Laugardagur 12.12.2015 - 15:40 - 6 ummæli

Skrípaleikur Karls Garðarssonar með tölur

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í þessari frétt á Eyjunni er haft eftir Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknar, að gagnrýni Kára Stefánssonar á afstöðu ríkisstjórnarinnar til fjárframlaga til Landspítalans sé „pólitískur skrípaleikur“. Það rökstyður hann með því að benda á að framlög til LSH hafi aukist um 30% á síðustu þrem árum, og slíkt hafi varla gerst annars staðar á byggðu bóli. Staðhæfing Karls, um aukninguna á síðustu þrem árum, virðist vera nokkurn veginn rétt, nema hvað ekki er tekið tillit til verðþróunar (á föstu verðlagi er þetta 23,3% hækkun frá 2012 til 2015). Það vantaði hins vegar dálítið í þessa sögu hjá Karli; hann byrjaði söguna á „heppilegum“ stað. Samkvæmt gögnum frá Velferðarráðuneytinu (Tafla 5, á bls. 12), líta framlög til LSH svona út síðan 2008 (á föstu verðlagi ársins 2015, þegar búið er að bæta við því aukaframlagi sem LSH fékk á þessu ári):

2008

2009

2010

2011

2012

2013

2014

2015

49,0

45,3

40,6

40,0

39,8

42,4

43,6

49,1

Það er rétt hjá Karli að hækkunin síðustu þrjú ár hefur verið mikil. En eins og sjá má á töflunni hefur hækkunin frá árinu 2008 verið nánast engin, þ.e.a.s. 0,1 milljarður eða 0,2%. Núll komma tvö prósent …

Það segir heldur ekki alla söguna, því ljóst er að gríðarlegur niðurskurður á árunum þar á milli hefur skapað uppsafnaða fjárþörf til að halda í horfinu, sem ekki hefur verið bætt úr.  Miðað við að spítalinn hefði fengið sama framlag öll árin eru það samtals rúmir 42 milljarðar sem skorið hefur verið niður um.

Karl Garðarsson sagði sem sagt nokkurn veginn satt. En útkoman úr því sem hann sagði var hins vegar ósmekkleg lygasaga, því hann notaði þetta til að gefa í skyn að ástandið væri alls ekki svo slæmt, og að það væri eitthvað mikið að fólki sem leyfði sér að gagnrýna það.

PS. Kærar þakkir til Guðbjargar Pétursdóttur, sem benti mér á þessi gögn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.12.2015 - 11:59 - 5 ummæli

Opið bréf til Ólafar Nordal um hælisleitendur

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Sæl Ólöf,

Þegar ég ákvað að skrifa þér var það þessi frétt sem ég hafði í huga, og ætlaði eiginlega bara að fjalla um hana:

http://www.dv.is/frettir/2015/12/8/fjogurra-manna-fjolskylda-rekin-ur-landi-langveikur-sonur-faer-ekki-lyf/

Og bara að biðja þig, kurteislega og innilega, að sýna ekki þá grimmd að vísa þessu fólki úr landi. Sem ég geri hér með. En, svo rifjuðust upp fyrir mér fleiri mál sem þú berð ábyrgð á.

Íslensk yfirvöld hafa hræðilega oft komið illa fram við hælisleitendur síðustu árin. Ég þekki vel til nokkurra mála þar sem bæði Útlendingastofnun og forverar þínir á ráðherrastóli hafa tvímælalaust brotið gegn þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Ísland hefur ekki beinlínis fengið neina dóma á sig hjá Mannréttindadómstóli Evrópu í málefnum hælisleitenda enn sem komið er, en óhætt er að segja að einn af forverum þínum hafi gert sig sekan um mannréttindabrot samkvæmt dómum MDE, eins og fram kemur í því sem er reifað hér, um brot sem afsökuð voru, ranglega auðvitað, með Dyflinnarreglugerðinni:

http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/sites/files/mannrettindastofnun/Mannrettindi%201%20hefti%202011%203%20pr.pdf

Nýlega var sagt frá því í fréttum að til stæði að senda hælisleitendur tilbaka til Ítalíu, með skírskotun til Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er ómannúðlegt í meira lagi, því allir vita hvernig staðan er í málum flóttamanna þar. Það er líka lítilmannlegt af jafn ríku landi og Íslandi, sem hefur tekið á móti svo ótrúlega fáum hælisleitendum. Ég vona að þú takir ekki þá áhættu að MDE muni úrskurða að þú hafir gert þig seka um mannréttindabrot, sem væri ekki bara ljótt í sjálfu sér, heldur enn verra í ljósi þess að þú ert æðsta vald í mannréttindamálum á Íslandi.

En ef þú stöðvar ekki brottvísanir til Ítalíu, sem þú hefur sjálf lýst yfir að sé ekki „öruggt land“ (sem er alveg rétt hjá þér), þá áttu á hættu að verða dæmd sek. Ekki bara af MDE, heldur líka af sögunni, eins og forverar þínir sem vísuðu gyðingum á dyr fyrir áttatíu árum eða svo.

Ef þú ert heiðarleg manneskja, sem ég geng út frá, og mannvinur, frekar en hitt, sem ég geng líka út frá, þá sé ég ekki að þú eigir neina kosti aðra en að lýsa yfir, og sjá til, að engri manneskju verði vísað tilbaka til Ítalíu, Grikklands eða Ungverjalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Sú reglugerð var ekki sett til að lönd eins og Ísland gætu komist hjá því að sýna mannúð og sanngirni. Að íslensk yfirvöld reyni að notfæra sér þessa reglugerð er í besta falli grimmdarlegt, en trúlega líka mannréttindabrot. Sem yrði á þína ábyrgð. Á þína ábyrgð, sem ráðherra mannréttindamála á Íslandi.

Hugsaðu málið, Ólöf. Hugsaðu málið og veltu fyrir þér hvort þú vilt kannski hætta á að veita dvalarleyfi fólki sem þú gætir mögulega komist upp með að halda fram að eigi ekki rétt á því. Eða frekar hætta á að senda fólk út í algera óvissu, eða eitthvað þaðan af verra. Hvort þú vilt hætta á að brjóta gegn því sem heilagast á að vera í mannheimum, mannréttindum. Og taka þá áhættu að verða dæmd af sögunni, eins og þeir sem úthýstu gyðingunum, og verða dæmd eins og allir nema einn vegfarendanna í sögunni um miskunnsama Samverjann.

Hugsaðu málið, Ólöf.

Bestu kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.12.2015 - 10:15 - 9 ummæli

Femínismi, venslasekt og vondir karlar

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

[Þessi pistill hefur verið leiðréttur, þar sem upphaflega var ranglega haldið fram að um væri að ræða grein en ekki viðtal.]

Nýlega birtist þetta viðtal, þar sem körlum er, beint og óbeint, lýst sem ofbeldisfullum, og allt ofbeldi gert „karllægt“ og tengt við hugmyndir um „karlmennsku“ sem hljóta að koma spánskt fyrir sjónir þeim sem alist hafa upp meðal íslenskra karla og kvenna síðustu áratugina.

Ef til vill gengur þeim sem þannig tala gott til, í baráttunni gegn „kynbundnu“ ofbeldi. Það breytir því ekki að útkoman er frekar ógeðfelldur og niðrandi áróður gegn hópi fólks sem allt er sett undir einn hatt, á sama hátt og fordómafullt fólk talar um múslima í heilu lagi eins og þeir beri ábyrgð á voðaverkum örfárra íslamskra hryðjuverkamanna, vegna þess eins að hafa alist upp á menningarsvæði sem telur vel á annan milljarð manns. Hér er um að ræða rökvillu sem kalla mætti venslasekt (guilt by association). Verst er að margir þeir sem gera sig seka um þetta gera sér vel grein fyrir rökvillunni, en nota hana markvisst til að níða niður fólk sem tilheyrir tilteknum hópum sem það hefur ekkert val um að tilheyra.

Greinin byggir á viðtali við tvo karla sem tala eins og þeir viti nákvæmlega hvað „karlmennska“ sé, og að hún sé hræðilega ljótt fyrirbæri sem bókstaflega dýrki ofbeldi. Ekki er bara haldið fram að karlmenn séu aldir upp við það sem eðlilegt og sjálfsagt að koma illa fram við annað fólk; þetta meinta uppeldi karlmanna er líka sökudólgurinn þegar konur gera sig sekar um sams konar athæfi:

„En það gerir þetta ekki kynhlutlaust. Það þýðir bara að sumar stúlkur og konur eru farnar að taka upp hefðbundna hlutverkið sem við höfum kennt drengjum og körlum, sem felur í sér að ráðskast með og lítilsvirða aðra.“

Þetta er sérlega furðuleg staðhæfing þegar betur og betur virðist vera að koma í ljós að konur beita ekki síður ofbeldi í samböndum en karlar, og allir vita að ungar stúlkur beita kynsystur sínar oft alls konar andlegu ofbeldi, sem er ekki endilega skárra en það líkamlega. En nei, það er ekki við ofbeldiskonurnar að sakast heldur hvernig „við“ höfum „kennt“ körlum á öllum aldri að koma fram.

Hér er líka viðruð klisjan um að þegar karl beiti konu ofbeldi sé markmiðið kúgun karla sem hóps á konum sem hópi, og það þótt nánast öllum karlmönnum finnist slíkt ofbeldi viðurstyggð, auk þess sem ótrúlegt verður að telja að karl sem misþyrmi konu sé að hugsa um ímyndaða sameiginlega hagsmuni karla:

„Kynbundið ofbeldi á sér ýmis markmið. Eitt af þeim er að viðhalda valdamisræmi milli karla og kvenna, eða milli karlahópa og kvennahópa.“

Það er sturlað að halda fram að drengjum og körlum sé „kennt“ af samfélaginu að beita konur ofbeldi, en það er svo sem ekki nýtt að dólgafemínistar kynni hugmyndir sem eru fullkomlega fáránlegar, af því að það þarf að troða veruleikanum inn í kennisetningar réttu trúarbragðanna. Það er líka afar sérkennilegt að tala eins og drengjum og körlum í samfélagi okkar sé kennt að „ráðskast með og lítilsvirða aðra“. Ég kannast hvorki við að hafa fengið slíka „kennslu“ né að hafa séð öðrum karlmönnum kennt þetta.

Ég skil heldur ekki hvar þessi kennsla á að fara fram. Varla í leikskólum, þar sem nánast allir starfsmenn eru konur? Og varla heldur í grunnskólunum, þar sem konur eru 80% kennara? Er það á heimilunum, þar sem um það bil helmingur foreldra er konur? Horfa mæður aðgerðalausar upp á að feður kenni sonum sínum að „ráðskast með og lítilsvirða aðra“? Eða eru konurnar sem sjá að svo stórum hluta um börn frá fæðingu til framhaldsskólaaldurs svo mikil „karlmenni“ að þær taki þátt í eða stjórni jafnvel þessu viðurstyggilega uppeldi?

Karlarnir tveir sem talað er við hafa líka hugmyndir um karlmenn sem ég kannast ekki við, og velti fyrir mér hvað fólki finnst almennt um þetta (þ.e.a.s. fólki sem ekki trúir blint á kennisetningar dólgafemínismans):

„Við karlar, sérstaklega þegar við erum ungir, erum gríðarlega hræddir um að vera ekki alvöru karlmenn, að standa ekki undir væntingum karlmanna, að vera ekki nógu karlmannlegir sjálfir. Hvaða valkosti hefur drengur eða ungur maður til að sanna fyrir sjálfum sér, vinum sínum og umheiminum að hann sé alvöru karlmaður? Til eru ýmsir valkostir. Sumir verða íþróttahetjur og nota það sem vitnisburð um karlmennsku sína. Aðrir karlar ganga til liðs við ISIS og segja: „Með því að vera stríðsmaður, með því að nota ofbeldi til að svipta aðra lífinu, þá sanna ég karlmennsku mína og óttaleysi mitt.““

Afar fáir karlmenn verða íþróttahetjur, svo fáir að fáránlegt er að draga ályktanir af því um karlmenn almennt. Sama gildir um ofbeldisfulla ISIS-liða; þeir eru örlítið brot af þýðinu sem þeir koma úr. Það sem verra er við þessa „röksemdafærslu“ er að jafnvel þótt ofbeldisfullir karlmenn líti á ofbeldið sem karlmennskutákn þá segir það nákvæmlega ekki neitt um hvað sé algengt meðal karlmanna eða í samfélaginu.

Ég held að það sé hrein firra að það hafi, a.m.k. í marga áratugi, þótt karlmannlegt á Íslandi að beita konur ofbeldi. Þeir sem halda slíku fram og að við verðum að „skilja“ af hverju (sumir) karlar beiti konur ofbeldi eru á villigötum þegar þeir tengja ofbeldið við kyn ofbeldismannsins, eins og það skýri ofbeldið.

Þeir sem tala um allt illt sem „karllæga“ eiginleika vilja gera karlmenn tortryggilega og ábyrga fyrir öllu sem miður fer í samfélaginu. Slíkt fólk mun aldrei gera gagn í baráttunni gegn ofbeldi. Þvert á móti kyndir það undir skaðlegum fordómum, alveg eins og þeir sem reyna að gera alla múslima tortryggilega, og þeir sem fyrir 70-80 árum gerðu gyðinga að blórabögglum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.11.2015 - 10:15 - 1 ummæli

Tónlistarkennslu inn í skólakerfið?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Það hafa lengi staðið yfir átök milli tónlistarskóla og þeirra sveitarfélaga sem hafa borgað skólunum, að hluta, fyrir þá menntun sem þeir veita. Ég hef ekki fylgst náið með þessu, en sýnist að þessi átök séu að harðna, í kjölfar þess að þrengt sé að þessu námi, hugsanlega vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélaga, sem virðist a.m.k. eiga við um Reykjavíkurborg.

Það er rétt að taka fram að ég er enginn sérstakur áhugamaður um tónlist og á engra hagsmuna að gæta varðandi þetta mál. Mér finnst hins vegar illskiljanlegt af hverju eftirfarandi lausn virðist ekki einu sinni vera til umræðu:

Tónlistarnám verði flutt inn í grunn- og framhaldsskóla, sem val fyrir þá nemendur sem það kjósa.

Auðvitað þyrfti eitthvað annað að detta út í staðinn hjá þeim nemendum sem velja slíkt nám í grunnskólunum, en er líklegt að það gæti haft einhver slæm áhrif á menntun þeirra nemenda?

Rökin fyrir þessu væru að tónlistarnám er síst minna gefandi og „mikilvægt“ en annað nám (ég held að flest nám í grunnskóla sé mun minna „mikilvægt“ en flestir vilja vera láta, og í framhaldsskólum hafa nemendur umtalsvert val). Af hverju ætti til dæmis frekar að hafa kennslu í dönsku og eðlisfræði í grunnskóla, eða bjóða frekar upp á efnafræði og rússnesku en tónlist í framhaldsskóla?

Ein afleiðing af því að innlima tónlistarkennslu í grunnskólana yrði augljóslega sparnaður fyrir sveitarfélögin, því þá þyrftu þau ekki lengur að borga sérstaklega fyrir tónlistarkennslu eins og nú er.

Yrðu þá ekki allir ánægðir?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.11.2015 - 15:10 - 1 ummæli

Rangar sakargiftir og rannsókn sakamála

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Hugsum okkur að A beri B þeim röngu sökum að hafa framið alvarlegt brot. Þannig hefur A framið alvarlegt brot en B ekki. Þá er auðvitað eðlilegt að ekkert verði aðhafst í rannsókn á broti A, fyrr en rannsókn, og hugsanlega réttarmeðferð, á brotinu sem B var ranglega sökuð um er lokið. Sú meðferð tekur marga mánuði, hugsanlega meira en ár.

Að vísu verður næsta vonlaust að rannsaka hið raunverulega brot, sem A framdi, þegar sú niðurstaða hefur fengist að ekki sé fótur fyrir upphaflegum sakargiftum. Ýmiss konar gögn sem varpað gætu ljósi á það mál eru nefnilega löngu horfin, svo sem símaskýrslur og símaminni viðkomandi, auk þess sem minni fólks um hver sagði hvað, eða hver gerði hvað, fyrir ári er yfirleitt afar óáreiðanlegt.

En það er samt fullkomlega eðlilegt að sakargiftirnar, sem voru eina brotið í málinu, verði til þess að ekki megi rannsaka þær fyrr en það er of seint. Eða …?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.11.2015 - 10:15 - 11 ummæli

Grimmdarverkin sem við fremjum í dag

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í seinni heimsstyrjöldinni voru íslenskar stúlkur sem leyfðu sér að umgangast erlenda hermenn fangelsaðar fyrir vikið og beittar harðræði. Svo virðist sem fáir hafi þá leyft sér að gagnrýna þetta opinberlega og framáfólk í samfélaginu var fremst í flokki í þessum ofsóknum.

Árið 1951 stóðu dönsk yfirvöld fyrir því að 22 grænlensk börn voru tekin af heimilum sínum og flutt til Danmerkur, í óþökk foreldra þeirra. Þau áttu að læra að verða fyrirmynd annarra grænlenskra barna þegar þau sneru aftur til heimalandsins ári síðar, þar sem þeim var komið fyrir á sérstökum barnaheimili, en ekki hjá eigin fjölskyldum. Samtökin Barnaheill (Red Barnet) og Rauði Krossinn í Danmörku sáu um framkvæmdina. Börnunum farnaðist mörgum illa í lífinu, og sum styttu sér aldur.

Á sjötta og sjöunda áratugnum voru ungir drengir teknir af heimilum sínum og sendir vestur í Breiðavík þar sem þeim var misþyrmt andlega og líkamlega. Allt var þetta á vegum yfirvalda, og aftur voru ýmsir „virtir“ góðborgarar með í ráðum og fáir sem hreyfðu andmælum opinberlega.

Langt fram á nítjándu öld voru börn undir tíu ára aldri látin vinna allt að sextán tíma á dag í Bretlandi, meðal annars í kolanámum.

Fyrir tvö hundruð árum var þrælahald útbreitt í Bandaríkjunum, og þurfti borgarastyrjöld löngu síðar til að útrýma því.

Í öllum þessum tilfellum, og ótalmörgum öðrum, voru framin grimmdarverk á varnarlausu fólki, með þegjandi samþykki samfélagsins, og jafnvel litið á þau sem sjálfsagðan hlut. Svo snerist almenningsálitið og í dag eru allir sammála um að fordæma það sem okkur finnst augljós grimmd.

En þeir sem voru uppi á þessum tímum gátu fæstir séð nokkuð athugvert við það sem síðar var fordæmt sem óbærilegt mannúðarleysi. Þannig var þrælahaldið almennt álitið sjálfsagt árið 1800 í Bandaríkjunum og barnaþrælkunin í Bretlandi fyrir rúmum hundrað árum. Á Íslandi var álitið eðlilegt upp úr 1940 að refsa ungum konum harðlega fyrir að umgangast hermenn. Tuttugu árum síðar var sjálfsagt mál að rífa unga drengi frá fjölskyldum sínum og vinum og koma þeim fyrir í vist þar sem níðst var á þeim varnarlausum. Og í dag, árið 2015 er álitið fullkomlega eðlilegt að …

Já, hvað gæti það verið í dag sem við kippum okkur ekki upp við en verðum fordæmd fyrir eftir hundrað ár? Því varla var fullkomnun mannsandans náð á sviði mannúðar í fyrra? Eða erum við einmitt endastöð hinnar mannlegu fullkomnunar?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur