Mánudagur 24.1.2011 - 22:35 - 7 ummæli

Einkarekstur, orkuauðlindir og Samfylkingin

Magnús Orri Schram skrifar grein í Fréttablaðið í dag um einkarekstur og orkuauðlindir.  Ekki er ljóst hvort hann lýsir hér stefnu Samfylkingarinnar, en gott væri að fá það á hreint.

Rétt er að taka fram í upphafi að undirritaður er fylgjandi einkarekstri í atvinnulífinu hvar sem hann virkar vel, en alls ekki þar sem hagsmunum almennings er betur borgið með opinberum rekstri.  Það er hins vegar ýmislegt athugavert við þá afstöðu sem birtist í grein Magnúsar. Þar á meðal er „röksemdafærslan“ sem hann beitir þegar hann segir eftirfarandi:

Það væri óskynsamlegt að stofna Útgerðarfélag Ríkisins sem sæi um þorskveiðar í Faxaflóa, og því er það ekki sjálfgefið að best væri að opinberir aðilar sjái um að bora eftir jarðgufu við Svartsengi.

Miklu betri leið til að tryggja almannahagmuni er að stytta lengd nýtingarsamninga við einkaaðila niður í 35 ár í stað 65 ára, og að tryggja að þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna.

Þetta „því“ sem stendur í fyrri málsgreininni bendir til að Magnús telji að staðhæfingin um óskynsemi þess að ríkið stundi fiskveiðar leiði af sér að ekki sé sjálfsagt að ríkið bori eftir gufu.  Þarna á milli er ekki röklegt samband og leiðinlegt að sjá slíkan blekkingaleik.
Þótt við tækjum undir að óskynsamlegt væri að láta ríkið sjá um þorskveiðar í Faxaflóa, og jafnvel þótt við föllumst á að ekki sé sjálfgefið að opinberir aðilar nýti gufuna í Svartsengi, þá leiðir heldur engan veginn af því að leiðin sem Magnús leggur til sé „miklu betri“ til að tryggja almannahagsmuni. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að það gerist með því að stytta nýtingarsamninga niður í 35 ár, og það er nákvæmlega ekkert sem segir að „þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna“ með því að leigja nýtingarréttinn til einkaaðila, hvort sem það er til langs eða skamms tíma.  Alveg sérstaklega virðist ólíklegt að verð á orku í heiminum muni lækka næstu áratugina (vegna síaukinnar eftirspurnar og sífellt dýrari olíu), og í því ljósi er ekkert sérlega trúlegt að það sé skynsamlegt að selja orku til margra áratuga í senn, eins og gert hefur verið til stóriðju hér, og eins með sölunni á HS Orku.
Auk þessa er þetta afar óheppileg ábending um þorskveiðarnar, því þótt til séu vel rekin útgerðarfyrirtæki á Íslandi keyrði greinin í heild sinni sjálfa sig nánast í gjaldþrot á síðustu árum fyrir hrun og stendur nú uppi með gríðarlegar skuldir.

Magnús segir líka

Þá er líka ósvarað hvort æskilegt sé að skattgreiðendur skuli bera áhættu af fjárfestingu í orkuvinnslu fyrir stöku stóriðjuverkefni.

Þessu er auðvelt að svara:  Sú áhætta sem felst í fjárfestingu í orkuvinnslu er ekki sérlega mikil, og alveg sérstaklega er hún hlutfallslega mjög lítil fyrir ríki sem rekur alla orkuvinnslu landsins sjálft.  Þetta er því engin röksemd gegn opinberum rekstri í orkugeiranum.

Magnús klykkir svo út með þessu:

Þannig eigi að gilda sömu reglur um orkuauðlindir og auðlindir sjávar.

Fyrir þessu eru alls engar röksemdir færðar, þótt ljóst megi vera að hér sé að mörgu leyti um gerólíka hluti að ræða.

Þar sem Magnús færir engin rök fyrir máli sínu læðist að manni sá grunur að hér sé ekki um að ræða afstöðu sem byggð er á þekkingu og ígrundun, heldur trúarsetningar.  Þessar trúarsetningar um ágæti einkarekstrar á öllum sviðum höfum við séð í ríkum mæli í marga áratugi, ekki síst síðustu tíu árin eða svo, og þær ganga gjarnan undir nafninu „frjálshyggja“ (sem er allt of fallegt nafn á þá ljótu útfærslu sem  leitt hefur til ofsagróða ýmissa pilsfaldakapítalista).

Reynslan af einkarekstri á Íslandi síðustu fimmtíu árin að minnsta kosti er að hann hafi í mjög mörgum tilfellum (t.d. í bankarekstri og olíusölu) verið einokun eða fákeppni útvaldra valdablokka, í skjóli ríkisins.  Reynslan síðustu tíu árin er hins vegar að einkarekstur margra stórfyrirtækja rústaði efnahagskerfi þjóðarinnar, og kom þúsundum saklauss fólks á vonarvöl.

Það er rétt að endurtaka að undirritaður er fylgjandi einkarekstri, og sem minnstum afskiptum ríksins, alls staðar þar sem það á við, og ég tel að með góðu umhverfi og leikreglum geti það átt við stóran hluta atvinnulífsins (en þó varla orkuvinnslu og veiturekstur).

En ef Samfylkingin ætlar að boða fagnaðarerindi einkarekstrar sem trúarsetningu á rústum íslensks efnahagslífs, áður en hún hefur sýnt nokkra tilburði til að taka til í rústunum, og meðan ekkert bendir til annars en að sömu valdablokkirnar muni í aðalatriðum halda áfram að maka krókinn hér, þá er það ágeng spurning hvert við eigum að snúa okkur sem teljum okkur vera frjálslynt og (hóflega) markaðssinnað félagshyggjufólk.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.1.2011 - 22:28 - 11 ummæli

Enginn grunaður um ekki neitt

Alvarlegar fréttir dynja á landsmönnum þessa dagana.  Í  ónotuðu herbergi í Alþingishúsinu fannst tölva, sem enginn kannast við að eiga.  Á henni fannst ekkert; hún var tóm, nema hvað á henni voru fingraför sem tilheyra starfsmanni þingsins.  Því þykir ljóst að einhver allt önnur manneskja hljóti að hafa komið henni fyrir í húsinu, og augljóslega til að njósna, þótt starfsmenn þingsins segi reyndar að ekki virðist hafa tekist að komast í nein gögn. Ekki var heldur útskýrt af hverju tölva inni í húsinu ætti auðveldara með að komast í gögn þingmanna en tölva tengd internetinu svonefnda, sem grunur leikur á að Alþingi tengist.

Þessar ógnvekjandi fréttir urðu til þess að forseti þingsins, Ásta R. Jóhannesdóttir, rauf þagnarbindindið sem hún hefur verið í síðan hún komst að þeirri niðurstöðu að hún mætti ekki tjá sig um tiltekið dómsmál (sem svo furðulega vildi til að var í hámarki nákvæmlega daginn sem tilkynnt var að tölvan hefði fundist (hún fannst að vísu ellefu mánuðum áður)), líklega af því að hún var þegar búin að tjá sig um málið og lýsa yfir að þetta fólk sem hún mátti ekki tjá sig um hefði slasað starfsmenn Alþingis.  Sem hún gerði löngu eftir að starfsmenn þingsins voru búnir að eyða öllum upptökum úr myndavélum hússins, nema þeim sem þeim þóttu nógu áhugaverðar.  Reyndar hafði þeim láðst að athuga að í upptökunum sem þeim fundust svo skemmtilegar kom í ljós að forseti þingsins fór með rangt mál.  Sem er víst lenska í húsinu, því skrifstofustjórinn hefur líka verið í þagnarbindindi síðan í ljós kom að hann fór frjálslega með staðreyndir (svo maður tali nú ekki á ruddalegri nótum) varðandi hegðan sína í þessu sama dómsmáli, sem hann hafði, í stundarheiðarleika, úrskurðað með öllu ólöglega.

Yfirlýsing þingforsetans var snilldarlega umskrifuð tilvitnun í orð Bandaríkjaforseta eftir árásina á Pearl Harbor, enda tilefnið álíka alvarlegt, nefnilega fundur munaðarlausrar tölvu í þinghúsinu:  „Nú verðum við að horfast í augu við það að við búum í breyttum heimi.“

Einhverjir fréttamenn sögðu líka frá því að lögreglan hefði engan grunaðan. Þess var ekki getið um hvað sá grunur snerist sem enginn lá undir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.1.2011 - 11:48 - 11 ummæli

Saksóknari missir tök á veruleikanum

Sé rétt eftir haft í þessari frétt er ekki annað að sjá en að Lára V. Júlíusdóttir lifi í allt öðrum veruleika en þeim sem flestir Íslendingar þekkja, jafnvel þeir sem lítið telja athugavert við að réttað sé yfir Nîmenningunum.

Nánast enginn hefur treyst sér til, eða talið ástæðu til, að verja þá ákvörðun Láru að ákæra Nímenningana á fyrir brot á 100. greinar hegningarlaga, sem fjallar um tilraunir til að svipta Alþingi sjálfræði, þ.e.a.s. um valdaránstilraunir. Ekkert hefur komið fram í réttarhöldunum sem breytir þeirri mynd sem löngu áður var komin fram:

Nímenningarnir reyndu að komast á þingpalla til að flytja stutt ávarp. Tveim þeirra tókst að komast þangað, en gátu ekki sagt nema tíu orð. Staðhæfingar um að einhver Nímenninganann hefði slasað þingvörð reyndust rangar, eins og kom fram í myndupptökum sem sýndar hafa verið í sjónvarpi (og það þótt starfsmenn Alþingis hafi fargað mestöllum upptökunum, nema þeim sem þeir töldu að væru „áhugaverðastar“ fyrir þá sjálfa).

Hafi það verið samantekin ráð (sem ekki hefur verið sýnt fram á í réttarhöldunum) að fara á þingpalla til að lesa upp yfirlýsingu þarf einbeittan sakfellingarvilja (ef ekki vænisýki á háu stigi) til að láta sér detta í hug að slíkt sé ógnun við öryggi Alþingis.

Að líkja aðgerðum Nîmenninganna við skipulagða vopnaða árás, þar sem fólki var misþyrmt hrottalega, er svo yfirgengilegt að fólk spyr sig hvort saksóknari sé með réttu ráði. Það er sorglegt að sjá Láru V. Júlíusdóttur setja upp þetta leikrit sem virðist ætla að verða persónulegur harmleikur fyrir hana sjálfa.

Fáir óska þess líklega, þrátt fyrir allt, að henni verði refsað eins og þó væri eðlilegt, fyrir að bera saklaust fólk svo þungum og röngum sökum, og að líkja því við samviskulausa ofbeldismenn. En félagar Láru í valdakerfinu verða að sjá til þess að þetta verði hennar síðasta verk í íslenska réttarkerfinu, og þeir þurfa að hreinsa eigin heiður með því að lýsa skorinort yfir að hér hafi verið farið langt yfir strikið, og að slíkt verði ekki liðið aftur.

Það er ekki nóg að lýsa yfir depurð, eins og forsætisráðherra gerði í fyrradag, það er tími til kominn að þeir sem völdin hafa taki ábyrgð á gerðum ríkisvaldsins.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.1.2011 - 11:59 - 17 ummæli

Ekki vera döpur, Jóhanna

Sæl Jóhanna.

Sá að þér finnst dapurlegt að verið sé að rétta yfir fólki sem hefur víst lítið til saka unnið annað en að taka þátt í tiltölulega friðsömum mótmælum í kjölfar hrunsins. Það er leiðinlegt að þú skulir vera svona döpur, en það er kannski huggun harmi gegn að það ættu að vera hæg heimatökin fyrir þig.

Ásta R. Jóhannesdóttir er nefnilega forseti Alþingis, hún sem hefur borið þá ákærðu röngum sökum, og neitað að leiðrétta rangfærslurnar af því að hún og Alþingi megi ekki tjá sig um málið meðan það er fyrir dómstólum (þótt hún hafi sem sagt þegar gert það). Ásta hefur heldur ekki viljað gera athugasemdir við þær kærur sem skrifstofustjóri Alþingis, undirmaður hennar, lagði fram, þar sem hann nefndi sérstaklega 100. grein hegningarlaga, sem fjallar um valdarán. Hvað þá að hún vilji fetta fingur út í að vinkona ykkar saksóknarinn pantaði kæru fyrir „húsbrot“ frá skrifstofustjóranum, sem segir sjálfur að slíkar pantanir séu með öllu ólöglegar.

Ef til vill er þér ekki kunnugt um að Ásta situr í sæti þingforseta í krafti þingflokks Samfylkingarinnar. Það mun vera sami flokkur og þú tilheyrir, og ég er svona að vona að þú hafir eitthvað að segja um hver skipar það sæti.

Saksóknarinn, Lára V. Júlíusdóttir, sem ákvað að ákæra fyrir valdaránstilraun, í trássi við niðurstöðu lögreglurannsóknar á málinu, ætti ekki að vera þér með öllu ókunnug heldur. Hún var aðstoðarmaður þinn 1987-88 þegar þú varst félagsmálaráðherra. Þú lést líka gera hana að formanni bankaráðs Seðlabankans í fyrra, manstu? Reyndar var það Alþingi sem kjöri hana til þess. Kannski fannst henni að hún launaði því greiðann með því að nota valdaránsákæruna gegn þessu liði sem var eitthvað að abbast upp á þingið.

Kannski manstu líka að Lára var í Stúdentaráði fyrir rúmum 30 árum þegar vinur þinn hann Össur fór á þingpalla og var með einhvern kjaft yfir þingmönnum, og tókst miklu betur upp en þessi liði sem nú er verið að rétta yfir, það náði bara að segja tíu orð, en Össur hélt langa ræðu. Enda var hann varinn af vöskum hópi samherja. Einhver fréttamaður spurði Láru í fyrra hvort hún hefði verið á pöllunum með Össuri. Hún kvaðst ekki muna það. Svona valkvætt minni er víst í tísku þessa dagana þarna niðri í Alþingi, því sumir af starfsmönnum þingsins mundu bara sumt og ekki annað þegar verið var að yfirheyra þá í réttarhöldunum í gær. Meira að segja myndavélarnar í þinghúsinu eru með svona slitrótt minni. Ku bara hafa geymt bestu bitana frá átökunum. Sumir starfsmenn þingsins sem yfirheyrðir voru í gær mundu líka eitthvað allt annað en það sem myndavélarnar þó mundu.

Langaði bara að benda á að þetta eru nánir vinir þínir, konurnar sem bera ábyrgð á þessum ofsóknum sem gerðu þig víst svo dapra í gær. Þær væru líklega ekki þar sem þær eru í dag nema af því þær eiga þig að.

Skil að þú sért döpur, En það er ráð, þegar maður hefur sjálfur kallað sorgina yfir sig, að drífa sig í tiltekt í eigin lífi. Þú gætir byrjað á að láta reka Ástu, svo hún geri ekki viðlíka skandala aftur. Og látið þau boð út ganga að það sé ekki svona, með þessum heiftúðugu ofsóknum Láru, sem maður þóknist þér.

Bara datt svona í hug að þetta gæti huggað þig svolítið í depurðinni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.1.2011 - 13:41 - 20 ummæli

Guardian um Nímenningamálið

Breska blaðið Guardian fjallaði um Nímenningamálið í gær.  Hróður íslenska „réttarríkisins“ berst víða.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.1.2011 - 17:44 - 6 ummæli

Pólitísk réttarhöld — skömm Alþingis

Á morgun hefst aðalmeðferð í Nímenningamálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta eru einhver umfangsmestu, og alvarlegustu, pólitísku réttarhöld á Íslandi í áratugi, og þau verða lengi í minnum höfð sem svívirðileg árás á tjáningarfrelsið, og sem heiftarleg viðbrögð óttasleginna valdhafa sem vita upp á sig skömmina, en geta ekki brugðist við með öðrum hætti en valdbeitingu.

Þáttur Alþingis í málinu er stór, mun stærri en forsvarsmenn þess vilja vera láta, og þeim mun verri sem Alþingi ætti að vera í fararbroddi við að verja lýðréttindi, en ekki að ráðast gegn fólki sem neytir þeirra.

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hefur ítrekað sagt (og látið skrifstofustjóra Alþingis segja fyrir sig) að hún geti ekkert aðhafst í málinu, það sé í höndum dómstóla og Alþingi megi ekki grípa inn í það. Staðreyndin er að hún hefur gefið yfirlýsingar um málið, þar sem hún hefur þar að auki farið með rangt mál (sjá póst hennar til Jóns Ólafssonar, sem birtist hér). Það er nógu slæmt, en sýnu verra að þykjast nú ekki geta tjáð sig um málið, þegar hún ætti að leiðrétta rangfærslurnar, og biðja afsökunar á að hafa haft saklaust fólk fyrir rangri sök, enda er það gífurlega alvarlegt mál þegar forseti þingsins misbeitir stöðu sinni með þessum hætti gegn almennum borgurum. Hér er góð grein eftir Ólaf Arnarson þar sem fram kemur að hún fer með rangt mál (sem hún hefur ekki leiðrétt) þegar hún segir í bréfi sínu til Jóns Ólafssonar „hópur fólks […] slasar starfsfólk þingsins.
Atburðir þessir koma greinilega fram á upptöku í öryggismyndavél.“

En skömm Alþingis í málinu er ekki einskorðuð við þá staðreynd að forseti þess hefur farið með staðlausa stafi um alvarlegt mál. Settur saksóknari í málinu, Lára V. Júlíusdóttir, er innanbúðarmaður í Samfylkingunni. Hún var varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn, fyrirrennara Samfylkingarinnar, og sat á þingi sem slíkur nokkrum sinnum á árunum 1987-90. Hún var líka aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, 1987-88. Hún er nú formaður bankaráðs Seðlabankans, kjörin af Alþingi, auðvitað fyrir tilstilli Samfylkingarinnar. Það er ljóst að hún er náinn kunningi ýmissa forystumanna Samfylkingarinnar á þingi, og það eitt hefði átt að nægja til að hún tæki ekki að sér mál af þessu tagi, þar sem Alþingi er annar málsaðili, og forseti Alþingis einn af þessum forystumönnum.

Það styrkir ekki heldur stöðu Láru sem saksóknara í þessu máli að hún sat í stjórn Stúdentaráðs þegar formaður þess, Össur Skarphéðinsson, las yfir þingheimi af þingpöllum, varinn af félögum sínum svo þingverðir gætu ekki stöðvað hann. Í samtali við fréttamann RÚV í fyrra sagðist Lára ekki muna hvort hún hefði verið á pöllunum í umrætt sinn. Þótt sá viðburður hafi ekki verið nógu merkilegur til að festast í minni hennar vill hún nú láta dæma níu manns til langrar fangelsisvistar fyrir svipaðar „sakir“.

Skrifstofustjóri Alþingis hefur heldur ekki hreinan skjöld í málinu. Það var hann sem nefndi 100. grein hegningarlaga í bréfi sínu til lögreglunnar, greinina sem Nímenningarnir eru ákærðir fyrir að brjóta, og sem fjallar um valdaránstilraunir. Skrifstofustjórinn, Helgi Bernódusson, var „ekki lítið undrandi“ þegar hann las þessa grein í Fréttablaðinu, og krafðist þess að ég birti leiðréttingu á staðhæfingu minni þar (auk afsökunarbeiðni sem honum fannst ég skulda sér). Að dæma af tölvupóstum hans og Láru, sem eru birtir hér, er ekki annað að sjá en að einmitt hafi verið um að ræða það samráð sem hann þvertekur fyrir, og sem þau neituðu bæði að hefði átt sér stað. Enda vildi hvorugt ræða við fréttamenn um málið þegar tölvupóstarnir höfðu verið birtir, og mætti þó vænta þess að Helgi hefði tekið slíku tækifæri fegins hendi til að útskýra í hverju meintar rangfærslur væru fólgnar.

Ásta hringdi líka í mig daginn sem fyrsta grein mín um Nímenningamálið birtist í Fréttablaðinu. Henni var mikið niðri fyrir, og vildi leiðrétta þann „misskilning“ að hún bæri einhverja ábyrgð á málinu, því hún hefði ekki verið orðin þingforseti þegar málið kom upp. Ég var of auðtrúa, og fékk birta athugasemd í blaðinu skömmu síðar þar sem ég sagði að e.t.v. hefði ég verið of harðorður þegar ég lagði til að Ásta yrði sett af sem þingforseti. Það var greinilega misskilningur.

Framkoma Ástu og Láru í þessu máli er sorglegt dæmi um verstu hliðarnar á því íslenska valdakerfi fúsks og kunningjaspillingar sem lék stórt hlutverk í hruninu. Þessir handhafar ríkisvaldsins gera það sem þeim sýnist, nota valdið blygðunarlaust til að berja á þeim sem voga sér að mótmæla spillingunni, og treysta á meðvirkni samherja sinna.

Því endurtek ég áskorun mína: Ástu R. Jóhannesdóttur hafa orðið á svo alvarleg afglöp í starfi að hún ætti að segja af sér sem forseti Alþingis. Geri hún það ekki ætti þingið að setja hana af. Alveg sérstaklega ætti þingflokkur Samfylkingarinnar að beita sér fyrir því, þar sem hann ber ábyrgð á stöðu hennar sem þingforseta.

PS. Skylt er að geta þess að níu alþingismenn fluttu þingsályktunartillögu þar sem sagt er „ekki eðlilegt að líta þannig á atvikin í Alþingishúsinu 8. desember 2008 að þar hafi fólk ráðist á Alþingi svo að því eða sjálfræði þess hafi verið hætta búin svo sem áskilið er í 100. gr. almennra hegningarlaga.“ Fyrsti flutningsmaður var Mörður Árnason, en hann hefur a.m.k. tvívegis bloggað um málið, hér og hér.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur