Fimmtudagur 13.09.2012 - 01:24 - FB ummæli ()

Stefnuræða um framtíð

Flutti minn skammt af hefðbundinni stefenuræðu í gærkvöld. Þar lýsti ég aðallega áhyggjum mínum af þeirri framtíð sem bíður Íslands verði ekki haldið skynsamlega á málum á næstu níu mánuðum. Þið getið lesið hvað ég á við hér fyrir neðan í ræðunni eða hlustað á hana hér. Talað orð gildir.

 

Stefnuræða 12. september 2012

Frú forseti, góðir landmenn.

Hér höfum við hlýtt á fjórðu stefnuræðu hæstvirts forsætisráðaherra Jóhönnu Sigurðardóttur frá kosningunum vorið 2009.  Eins og venjulega er hér á ferð mikil lofrulla um hversu vel hefur gengið frá Hruninu og fram eru settar af mikilli færni upplýsingar sem eru í besta falli til heimabrúks og alls ekki til þess fallnar að leggja mat á raunverulega stöðu samfélagsins.

Þó sumt hafi færst til betri vegar er það eins og alltaf gerist eftir allar miklar efnahagsþrengingar að leiðin liggur upp á við, eins og gerst hefði burtséð frá hvaða ríkisstjórn stýrði hér málum.

Sitjandi ríkisstjórn sem svo miklar vonir voru bundnar við hefur nú lagt fram þingmálalistann fyrir sitt síðasta þing á kjörtímabilinu og staðfestir þar með slæman grun margra að ekki verði staðið við þau loforð eða þau stefnumál sem lögð voru fram í aðdraganda síðustu kosninga. Utan stjórnarnskrármálsins sér stefnufestu ríkisstjórnarinnar einungis stað í einu atriði á öllum hennar líftíma og það er að halda til streitu yfirlýsingu hæstvirts forsætisráðherra frá 3. Desember 2010 er hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

“Ég held að í þessu skelfileg hruni sem þjóðin varð fyrir þá sé aldrei hægt að tala um neinn jöfnuð eða réttlæti ég held bara að við stöndum frammi fyrir því.”

Frú forseti.

Við þetta hefur ríkisstjórnin svo sannarlega staðið. Tugþúsundum íbúðareigenda sem sem urðu fyrir gríðarlegu tjóni vegna hruns krónunnar og verðbólguskotsins sem fylgdi í kjölfarið hefur ekki verið rétt sáttahönd heldur hafa þeir fengið blauta tusku í andlitið hvað eftir annað. Mesta réttlætismál lýðveldissögunnar liggur óbætt hjá garði og ekki nóg með það heldur gaf ríkisstjórnin bönkunum óheft skotleyfi á skuldara þrátt fyrir mikla niðurfærslu lána sem fluttust milli gömlu og nýju bankana. Gríðarlegur hagnaður bankanna nú ber þess glöggt merki.

En ekki nóg með það. Nú þegar sjálfur Hæstiréttur þjóðarinnar hefur dæmt stóran hluta þessara lána ólögleg hafa stjórnvöld tekið undir með þeim sem töpuðu málinu, bönkunum, og lagst á eitt við að aðstoða þá við að finna eitthvað sem kallast „ásættanleg lausn.“ Skiptir þá engu að um dóm Hæstaréttar er að ræða og hefur framkvæmdavaldið þess í stað skaffað bönkunum aðstoð ýmissa stofnana sinna til að hægt sé að draga málið enn frekar á langin með að minnsta kosti ellefu dómsmálum til viðbótar. Og Alþingi sjálft með sína efnahags- og skattanefnd og formann hennar, háttvirtann þingmann Helga Hjörvar í broddi fylkingar horfir þögul á.

Af nógu öðru er að taka en ég læt hér staðar numið um afstöðu stjórnarmeirihlutans til jöfnuðar og réttlætis.

Frú forseti.

Aðdragandi Hrunsins og þau stjórnmál sem rekin voru hér á landi á áratugunum þar á undan báru skýr merki af spilltu samfélagi. Óheft samspil athafnamanna, fjármagns og stjórnmála þar sem vildarvinir stjórnmálaflokka sölsuðu undir sig almannaeigur og auðlindir var reglan og þeir voru á góðri leið með að hirða stóru orkufyrirtækin líka þegar spilaborgin hrundi.

Ítarleg skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis varpaði skýru ljósi á atburðarásina og ekki þurfti mikla hugsun til að skilja að svo illa var komið fyrir íslensku samfélagi að það var á mörkum þess að geta talist til siðmenningar. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn ekki náð að snúa samfélaginu af þeirri braut. Það er því fyllilega við hæfi að hafa uppi varnaðarorð af þyngra taginu hvað framtíðina varðar.

Frú forseti.

Framundan eru þrír mikilvægir vegvísar sem Alþingi og landsmenn allir verða að tryggja að varði þann veg sem framundan er fyrir samfélagið okkar. Þrjár vörður sem við verðum að nota til að byggja hér nýtt og betra samfélag.

Sú fyrsta er þjóðaratkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá, stjórnarskrá sem sannarlega hefur verið skrifuð af þjóðinni, um þjóðina og fyrir þjóðina. Ítarlegt, vel yfir farið og vandað plagg sem Alþingi hefur svo glæsilega beðið þjóðina um og hún svo glæsilega afhent. Mikilvægt, og sennilega mikilvægara en nokkuð annað í lýðveldissögunni, er að landsmenn allir átti sig á mikilvægi þess að hún verði samþykkt.

Önnur varðan á ferðinni framundan er meðferð Alþingis á frumvarpinu að nýrri stjórnarskrá verði það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þar er mikilvægt að úrtölumenn gamla spillta Íslands nái ekki að stöðva málið og að blásið verði á þá kröfu að almenn samstaða verði að ríkja á þingi um stjórnarskrárbreytingarnar. Þetta er nefnilega ekki stjórnarskrá þingsins heldur stjórnarskrá þjóðarinnar og þegar meirhluti hennar hefur talað ber þinginu að fara eftir því. Þar mun því reyna á kjark þingmanna hér inn að láta ekki undan oki og málþófi minnihluta þingsins, undan oki gamla spillta Íslands.

Þriðja varðan á leiðinni er svo komandi Alþingiskosningar í apríl. Þar skiptir miklu máli að þjóðin losi sig í eitt skipti fyrir öll við Hrunverjana sem enn sitja á þingi og eða lúra í bakherbergjum flokkana. Þar skiptir einnig máli að kjósendur losi sig við þá þingmenn núverandi meirihluta sem brugðist hafa í eftirmála Hrunsins, þá þingmenn sem m.a. hafa staðið í vegi fyrir leiðréttingum á skuldum heimilanna, hafa stöðvað frumvörp um persónukjör, hafa stöðvað frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur, vilja færa útgerðinni kvótann til tuttugu ára og hafa tryggt það að fjármagnseigendum eru greiddir milli 80 og 90 milljarðar á ári í vexti úr ríkissjóði á sama tíma og ekki eru til penngar fyrir límbandi til að líma saman lækningatækin á Landspitalanum.

Frú forseti.

Þessar þrjár vörður marka framtíð þjóðarinnar og ef þeim verður ekki fylgt lýsi ég eftir framtíðarsýn þess fólks sem hafnar þeim.

Forseti.

Á þessu ári og snemma á því næsta, frá og með tuttugasta október og til loka apríl stöndum við á krossgötum, krossgötum sem munu skipta sköpum um framtíð Íslands og þar verðum við að velja rétta leið. Samfélag okkar eins og það leggur sig hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum, áfalli sem enn er ekki yfirstaðið og skiptir því miklu að rétt leið sé valin. Þar getur sagan verið okkur mikilvægur leiðarvísir ef við kjósum að rýna í hana.

Sagan sýnir okkur nefnilega að þjóðir og þjóðríki koma og fara og að það eru tvær meginástæður fyrir því að þjóðir fara, líða undir lok. Önnur er sú að þær eru yfirteknar í styrjöld og innlimaðar í aðrar stærri eða brotnar upp í smærri þjóðarbot. Um það höfum við ótal dæmi og nýleg.

Hin ástæðan er að þjóðir spillast, úrkynjast innan frá og liðast í sundur undan eigin vanmætti til að bregðast við spillingu og siðferðishruni. Hætta bara að vera til. Fyrst sem siðmenntað samfélag og síðar sem þjóð. Um það höfum við einnig dæmi og það nýleg.

Frú forseti.

Ef okkur ber gæfa til að fylgja þeim vörðum sem við þegar sjáum og vitum hvert leiða, þeim þremur vörðum sem upp voru taldar hér áðan. Þá hef ég ekki áhyggjur, þá mun þetta bjargast og þá er framtíðin björt.

Ef ekki, þá sitjum við uppi með gamla Ísland, það Ísland sem ekki var alvont en bar illilega af leið, gjörspilltist og hrundi. Fyrir slikt Ísland er ekki til nein framtíðarsýn.

Tökum því höndum saman, hér inni á þingi sem utan þess og tryggjum með samvinnu og langtímahugsun, heill og framtíð þjóðarinnar og látum skammtíma hugsun um gróða og völd lönd og leið. Það er að hluta til okkar Alþingismanna að vísa vegin inn í þessa framtíð og við megum ekki bregðast í því verkefni. Börnin okkar og börn framtíðarinnar eiga það skilið, eiga það svo sannarlega skilið.

Við þá hér inni sem vilja það ekki, vilja ekki fara þessa leið, þá sem hafa vermt þessa stóla svo lengi og til svo lítils gagns vil ég einfaldlega segja. Ykkar tími er liðinn, standið ekki í vegi fyrir framtíðinni.

Góðar stundir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur