Föstudagur 12.8.2011 - 23:16 - 18 ummæli

Svar Helga Áss um háskóla og kostun

Þann 26. júní skrifaði ég bloggfærslu um kostun hagsmunaaðila á akademískum stöðum við háskóla, og um þjónkun háskóla við hagsmunaaðila.  Þar nefndi ég stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun Háskóla Íslands, sem kostuð er af LÍÚ.  Við Helgi höfum síðan rætt þessi mál og niðurstaðan varð sú að ég birti hér athugasemdir hans við pistil minn.  Þær koma hér að neðan.  Í athugasemd hér á eftir (í athugasemdakerfinu) geri ég svo grein fyrir afstöðu minni til málsins.

—————————————————————————————————-

Sérfræðingur svarar fyrir sig

(Eftir Helga Áss Grétarsson)

Bakgrunnurinn

Fyrir fimm árum hóf ég, Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, störf hjá Lagastofnun Háskóla Íslands sem sérfræðingur á sviði auðlindaréttar með áherslu á að rannsaka fiskveiðistjórnkerfi. Staðan sem ég gegni hefur verið fjármögnuð á grundvelli tveggja samstarfssamninga Lagastofnunar við Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), dags. 6. apríl 2006 og 4. maí 2009 en nánari upplýsingar um þessa samninga má finna á heimasíðu Háskóla Íslands, sjá t.d. hér.

Háskóli Íslands hefur gert við mig tvo þriggja ára ráðningarsamninga. Ég er því starfsmaður háskólans, ekki LÍÚ. Yfirboðarar mínir eru innan háskólans. Hafi menn athugasemdir við framgöngu mína í starfi geta þeir beint þeim til yfirboðara minna innan háskólans eða til mín persónulega.

Á starfsferli mínum sem sérfræðingur hef ég m.a. ritað tvær ritrýndar fræðibækur um stjórn fiskveiða á Íslandi og þrjár ritrýndar fræðigreinar um efnið. Fyrir utan fræðiskrif hef ég einnig birt umtalsvert efni um stjórn fiskveiða sem ætlað er almenningi, sbr. ritaskrá mín sem er aðgengileg á heimasíðu háskólans.

Hafi menn áhuga á að efna til fræðilegra rökræðna við mig um stjórn fiskveiða eru öll gögn til reiðu, m.a. skrif mín um efnið og ummæli á opinberum vettvangi. Ef ástæða er til að gagnrýna rannsóknir mínar á efnislegum og málefnalegum forsendum væri æskilegt og jafnvel brýnt að fá slíka gagnrýni fram.

Tilefnið

Hinn 26. júní 2011 birti Einar Steingrímsson, stærðfræðingur, bloggfærslu á Eyjan.is og var upphaf hennar svohljóðandi:

Þjónkun háskóla við valda– og hagsmunaaðila

Í nýlegri frétt á RÚV er sagt frá athugasemdum Ólínu Þorvarðardóttur við kostun á stöðum starfsmanna háskóla, en hún nefndi sérstaklega stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun HÍ, sem kostuð er af LÍÚ.  Hér verður ekki rakið það sem Helgi hefur látið frá sér fara um þessi mál í fjölmiðlum, en augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum.

Í umræddri frétt er vitnað í forseta Félagsvísindasviðs HÍ, Ólaf Þ. Harðarson, en hann “segir skólann huga vel að þessum málum, mestu máli skipti að fyrirkomulagið sé gagnsætt.”  Það þætti þó varla nóg í háskólum sem annt er um orðstír sinn sem sjálfstæðra rannsóknastofnana.

Það ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann.“

Athugasemdirnar

Í hinum tilvitnaða texta tel ég ástæðu til að andmæli sérstaklega ummælunum „augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum“ og „[það] ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann“.

Aðfinnslur mínar styðjast m.a. við eftirfarandi:

  1. Fyrst ber að nefna að samstarf háskólastofnana og einkaaðila við að fjármagna rannsóknir er alþekkt hér á landi sem og annars staðar, sbr. t.d. hér og hér. Þessi tilhögun við að fjármagna rannsóknir haggar því ekki að allar rannsóknir, sem unnar eru á vegum háskóla, skulu byggja á viðurkenndum akademískum gildum, svo sem með tilliti til aðferðafræði, heimildaöflunar og efnislegrar nálgunar. Ríkisreknar rannsóknir geta vera vel eða illa unnar rétt eins og þær sem fjármagnaðar eru í samstarfi einkaaðila og ríkisháskóla.
  2. Einnig vil ég benda á að rektor Harvard–háskóla í Bandaríkjunum gaf það út í nóvember 2010 að skólinn hygðist auka fjárhagslegt samstarf við einkaaðila/hagsmunaaðila í því skyni að standa vörð um rannsóknarstarf skólans, hér. Fyrir skemmstu var gerð úttekt á bestu háskólum heims á sviði félagsvísinda og vermdi Harvard–háskólinn fyrsta sætið í mörgum af þeim fögum sem rannsökuð voru, sjá hér.
  3. Framangreint gefur til kynna að eðlilegt getur talist að háskólar og einkaaðilar í samfélaginu vinni saman að rannsóknum enda sé m.a. tryggt að rannsóknarniðurstöður samrýmist fræðilegum og siðfræðilegum kröfum.
  4. LÍÚ fjármagnar rannsóknir sem Lagastofnun HÍ og lagadeild HÍ leggja áherslu á og telja nauðsynlegt að séu stundaðar. Stefán Már Stefánsson, prófessor, hefur haft faglegt eftirlit með þessari rannsókn og framvindu hennar. Sem sérfræðingur við Lagastofnun HÍ hef ég sinnt þessum rannsóknum.
  5. Margir háskólamenn og einstaklingar með háskólagráður hafa í gegnum árin talið sig hafa nægja þekkingu og yfirsýn til að tjá sig opinberlega um ýmsa þætti íslenskrar fiskveiðistjórnar. Í þeirri orðræðu allri hafa ósjaldan hugtök á borð við sameign þjóðar, réttlæti og önnur álíka verið sett fram án þess að þau séu skilgreind. Í mörgum skrifum um efnið hafa staðreyndavillur verið algengar, m.a. með tilliti til þróun reglna um myndun aflaheimilda.
  6. Í ljósi þessarar áralöngu áráttu ýmissa aðila að skilgreina ekki grundvallarhugtök í umræðu um stjórn fiskveiða og fara rangt með staðreyndir um þróun íslenska fiskveiðistjórnkerfisins, hlýtur mér, sem háskólamanni að vera heimilt að taka þátt í opinberri umræðu um málefnið, ef það væri ekki bara fyrir að leiðrétta rangfærslur.
  7. Ég vísa því til föðurhúsanna að skrif mín fyrir almenning séu reist á vafasömum fræðum og þau hafi skert traust „á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann“. Fullyrðing af þessu tagi er ósanngjörn og illa rökstudd. Ég tel mína nálgun á viðfangsefnið vera reista á traustum fræðilegum grundvelli og engu máli skiptir hvort þau meginatriði, sem ég hef sett fram, séu hagfelld Jóni eða séra Jóni. Það sem skiptir mestu máli er hvort þau standist skoðun.
  8. Framanrakin ummæli Einars Steingrímssonar setja tiltekinn merkimiða á mína fræðimennsku og hafa væntanlega varpað rýrð á orðspor mitt. Ummælin eru ekki reist á fullnægjandi könnun á framlagi mínu til fræða og vísinda. Þau eru vanhugsuð.

Það er mín skoðun að Einar Steingrímsson hafi margt til málanna að leggja um starf háskóla og rannsóknir á háskólastigi. Full ástæða er til að efna til almennra umræðna um hvernig haga eigi þessum málum á Íslandi til lengri tíma litið.

Að mínu mati er það grundvallaratriði að starfsmenn háskóla eiga að njóta fyllsta akademíska frelsis til að tjá sig hvort sem að staða þeirra sé ríkisrekin eða kostuð í samstarfi háskóla og einkaaðila. Einnig skiptir mestu máli við framkvæmd rannsókna að niðurstöður þeirra samrýmist fræðilegum og siðfræðilegum kröfum.

Reykjavík, 12. ágúst 2011,

Helgi Áss Grétarsson

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 31.7.2011 - 17:55 - 23 ummæli

Árás hafin á stjórnarskrártillöguna

Þótt tillaga Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sé ekki mjög róttæk er nokkuð öruggt að hún muni mæta mikilli andstöðu  þeirra afla sem ekki mega til þess hugsa að hróflað verði við því stjórnarfari sem hér hefur ríkt í áratugi.  Þar á meðal eru ýmis voldug hagsmunasamtök (t.d. LÍÚ) og allir stjórnmálaflokkarnir fjórir sem hafa drottnað yfir ríkisvaldinu og notað það fyrir ýmislegt annað en hagsmuni þess almennings sem það ætti  að þjóna.  Þessum öflum hefur tekist að koma í veg fyrir teljandi breytingar á stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun, þótt lagt hafi verið upp með að hana ætti að endurskoða fljótlega þegar hún var tekin upp fyrir sextíu og sjö árum.

Það var ef til vill bjartsýni að vona hið gagnstæða, en svolítil vonbrigði að Þorsteinn Pálsson skyldi ríða á vaðið gegn þeirri tilraun sem nú stendur yfir til að bæta stjórnarskrána.  Hér eru nokkrar úrklippur úr grein hans í Fréttablaðinu í gær:

Stjórnlagaráð hefur lokið störfum og hugmyndir að nýrri stjórnarskrá litið dagsins ljós, sumar nýtilegar og aðrar ekki eins og gengur.

Forsætisráðherra kaus í byrjun ríkisstjórnarsamstarfsins vorið 2009 að nota stjórnarskrármálið til þess að dýpka ágreining við Sjálfstæðisflokkinn.

Engin dæmi munu vera um að annars staðar hafi heildarendurskoðun stjórnarskrár lokið án samvinnu við næststærsta flokk þjóðþings.

Lokavinna stjórnlagaráðsins er því í raun áfangi á leið til fullbúinnar tillögu að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi ber nú ábyrgð á að sjái dagsins ljós.

Áður en menn fara að efna til þrætubókarumræðu um einstakar hugmyndir stjórnlagaráðsins væri ekki úr vegi að í næsta áfanga færi fram fræðileg úttekt á þeim hugmyndum sem fyrir liggja.

Hér þarf ekki bara lögfræðilegt mat. Einnig ætti að kalla til sérfræðinga á sviði réttarheimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði.

Lítil sem engin almenn umræða hefur farið fram um ýmsar kjarnaspurningar varðandi eðli stjórnskipunarreglna. Hvað er markmiðið með þeim? Hvar á að draga markalínuna milli stjórnskipunarlaga og almennra laga? Ráðið hefur sýnilega ekki haft aðstöðu til að ígrunda af kostgæfni álitaefni af þessu tagi.

Þorsteinn talar um „hugmyndir“ Stjórnlagaráðs, og „áfanga“ og hamrar á nauðsyn aðkomu Sjálfstæðisflokksins.  Ef til vill áttar hann sig ekki á þessu, en hér talar hann af sérkennilegri lítilsvirðingu um störf þess fólks sem hefur nú tekist þokkalega (á jafn skömmum tíma og tók að semja bandarísku stjórnarskrána) það sem íslensku stjórnmálastéttinni hefur ekki tekist allan þann tíma sem Þorsteinn hefur lifað.  Það er dapurlegt að heyra Þorstein tala um það eins og sjálfsagðan hlut að Alþingi, og Sjálfstæðisflokkurinn alveg sérstaklega, muni nú taka við þessum „hugmyndum“ Stjórnlagaráðs, og úrskurða hvað sé „nýtilegt“ í augum valdastéttarinnar.

Þorsteinn var alþingismaður í sextán ár og sat í ríkisstjórn í tæp fjórtán, þar af eitt ár sem forsætisráðherra (auk setu í stjórnarskrárnefnd  2005-2010).  Á þessum sextán árum gerðist það sama í stjórnarskrármálunum og hin fimmtíu árin frá lýðveldisstofnun, nefnilega ekki neitt.  Það var ekki af leti eða önnum við annað, heldur af því að valdastéttin, þar sem Þorsteinn var yfirleitt framarlega í flokki, vildi ekki færa almenningi neinar bætur á stjórnarfarinu.  Þessi valdastétt mátti einfaldlega ekki til þess hugsa að arðrán hennar og valdníðsla væri með nokkrum hætti skert.  Að maður sem ekki hefur staðið sig betur en raun ber vitni í vinnu við þetta mál skuli nú tala niður til þeirra sem eru að vinna verkið er sorglegt, en því miður dæmigert fyrir ósvífni íslensku valdastéttarinnar.

Þetta er sennilega ekki meðvitaður hroki (enda er Þorsteinn með prúðari mönnum á ritvellinum og oft skarpur greinandi þegar hann fæst við hluti þar sem ekki þarf víðari sjóndeildarhring en bakkana á þeim andapolli sem íslensk stjórnmál eru).  En yfirlæti sem byggir á því skilningsleysi sem hrjáir Þorstein verður hins vegar sjálfkrafa hrokafullt.  Til að yfirlæti verði það ekki þarf viðkomandi að minnsta kosti að búa yfir þekkingu sem réttlætir að talað sé niður til lesenda.

Þorsteinn býr ekki yfir sérstakri þekkingu á stjórnarskrármálum (a.m.k. ekki „nýtilegri“ þekkingu).  Eins skarpur greinandi og hann hefur verið á séríslensk stjórnmál  megnar hann ekki hugsa út fyrir það þrönga box sem valdastéttin hefur smiðað utan um sig.  Hvað þá að hann geti hugsað sér veruleika þar sem það er ekki náttúrulögmál að framámenn í Sjálfstæðisflokknum leiki  stórt hlutverk.

Lokaorð Þorsteins í greininni eru þessi:

Stjórnarskráin er ekki hrifningarverkefni eða tilfinningamál fyrir líðandi stund.

Eigi þetta að vera lýsing á starfi Stjórnlagaráðs virðist Þorsteinn hvorki hafa fylgst vel með vinnu þess né skoðað afraksturinn.  Og ef til vill er þetta einfaldlega rangt hjá honum.  Ef til vill þarf hrifningu og tilfinningar (auk vandaðrar vinnu) til að vinna þetta verk, en ekki þann steingelda skotgrafahernað sem félagar Þorsteins hafa stundað í áratugi.  Ég ætla frekar að gera orð Steinunnar Stefánsdóttur, í leiðara Fréttablaðsins í gær, að mínum:

Með starfi sínu hefur stjórnlagaráðið sett fordæmi sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar, meðal annars alþingismenn og ýmsir aðrir sem láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni. Stjórnlagaráð hefur vonandi með starfi sínu og umræðuhefð lagt grunninn að málefnalegri umræðu um það frumvarp að stjórnarskrá sem nú liggur fyrir. Dapurlegt væri í það minnsta ef frumvarpið yrði ómálefnalegri hatursumræðu að bráð eins og svo margt annað sem rætt er um í íslensku samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.7.2011 - 13:50 - 2 ummæli

Lögfræði, réttlæti og réttarríki

Hér að neðan er texti greinar eftir mig sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Það er sjálfsagt að fara varlega í að hrófla við réttarkerfinu; það er mikilvægt að leikreglur þess séu skýrar, og að öllu jöfnu eiga niðurstöður Hæstaréttar að vera endanlegar.  Á þessu eru þó undantekningar, því allir geta gert mistök.  Í Geirfinns- og Guðmundarmálinu ætti öllum að vera ljóst að gerð voru hryllileg mistök, að sakborningar sættu hræðilegri meðferð, og að yfirvöld komu fram með glæpsamlegum hætti.

Út af fyrir sig er þessi meðferð á sakborningum næg ástæða til að rannsaka málið niður í kjölinn.  En það er auk þess orðið slík mara á þjóðarsálinni að nauðsynlegt er að fá allt upp á yfirborðið, á svo hlutlægan og vandaðan hátt að ekki þurfi að efast um niðurstöðurnar.

Þess vegna er dapurlegt að sjá  formann Lögmannafélagsins tala um málið eins og lítið hafi út af borið, og forseta Lagadeildar HÍ eins og hér séu formsatriðin mikilvægari en réttlætið.

————————————

[Fréttablaðið, 26. júlí 2011]

Lögfræði, réttlæti og réttarríki

Nýlega hafa tveir framámenn í lögfræðingastétt tjáð sig um kröfuna um rannsóknarnefnd sem geri úttekt á Geirfinns- og Guðmundarmálunum svonefndu. Þetta eru þeir Róbert Spanó, sem ritaði grein í Fréttablaðið 22. júlí, og Brynjar Níelsson sem skrifaði um það pistil á pressan.is 20. júlí.

Róbert segir: „En það er einmitt í réttarríki eins og okkar, byggðu á þrígreiningu ríkisvalds, sem opinberar ákvarðanir um að skipa sérstakar rannsóknarnefndir verða að taka mið af því kerfi til úrlausnar mála sem fyrir hendi er lögum samkvæmt.“ Síðar segir hann: „Löggjafinn á ekki að setja á laggirnar rannsóknarnefndir til að yfirfara endanlega úrlausn Hæstaréttar, æðsta handhafa hins sjálfstæða dómsvalds.“

Sjálfstæði dómstóla er vissulega afar mikilvægt í réttarríki. Hér gleymist hins vegar önnur hliðin á þeim hugmyndum sem alla jafna liggja til grundvallar þrígreiningu ríkisvaldsins. Nefnilega að greinarnar þrjár veiti hver annarri aðhald, sem sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir valdníðslu innan einnar þeirra.

Brynjar segir í sinni grein: „Ég get þó sagt að í mörgum öðrum sakamálum hafa sakborningar verið sakfelldir á veikari sönnunargögnum.“ Líti Brynjar svo á að sérhver sakfelling sé fordæmisgefandi varðandi kröfurnar um sönnunarfærslu er það sannarlega nýstárleg sýn á réttarfar. Ef þetta á hins vegar að afsaka þá hryllilegu valdníðslu sem átti sér stað í umræddum málum er ekki annað að segja en að slík afstaða sé ekki sæmandi lögmanni, hvað þá að formaður Lögmannafélagsins haldi henni á lofti.

Í Geirfinns- og Guðmundarmálinu var sakfellt fyrir morð, þótt engar vísbendingar séu um að fórnarlömbin hafi látist, nema játningar sakborninga. Slíkar játningar væru auðvitað mikilvægar ef þær væru trúverðugar. Það eru þær ekki, því nákvæmlega ekkert annað bendir til að glæpur hafi verið framinn, auk þess sem ósannar játningar eru talsvert algengari en ætla mætti, hvað þá þegar beitt er jafn svívirðilegum pyntingum og hér var raunin.

Ekki síður alvarlegt er að rannsóknarlögreglan sýndi með óyggjandi hætti að hún gat fengið fram þær játningar sem henni sýndist, hversu fjarstæðukenndar sem þær voru. Á meðan sakborningar voru einangraðir hver frá öðrum í gæsluvarðhaldi fékk lögreglan þá alla til að staðfesta tiltekna flókna atburðarás, sem leiddi til langvarandi gæsluvarðhalds yfir fjórum öðrum mönnum. Síðar kom í ljós að um algeran uppspuna var að ræða. Með því að fá fram játningar á slíkum uppspuna sýndu rannsakendur málsins í eitt skipti fyrir öll að niðurstöður þeirra voru einskis virði.

Ljóst er því að lögreglan og dómsvaldið brugðust ekki bara illilega, heldur frömdu hræðileg illvirki á fólki sem átti að njóta verndar réttarríkisins, burtséð frá því hvort það átti nokkra sök í umræddum málum. Af því hversu alvarlegt þetta mál er verður ekki hjá því komist að rannsaka það niður í kjölinn. Til þess ætti að skipa rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til vitnaleiðslu.

Við þessar aðstæður ættu lögfræðingar fremur að velta fyrir sér (í heyranda hljóði) hvernig hægt sé að leiðrétta svona alvarleg brot á grundvallarreglum réttarríkisins, og koma í veg fyrir að þau verði endurtekin. Að minnsta kosti þeir lögfræðingar sem vilja láta líta á sig sem hugsuði á þessu sviði en ekki viljalausa þjóna kerfis sem hefur svívirt þær grundvallarreglur sem það segist byggja á.

Það er líka hollt að hafa í huga að þótt lögfræðingar geti verið sérfræðingar í því hvernig réttarkerfið virkar þá þrýtur sérfræðikunnáttu þeirra þegar kerfið hættir að virka, eins og það gerði hér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.7.2011 - 22:41 - 17 ummæli

Spillingarsnillingar

Hér að neðan er útdráttur úr frétt í DV.  Fyrir þrjátíu árum varð til hugtakið „löglegt en siðlaust“.  Það var Vilmundur Gylfason sem sagði þessi fleygu orð um þá spillingu sem hafði þá þegar gegnsýrt íslenska stjórnsýslu í áratugi.  Ætla hefði mátt að þessi afhjúpun á eðli íslenska valdakerfisins yrði til að gera spillingaröflunum erfiðara fyrir, og þá varkárari sem gert hafa út á hana.  Raunin hefur orðið allt önnur.  Kjötkatlamennirnir hafa eflst að allri dáð, og eru nú sannkallaðir spillingarsnillingar.

Páll Guðfinnur Harðarson, eigandi Ökugerðis Íslands, í gegnum félögin Nesbyggð ehf. og Nesbyggð eignarhaldsfélag, er með að minnsta kosti átta gjaldþrot á bakinu.

Byggðastofnun hefur gefið Ökugerði Íslands lánsloforð að andvirði 200 milljóna króna, samkvæmt heimildum DV, en það er hámarkslán frá stofnuninni.

Samkvæmt eigin lánareglum ber Byggðastofnun að skoða viðskiptasögu fyrirtækja og eigenda þeirra. Heimildir DV herma að lánsloforðið til Ökugerðis Íslands standi þrátt fyrir fjölmörg gjaldþrot fyrirtækja í eigu sama aðila.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, er stjórnarformaður Ökugerðis Íslands og einn af tveimur stofnendum fyrirtæksins.

Forstöðumaður rekstrarsvið Byggðastofnunar segist ekki geta tjáð sig um einstök mál, en tekur fram að ekkert óeðlilegt sé við náin tengsl Sturlu við fyrirtæki sem hefur fengið lánsloforð frá stofnuninni.

Sem samgönguráðherra barðist Sturla fyrir því að sett yrðu lög sem skylduðu ökunema til þess að læra í ökugerði. Árið 2010 tóku slík lög gildi.

Auk þess að hafa verið með í stofnun Ökugerðis Íslands var Sturla Böðvarsson fyrsti framkvæmdastjóri félagsins og eini prókúruhafinn þegar það var stofnað í júlí í fyrra.

Sturla var skipaður í stjórn Byggðastofnunar rétt rúmum mánuði áður en Ökugerði Íslands var stofnað og situr ennþá í stjórn.

Þá hefur Sturla nýlega setið í nefnd sem skipuð var af iðnaðarráðuneytinu og var falið að endurskoða lánastarfsemi stofnunarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.7.2011 - 01:10 - 21 ummæli

Stjórnlagaráð, persónukjör og flokksræði

Í Stjórnlagaráði er nú tekist á um hvaða ákvæði eigi að vera í stjórnarskrá um kosningafyrirkomulag.  Líklega er óhætt að segja að sú krafa eigi mikinn hljómgrunn meðal almennings að opnað verði fyrir persónukjör, enda margir búnir að fá nóg af flokksræðinu sem hefur tröllriðið valdakerfinu í áratugi, og á eflaust sinn þátt í að Alþingi hefur sjálft rúið sig öllu trausti.

Gegn þessari kröfu standa auðvitað þeir stjórnmálaflokkar sem hér hafa ráðið lögum og lofum, og sem ekki mega til þess hugsa að það valdakerfi riðlist sem þeir hafa gert út á.

Gegn þessum hugmyndum hefur líka verið teflt fram staðhæfingum um að flokkar, og flokkskjör, séu nauðsynlegir til að kjósendur viti hvers konar meginstefnu þeir séu að kjósa og það sé ógerlegt í hreinu persónukjöri, eins og í kosningunni til Stjórnlagaþings.  Við þetta er margt að athuga.

  1. Í fyrsta lagi er ekkert sem kemur í veg fyrir að flokkar dreifi listum yfir þá frambjóðendur sem þeir vilja koma á þing.  Slíkan lista gæti kjósandi sem vill bara kjósa frambjóðendur eins flokks tekið með sér á kjörstað.
  2. Í öðru lagi hefur sú málamiðlunarhugmynd verið sett fram að frambjóðandi mætti tilgreina stjórnmálasamtök sem hann tilheyrði á kjörseðlinum, þannig að þeir flokkshollu þyrftu ekki einu sinni að vera með tossalista með sér.
  3. Í þriðja lagi er engin ástæða til að ætla að hinn almenni kjósandi sé svo illa gefinn að hann sé ófær um að raða saman á lista fólki með skoðanir sem eru samhljóma hans í grundvallaratriðum.
  4. í fjórða lagi er persónukjör, þar sem kjósendur mega kjósa frambjóðendur af mörgum listum, notað víða í Þýskalandi (og e.t.v. víðar) og engar fréttir hafa borist þaðan um upplausnarástand eða einu sinni að hin fræga þýska reglusemi hafi riðlast fyrir vikið.
  5. Í fimmta lagi er vafasamt að halda fram að flokkar á Íslandi bjóði upp á skýra grundvallarstefnu, þannig að kjósendur viti hvað þeir kjósa yfir sig.  Þetta er ekki bara vegna þeirra málamiðlana sem óhjákvæmilegar eru við myndun samsteypustjórna, heldur líka af því að íslenskir stjórnmálaflokkar hafa yfirleitt  enga stefnu.  Að þeir eigi sér stefnuskrár, og jafnvel yfirlýsingar um stefnu í tilteknum málum er ekki nóg; stefna án aðgerðaáætlunar, að ekki sé nú talað um að fylgja stefnunni, er óskhyggja, ekki stefna.

Um síðastnefnda atriðið mætti nefna mýmörg dæmi.  Hér eru tvö:

  • Það var stefna bæði VG og Samfylkingar að endurheimta kvótann og koma á kerfi þar sem kvótinn væri ótvírætt eign þjóðarinnar, og hún nyti arðsins af auðlindinni.  Nú hafa þessir flokkar setið einir í ríkisstjórn í tvö og hálft ár, en ekkert bólar á niðurstöðu í þessa veru.  Þvert á móti lítur út fyrir að málið verði svæft, og ef til vill er þegar búið að byrla því ólyfjan, af manni sem einn virðist fara með völdin í því, sjávarútvegsráðherra.
  • Menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) ákvað 2007 að auka bein framlög ríkisins til rannsókna við HÍ um 3 milljarða á ári (þreföldun á framlaginu).  Aðeins hluti af þessu kom til framkvæmda, vegna hrunsins, en þótt telja megi HÍ vel að þessu kominn fer ekki á milli mála að  þetta fór þvert á yfirlýsta stefnu (Landsfundar) flokksins, um að efla samkeppnissjóði í stað þess að veita rannsóknafé beint til stofnana.  Ráðherra kom af fjöllum þegar henni var bent á stefnu flokksins, og það virðist fremur  regla en undantekning að íslenskir ráðherrar fari sínu fram, hvað sem líður yfirlýstri stefnu.

Af ofangreindri upptalningu ætti að vera ljóst að andstaðan við persónukjör á sér ekki rætur í rökréttum ótta við einhvers konar upplausnarástand.  Hún er sprottin af ótta flokkanna við að missa kverkatakið sem þeir hafa á völdunum í landinu.

Því hefur verið haldið fram að rannsóknir sýni að persónukjör sé ekki til þess fallið að ná fram þeim markmiðum sem flestir telji rétt að stefna að í lýðræðisþjóðfélagi.  Þetta er ef til vill ekki einfalt mál, en hér verður ekki farið nánar út í þá sálma (sjá þó PS hér að neðan).  Hins vegar er óhætt að segja að afdráttarlausar staðhæfingar í þessa veru séu rangar.  Það er vegna þess að stjórnmálafræðingar eru alls ekki á einu máli um þetta, og því er ljóst að hér er ekki um að ræða áreiðanlega þekkingu af því tagi sem hægt er að kalla traust fræði.

Í Stjórnlagaráði er nú tekist á um eitthvert mikilvægasta atriði stjórnarskrárinnar, kosningafyrirkomulagið.  Það er ekki sjálfgefið að hreint persónukjör leiði til betri stjórnarhátta, en svo virðist sem starf Stjórnlagaráðs, sem þannig var kjörið, hafi gengið nokkuð vel, öfugt við þann forarpytt sem Alþingi hefst við í.  Það er slæmt ef ráðið gefst upp gegn þeirri sameiginlegu flokksmaskínu sem ekki má til þess hugsa að missa völdin yfir því spillingarkerfi sem hún hefur komið  upp.  Þá er borin von að við fáum að sjá umtalsvert betri stjórnarhætti en þá sem ríkt hafa hér, og sem almenningi ætti varla að vera eftirsjá í.

PS.  Ég hef rætt örlítið um kosningakerfi í tölvupósti við einn stjórnmálafræðing sem hefur ákveðnar skoðanir á málunum, og sem benti á ýmis gögn máli sínu til stuðnings (þótt ég sé eftir sem áður ósannfærður um áreiðanleika staðhæfinga hans).  Gott væri að efna til opinberrar umræðu um þessi mál, með þátttöku þeirra stjórnmálafræðinga sem telja sig búa yfir mikilvægri þekkingu á þessu sviði.  Þar ættu þeir að tjá sig í skýru máli, svo almenningur geti myndað sér skoðun á afstöðu þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.7.2011 - 00:25 - 10 ummæli

Vill Stjórnlagaráð flokksræðið áfram?

Á vef Stjórnlagaráðs er sagt frá nýsamþykktum tillögum þess um löggjafarmál og fleira.  Þar segir meðal annars:

Í tillögunum kemur fram að við stjórnarmyndun muni Alþingi nú kjósa forsætisráðherra, en forseti Íslands verði eins konar verkstjóri í viðræðum milli þingflokka, líkt og verið hefur.

Í tillögu ráðsins stendur nákvæmlega þetta:

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra.

Þetta er reyndar ekki það eina sem komið hefur frá Stjórnlagaráði sem bendir til að meðlimir þess líti flestir á það sem sjálfsagt mál að við höfum áfram svipað flokkakerfi og við höfum haft.

Það kann að virðast sjálfsagt að hér starfi áfram þingflokkar.  En ef til vill ættum við að staldra við og spyrja hvort ástæða sé til að gera ráð fyrir því í stjórnarskrá.  Eftir því sem ég best veit eru engir sérstakir flokkar starfandi innan stjórnlagaráðs, bara einstaklingar.  Mér sýnist líka að starf stjórnlagaráðs hafi gengið ágætlega, þar hafi farið fram málefnalegar umræður, og niðurstaða fengist úr þeim.  Það þýðir auðvitað ekki að allir séu ánægðir með niðurstöðuna (ég er, eins og fleiri, óánægður með margt), en flest sættum við okkur við að lenda í minnihluta þegar starfað er með gagnsæjum hætti, án baktjaldamakks og hrossakaupa.  Að þessu leyti er ekki annað að sjá en að stjórnlagaráð hafi unnið með þeim hætti  sem Alþingi hefur ekki tekist í áratugi.

Alþingi hefur lengi verið vettvangur fyrir leðjuslag.  Það eigum við að þakka stjórnmálaflokkum sem eru allir að mestu leyti ófærir um að takast á við verkefnin sem þingið á að leysa.  Auk þeirrar ógeðfelldu hagsmunagæslu fyrir ýmis valdaöfl sem ekki ættu að hafa þann aðgang að löggjafarvaldinu sem raun ber vitni, hefur flokkunum sem drottnað hafa yfir Alþingi á sextíu og fimm árum ekki tekist að vinna tíunda hlutann af því verki sem Stjórnlagaráð hefur nú gert á fjórum mánuðum.

Það er ekki náttúrulögmál að stjórnmálaflokkar ráði lögum og lofum á Alþingi.  Það er ekki náttúrulögmál að við þurfum að sætta okkur við þær hörmungar fúsks og spillingar sem stjórnmálaflokkar landsins hafa fært okkur.  Íhaldssemi er skiljanleg pólitísk grundvallarafstaða, þegar hún snýst um tregðu til að breyta hlutum sem virka sæmilega.  Að vera íhaldssamur á núverandi flokksræði á Íslandi er illskiljanlegt, nema hjá þeim sem hafa makað krókinn á því, á kostnað annarra og á kostnað heilbrigðra stjórnarhátta.

Væri ekki nær að Stjórnlagaráð reyndi að endurskapa Alþingi í sinni mynd, fremur en að stuðla að framhaldslífi þessa gerspillta flokkakerfis?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur