Laugardagur 17.9.2011 - 17:00 - 12 ummæli

Sigríður Ingibjörg, Guðfríður Lilja …

Hér fer á eftir  póstur sem ég sendi Alþingismönnunum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur í gær.  Fái ég svör frá þeim mun ég birta þau hér.

———————————————————————————————

Sælar, Sigríður Ingibjörg og Guðfríður Lilja

Fjöldi fólks hefur misst eða er að missa heimili sín.  Ennþá stærri fjöldi kiknar undan húsnæðislánum sem hækkuðu um tugi prósenta í kjölfar hrunsins, og sér ekki fram á að losna nokkurn tíma úr því skuldafangelsi.  Bankarnir, sem fengu þessi lán með miklum afslætti, raka saman ofsagróða með því að blóðmjólka fólk sem hefur séð skuld sína stökkbreytast, þökk sé framferði þeirra sem græddu á tá og fingri fyrir hrun, og sem margir eru að drukkna í peningum og hroka enn í dag.

Ég skrifa ykkur tveim, því þið tilheyrið þeim örfáu alþingismönnum (í stjórnarliðinu) sem margir virðast enn bera virðingu fyrir og trúa að þið séuð í stjórnmálum á einlægum og heiðarlegum forsendum.  Sjálfsagt gætuð þið fengið fleira gott fólk með ykkur á þingi ef þið takið málin í ykkar hendur.

Varla ætlið þið að horfa aðgerðalausar á að bankarnir þrautpíni fólk sem ekkert hefur til saka unnið, til þess eins að bankastjórarnir geti haldið áfram að baða sig í peningunum sem þeir særa út?  Varla viljið þið að það verði eftirmæli þessarar vinstri(?)stjórnar sem kennir sig við norræna velferð, að hún hafi skilið þá sem minnst mega sín eftir í skuldfeni þeirra sem hirtu gróðann af sukkinu fyrir hrun, og samfélagið eftir í sárum sem ef til vill gróa aldrei?

Því spyr ég:  Hvað ætlið þið að gera?

Bestu kveðjur,

Einar

PS.  Þetta er opið bréf sem ég mun birta á blogginu mínu.  Mér þætti vænt um að fá svör frá ykkur, hversu stutt eða löng sem þau eru, og vil gjarnan birta þau líka.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.9.2011 - 22:06 - 19 ummæli

Ræningjakapítalisminn og ríkisstjórnin

Kapítalisminn á sér margar skuggahliðar.   Ég er þó ekki alveg búinn að gefast upp á sumum hugmyndum hans, eins og þeirri að einkaframtak eigi ekki að hefta að óþörfu.  (Ég er  heldur ekki búinn að gefast upp á skástu hugmyndunum sem gjarnan eru kenndar við sósíalismann, um að tryggja velferð allra borgara.)  Það er því ekki af andúð á kapítalismanum í sjálfum sér sem ég set spurningarmerki við framferði Landsbankans, sem er í eigu ríkisins.

Nýlega kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn að Landsbankinn hefði yfirtekið lán gamla bankans með afföllum upp á tugi prósenta.  Samtímis kemur í ljós að hagnaður bankans á fyrri helmingi þessa árs er yfir 20 milljarðar.  Bankinn hagnaðist líka um 27 milljarða í fyrra.  Ljóst er að bankinn rakar saman gróða, ekki síst með því að pína til þrautar þá sem skulda íbúðalán og eru ekki búnir að gefast upp á að borga af þeim.  Lán þessa fólks hafa líka hækkað um tugi prósenta frá hruni, eingöngu vegna verðtryggingarinnar.

Bankastjórinn kvartar samtímis yfir því að vera með svona mikla peninga í höndunum en geta ekki lánað þá út í nógu miklum mæli.  Hann vill nota blóðpeningana til að græða ennþá meira, ekki til að lækka lánin sem hækkuð voru upp úr öllu valdi vegna hrunsins. Þetta er ekki heiðarlegur kapítalismi, heldur rán.

Landsbankinn er í eigu ríkisins.  Ríkisvaldið ákvað að láta verðtrygginguna standa, þótt ljóst væri hvers konar hörmungar það hefði í för með sér fyrir fjölda fólks í landinu, sérstaklega þá sem enga ábyrgð báru á hruninu og ekki mökuðu krókinn á árunum fyrir hrun.  Núverandi ríkisstjórn kennir sig við norræna velferð, og er kölluð vinstri stjórn.  Ég leyfi mér að efast um að flokkssystkini þessa fólks á hinum Norðurlöndunum vildu kannast við þá afstöðu sem birtist í framferði bankanna, meira að segja þess sem er í eigu ríkisins.

Ég er ekki meðlimur í Hagsmunasamtökum Heimilanna, og ég hef ekki kynnt mér starf þeirra og stefnu, umfram það sem birtist í áskoruninni um afnám verðtryggingar og leiðréttingu stökkbreyttra lána.  Mér finnst aukaatriði hvað þessi samtök aðhafast að öðru leyti, því hugmyndirnar í þessari áskorun styð ég heilshugar.  Þess vegna hvet ég alla sem telja verðtrygginguna vonda fyrir samfélag okkar, og að það eigi að færa niður lánin sem hækkuðu svo gífurlega í kjölfar hrunsins, til að skrifa undir áskorunina.

Fjöldi undirskrifta er að nálgast 30 þúsund.  Það er fjöldi sem erfitt er fyrir stjórnmálamenn að leiða alveg hjá sér.  Auk þess eru að koma brestir í afstöðu bankanna, sem einhverjir eru farnir að bjóða óverðtryggð lán.  Vegna þessarar stöðu er hugsanlegt að við getum haft áhrif sem ríða baggamuninn.  Þess vegna hvet ég alla sem styðja efni þessarar áskorunar að undirrita hana hér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.9.2011 - 20:30 - 16 ummæli

Mannanöfn, forsjárhyggja og heimska

Það er löngu orðin þjóðaríþrótt á Íslandi að setja saman bönnuð nöfn og leyfð, samkvæmt úrskurðum Mannanafnanefndar.  Til dæmis má karlmaður ekki heita Elias Arnarr Magnusson, og engin kona Tania Siv Kristínbjargardóttir.  Hins vegar hljóta bæði Adíel Arent Aagesson og Abigael Arey Armeníudóttir náð fyrir augum nefndarinnar (svo ekki sé nú farið lengra aftur í stafrófið).

Lögin sem Mannanafnanefnd vinnur eftir byggja annars vegar á forsjárhyggju, og hins vegar á hugmynd sem nefndin hefur fyrir löngu, með starfi sínu og úrskurðum, sýnt að er einfaldlega heimska:  Að hægt sé að búa til reglur um það hvað séu góð íslensk mannanöfn, og hver séu vond.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.9.2011 - 17:36 - 6 ummæli

Að eyðileggja samfélag

Í nýlegri grein á Vísi segir Ólöf Guðný Valdimarsdóttir frá húsnæðislánasögu sinni, m.a. þetta:

‎“Ég leiddi hugann því ekkert sérstaklega að því hvað lánin sem ég borgaði innihéldu og hvort þau væru sanngjörn eða réttlát, en lagði allan metnað minn í að borga lánin.“

„Þegar greiðsluvandi blasti við var það því mitt fyrsta verk að fara í bankann. Láta vita að ég væri að komast í vanda og óska eftir viðræðum um hvernig ég gæti staðið í skilum. Þetta var forgangsatriðið. Og líklega hefði ég verið tilbúin til að selja ömmu mína til að geta staðið í skilum við bankann. Og jafnvel ganga lengra hefðu þeir farið fram á það. Óttinn við að geta ekki staðið í skilum yfirtók allt.“

Þannig hugsuðu ansi margir, líklega flestir. Á endanum var mörgum gert ókleift að vera áfram „heiðarlegir“. Það er hryllileg meðferð á saklausu fólki. Það er líka mjög vont fyrir þjóðfélag sem vill vera samheldið.

Fjármálastofnanir landsins skirrast margar ekki við svipta fólk heimilum sínum, fólk sem hefur allt sitt líf staðið í skilum, þar til það varð því um megn, af því að lánin stökkbreyttust.  Sú stökkbreyting stafaði af því að lánin eru tryggð með þeim hætti að lánveitandinn tekur enga áhættu, en lántakandinn fær einn yfir sig holskefluna sem hrunið setti af stað.

Þessar fjármálastofnanir eru að eyðileggja það samfélag sem flestir Íslendingar vilja búa í.  Það þarf að stöðva, og þar þarf ríkisstjórnin að sýna að hún beri hag almennings fyrir brjósti.  Hvetjum stjórnina til þess með því að skrifa undir hér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.9.2011 - 16:55 - 15 ummæli

Hroki og hræsni ritstjóra Eyjunnar

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Eyjunnar, skrifaði bloggpistil í dag.  Þar les hann DV lexíuna vegna nýlegra frétta um persónulegan harmleik.  Það er rétt hjá Karli að þetta var illa gert, því um var að ræða, að því er virðist, sjúka manneskju, og þótt nafn hennar væri ekki nefnt voru upplýsingarnar sem gefnar voru nægar til þess að auðvelt var, að sögn Karls, að þrengja hringinn niður í tvær manneskjur.

Þetta var sem sagt góð ábending hjá Karli.  Hins vegar var stíllinn á þessari lexíu í mörgum atriðum óþarflega hrokafullur, sérstaklega í ljósi þess að Eyjan hefur, undir ritstjórn Karls, birt ýmsar fréttir sem eru jafn vondar.  Þetta er ekkert nýtt; Karl skrifar sjaldan bloggpistla, en þeir eru oft löðrandi í hroka og fyrirlitningu á þeim sem um er rætt.

Annað sem gerir þetta ekki síður sláandi er að Eyjan birti fyrir tveim vikum fréttir af nafngreindu fólki (þar sem annar aðilinn er landsþekktur en hinn ekki) þar sem sagt var frá persónulegum harmleik sem kemur almenningi nákvæmlega ekkert við, þ.e.a.s. ekki þannig að eðlilegt sé að birta nöfn viðkomandi.  Í vor birti Eyjan líka skráningarnúmer bíls sem komið var með lík konu í á Landspítalann.  Nýlega hefur komið fram að banamaðurinn sá er ósakhæfur vegna geðveiki, sem er eitt af því sem Karl segir réttilega að geri áðurnefndan fréttaflutning DV ósiðlegan.  Karl hefur reynt að réttlæta fréttaflutning Eyjunnar af þessu tagi, en mér finnst ómögulegt að sjá að hér sé annað en siðlaus æsifréttamennska og tvískinnungur á ferðinni.   Útleggingar Karls um það hvað megi og megi ekki birta eru ekki sá stóridómur sem hann virðist halda sjálfur.

Ofan á hroka Karls bætist sem sagt slæm hræsni.

Síðan Karl tók við ritstjórastarfi á Eyjunni er ekki að sjá þar neinar breytingar til hins betra.  Hins vegar hefur hlutur slúðurblaðamennsku aukist til muna.  Það er ekkert athugavert við slíka blaðamennsku í sjálfri sér, en ég tel að Eyjuna hafi sett niður við þetta, því hún var áður vettvangur áhugaverðara efnis.  Það virðist líka vera skoðun margra (fyrrum) lesenda, því samkvæmt tölum Modernus hefur Eyjan fallið úr 8. sæti í það 12. í ritstjórnartíð Karls.  Einnig hafa margir bloggarar yfirgefið Eyjuna síðan Karl tók við vegna þess að þeim líkaði ekki við nýja eigendur og ritstjóra.

Karl hefur heldur ekki orðið við tilmælum um að skýra frá hagsmunatengslum „útgefanda“ og eins helsta eiganda Eyjunnar, Björns Inga Hrafnssonar.  Það væri þó við hæfi, því ýmsar fréttir hafa birst um brask hans fyrir hrun, og það væri eðlilegt að lesendur Eyjunnar fengju að vita hvaða hagsmunir það eru sem hæstráðandi hennar hefur helst að verja, þegar umfjöllun Eyjunnar um þessi mál er lesin.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.9.2011 - 21:14 - 6 ummæli

Verðtrygging í sjúku fjármálakerfi

Verðtrygging lána á að tryggja að verðmæti sem fengin eru að láni  rýrni ekki þegar þau eru endurgreidd.  Þetta er þó ekki alveg einfalt mál, því ef við mælum verðmæti í því hvað fæst fyrir eina vinnustund hefur það ekki alltaf haldist í hendur við vísitöluna sem ákvarðar verðbætur lána.  Þannig missti fjöldi fólks heimili sín í byrjun níunda áratugarins, þegar lánskjaravísitalan „hvarf út við sjóndeildarhring“ séð frá þeim sem fengu laun samkvæmt annarri vísitölu.  Sama gerðist þegar verðtryggð lán hækkuðu um 40% eða svo eftir hrun, en laun stóðu í stað eða lækkuðu. Það er því rangt að halda fram að það sé einfalt réttlætismál og einfaldur útreikningur þegar sagt er að verðtrygging sé til þess að fólk endurgreiði það sem það fékk lánað.

Enda verður maður að spyrja sig af hverju verðtrygging lána er svo sjaldgæf í heiminum.  Svarið við því er a.m.k. tvíþætt (þótt auðvitað dytti fæstum útlendingum í hug að reyna að svara fyrir að þar skuli ekki farið eins að og á Íslandi):  Annars vegar búa flest lönd sem við berum okkur saman við við slíkan stöðugleika í peningamálum að það er engin sérstök þörf á verðtryggingu.  Og svo þætti flestum utan Íslands líklega óeðlilegt að neytendur bæru alla áhættu við lántöku, en lánveitendur, þ.e.a.s. bankar og aðrar fjármálastofnanir, enga.  Alveg sérstaklega er hætt við að fáum þætti eðlilegt að hagsmunir fjármálastofnana væru gulltryggðir í hamförum af því tagi sem þær hafa sjálfar kallað yfir landið, en einstakir lántakendur píndir til hins ítrasta og margir sviptir heimilum sínum og ævisparnaði.

Í nýlegri frétt kemur fram að af rúmum 500 milljörðum sem afskrifaðir hafa verið frá hruni eru um 96% til fyrirtækja, sem sum eru eða voru í eigu fólks sem enn er milljarðamæringar, og enn makar krókinn.  Aðeins fjögur prósent voru afskriftir vegna einstaklinga.  Samtímis hafa skuldir vegna fasteignalána einstaklinga líklega hækkað um hundrað milljarða eða meira, vegna verðtryggingar.  Ástæða þess að sú stökkbreyting hefur ekki verið leiðrétt er að ætlun fjármálastofnana er að sjúga allt sem hægt er út úr einstaklingum, í skjóli aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar,  Þá skiptir engu máli þótt fjöldi saklauss fólks tapi aleigunni.

Það er auðvitað engin trygging fyrir því að hagstjórnin á Íslandi fari upp af bananalýðveldisstiginu þótt verðtrygging verði bönnuð.  Hins vegar virðist algerlega víst að ekkert muni breytast til hins betra svo lengi sem fjármálastofnanirnar geta velt allri áhættu yfir á almenning.  Því ætti að afnema verðtrygginguna strax.  Það ætti líka að niðurfæra lánin sem stökkbreyttust eftir hrun.  Hvort tveggja má hvetja stjórnvöld til að gera með því að undirrita áskorun Hagsmunasamtaka Heimilanna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur