Fimmtudagur 13.10.2011 - 21:35 - 29 ummæli

Páll stóðst einkavinavæðingarprófið

Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur nú skilað fjármálaráðherra skýringum á því af hverju hún valdi Pál Magnússon í stöðu forstjóra Bankasýslunnar.  Í bréfinu segir meðal annars, um próf sem „sérfræðingarnir“ í Capacent létu leggja fyrir umsækjendur til að mæla „persónulega hæfileika“ og „hugræna hæfni“:

Forspárgildi beggja prófana [sic] um árangur í starfi hefur verið staðfestur í fjölda rannsókna.

Látum liggja á milli hluta hvernig svona próf geti spáð fyrir um árangur í starfi (sem er afar erfitt að meta fyrir háar stjórnunarstöður.  Hvernig var árangur bankastjóra á Vesturlöndum metinn síðustu tíu árin?).  En, trúir því nokkur maður að próf af þessu tagi séu líkleg til að skera úr um hvort Páll sé líklegur til að selja (fyrrum?) pólitískum samherjum sínum Landsbankann með kunningjaafslætti?

Við þessu sá stjórn Bankasýslunnar reyndar því hún virðist sjálf hafa fundið upp á að leggja próf af nákvæmlega því  tagi fyrir Pál, eins og segir í ofannefndu svari:

Raunhæft verkefni – leggur mat á hversu vel umsækjandi leysir dæmigert verkefni úr komandi   starfsumhverfi.  Aðferðin þykir sýna vel hæfileika og getu umsækjenda til að fást við daglega þætti í starfinu. Verkefnið var útbúið af Bankasýslunni og fólst annarsvegar í að rita bréf frá Bankasýslunni til Fjármálaráðuneytisins varðandi sölu á eignarhlut ríkisins í ákveðnum sparisjóði og hins vegar minnisblað til starfsmanna varðandi sama efni.

Sem sagt, Páll veldur því að skrifa bréf til fjármálaráðherra, og til undirmanna sinna, þegar hann þarf að útskýra að nú hafi hann selt einhverjum flokksgæðingnum Landsbankann.

Það er engin furða að Páll skuli hafa staðist þetta erfiða próf með sóma; hann var jú aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún gerði nákvæmlega þetta.

Annað sem vekur athygli í svarinu er þetta:

Ítarleg sérhæfð viðtöl um starfið voru tekin við alla fjóra umsækjendur, þar sem allir fengu sömu spurningar. Tók hvert viðtal um klukkustund.

Í upphafi viðtals var verkefni lagt fyrir umsækjendur þar sem nauðsynlegt var að vinna hratt og örugglega en verkefninu var meðal annars ætlað að sýna hvernig viðkomandi ynni undir álagi.

Er það heillamerki að stjórn Bankasýslunnar geri ráð fyrir að forstjóri hennar þurfi að leysa mikilvæg verkefni á nokkrum mínútum?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.10.2011 - 18:44 - 7 ummæli

Bankasýslan, Capacent og „ráðningafræðin“

Í tilefni réttlætingar stjórnar Bankasýslu ríkisins á ráðningu Páls Magnússonar, fyrrum einkavinavæðara, sem forstjóra Bankasýslunnar:

Hvaðan kemur sú hugmynd að til séu fræði um það hvernig eigi að ráða fólk í stöður af þessu tagi?

Hverjir skyldu hafa samið þau „fræði“?

Og, hvernig stendur á því að Capacent er orðið einhvers konar Hæstiréttur í slíkum málum á Íslandi?

Og svo spurninginin augljósa sem hnýta má við flestar fréttir íslenskra fjölmiðla:  Af hverju spyrjið þið aldrei augljósu spurninganna?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.10.2011 - 11:14 - 12 ummæli

Geirfinnsmálið, Brynjar og réttarríkið

Í Silfri Egils í gær, og í blaðagreinum, hefur Brynjar Níelsson kynnt þá skoðun um Geirfinns- og Guðmundarmálið að afturköllun játninga sé merkingarlaus, og að ekki sé hægt að endurupptaka mál nema til komi ný sönnunargögn.  Burtséð frá því að réttarkerfið mætti e.t.v. stundum taka breytingum, þótt mikilvægt sé að slíkt sé gert varlega, þá velur Brynjar að horfa fram hjá kjarna málsins, og hengja sig í staðinn í formsatriði, og það þótt um sé að ræða eitthvert mikilvægasta óréttlætismál síðari tíma í íslenska réttarkerfinu.

Málið snýst ekki um afturköllun játninga, heldur að játningarnar í málinu virðast hafa verið samdar af rannsóknaraðilum, og togaðar út úr sakborningum með pyntingum.  Rannsakendurnir sýndu nefnilega fram á með óyggjandi hætti að þeir gátu fengið sakborninga til að játa hvaða þvælu sem var, með því að fá þá alla, í einangrun, til að játa útgáfuna sem varð til að fjórir saklausir menn voru hnepptir í gæsluvarðhald mánuðum saman.

Það er líka fáránlegt, eins og bent hefur verið á, að hamra á því að það þurfi ný sönnunargögn til að málið verði tekið upp aftur, því það voru einmitt aldrei nein sönnunargögn í málinu.  Að krefjast nýrra sönnunargagna er að snúa sönnunarbyrðinni við, og ætlast til að sakborningar finni gögn sem sanni sakleysi þeirra.  Það er afstaða sem Brynjari finnst örugglega óverjandi, þótt hann virðist ekki gera sér grein fyrir afleiðingum orða sinna hér.

Það er auðvitað ekkert athugavert við að Brynjar haldi þessum skoðunum á lofti, enda eru þær við venjulegar kringumstæður eðlilegar, og mikilvægar í ljósi þess að réttarkerfið þarf að vera fyrirsegjanlegt.  En þegar kerfið bregst gersamlega, eins og gerst hefur hér, þá þurfa önnur yfirvöld að taka á málinu, ef réttarkerfið getur það ekki.  Það er ekki víst að endurupptaka sé nauðsynleg, þótt ekki ætti að útiloka hana.  Það er hins vegar bráðnauðsynlegt að fá svör við þeim áleitnu spurningum sem eru á lofti, ef tiltrú almennings á réttarríkinu á ekki að biða verulegan hnekki.

Það er svo annað mál, en skylt, að þótt rödd Brynjars sé mikilvæg í umræðunni, ekki síst vegna þess að hann þorir að viðra óvinsælar skoðanir sem nauðsynlegt er að komi fram, þá er til vansa að hann tali um þetta mál kynntur sem formaður Lögmannafélagsins.  Þetta er algengur ósiður á Íslandi, þar sem forystufólk ýmissa félaga getur ekki haldið aftur af eigin skoðunum þegar ljóst er að litið er á það sem talsmenn samtakanna sem það er í forsvari fyrir.  Það hefur e.t.v. ekki farið hátt, en til er fjöldi lögmanna sem er algerlega ósammála málflutningi Brynjars, svo hann talar ekki fyrir munn meðlima Lögmannafélagsins, þótt halda mætti það af því hvernig hann er kynntur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.10.2011 - 21:05 - 1 ummæli

Forsætisráðherra gegn vísindum og sjálfum sér

Í upphafi árs 2007 ákvað þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, að Háskóli Íslands skyldi fá aukin framlög til rannsókna sem næmi þremur milljörðum á ári.  Aukningin átti að koma til á fjórum árum, fram til 2011, sem þar með hefði þrefaldað árlegt beint framlag ríkisins til rannsókna við HÍ .  (Aukningin  kom ekki til framkvæmda nema sem nam um einum milljarði, vegna hrunsins.)

Þessi ákvörðun hefur líklega farið gegn þáverandi stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem mótar stefnu ríkisstjórnarinnar á þessu sviði (og hún fór algerlega í bága við stefnu flokks ráðherra á þeim tíma, þar sem lögð var áhersla á eflingu samkeppnissjóða á kostnað beinna framlaga til stofnana).

Nú hefur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lýst yfir að ríkið muni leggja einn og hálfan milljarð í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands á fjórum árum. Jafnframt er sett það markmið að árið 2016 verði tekjur háskólans  í samræmi við meðaltal tekna á hvern stúdent í háskólum í OECD-ríkjunum.

Ekki er hér sagt orð um að samkeppnissjóðir verði efldir, og þannig virðist sem þetta muni enn minnka það hlutfall rannsóknafjár sem fari í gegnum slíka sjóði.  Því er erfitt að sjá annað en að þetta fari þvert á stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem mótar stefnu stjórnvalda á þessu sviði, en formaður ráðsins er forsætisráðherra (og í því sitja einnig fjármálaráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, velferðarráðherra og umhverfisráðherra).

Í núgildandi stefnu Vísinda- og tækniráðs segir nefnilega:

Öll opinber fjármögnun vísinda og nýsköpunar verður að fara eftir  skýrum reglum og byggjast á mati á gæðum og ávinningi. Þetta á bæði við um fjármögnun í gegnum samkeppnissjóði, innan sem utan Vísinda- og tækniráðs, og bein framlög til háskóla og opinberra rannsóknastofnana

Og:

Ítrekað hefur verið bent á að hér á landi fari of lítill hluti opinberra fjárveitinga til rannsókna og nýsköpunar í gegnum samkeppnissjóði.

Þess vegna leggur ráðið (sem forsætisráðherra er sem sagt formaður í) líka til að

Hærra hlutfalli opinberra framlaga til rannsókna og nýsköpunar verði úthlutað í gegnum samkeppnissjóði en gert er nú.

Þetta er auðvitað ekkert nýtt, því svokölluð stefnumótun í íslenskum stjórnmálum er yfirleitt brandari í besta falli, en hreint skrök í versta falli. Að minnsta kosti er afar sjaldan mótuð raunveruleg stefna, hvað þá að farið sé eftir henni.  Ég leyfi mér reyndar að halda fram að það séu hverfandi líkur á að forsætisráðherra hafi nokkurn tíma kynnt sér þá stefnu sem hún er skrifuð fyrir sem formaður Vísinda- og tækniráðs, en það er annað mál.

Það er svo áhugavert að minna á að núverandi menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir, í leyfi) útskýrði í grein í Fréttablaðinu nokkrum árum áður en hún settist í embættið, hversu mikilvægt væri að efla samkeppnissjóði í vísindum:

Samhliða því þarf að efla samkeppnissjóðina og auka hlutfallslegan þátt þeirra í rannsóknafjármagni. Úthlutunarreglur þeirra þarf að skoða með það að leiðarljósi að vísindamenn séu ekki um of bundnir stofnunum.

Margir, þar á meðal undirritaður, trúðu því að hún myndi standa keik þegar hún fengi völdin til að breyta því spillta kerfi sem nú ríkir í fjármögnun rannsókna á Íslandi.  Það reyndist rangt, hún seldi þau völd í hendur Jónum Bjarnasononum í HÍ (og reyndar Jóni Bjarnasyni sjálfum að (litlum) hluta, sem setti Ásmund Einar Daðason yfir úthlutanir úr rannsóknasjóðnum Aukið verðmæti sjávarfangs).

Þeim leikmönnum sem hafa þá (skiljanlegu) hugmynd að fjármagni veitt HÍ verði sjálfsagt varið vel til að efla rannsóknir skal bent á að sú skoðun á því miður  ekki við sterk  rök að styðjast. Ef til vill verður nánar fjallað um það hér síðar, en rétt er a.m.k. að benda á þennan pistil þar sem í lokin er nefnt dæmi um raunverulega stefnu HÍ varðandi eflingu vísindastarfs við skólann.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.10.2011 - 11:14 - 18 ummæli

Rannsóknarnefnd, ekki starfshóp! Ögmundur!

Ögmundur innanríkisráðherra hefur lýst yfir að hann ætli að skipa starfshóp til að fara yfir Geirfinns- og Guðmundarmálið.  Það gætu verið slæmar fréttir.  Skipan „starfshópa“ er því miður velþekkt aðferð til að þagga niður gagnrýni, án þess að nokkuð bitastætt sé gert.  Það ætti að vera ljóst að til að komast til botns í þessu máli þarf rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til gagnaöflunar og vitnaleiðslu.  Slíkar heimildir hefur starfshópur skipaður af ráðherra ekki.  Í lögum nr. 142/2008 um Rannsóknarnefnd Alþingis stendur meðal annars þetta:

Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fer fram á. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar.

Nefndinni er heimilt að kalla einstaklinga til fundar við sig til að afla munnlegra upplýsinga í þágu rannsóknarinnar og er viðkomandi þá skylt að mæta. Heimilt er að taka það sem fer fram á slíkum fundum upp á hljóð- eða myndband.

Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.

Engum dettur í hug að nefndinni hefði tekist að vinna það stórkostlega verk sem hún vann ef hún hefði ekki haft þessar heimildir.  Ef Ögmundur beitir sér ekki fyrir skipan rannsóknarnefndar með svipaðar heimildir til að rannsaka Geirfinns- og Guðmundarmálið læðist að manni sá grunur að hann hafi engan áhuga á að sannleikurinn verði grafinn upp, heldur sé hann bara að kaupa sér frið fyrir gagnrýninni á það viðbjóðslega réttarhneyksli sem málið var.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.10.2011 - 15:26 - 40 ummæli

Steingrímur J. og Bankasýslan

Eftirfarandi póstskipti átti ég í dag við Steingrím J. Sigfússon, en Bankasýsla ríkisins heyrir undir fjármálaráðherra, sem skipar stjórn hennar, og getur því væntanlega rekið hana.  Í þessu máli mun koma glöggt í ljós hvort ver öflugra, viljinn til að uppræta það klíkuveldi sem hefur tröllriðið Íslandi áratugum saman, eða þær formlegu girðingar sem valdaklíkurnar hafa reist til að hafa frið fyrir almenningi.

====================================================

Subject: Bankasýslan
————————

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/10/4
To: „Steingrímur J. Sigfússon“ <sjs@althingi.is>

Sæll Steingrímur

Skilji ég rétt skipar fjármálaráðherra stjórn Bankasýslunnar.  Ég geri ráð fyrir að það þýði að þú getir sett stjórnina af.  Hefurðu hugsað þér að gera það?

Bestu kveðjur,

Einar

———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/10/4
To: „Steingrímur J. Sigfússon“ <sjs@althingi.is>, steingrimur.j.sigfusson@fjr.stjr.is

Sæll aftur Steingrímur,

Sé rétt eftir haft í þessari frétt get ég auðvitað litið á það sem svar við spurningu minni:  http://visir.is/treystir-thvi-ad-pall-hafi-verid-radinn-a-faglegum-forsendum/article/2011111009639

Burtséð frá að að þetta var augljóslega ekki fagleg ráðning í strangasta skilningi get ég ekki séð annað en að þú teljir það í fínu lagi, að formsatriðum fullnægðum, að ráðinn sé í þetta starf maður sem var innsti koppur í búri í einkavinavæðingu bankanna.

Af því má draga þá ályktun, tel ég, að þú lítir svo á að ekkert hafi verið athugavert við Gamla Ísland, og að þú ætlir ekki að beita þér fyrir nýjum vinnubrögðum í stjórnsýslunni.  Eða, hef ég misskilið eitthvað?

Bestu kveðjur,

Einar

———-
From: <steingrimur.j.sigfusson@fjr.stjr.is>
Date: 2011/10/4
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Sall Einar. Tetta er alveg rett eftir haft og ekki mikid meira sem eg get sagt I bili. Steingrimur

———-
Date: 2011/10/4
To: steingrimur.j.sigfusson@fjr.stjr.is

Sæll enn

Ef þú getur ekki sagt meira í bili af því að þú ert að vinna í að gera stjórnina afturreka með þetta þá bíð ég nokkuð rólegur.  Ếg mun samt, eins og líklega svo margir, halda þessu máli á lofti þar til Páll er horfinn úr forstjórastólnum, og stjórn Bankasýslunnar hefur verið rekin.

Ef þessu verður ekki snúið við er það eitt gleggsta merkið um að ekki eigi að hrófla við því ógeðslega klíkuveldi sem hefur drottnað yfir völdum og peningum í landinu í áratugi.

Bestu kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur