um auðlindaákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Mér fundust athugasemdir hennar áhugaverðar, en sýndust sumar þeirra samt vera persónulegar skoðanir sem ekki  byggðu á sérfræðiþekkingu. Ég skrifaði þess vegna Aðalheiði og spurði hana út í þetta, því ég vildi gjarnan vita hvað af þessu væru hennar eigin skoðanir og hvað hún liti á sem trausta fræðilega þekkingu.

Póstskipti mín við Aðalheiði eru birt hér að neðan. Skemmst er frá því að segja að hún neitaði með öllu (á „kurteislegan“ hátt) að svara spurningum mínum.

Ég tel að það sé siðferðileg skylda háskólafólks, sem hefur sig í frammi á opinberum vettvangi í krafti stöðu sinnar, að svara spurningum af þessu tagi.  Það væri gott ef íslenskir fjölmiðlar leituðu oftar til raunverulegra sérfræðinga um mál sem fjallað er um. Hins vegar þurfum við miklu minna af þeim sjálffræðingum sem vaða þar uppi.

——————————————————————————–
——————————————————————————–

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/19
Subject: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: adalheid@hi.is

Sæl Aðalheiður

Ég var að hlusta á gagnrýni þína á tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ég skildi ekki vel hvað þú áttir við með sumu af því sem þú sagðir. Hefurðu birt eitthvað um þetta sem er aðgengilegt á netinu eða sem þú átt á rafrænu formi og getur sent mér?

Ég hjó líka eftir því að þú sagðir eitthvað á þá leið að það skipti mestu máli hvernig við förum með auðlindir, ekki hver á þær. Ef ég hef skilið þetta rétt, líturðu á þetta sem afstöðu byggða á sérfræðiþekkingu þinni sem lögfræðings, eða er þetta einfaldlega pólitísk afstaða þín?

Enn fremur tók ég eftir að þú talaðir um vatnsréttindi á Spáni í tengslum við auðlindaákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs. Telurðu að þar sé um að ræða sambærilega hluti og einhverjar auðlindir sem fjallað er um í tillögu Stjórnlagaráðs? Ef svo er, hvaða auðlindir telurðu að myndu falla undir það? Jarðvarmi?

Síðast en ekki síst, telurðu að stætt sé á því að líta á það sem eignaupptöku ef ríkið slær eign sinni á jarðvarma undir jörðum sem eru í einkaeign?

Bestu kveðjur,

Einar

—————————————-
From: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>
Date: 2012/1/20
Subject: Re: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Kæri Einar!

Ég þakka þér fyrir áhugann, kveðja, AJ

—————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/20
Subject: Re: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>

Sæl aftur Aðalheiður

Það voru nokkrar spurningar í póstinum sem ég sendi þér. Myndirðu nenna að svara þeim?

Bestu kveðjur,

Einar

—————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/23
Subject: Fwd: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>

Sæl aftur Aðalheiður,

Af því að ég fékk engin svör við spurningunum sem ég sendi þér endursendi ég þær hér. Ég yrði þakklátur ef þú vildir svara þeim. (Ef þú vilt ekki svara þeim myndi ég gjarnan vilja vita það líka.)

Bestu kveðjur,

Einar

—————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/1/28
Subject: Um stjórnarskrá vegna Spegilsviðtals
To: Aðalheiður Jóhannsdóttir <adalheid@hi.is>

Sæl aftur Aðalheiður,

Af því að ég fékk engin svör við spurningunum sem ég sendi þér endursendi ég þær hér. Ég yrði þakklátur ef þú vildir svara þeim. (Ef þú vilt ekki svara þeim myndi ég gjarnan vilja vita það líka.)

Bestu kveðjur,

Einar

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2012 - 12:30 - 18 ummæli

Fávitar í bankaráði Landsbankans?

Í þessari frétt stendur meðal annars:

Bankaráð Landsbankans og skilanefnd gamla Landsbankans leggjast bæði gegn því að Kjararáð ákveði laun bankastjórans.

Því segir í umsögn bankaráðs, að ekki sé ólíklegt að bankastjórinn bregðist við með því að laga afköst sín að því sem hann telur samræmast launum sínum, eða segi hreinlega upp störfum.

Hefur þetta fólk ekki heyrt um svokallað hrun, og forleik þess?  Og, væri rétt að skikka það til að horfa á þetta?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.1.2012 - 12:50 - 28 ummæli

Ögmundur er auðvaldssinni

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur ekki haft sig í frammi varðandi þann skuldavanda sem stór hluti íslenskra heimila er að kikna undir (og sem stafar af því að bankarnir hafa fengið að mergsjúga skuldarana í skjóli ríkisstjórnarinnar, sem neitar að taka verðtrygginguna úr sambandi, hvað þá að færa niður stökkbreyttu lánin).

Ögmundur virðist heldur ekkert hafa við það að athuga að bankarnir hafa grætt tvö hundruð milljarða frá hruni, ekki síst á þeim húsnæðislánum sem svo margt fólk er að kikna undir.

Ögmundur hefur heldur ekkert teljandi gert í þeim mannréttindamálum sem hann er hæstráðandi yfir á Íslandi.  Hann hefur til dæmis leitt hjá sér þau mannréttindabrot sem flóttamenn verða reglulega fyrir.  Nýjasta dæmið er Mohammed Lo, sem brotið hefur verið gróflega á.

Ögmundur hefur heldur ekkert gert til að hemja lögregluna, sem oft hefur farið offari í framgöngu sinni.  Hann lét sér líka vel lynda að ríkislögreglustjóri fór undan í flæmingi þegar spurt var um tengsl íslenskrar lögreglu við njósnarann Mark Kennedy, hvað þá að hann hafi látið gera sjálfstæða úttekt á málinu.

Hvað hefur Ögmundur þá gert í valdatíð sinni? Jú, hann hefur

  • Kynnt frumvarp um „forvirkar rannsóknaheimildir“ handa lögreglunni þar sem ekkert er minnst á eftirlit með beitingu þessara heimilda.
  • Lagt fram frumvarp sem á að heimila ótilgreindum aðilum að fylgjast með netsamskiptum almennings.
  • Haldið hlífiskildi yfir Ríkislögreglustjóra þegar hann neitaði að afhenda Ríkisendurskoðun gögn vegna mála sem Ríkisendurskoðun rannsakaði, og sem hún á að fá lögum samkvæmt.

Það hefur oft verið talað um Ögmund sem einhvers konar „hugsjónamann“.  Að dæma af því hvernig hann hefur gersamlega sniðgengið hagsmuni þeirra sem minna mega sín, og varið þar með ræningjakapítalismann, og hvernig hann reynir að auka heimildir yfirvalda til að njósna um borgarana, er erfitt að draga aðra ályktun en þessa:

Hugsjónir Ögmundar snúast um að berja niður almenning og efla enn  efnahagslega og andlega kúgun þeirra afla sem ráða lögum og lofum á Íslandi.  Auðvaldsins.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.1.2012 - 11:02 - 127 ummæli

Píkurakstur, femínismi, forræðishyggja og fordómar

Eitt af því sem einkennir umræðu um femínisma og mál sem eru mörgum femínistum hugleikin eru staðhæfingar femínista um að rannsóknir sýni hitt og þetta, þótt sjaldan sé hægt að fá ábendingar um áreiðanlegar slíkar rannsóknir þegar beðið er um þær.  Annað sem er líka algengt eru staðhæfingar um að ekki sé til neitt sem heitið geti öfgafemínismi, af því að femínismi snúist um það eitt að kynjajafnrétti sé ekki náð og að eitthvað þurfi að gera í því.  Það er út af fyrir sig barnaleg afstaða að halda að ekki finnist öfgar í öllum skoðanahópum þar sem rætt er um hluti sem einhver minnsti ágreiningur er um.  Hitt er líka ljóst að meðal þeirra sem kalla sig femínista eru margir sem flytja mál sitt með heiftúðugum hætti, og fá nánast aldrei skammir fyrir það frá neinum sem kalla sig femínista.

Í þessum bloggpistli eru dæmi um ýmislegt það sem er vont í  málflutningi femínista.  Þetta er sannarlega ekki versta dæmið sem sést hefur í íslenskri umræðu síðustu mánuði, en það er lýsandi fyrir það viðhorf að fordómar sumra eigi að ráða hegðun annarra, og  eins hvernig meintar rannsóknarniðurstöður eru notaðar til að styðja málflutninginn, þótt það sem vísað er í hafi engin tengsl við það sem staðhæft er í sambandi við umræddar tilvísanir.

Í pistlinum er vísað í fjórar greinar, sem eru auðkenndar með [1], [2], [3] og [4].  Vefslóðir eru gefnar á umræddar greinar, þar sem hægt er að sjá útdrátt úr þeim en um sumar þeirra gildir að aðgangur að greininni sjálfri er ekki öllum opinn.  Mér tókst þó að komast yfir allar greinarnar í heild sinni.  Hér fara á eftir nokkrar úrklippur úr bloggpistlinum og athugasemdir mínar.

Margir, aðallega kynja- og kynfræðingar, hafa bent á beint samband á milli aukinnar eftirspurnar á barnaklámi og æskudýrkun annars vegar og rakstri kynfæra hins vegar[1]. Það vill auðvitað enginn viðurkenna að eitthvað sem þú gerir, á hverjum degi jafnvel, gerirðu vegna áhrifa barnakláms.

Í greininni sem hér er vísað í (merkt [1]) er ekki að finna neitt um  „samband á milli aukinnar eftirspurnar á barnaklámi og æskudýrkun annars vegar og rakstri kynfæra hins vegar“, hvað þá um „beint samband“.  Ég fann heldur ekki orð í þessari grein um barnaklám.

Ergó. Með rakstrinum fjarlægir þú ekki aðeins það sem ver þig gegn sýkingu heldur geturðu beinlínis búið til sýkingu með rakstrinum[2],

Í grein [2] er fjallað um tvítuga konu með sykursýki 1 í slæmu ástandi ( „poorly controlled type 1 diabetes“).  Konan hafði látið fjarlægja kynfærahárin með „brasilísku vaxi“, sem mun vera algeng aðferð við slíkt, og fengið lífshættulega sýkingu í kjölfarið.  Hér er fjallað um eitt dæmi, sem í sjálfu sér segir ekkert um hættuna samfara slíkri háreyðingu, auk þess sem konan var með annan alvarlegan sjúkdóm sem virðist hafa gert hana viðkvæmari fyrir sýkingum (hafi ég skilið greinina rétt).

Það er nefnilega bara einn vettvangur sem sýnir kynfæri kvenna ítrekað og hefur mikil áhrif, það er klámiðnaðurinn. Það er ekkert útúr korti að ætla klámi og klámvæðingu þessa snöggu viðhorfsbreytingu hins vestræna samfélags á rakstri kynfæra. Ekki bara vegna þess að barnaklám er eftirsótt og þar af leiðandi mjög þrautseig tegund kláms heldur líka vegna þess að einmitt um þetta leyti, í kringum aldmótin 2000, varð til gósentíð kláms og klámvæðingar[3].

Hér eru margar staðhæfingar, og engin þeirra studd rökum eða gögnum.  Hins vegar er gefið í skyn að um sé að ræða orsakasamhengi milli hluta án þess að séð verði að höfundur hafi nokkra ástæðu til þess.  Í grein [3] sem vísað er í er ekkert sem styður fullyrðingarnar, og alls ekkert minnst á „gósentíð“ kringum 2000, enda fjallar greinin um erfiðleika við að ákvarða aldur fólks í barnaklámefni út frá myndum.

Þegar óheilbrigður rakstur, súludans og kynbundið ofbeldi sem birtist iðulega í auglýsingum[4] er orðinn hluti af okkar daglega lífi, hluti af því sem við veitum ekki tiltakanlega athygli, er þá ekki komið gott?

Greinin sem hér er vitnað í styður alls ekki  staðhæfingarnar í setningunni.  Þvert á móti eru upphafsorð hennar þessi „Í þessari grein er haldið fram að orðið hafi miklar breytingar á því hvernig konur eru kynntar í auglýsingum á síðustu árum, þannig að í stað þess að þær séu kynntar sem óvirk viðföng karlkyns áhorfenda séu ungar konur nú oft sýndar sem virkar, sjálfstæðar og kynferðislega sterkar.“   („This article argues that there has been a significant shift in advertising representations of women in recent years, such that rather than being presented as passive objects of the male gaze, young women in adverts are now frequently depicted as active, independent and sexually powerful.“)

Umræddur bloggpistill er auðvitað bara eitt lítið dæmi um málflutning femínísta sem býsnast yfir heimsósóma sem ekki passar við  fordóma viðkomandi.  Trúlega er höfundurinn ekki þjálfaður í meðferð tilvitnana, þótt það sé auðvitað engin afsökun fyrir þeirri fölsun sem það er að vitna í fræðigreinar sem alls ekki styðja staðhæfingarnar sem þær eiga að styðja.  Haldi menn að það séu bara amatörar meðal femínista sem leyfa sér slíkt er það misskilningur.  Það er líka af nógu að taka þegar „fræðimenn“ meðal kynjafræðinga eru annars vegar.  Hér er eitt dæmi:

Þann 8. desember var viðtal í Speglinum í RÚV við prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands.  Hún lagði þar út af  kjarakönnun   félags viðskipta- og hagfræðinga sem haldið var fram að sýndi að laun karla innan félagsins hefðu hækkað um 1,7% en laun kvenna lækkað um 1,9%, og sagði að ljóst væri að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að leiðrétta launamun væru greinilega ekki að virka, og því þyrfti að gera eitthvað róttækara.  Þar sem tölurnar eru lágar velti ég því fyrir mér hvernig staðið hefði verið að könnuninni, og hvort þessi munur í launaþróun sem hún hefði mælt væri marktækur.  Ég spurði því prófessorinn hvort hún hefði kynnt sér aðferðafræðina við könnunina, og hvort munurinn væri marktækur, ef maður gæfi sér að ekkert væri athugavert við úrvinnsluna.  Ég fékk stutt svar þar sem hún benti mér á frétt á mbl.is þar sem sagt var frá þessum niðurstöðum en engu svarað af því sem ég spurði um.  Einnig benti hún mér á að ég þyrfti að hafa samband við félagið til að fá frekari svör.  Þegar ég ítrekaði spurninguna um hvort hún hefði kynnt sér þessa könnun sem hún lagði  út af í löngu Spegilsviðtali fékk ég ekkert svar.

Einhvern tíma síðar mun ég fjalla um meistararitgerðir í kynjafræði við HÍ sem ofangreindur prófessor benti mér sérstaklega á í umræðum um „klámvæðingu“.  Þar eru á ferðinni ritgerðir nemenda sem umræddur prófessor leiðbeindi, þar sem fyrst er lýst yfir að höfundur sé einlægur femínisti með ákveðnar skoðanir á því sem ritgerðin fjalli um.  Síðan eru tekin viðtöl við nokkrar manneskjur sem höfundurinn velur að eigin geðþótta, og vinnur svo niðurstöður úr þeim, líka að eigin geðþótta.  Að lokum er því svo lýst yfir að komist hafi verið að niðurstöðum sem, merkilegt nokk, komi heim  og saman við það sem höfundurinn var sannfærður um áður en „rannsóknin“ fór fram.  Þetta eru ekki vinnubrögð af því tagi sem háskóli með sjálfsvirðingu ætti að hvetja til í nafni rannsókna.

PS.  Ég tel jafnréttisbaráttu mikilvæga, og ég er ekki áhugamaður um píkurakstur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.1.2012 - 21:21 - 7 ummæli

Í ruslflokk?

Í tilefni af þessari frétt þykir nauðsynlegt að taka eftirfarandi fram, og er „fréttamönnum“ íslenskra fjölmiðla sérstaklega bent á þetta alvarlega ástand:

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s hefur naumlega hangið á athugunarlista, og verið við að hrapa í ruslflokk, síðan það gerði ítrekað illilega í nytina sína á árunum 2005-2008. Á meðan ekki eru sýnilegar neinar aðgerðir til að rétta við orðstír fyrirtækisins er ekki við því að búast að matið á því hækki. Þvert á móti er yfirvofandi að það verði sett endanlega í ruslflokk ef það gerir ekki bót og betrun og útskýrir ítarlega hvernig það hefur sett fyrir þá leka sem gerðu það að rövlandi fávita á árunum fram til 2008.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur