Mánudagur 14.2.2011 - 12:04 - 11 ummæli

Áskorun til Björns Inga Hrafnssonar

Björn Ingi Hrafnsson er nýlega orðinn einn af eigendum Eyjunnar.  Hann er líka stjórnarformaður Eyjunnar og einnig Vefpressunnar, sem er eigandi Eyjunnar, Pressunnar og fleiri vefmiðla.  Auk þessa titlar Björn sig „útgefanda“ Eyjunnar.  Það er ekki alveg nýtt á Íslandi, því Óskar Magnússon tók sér þennan titil á Morgunblaðinu skömmu áður en Davíð Oddsson var gerður að ritstjóra, en þetta er líka þekkt á nokkrum frægum dagblöðum erlendis, eins og New York Times og Washington Post.  Þessi titill sem Björn hefur sæmt sig bendir til að hann ætli að hafa afskipti af ritstjórnarstefnu Eyjunnar eða jafnvel ákvarða hana einn.

Því er ástæða til að þýfga Björn um stefnu hans á þessum vettvangi, svo lesendum Eyjunnar megi ljóst vera við hverju er að búast.  Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að hér varð nýlega efnahagshrun, sem hefur eðlilega haft mikil áhrif á fjölmiðlun í landinu, og mun hafa lengi enn, enda verða eftirköst hrunsins væntanlega eitt af helstu umfjöllunarefnum fjölmiðla næstu árin.

Björn hefur ekki verið stikkfrí varðandi hrunið og álitamál sem upp hafa komið í tengslum við það.  Hann lék talsvert hlutverk í stjórnmálum Reykjavíkurborgar skömmu fyrir hrun, þar sem afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar um Orkuveitu Reykjavíkur, og einnig hafa verið fréttir í fjölmiðlum um óeðlileg kúlulán sem Björn á að hafa þegið,

Það er óþægilegt, svo ekki sé kveðið fastar að orði, þegar fólk með fortíð í forystu stjórnmálanna, og tengsl við umdeilda fjármálafyrirgreiðslu í darraðadansinum fyrir hrun, leggur undir sig fjölmiðla.

Því er hér með skorað á Björn Inga að hann lýsi með skýrum hætti þeirri stefnu sem fylgt verður í ritstjórn Eyjunnar, og ennfremur að hann geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi eigin fjármálagjörninga síðustu árin, og hvernig mál tengd þeim standa í dag.

PS.  Svo þetta kæmist örugglega til skila hef ég sent þennan pistil Birni Inga, og Karli Th. Birgissyni, ritstjóra Eyjunnar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.2.2011 - 20:59 - 12 ummæli

Þorsteinn Már — græðgin og reiðin

Þorsteinn Már Baldvinsson varð milljarðamæringur á kvótakerfinu, í boði þjóðarinnar. Hann var stjórnarformaður Glitnis í hálft ár áður en bankinn var yfirtekinn af ríkinu, og starfsemi þess banka kostaði þjóðina tugi eða hundruð milljarða, ekki síst vegna þeirra blekkinga og svika sem stunduð voru á meðan Þorsteinn bar ábyrgð á bankanum. Þrátt fyrir þetta hefur þjóðin ekki sýnt honum sérlega mikla reiði.

Vel má vera að Þorsteinn hafi komið góðum hlutum til leiðar í fiskveiðum og fiskvinnslu á Íslandi. En hann fann ekki upp fiskveiðar, og hann færði þessari þjóð ekki stórkostlegar nýjungar sem hún nyti góðs af í stórum stíl. Þorsteinn efnaðist á því að geta ausið endurgjaldslaust úr óþrjótandi auðlind, sem þjóðin leyfði honum að gera.

Flestir geta reiðst, og það er fyrirgefanlegt, ef beðist er fyrirgefningar, eins og búast má við að Þorsteinn muni gera, vegna framgöngu sinnar á Akureyri í gær. Vel má líka vera að græðgi sé ekki það fyrsta sem þeim dettur í hug sem þekkja hann.

En þeirri grægði sem felst í kröfu kvótahafa um að fá afgjalds- og endalaus afnot af fiskveiðiauðlindinni verður að linna. Og gott væri að þeir sem orðið hafa stórefnamenn sakir þessarar gjafmildi þjóðarinnar, og voru þar að auki forystumenn bankanna sem rústuðu efnahag hennar, hafi hemil á reiði sinni þegar þjóðin ræðir um að minnka ofsagróða þeirra. Annars er hætt við að þeir verði kaffærðir af þeirri réttlátu reiði sem ólgar með þjóðinni í dag.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.2.2011 - 12:00 - 14 ummæli

Búrkur, skíðamenn og skammdegi

Bæði Ingibjörg Sôlrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vilja banna konum að klæðast búrkum á Íslandi.  Þorgerður virðist telja að slíkt bann sé í lagi af því að búrkur falli ekki að íslenskri menningu, sjá hér. Ingibjörg er svolítið almennari, og talar um bann við að fólk hylji andlit sitt, af því að „við þurfum líka að sjá framan í fólk á opinberum fundum en ekki búa við það að hluti fundarmanna sé með andlitsgrímur sbr. fund í Iðnó“ eins og fram kemur hér.

Það er (vonandi) útilokað að setja lög sem banna fólki að klæðast tiltekinni tegund af fötum, þótt hins vegar væri hægt að banna klæðnað sem hylur andlit fólks, enda eru slík ákvæði þegar í lögum, nefnilega getur lögregla bannað slíkt „ef til óspekta horfir á opinberum samkomum.“

Vandamálið við lög af þessu tagi er að ef fólki er bannað að hylja andlit sitt á opinberum stöðum þá verður slíkt bann að vera almennt, svo ekki sé um að ræða óeðlilega mismunun á grundvelli skoðana eða trúarbragða.  Því hlyti að vera bannað að hylja andlit sitt eins og fólk gerir gjarnan á skíðum eða í annarri útivist í köldu veðri.  Það þyrfti þá líka að banna fólki að hylja andlit sitt að mestu leyti á götum úti eins og margir gera þegar napurt er í því skammdegismyrkri sem gerir enn erfiðara að greina andlit fólks.

Engum dettur í hug að banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri til að verjast kulda.  Þess vegna er ekki stætt á því að banna búrkunotkun, því það samræmist ekki hugmyndum um frelsi og mannréttindi að mismuna fólki eftir trúarbrögðum eða öðrum skoðunum.

Þótt okkur finnist mörgum búrkur jafn óskemmtilegur klæðnaður og þeim stöllum Þorgerði og Ingibjörgu, ekki síst vegna þeirra viðhorfa til kvenna sem þær eru oftast tjáning á, þá eru sem betur fer miklu færri sem vilja lögfesta þá kúgun sem  Þorgerður og Ingibjörg tala fyrir.  Skoðanir Þorgerðar á því hvað sé passandi fyrir íslenska menningu og kvenfrelsishugmyndir eru ekki rétthærri hugmyndum annarra, og ef Ingibjörgu finnst vont að vera á fundum þar sem sumir fundargestir kjósa að hylja andlit sitt, þá er til einföld lausn á því. Hún getur setið heima.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.1.2011 - 14:35 - 8 ummæli

Samtök Arðræningja rífa kjaft

Það er að bera í bakkafullan læk að gagnrýna forystu Samtaka Atvinnulifsins.  En vegna þess hvers konar forarvilpu forysta þeirra samtaka reynir að búa til með áróðri sínum veitir ekki af að viðhalda sírennsli af fersku vatni yfir hana, og þá er betra að ferska vatnið flói út fyrir en eiga á hættu að forin kaffæri okkur.

Þótt í Samtökum Atvinnulífsins sé fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru heiðarlega rekin, af heiðarlegu fólki, þá virðist forysta þeirra vinna að því hörðum höndum að breyta ímynd samtakanna, í hugum almennings, í Samtök Arðræningja.

Framkvæmdastjórinn Vilhjálmur Egilsson  talar, dauðhræddur, um að forsætisráðherra eigi að „halda ró sinni“ og ekki „hræðast viðfangsefnin“, heldur „ræði málefnalega við samtökin um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni.“  Ef til vill er þetta snjallt, því ekki er útilokað að einhverjir gangi í gildruna og sjái ekki að maðurinn er að tala um sjálfan sig en ekki andstæðinginn.

Málefnið er eignarhald á fiskveiðiauðlindinni, sem var afhent útvöldum skara sem fékk þar með tugi eða hundruð milljarða á silfurfati.  Ef til vill hefur Vilhjálmur fylgst illa með, en yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill endurheimta þessi auðæfi, enda voru þau aldrei gefin, aðeins lánuð.  Um þá endurheimtingu ætti ekki að ræða neitt sérstaklega við SA eða LÍU, því það er löngu tímabært að hætta þeim landlæga ósið að sérhagsmunaaðilar setji lög og reglur um eigið starf og ráðskist með verðmæti sem þeir eiga ekkert í.

Vilhjálmur segir líka um forsætisráðherra að það sé fordæmalaust hvernig hún ráðist á SA og LÍU.  Hér bregður enn einu sinni fyrir uppáhaldstækni íslensks valdafólks (sem e.t.v. ætti að íhuga útflutning á?), nefnilega að leika fórnarlamb ofsókna og eineltis þegar litlu krakkarnir í hverfinu biðja um að fá boltann sinn aftur úr höndum stálpuðu hrekkjusvínanna.  Sé rétt  að þetta sé fordæmislaust er svei mér þá tími til kominn, enda er það varla fordæmislaust að Vilhjálmur og hans nótar taki í gíslingu  gerð kjarasamninga til að þjóna þröngum sérhagsmunum útgerðarauðvaldsins eins og raunin er hér.

Það væri bæði ókurteist og ósanngjarnt að taka undir staðhæfingarnar um að Vilhjálmur sé bara bjáni. En það er ráðgáta af hverju hann leikur alltaf grunnhygginn, vælinn og sjálfhverfan krakka.

Formaður Samtaka Arðræningja, Vilmundur Jósefsson,  vildi ekki leika minna hlutverk í þessu leihúsi fáránleikans, eins og lesa mátti hér.  Hann segir „maður veltir því fyrir sér hvort við séum farin að nálgast ástandið í Venesúela eða Miðbaugs-Gíneu.“  Þessu þarf ekkert að velta fyrir sér.  Ástandið á Íslandi hefur í nokkur ár verið svipað því sem er í Zimbabve.  Það eigum við að þakka mörgum af umbjóðendum þessara miður heiðarlegu tvímenninga sem nú reyna að slá í augu landsmanna því ryki sem þyrlaðist upp þegar félagar þeirra lögðu landið í rúst.

Ég er ekki stuðningsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur eða ríkisstjórnar hennar.  Þaðan af síður styð ég flokkinn hennar, sem hefur brugðist nánast öllum vonum sem við hann voru bundnar.   Ekki heldur er ég hallur undir samstarfsflokk hennar, enda er ég fylgjandi frjálsum markaði þar sem hann virkar og þar sem hann er ekki afskræmdur í þá einkavinavæðingu sem íslenskir pilsfaldakapítalistar hafa makað krókinn á.

En það kom þægilega á óvart hvað Jóhanna talaði skorinort um hótanapólitík þeirra hræddu arðræningja sem óttast að missa spón úr askinum sem þeir hafa fyllt svo út af flóir, samtímis sem þeir hafa gert fjölda saklauss, heiðarlegs og vinnandi fólks að ölmusumönnum.  Ef flokkur Jóhönnu, og ríkisstjórnin, vildu og þyrðu að setja Samtökum Arðræningja þau mörk sem eðlileg eru, þá er aldrei að vita nema þeim tækist að endurheimta eitthvað af því trausti sem þau hafa réttilega glatað.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.1.2011 - 13:55 - 3 ummæli

Góð upprifjun um Nímenningamálið

Í gær birtist á Eyjunni grein eftir Jón Guðmundsson blaðbera á Selfossi.  Hún fjallar um Nímenningamálið, og er svo þörf upprifjun að ég get ekki stillt mig um að birta glefsur úr henni hér að neðan.  En, lesið sjálf þessa fínu grein; hún er hér.

Það hlýtur að vera í fyrsta skipti í ritaðri sögu að níu óvopnaðir einstaklingar geri tilraun til að ná völdum án þess að beita né hóta ofbeldi. Það sem næst þessu kemst hlýtur að vera yfirtaka Jörundar hundadagakonungs, sem þó tók einn mann í gíslingu.

Mikill sannfæringarkraftur hlýtur að vera nauðsynlegur ef valdaránið á að takast með því eingöngu að lesa yfirlýsingu frá þingpöllunum, óvopnuð og án hótana um ofbeldi.

… Einar K. Guðfinnsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, en erfitt er að taka mark á honum því svo virðist sem atburðurinn vaxi honum í augum í hvert sinn er hann minnist á hann, frá því að vera „strákur sem birtist þarna með einhver læti“ og honum „brá ekkert sérstaklega“ í viðtali skömmu eftir atburðinn, yfir í að hafa verið „brugðið“ í réttarsal tveimur árum síðar. Daginn eftir á bloggsíðu sinni var hann viss um að til hefði staðið að „hertaka þingið“ og „hefði þá ekki þurft að spyrja að leikslokum“.

Ragnar Aðalsteinsson, verjandi fjögurra þeirra ákærðu, tekur það fram í málflutningi sínum að óhlýðni við valdboð komi oft fyrir dóma og sé það talin nokkuð örugg sakargift því dómstólar virðast ekki telja að það skipti máli hvort valdboðið sé löglegt eða ekki.

Í máli níumenningana voru send árásarboð frá Alþingi sem notuð eru þegar um vopnaða árás er að ræða. Yfirmaður öryggisgæslu Alþingis taldi að hættu stafaði af gestunum. Sumir þingverðir urðu skelkaðir vegna þess að gestirnir lutu ekki almennum reglum um klæðaburð og aðrir opinberuðu fordóma sína með vitnisburði eins og: „við hleypum ekki svona fólki inn“.

Einkaréttur á valdbeitingu og frelsissviptingu sem lögreglan hefur samkvæmt lögum, virðist því ekki lúta neinum skráðum reglum. Þess í stað er um að ræða einhverskonar huglægt mat sem lögreglan sjálf skilreinir og dómsstólar draga ekki í efa.

Ef annar hluti upptökunnar hefði styrkt málstað skrifstofu Alþingis þá hefði hann einnig verið notaður. Einmitt þess vegna er ljóst að restin af upptökunni veikti málstaðinn sem sýnir einbeittan brotavilja Alþingis þegar það ákvað að eyða sönnunargögnunum.

Hverjir njóta góðs af því að þessir níu einstaklingar séu bak við lás og slá næstu 16 árin? Hvaða breytingar munu eiga sér stað í okkar samfélagi ef þau verða fundin sek um valdarán sem aldrei var framið né stóð til að fremja?

Ef hægt er að teygja lögin á þann hátt að heimsókn á þingpalla leiði til sakfellingar fyrir tilraun til valdaráns þá er komið alvarlegt fordæmi fyrir því að valdhafar á Íslandi geti áreynslulaust notfært sér dómstóla til að koma frá fólki sem það telur ógn við valdastöðu sína.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.1.2011 - 21:40 - 19 ummæli

Ömurlegur „fréttaflutningur“ RÚV

Fyrsta fréttin í útvarpi RÚV í kvöld (og hluti af fyrstu frétt sjónvarps RÚV) fjallaði um hvernig bregðast bæri við úrskurði Hæstaréttar sem ógilti kosninguna til Stjórnlagaþings.  Nánar tiltekið fjallaði þessi langa aðalfrétt um skoðun eins manns úti í bæ á þessu efni.

Þessi maður sem fenginn var til að kynna skoðanir sínar svona rækilega í útvarpi landsmanna var kynntur sem prófessor í stjórnmálafræði og heitir Gunnar Helgi Kristinsson.  Það er útbreiddur (og aðallega íslenskur) misskilningur að stjórnmálafræðingar viti eitthvað meira um stjórnmál líðandi stundar en hver sem er (nema þá helst þegar upp koma aðstæður sem endurspegla svipaða atburði í sögunni, en það er mjög sjaldan raunin þegar stjórnmálafræðingar þessa lands eru fengnir til að tjá sig um stjórnmál í fjölmiðlum).  Í kvöld tók þó steininn úr, því augljóslega vita stjórnmálafræðingar landsins ekki nokkurn skapaðan hlut um stöðuna í Stjórnlagaþingsmálinu umfram hvern sem er, enda hefur aldrei áður verið haldið Stjórnlagaþing, hvað þá kosið til slíks þings eða kosningar dæmdar ógildar.

Það bætti ekki úr skák að Gunnar tók fræðimannsheiður sinn ekki hátíðlegar en svo að hann leyfði sér meira að segja að leggja til hvernig málið skyldi „leyst“, það er að segja með því að Alþingi skipaði stjórnlaganefnd, samsetta úr því fólki sem kosningu hlaut, og gæfi þar með Hæstarétti langt nef.  Auk þess gat Gunnar sér þess til að þátttaka gæti orðið mun minni ef kosið yrði að nýju, án þess að færa nokkur rök fyrir þeirri skoðun sinni, enda vandséð hvernig hann getur vitað nokkurn skapaðan hlut um það.

Ekki batnaði umfjöllun RÚV þegar talað var í Kastljósi við kollega Gunnars, Ólaf Þ. Harðarson, sem einnig er stjórnmálafræðiprófessor.  Hann talaði lengi um að fara þyrfti vandlega yfir og melta dóm Hæstaréttar, og einnig að ef til vill þyrfti að endurskoða lögin um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins.  Hvort tveggja er furðulegt, því dómur Hæstaréttar var mjög skýr:  Það sem var að voru allt hlutir sem brutu gegn þeim reglum sem gilda um Alþingiskosningar, enda hafði framkvæmdinni verið breytt þótt lög kvæðu á um að standa skyldi að þessum kosningum eins og kosningum til þings. (Þær breytingar eru óskiljanlegar í ljósi þess að landskjörstjórn, eða a.m.k. formaður hennar, er sú sama og í síðustu Alþingiskosningum).

Ólafur talaði reyndar líka um að hann hefði rætt  við lögfræðinga um málið, að því er virðist af því að honum fannst þetta svo flókið, sem undirstrikar að hann var ekki maðurinn sem átti að tala við um þetta í sjónvarpi, enda virtust lögfræðingarnir  einmitt hafa sagt honum ofangreint, sem þó þurfti ekki lögfræðimenntun til að skilja.  Tal Ólafs  um að ef til vill þyrfti að hafa önnur lög um kosningar af þessu tagi en til Alþingis er líka sérkennilegt, því ekkert af því sem Hæstiréttur fann að hefði verið minnsti vandi að hafa í lagi.

Gunnar og Ólafur bitu svo hvor sitt hálft höfuð af skömminni þegar þeir lögðu áherslu á að Stjórnlagaþingið væri jú bara ráðgefandi, sem Gunnar notaði sem rök fyrir leiðinni sem honum persónulega hugnast best, að Alþingi kjósi í stjórnlaganefnd þá sem kosningu hlutu til Stjórnlagaþingsins.  Skiljanlegt væri ef lögfræðingur legði áherslu á formlegt hlutverk þingsins.  En að prófessorar í stjórnmálafræði geri það bendir til að þeir séu alls óvitandi um hvað hrærist í þjóðarsálinni þessa dagana, því um þetta eru pólitísk átök, óháð því hvað var ákveðið formlega.

Það er til vansa fyrir „fræðimannsheiður“ þessara manna að þeir skuli láta kynna sig sem prófessora í stjórnmálafræði þegar þeir úttala sig um mál af þessu tagi.  Það er ekki síður til vansa fyrir skólann sem þeir starfa við.  Það er nefnilega ekki svona sem háskólafólk leggur af mörkum til umræðunnar í þjóðfélaginu.  Fræðimenn á hvaða sviði sem er ættu ekki að koma fram kynntir sem slíkir nema þeir séu að miðla af sérstakri þekkingu sem þeir hafa í krafti rannsóknastarfs síns.  Það gerðu þessir menn ekki í kvöld, og það gera þeir, og aðrir stjórnmálafræðingar landsins, nánast aldrei þegar þeir koma fram í fjölmiðlum.  Það er enn ein hliðin á fúskinu á Íslandi, sama fúski og því sem gerði Stjórnlagaþingskosninguna ógilda. Mál er að linni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur