[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]
[Þessi pistill hefur verið leiðréttur, þar sem upphaflega var ranglega haldið fram að um væri að ræða grein en ekki viðtal.]
Nýlega birtist þetta viðtal, þar sem körlum er, beint og óbeint, lýst sem ofbeldisfullum, og allt ofbeldi gert „karllægt“ og tengt við hugmyndir um „karlmennsku“ sem hljóta að koma spánskt fyrir sjónir þeim sem alist hafa upp meðal íslenskra karla og kvenna síðustu áratugina.
Ef til vill gengur þeim sem þannig tala gott til, í baráttunni gegn „kynbundnu“ ofbeldi. Það breytir því ekki að útkoman er frekar ógeðfelldur og niðrandi áróður gegn hópi fólks sem allt er sett undir einn hatt, á sama hátt og fordómafullt fólk talar um múslima í heilu lagi eins og þeir beri ábyrgð á voðaverkum örfárra íslamskra hryðjuverkamanna, vegna þess eins að hafa alist upp á menningarsvæði sem telur vel á annan milljarð manns. Hér er um að ræða rökvillu sem kalla mætti venslasekt (guilt by association). Verst er að margir þeir sem gera sig seka um þetta gera sér vel grein fyrir rökvillunni, en nota hana markvisst til að níða niður fólk sem tilheyrir tilteknum hópum sem það hefur ekkert val um að tilheyra.
Greinin byggir á viðtali við tvo karla sem tala eins og þeir viti nákvæmlega hvað „karlmennska“ sé, og að hún sé hræðilega ljótt fyrirbæri sem bókstaflega dýrki ofbeldi. Ekki er bara haldið fram að karlmenn séu aldir upp við það sem eðlilegt og sjálfsagt að koma illa fram við annað fólk; þetta meinta uppeldi karlmanna er líka sökudólgurinn þegar konur gera sig sekar um sams konar athæfi:
„En það gerir þetta ekki kynhlutlaust. Það þýðir bara að sumar stúlkur og konur eru farnar að taka upp hefðbundna hlutverkið sem við höfum kennt drengjum og körlum, sem felur í sér að ráðskast með og lítilsvirða aðra.“
Þetta er sérlega furðuleg staðhæfing þegar betur og betur virðist vera að koma í ljós að konur beita ekki síður ofbeldi í samböndum en karlar, og allir vita að ungar stúlkur beita kynsystur sínar oft alls konar andlegu ofbeldi, sem er ekki endilega skárra en það líkamlega. En nei, það er ekki við ofbeldiskonurnar að sakast heldur hvernig „við“ höfum „kennt“ körlum á öllum aldri að koma fram.
Hér er líka viðruð klisjan um að þegar karl beiti konu ofbeldi sé markmiðið kúgun karla sem hóps á konum sem hópi, og það þótt nánast öllum karlmönnum finnist slíkt ofbeldi viðurstyggð, auk þess sem ótrúlegt verður að telja að karl sem misþyrmi konu sé að hugsa um ímyndaða sameiginlega hagsmuni karla:
„Kynbundið ofbeldi á sér ýmis markmið. Eitt af þeim er að viðhalda valdamisræmi milli karla og kvenna, eða milli karlahópa og kvennahópa.“
Það er sturlað að halda fram að drengjum og körlum sé „kennt“ af samfélaginu að beita konur ofbeldi, en það er svo sem ekki nýtt að dólgafemínistar kynni hugmyndir sem eru fullkomlega fáránlegar, af því að það þarf að troða veruleikanum inn í kennisetningar réttu trúarbragðanna. Það er líka afar sérkennilegt að tala eins og drengjum og körlum í samfélagi okkar sé kennt að „ráðskast með og lítilsvirða aðra“. Ég kannast hvorki við að hafa fengið slíka „kennslu“ né að hafa séð öðrum karlmönnum kennt þetta.
Ég skil heldur ekki hvar þessi kennsla á að fara fram. Varla í leikskólum, þar sem nánast allir starfsmenn eru konur? Og varla heldur í grunnskólunum, þar sem konur eru 80% kennara? Er það á heimilunum, þar sem um það bil helmingur foreldra er konur? Horfa mæður aðgerðalausar upp á að feður kenni sonum sínum að „ráðskast með og lítilsvirða aðra“? Eða eru konurnar sem sjá að svo stórum hluta um börn frá fæðingu til framhaldsskólaaldurs svo mikil „karlmenni“ að þær taki þátt í eða stjórni jafnvel þessu viðurstyggilega uppeldi?
Karlarnir tveir sem talað er við hafa líka hugmyndir um karlmenn sem ég kannast ekki við, og velti fyrir mér hvað fólki finnst almennt um þetta (þ.e.a.s. fólki sem ekki trúir blint á kennisetningar dólgafemínismans):
„Við karlar, sérstaklega þegar við erum ungir, erum gríðarlega hræddir um að vera ekki alvöru karlmenn, að standa ekki undir væntingum karlmanna, að vera ekki nógu karlmannlegir sjálfir. Hvaða valkosti hefur drengur eða ungur maður til að sanna fyrir sjálfum sér, vinum sínum og umheiminum að hann sé alvöru karlmaður? Til eru ýmsir valkostir. Sumir verða íþróttahetjur og nota það sem vitnisburð um karlmennsku sína. Aðrir karlar ganga til liðs við ISIS og segja: „Með því að vera stríðsmaður, með því að nota ofbeldi til að svipta aðra lífinu, þá sanna ég karlmennsku mína og óttaleysi mitt.““
Afar fáir karlmenn verða íþróttahetjur, svo fáir að fáránlegt er að draga ályktanir af því um karlmenn almennt. Sama gildir um ofbeldisfulla ISIS-liða; þeir eru örlítið brot af þýðinu sem þeir koma úr. Það sem verra er við þessa „röksemdafærslu“ er að jafnvel þótt ofbeldisfullir karlmenn líti á ofbeldið sem karlmennskutákn þá segir það nákvæmlega ekki neitt um hvað sé algengt meðal karlmanna eða í samfélaginu.
Ég held að það sé hrein firra að það hafi, a.m.k. í marga áratugi, þótt karlmannlegt á Íslandi að beita konur ofbeldi. Þeir sem halda slíku fram og að við verðum að „skilja“ af hverju (sumir) karlar beiti konur ofbeldi eru á villigötum þegar þeir tengja ofbeldið við kyn ofbeldismannsins, eins og það skýri ofbeldið.
Þeir sem tala um allt illt sem „karllæga“ eiginleika vilja gera karlmenn tortryggilega og ábyrga fyrir öllu sem miður fer í samfélaginu. Slíkt fólk mun aldrei gera gagn í baráttunni gegn ofbeldi. Þvert á móti kyndir það undir skaðlegum fordómum, alveg eins og þeir sem reyna að gera alla múslima tortryggilega, og þeir sem fyrir 70-80 árum gerðu gyðinga að blórabögglum.