Mánudagur 4.4.2011 - 16:59 - 2 ummæli

Gunnar Birgisson ER holdgervingur spillingar og valdhroka

Fyrirsögnin á þessari frétt er röng.   Gunnar Birgisson ER holdgervingur spillingar og valdhroka í augum mjög margra. En, það er refsivert að segja það, samkvæmt nýlegum dómi.

Ég efast reyndar um að Hæstiréttur muni staðfesta þetta, hvað þá Mannréttindadómstóll Evrópu,  ef þetta fer svo langt.  Ekki bara af því að fólk í valdastöðum á ekki að njóta verndar réttarkerfisins gagnvart svona ummælum — það fer í bága við allar sæmilegar hugmyndir um skoðana- og tjáningarfrelsi — heldur líka vegna þess að það er fráleit hugmynd að dómstólar geti tekið að sér að úrskurða, út frá gögnum, hvaða valdamanneskjur séu holdgervingar spillingar og valdhroka.  Ætti þessi dómur að standa hlyti það að leiða til þess að aldrei mætti segja  neina valdamanneskju holdgerving spillingar og valdhroka.  Það virðist óhugsandi afstaða í lýðræðisríki.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.4.2011 - 21:02 - 1 ummæli

Priyanka, Jussanam og Ögmundur

Það er gleðilegt að sjá viðbrögðin í fjölmiðlum (og á Facebook) við ákallinu um stuðning til handa Priyanka Thapa, ungri nepalskri stúlku sem búið hefur á Íslandi síðastliðið ár, en á yfir höfði sér brottvísun, samkvæmt ákvörðun Útlendngastofnunar, og síðan að verða gift manni gegn vilja sínum í heimalandinu. Þessi miklu og almennu viðbrögð gera að verkum að maður skammast sín aðeins minna fyrir að vera Íslendingur, þótt hryllilegt sé að horfa upp á mannúðarleysið sem einkennir ákvarðanir þessarar stofnunar.

Þetta er því miður langt frá því að vera einsdæmi, og reyndar eru þeir fjölmargir sem vísað hefur verið úr landi síðustu árin, á forsendum sem eru í besta falli grimmdarlegar, en í sumum tilfellum hreint brot á þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland er þó aðili að. Eiit slíkt mál var brottvísun ungs írasks manns til Grikklands (þaðan sem hann kom til Íslands), Sú ákvörðun var á endanum staðfest af þáverandi dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk á sig geislabaug í starfi, þrátt fyrir ógeðfelldar ákvarðanir af þessu tagi. Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg hefur úrskurðað að það brjóti á rétti hælisleitenda að senda þá aftur til Grikklands, vegna illrar meðferðar á þeim þar.

Annað mál sem verið hefur í fréttum af og til síðasta árið er mál Jussanam Dejah frá Brasílíu. Hún var svipt landvistar- og atvinnuleyfi í maí í fyrra, af því hún skildi við eiginmann sinn að borði og sæng, þótt lögskilnaður hafi enn ekki orðið. Þar með missti hún starf sitt á leikskóla, þar sem allt bendir til að hún hafi staðið sig afar vel. Þetta er smánarleg framkoma við konu sem hefur það eitt til saka unnið að vilja skilja við íslenskan eiginmann.

Það er eitthvað mikið að á Útlendingastofnun sem sífellt brýtur gegn siðferðisvitund stórs hluta landsmanna. Það er líka mikið að í Innanríkisráðuneyti Ögmundar Jónassonar, sem tók við af Rögnu Árnadóttur, að hafa ekkert gert í þessum málum þau tvö ár sem ríkisstjórnin hefur setið, því mál af þessu tagi hafa sífellt verið í fréttum, í mörg ár. Ráðherra á auðvitað helst ekki að (þurfa að) skipta sér beinlínis af málum af þessu tagi, nema þegar þeim er áfrýjað til hans, sem gerist reyndar. Hins vegar er það ófyrirgefanlegt af ríkisstjórninni, og þá sérstaklega ráðherra þessara mála, að horfa aðgerðalaus á þær ljótu ákvarðanir sem þessi stofnun tekur æ ofan í æ.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2011 - 23:51 - 11 ummæli

Opið bréf til Róberts Marshall

Sæll Róbert.

Ég ætla ekki að tjá mig um þessa frétt í sjálfri sér:  http://eyjan.is/2011/03/30/milljardamaeringar-vilja-islenskt-rikisfang-ekki-sagdir-asaelast-audlindir/ Hún er hins vegar tilefni þess að mig langar að spyrja þig hvort þú þekkir til máls Jussanam Dejah, sem  búið hefur lengi og unnið á Íslandi, en missti dvalar- og atvinnuleyfi sitt þegar hún skildi við íslenskan mann sinn.

Mál Jussanam er varla einstakt, og full þörf á að breyta þeim ómannúðlegu reglum sem þar um ræðir.  Hins vegar ætla ég að nota tækifærið og hvetja þig, sem formann Allsherjarnefndar, til að beita þér fyrir því að Jussanam verði umsvifalaust veittur ríkisborgararéttur.  Í framhaldinu væri svo eðlilegt að þessi mál verði leyst í eitt skipti fyrir öll með því að breyta þeim reglum sem gera maka íslendinga sem skilja við þá skyndilega réttlausa, þótt þeir hafi búið lengi á landinu.  Slík afstaða er ekki sæmandi mannúðlegu samfélagi.

Bestu kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.3.2011 - 16:12 - 2 ummæli

Auk þess legg ég til …

… að gerð verði vönduð úttekt á því hvernig OR gat breyst úr stöndugu fyrirtæki, með pottþéttar og fyrirsjáanlegar tekjur, í að vera nánast gjaldþrota.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.3.2011 - 17:54 - 15 ummæli

Tryggvi Þór kastar grjóti úr glerhöllinni

Í bloggpistli í dag varar Tryggvi Þór Herbertsson við fólki sem „hljómar eins og hagfræðingar“.  Ég held að slíkt fólk sé upp til hópa mun hættuminna en þeir „alvöru“ hagfræðingar sem, eins og Tryggvi,  bæði spiluðu með í bóluhagkerfinu og lýstu í sífellu yfir hvað það væri traust.  Tryggvi bítur höfuðið af skömminni með því að tala eins og hann hafi meira vit en aðrir á hagfræði.  Það hefur hann greinilega ekki, því bóluhagkerfið hafði einmitt öll einkenni bólu, sem talsvert hefur verið fjallað um í hagfræðinni.  Nema hann sé svo siðlaus að hafa makað krókinn á kerfi sem hann vissi að myndi hrynja og valda fjölda fólks gríðarlegum búsifjum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 14:28 - 11 ummæli

Gráðugir bankastjórar — máttlaus forsætisráðherra

Af hverju dettur fólki í hug að borga  íslensku bankastjórunum svona há laun?  Skýring varaformanns stjórnar Arionbanka í hádegisfréttum RÚV í dag var engin skýring, nefnilega að það hefði þurft að borga svona mikið til að ráða þennan mann.  Spurningin er hvort það ætti ekki að leggja blátt bann við því að ráða í bankastjórastöðu mann sem heimtar svona há laun.  Öfugt við það sem margir halda fram virðist ekki vera nein jákvæð fylgni milli þess að hafa ofurlaun og að standa sig vel í starfi.  Reyndar er ýmislegt sem bendir til hins gagnstæða.  Þar á meðal er þessi áhugaverði fyrirlestur.

En eiginlega þurfum við ekki að fara langt til að sjá villuna í þeirri staðhæfingu að þeir sem heimta og fá ofurlaun séu líklegri til að vera góðir stjórnendur en hinir nægjusömu.  Þetta eru rökin sem notuð voru fyrir brjálæðislegum launum í bankakerfinu fyrir hrun.  Ljóst er ef reynslunni að margt af fólkinu sem naut þeirra launa var versta fólk sem hægt var að finna í þessi störf.

Hneykslun forsætisráðherra á ofurlaunum væri gleðileg ef ekki vildi svo illa til að hún er búin að tjá sig um mál af þessu tagi í meira en þau tvö ár sem hún hefur setið í embætti.  Úr því henni finnst þetta siðlaust, og það virðist löglegt, þá stendur upp á hana að kippa þessu í lag.

Ég á ekki við að setja eigi sérstök lög um þetta, því ég sé ekki að það yrði auðvelt (þótt vel mætti velta fyrir sér möguleikunum á slíku).  Ég er eindregið fylgjandi frjálsum markaði þar sem hann virkar vel, og sem minnstum afskiptum ríkisvaldsins af atvinnulífinu.  En ég get ekki fyrir mitt litla líf séð annað, eftir reynsluna af íslensku bönkunum fyrir og eftir hrun, en að það yrði betra fyrir almenning að bankarnir yrðu þjóðnýttir í einhvern tíma, meðan verið er að koma siðferðinu og hugsunarhættinum innan þeirra í geðslegri farveg.  Ef það er þá einhver raunverulegur vilji innan ríkisstjórnarinnar til að bæta siðferðið …

Á meðan forsætisráðherra lætur sér nægja að lýsa vanþóknun sinni á framferði bankanna, án þess að lyfta litla fingri til að breyta því, hlæja fjármálaklíkurnar bara að henni á bak við alvörugefin smettin um leið og þær halda áfram að maka krókinn á kostnað almennings.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur