Það er skrýtið að skrifa þessa fyrirsögn, mjög skrýtið, svolítið eins og maður sé að skrifa frétt frá útlöndum eða skáldsögu. Því miður er þetta þó íslenskur veruleiki dagsins. Með atburðinum í Árbænum mánudagsmorguninn 2. desember færðist íslenskt samfélag svo rækilega til og íslensk gildi guldu slíkt afhroð að dauðaþögn sló á fjölmiðla og netheima. Lögregla landsins, hvers eina hlutverk er að vernda borgarana drap einn þeirra á mjög skilvirkan og skilmerkilegan hátt og samkvæmt reglum, eins og sagt er. Miðað við þær aðstæður sem lýst hefur verið af lögreglunni var um mikið hættuástand að ræða og viðbrögð og aðgerðir lögreglu voru í fullu og eðlilegu samræmi við allar starfsreglur. Gott ef svo er og er ég ekki í neinni aðstöðu til að dæma þar um.
Það sem er alvarlegt við þennan atburð fyrir utan hörmuleg endalok eru þó einmitt reglurnar og orðræðan. Reglurnar sem ber að fylgja og orðræðan, orðræðan um glæpi, lögreglu og samfélagið sem undanfarin ár hefur smám saman undið upp á sig í átt til hræðsluáróðurs og ofbeldis- og vopnablætis. Þessi framvinda hugsunar og orðræðu veldur mér miklum áhyggjum og nú þegar það blasir við að íslenska lögreglan hefur drepið mann þá hlýtur það að vera skylda allra hlutaðeigandi og ófrávíkjanleg krafa að koma í veg fyrri að slíkt geti gerst aftur. Þessi pistill er hugsaður sem einhvers konar innlegg í þá umræðu.
Það sem er mikilvægt að verði rætt í þessu máli eru reglurnar og það umhverfi sem búið hefur verið til um svona mál og sem varð til þess að svo fór sem fór. Reglurnar, lögin og umhverfið sem leiddu til þess að lögreglan, eina starfstétt landsins sem má beita borgarana líkamlegu ofbeldi, gekk svo langt sem hún gerði og sem á endanum lauk með slíkum hörmungum sem dráp á manni er. Sjálfur tel ég að lögreglan sé almennt vönd að virðingu sinni og að lögreglumenn séu vandvirkir og samviskusamir í störfum sínum, störfum sem eru sennilega einhver erfiðustu störf sem hægt er að hugsa sér. Miðað við aðstæður eins og skapast um hverja helgi þegar ölvað og fíkniefnaþrútið næturlífið er í andarslitrunum árla morguns á laugar- og sunnudögum, er í raun eftirtektarvert að ekki skuli vera meira um það sem kallað er lögregluofbeldi þegar lögreglan þarf að kljást við fólk sem er viti sínu fjær af skemmtun. Þó vissulega hafi slæðst með slæm epli í lögregluna eins og aðrar starfsgreinar þrátt fyrir nokkuð góðar síur er slíkt sem betur fer fátítt og oftast tekst að lempa hlutina til næðis.
Þær reglur sem við búum við í dag eru ekki svo ýkja gamlar en eru þó þær að til er vel vopnuð og sérþjálfuð sveit lögreglumanna sem mega við ákveðin skilyrði drepa menn. Punktur. Það er staðan. Það má lengi deila um skilyrðin, aðstæðurnar, hætturnar og nauðsyn á slíkri sveit yfir höfuð sem og um einstök tilvik en staðan er engu að síður sú að þessi sérsveit má og hefur nú drepið einn af borgurum landsins. Þetta er hörmuleg niðurstaða þar sem allir sem komu að máli eiga svo sannarlega samúð skilið. Þetta mál verður vonandi rannsakað í þaula og öllum steinum velt við í þeirri rannsókn og hiklaust fundið út hvað hefði mátt gera betur og þá ekki bara á mánudaginn heldur einnig í aðdraganda hans. Þó ekki sé hægt að gefa sér niðurstöðu slíkrar rannsóknar fyrirfram þá er engu að síður tímabært að krefjast þess strax að slíkt geti ekki gerst aftur, helst aldrei nokkurn tíma. Að drepa mann er að taka frá honum allt sem hann á, allt sem hann hefur verið og allt sem hann hefði getað orðið. Verri gjörning en það er ekki hægt að hugsa sér.
Það má því miður halda því fram að aðdragandi málalykta af þessu tagi hafi verið langur og að það hafi eingöngu verið tímaspursmál hvenær kæmi að því að eitthvað þessu líkt gerðist og þessi málalok hljóma óneitanlega svolítið eins og titillinn á bók Márquez, Frásögn um margboðað morð, þó ekki sé hér um morð að ræða. Undan því verður ekki vikist og þar bera margir ábyrgð, að á undanförnum árum hefur færst síaukinn þungi í alla umræðu um „hætturnar“ sem steðja að samfélaginu. Hættur sem á sínum tíma voru ástæða þess að svo kölluð Víkingasveit lögreglu var sett á stofn, sveit sem síðar varð að Sérsveit Ríkislögreglustjóra og sem hefur verið í fréttum í stórauknum mæli undanfarin ár. Vítisenglar, Al Kaida, náttúruverndarsinnar, mótmælendur á Austurvelli, Falun Gong og fíkniefnasalar hafa tekið við af kommúnistum, verkafólki, listamönnum og augnveikum dreng sem hættulegustu element samfélagsins. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að dreifa fréttum af baráttu lögreglunnar við suma af þessum hópum enda myndefnið gott. Fréttirnar eru spennandi og myndefni af vopnuðum grímuklæddum sérsveitarmönnum við skyldustörf gegn mótórhjólamönnum á greiða leið á skjái og forsíður fjölmiðla. Skýrslur lögreglunnar um hætturnar sem steðja að og nauðsyn á frekari „heimildum“, vopnum og aðferðum eiga líka greiða leið í fjölmiðla og eru birtar gagnrýnislaust.
Undir þetta allt saman tekur svo einnig hluti alþingismanna sem margir hverjir virðast haldnir sama vopna- og ofbeldisblætinu. Á síðasta kjörtímabili varð ég í nefndum þingsins all oft vitni að hinum furðulegustu orðaskiptum alþingismanna og fulltrúa lögreglunnar, bæði yfirstjórnar og lögreglumanna þar sem einhvers konar blind og gagnrýnislaus aðdáun á hlutverki og starfi lögreglunnar skein úr augum og orðræðu þingmanna. Fyrir þingmenn sem eiga samkvæmt stjórnarskránni að hafa eftirlitshlutverk með framkvæmdavaldinu er það mjög varasamt þegar slík aðdáun nær tökum á fólki, sérstaklega þegar um lögregluna er að ræða vegna hins mjög svo sérstaka hlutverks hennar. Það sem var einnig athyglisvert er að einhverra hluta vegna voru þetta mestmegnis þingmenn úr einum ákveðnum stjórnmálaflokki sem virtist hafa einhver sérstök tengsl við lögreglulið landsins og stéttarfélag þeirra, sem í lýðræðisríki er að sjálfsögðu stórskrýtið mál.
Í þessu samhengi má ekki heldur gleyma því að núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vann sér það til vegs og virðingar sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu að verja með kjafti og klóm gróft mannréttindabrot stjórnvalda undir forystu þáverandi dómsmálaráðherra. Sá lét loka tugi Falun Gong meðlima inn í skóla í Keflavík og vísa tugum eða hundruðum frá landinu svo íslenskir ráðamenn gætu daðrað við forseta Kína án þess að hann móðgaðist af nærveru þeirra. Verknaður sem má ekki gleymast vegna þess hættulega fordæmis sem hann gaf.
Það er því nauðsynlegt að velta því upp hvort atburðurinn á mánudagsmorgun sé einhvers konar óhjákvæmilegt framhald á atburðarás sem lengi hefur mallað áfram með sí auknum þunga. Ýmislegt bendir til að svo sé. Það sem virðist svo einnig vera að gerast í kjölfarið er að orðræða ofbeldis- og vopnablætis heldur áfram. Í leiðara ritstjóra útbreiddasta dagblaðs landsins Fréttablaðsins er því umyrðalaust lýst yfir án allrar skoðunar að það hafi verið rétt og yfirvegað að drepa manninn og merki um það hversu vel Sérsveitin sé í stakk búin. Það er hér, nákvæmlega hér sem hættan liggur. Sú hætta er í því fólgin að atburðir sem þessir verða meðteknir sem venjulegur hluti af daglegu lífi. Það mun óhjákvæmilega gerast ef ekki er strax sagt stopp. Í því samhengi er því leiðari ritstjórans og önnur orðræða af sama meiði óhugnanleg lesning.
Þessa þróun verður því að stöðva og það strax því að öðru óbreyttu verður um framhald að ræða. Sem samfélag verðum við að bregðast öðruvísi við en með því að drepa samborgarana. Svörin við einstaka tilfellum liggja ef til vill ekki á lausu en þar til bær yfirvöld verða að grípa í taumana og leita annarra leiða en með áframhaldandi kalli á meiri vopn, meiri völd og meira ofbeldi. Þar má til dæmis nýta 74. grein sjálfrar stjórnarskrárinnar sem kveður á um bann við starfsemi samtaka sem talið er að hafi ólögmætan tilgang. Á þetta var ítrekað bent í umræðum á Alþingi um auknar „heilmildir“ til handa lögreglunni vegna vélhjólagengja en ábendingarnar féllu á dauf eyru og hamrað var í stað þess á meiri „heimildum“. Hinu má svo heldur ekki gleyma að glæpum á Íslandi fer fækkandi. Hér þurfa yfirvöld og Alþingi að leggja höfuðið í bleyti og hafa sem útgangspunkt að lögreglan megi aldrei nokkurn tíma beita skotvopnum gegn borgurunum. Sú aðferð hefur lukkast vel hér á landi hingað til þar til á mánudaginn og ekkert sem bendir til að svo geti ekki orðið áfram, ef menn leggja sig fram.
Vegna alvarleika atburðarins á mánudag og allra þeirra spurninga sem vakna um málalok hlýtur þó fyrsta skrefið að vera að bæði ríkislögreglustjóri og lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins víki sæti meðan rannsókn málsins fer fram og að innanríkisráðherra víki þeim frá hafi þeir ekki betri skilning á aðstæðum en svo. Þar ber Alþingi að grípa í taumana ef ráðherra brestur skynsemi og þor. Einnig þarf tafarlaust að leysa upp Sérsveitina og beina meðlimum hennar alfarið til annarra lögreglustafa. Ekki vegna vantrausts á starfi eða meðlimum hennar heldur vegna þess að tilvist hennar ein og sér kyndir undir ofbeldis- og vopnablæti sem mun óhjákvæmilega leiða aftur til manndráps. Þangað eigum við, ef við veljum vera friðsamt og siðmenntað samfélag, ekki að fara.
Nýlegar athugasemdir