Miðvikudagur 4.12.2013 - 10:49 - FB ummæli ()

Lögreglan drepur mann

Það er skrýtið að skrifa þessa fyrirsögn, mjög skrýtið, svolítið eins og maður sé að skrifa frétt frá útlöndum eða skáldsögu. Því miður er þetta þó íslenskur veruleiki dagsins. Með atburðinum í Árbænum mánudagsmorguninn 2. desember færðist íslenskt samfélag svo rækilega til og íslensk gildi guldu slíkt afhroð að dauðaþögn sló á fjölmiðla og netheima. Lögregla landsins, hvers eina hlutverk er að vernda borgarana drap einn þeirra á mjög skilvirkan og skilmerkilegan hátt og samkvæmt reglum, eins og sagt er. Miðað við þær aðstæður sem lýst hefur verið af lögreglunni var um mikið hættuástand að ræða og viðbrögð og aðgerðir lögreglu voru í fullu og eðlilegu samræmi við allar starfsreglur. Gott ef svo er og er ég ekki í neinni aðstöðu til að dæma þar um.

Það sem er alvarlegt við þennan atburð fyrir utan hörmuleg endalok eru þó einmitt reglurnar og orðræðan. Reglurnar sem ber að fylgja og orðræðan, orðræðan um glæpi, lögreglu og samfélagið sem undanfarin ár hefur smám saman undið upp á sig í átt til hræðsluáróðurs og ofbeldis- og vopnablætis. Þessi framvinda hugsunar og orðræðu veldur mér miklum áhyggjum og nú þegar það blasir við að íslenska lögreglan hefur drepið mann þá hlýtur það að vera skylda allra hlutaðeigandi og ófrávíkjanleg krafa að koma í veg fyrri að slíkt geti gerst aftur. Þessi pistill er hugsaður sem einhvers konar innlegg í þá umræðu.

Það sem er mikilvægt að verði rætt í þessu máli eru reglurnar og það umhverfi sem búið hefur verið til um svona mál og sem varð til þess að svo fór sem fór. Reglurnar, lögin og umhverfið sem leiddu til þess að lögreglan, eina starfstétt landsins sem má beita borgarana líkamlegu ofbeldi, gekk svo langt sem hún gerði og sem á endanum lauk með slíkum hörmungum sem dráp á manni er. Sjálfur tel ég að lögreglan sé almennt vönd að virðingu sinni og að lögreglumenn séu vandvirkir og samviskusamir í störfum sínum, störfum sem eru sennilega einhver erfiðustu störf sem hægt er að hugsa sér. Miðað við aðstæður eins og skapast um hverja helgi þegar ölvað og fíkniefnaþrútið næturlífið er í andarslitrunum árla morguns á laugar- og sunnudögum, er í raun eftirtektarvert að ekki skuli vera meira um það sem kallað er lögregluofbeldi þegar lögreglan þarf að kljást við fólk sem er viti sínu fjær af skemmtun. Þó vissulega hafi slæðst með slæm epli í lögregluna eins og aðrar starfsgreinar þrátt fyrir nokkuð góðar síur er slíkt sem betur fer fátítt og oftast tekst að lempa hlutina til næðis.

Þær reglur sem við búum við í dag eru ekki svo ýkja gamlar en eru þó þær að til er vel vopnuð og sérþjálfuð sveit lögreglumanna sem mega við ákveðin skilyrði drepa menn. Punktur. Það er staðan. Það má lengi deila um skilyrðin, aðstæðurnar, hætturnar og nauðsyn á slíkri sveit yfir höfuð sem og um einstök tilvik en staðan er engu að síður sú að þessi sérsveit má og hefur nú drepið einn af borgurum landsins. Þetta er hörmuleg niðurstaða þar sem allir sem komu að máli eiga svo sannarlega samúð skilið. Þetta mál verður vonandi rannsakað í þaula og öllum steinum velt við í þeirri rannsókn og hiklaust fundið út hvað hefði mátt gera betur og þá ekki bara á mánudaginn heldur einnig í aðdraganda hans. Þó ekki sé hægt að gefa sér niðurstöðu slíkrar rannsóknar fyrirfram þá er engu að síður tímabært að krefjast þess strax að slíkt geti ekki gerst aftur, helst aldrei nokkurn tíma. Að drepa mann er að taka frá honum allt sem hann á, allt sem hann hefur verið og allt sem hann hefði getað orðið. Verri gjörning en það er ekki hægt að hugsa sér.

Það má því miður halda því fram að aðdragandi málalykta af þessu tagi hafi verið langur og að það hafi eingöngu verið tímaspursmál hvenær kæmi að því að eitthvað þessu líkt gerðist og þessi málalok hljóma óneitanlega svolítið eins og titillinn á bók Márquez, Frásögn um margboðað morð, þó ekki sé hér um morð að ræða.  Undan því verður ekki vikist og þar bera margir ábyrgð, að á undanförnum árum hefur færst síaukinn þungi í alla umræðu um „hætturnar“ sem steðja að samfélaginu. Hættur sem á sínum tíma voru ástæða þess að svo kölluð Víkingasveit lögreglu var sett á stofn, sveit sem síðar varð að Sérsveit Ríkislögreglustjóra og sem hefur verið í fréttum í stórauknum mæli undanfarin ár. Vítisenglar, Al Kaida, náttúruverndarsinnar, mótmælendur á Austurvelli, Falun Gong og fíkniefnasalar hafa tekið við af kommúnistum, verkafólki, listamönnum og augnveikum dreng sem hættulegustu element samfélagsins. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að dreifa fréttum af baráttu lögreglunnar við suma af þessum hópum enda myndefnið gott. Fréttirnar eru spennandi og myndefni af vopnuðum grímuklæddum sérsveitarmönnum við skyldustörf gegn mótórhjólamönnum á greiða leið á skjái og forsíður fjölmiðla. Skýrslur lögreglunnar um hætturnar sem steðja að og nauðsyn á frekari „heimildum“, vopnum og aðferðum eiga líka greiða leið í fjölmiðla og eru birtar gagnrýnislaust.

Undir þetta allt saman tekur svo einnig hluti alþingismanna sem margir hverjir virðast haldnir sama vopna- og ofbeldisblætinu. Á síðasta kjörtímabili varð ég í nefndum þingsins all oft vitni að hinum furðulegustu orðaskiptum alþingismanna og fulltrúa lögreglunnar, bæði yfirstjórnar og lögreglumanna þar sem einhvers konar blind og gagnrýnislaus aðdáun á hlutverki og starfi lögreglunnar skein úr augum og orðræðu þingmanna.  Fyrir þingmenn sem eiga samkvæmt stjórnarskránni að hafa eftirlitshlutverk með framkvæmdavaldinu er það mjög varasamt þegar slík aðdáun nær tökum á fólki, sérstaklega þegar um lögregluna er að ræða vegna hins mjög svo sérstaka hlutverks hennar.  Það sem var einnig athyglisvert er að einhverra hluta vegna voru þetta mestmegnis þingmenn úr einum ákveðnum stjórnmálaflokki sem virtist hafa einhver sérstök tengsl við lögreglulið landsins og stéttarfélag þeirra, sem í lýðræðisríki er að sjálfsögðu stórskrýtið mál.

Í þessu samhengi má ekki heldur gleyma því að núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vann sér það til vegs og virðingar sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu að verja með kjafti og klóm gróft mannréttindabrot stjórnvalda undir forystu þáverandi dómsmálaráðherra. Sá lét loka tugi Falun Gong meðlima inn í skóla í Keflavík og vísa tugum eða hundruðum frá landinu svo íslenskir ráðamenn gætu daðrað við forseta Kína án þess að hann móðgaðist af nærveru þeirra. Verknaður sem má ekki gleymast vegna þess hættulega fordæmis sem hann gaf.

Það er því nauðsynlegt að velta því upp hvort atburðurinn á mánudagsmorgun sé einhvers konar óhjákvæmilegt framhald á atburðarás sem lengi hefur mallað áfram með sí auknum þunga. Ýmislegt bendir til að svo sé. Það sem virðist svo einnig vera að gerast í kjölfarið er að orðræða ofbeldis- og vopnablætis heldur áfram. Í leiðara ritstjóra útbreiddasta dagblaðs landsins Fréttablaðsins er því umyrðalaust lýst yfir án allrar skoðunar að það hafi verið rétt og yfirvegað að drepa manninn og merki um það hversu vel Sérsveitin sé í stakk búin. Það er hér, nákvæmlega hér sem hættan liggur. Sú hætta er í því fólgin að atburðir sem þessir verða meðteknir sem venjulegur hluti af daglegu lífi. Það mun óhjákvæmilega gerast ef ekki er strax sagt stopp. Í því samhengi er því leiðari ritstjórans og önnur orðræða af sama meiði óhugnanleg lesning.

Þessa þróun verður því að stöðva og það strax því að öðru óbreyttu verður um framhald að ræða. Sem samfélag verðum við að bregðast öðruvísi við en með því að drepa samborgarana. Svörin við einstaka tilfellum liggja ef til vill ekki á lausu en þar til bær yfirvöld verða að grípa í taumana og leita annarra leiða en með áframhaldandi kalli á meiri vopn, meiri völd og meira ofbeldi. Þar má til dæmis nýta 74. grein sjálfrar stjórnarskrárinnar sem kveður á um bann við starfsemi samtaka sem talið er að hafi ólögmætan tilgang. Á þetta var ítrekað bent í umræðum á Alþingi um auknar „heilmildir“ til handa lögreglunni vegna vélhjólagengja en ábendingarnar féllu á dauf eyru og hamrað var í stað þess á meiri „heimildum“. Hinu má svo heldur ekki gleyma að glæpum á Íslandi fer fækkandi. Hér þurfa yfirvöld og Alþingi að leggja höfuðið í bleyti og hafa sem útgangspunkt að lögreglan megi aldrei nokkurn tíma beita skotvopnum gegn borgurunum. Sú aðferð hefur lukkast vel hér á landi hingað til þar til á mánudaginn og ekkert sem bendir til að svo geti ekki orðið áfram, ef menn leggja sig fram.

Vegna alvarleika atburðarins á mánudag og allra þeirra spurninga sem vakna um málalok hlýtur þó fyrsta skrefið að vera að bæði ríkislögreglustjóri og lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins víki sæti meðan rannsókn málsins fer fram og að innanríkisráðherra víki þeim frá hafi þeir ekki betri skilning á aðstæðum en svo. Þar ber Alþingi að grípa í taumana ef ráðherra brestur skynsemi og þor. Einnig þarf tafarlaust að leysa upp Sérsveitina og beina meðlimum hennar alfarið til annarra lögreglustafa. Ekki vegna vantrausts á starfi eða meðlimum hennar heldur vegna þess að tilvist hennar ein og sér kyndir undir ofbeldis- og vopnablæti sem mun óhjákvæmilega leiða aftur til manndráps. Þangað eigum við, ef við veljum vera friðsamt og siðmenntað samfélag, ekki að fara.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.11.2013 - 13:34 - FB ummæli ()

Skuldaleiðréttingar, 250 milljarðar?

Í allri umræðunni um væntanlegar skuldaleiðréttingar hefur ekki farið mikið fyrir því hvaða upphæðir er um að ræða enda um leynilega vinnu að ræða. Þó hefur á síðustu tveimur dögum tölunni 130 milljarðar verið velt upp og ekki er óeðlilegt miðað við það stjórnmálaumhverfi sem við búum við að þeirri tölu hafi verið lekið skipulega sem einhvers konar „tester“. Þessi tala ef rétt er, er langt í frá nægileg upphæð til þess að leiðrétta þann mikla forsendubrest sem varð við Hrunið.

Miðað við mikilvægi málsins er rétt að minna á að fjölmörgum tillögum hefur verið velt upp undfanfarin fimm ár, formlegum sem óformlegum og þar á meðal eru tillögur Hreyfingarinnar sem voru vandaðar og komu fram a.m.k. tvisvar sinnum sem formleg tillaga til þingsályktunar á Alþingi, síðast sem þingmál númer 5 á haustþinginu 2012.

Í þeim tölum sem eru vel rökstuddar og eru staðfestar af færustu sérfræðingum kemur fram að frá áramótum 2007/2008 og fram að lokum 2. ársfjórðungs 2012 höfðu eftirstöðvar verðtryggðra fasteignaskulda íslenskra heimila hækkað um 384 milljarða eða um 38% vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs. Sem grundvöll að tölu sem nothæf væri vegna forsendubrests og til að allrar sanngirni væri gætt var verðbólgumarkmið Seðlabankans dregið frá þeirri tölu og niðurstaðan varð 275,9 milljarðar. Þetta þýddi um 23% lækkun á skuldum. Einnig var leiðrétt fyrir þeim lækkunum sem þegar var búið að veita og eins og upplýsingar lágu fyrir um og niðurstaðan varð að forsendubresturinn sem lækka þyrfti skuldir heimilanna um væri um 250 milljarða.

Frekari rökstuðningur við fyrirbærið forsendubrest má sjá í tillögunni í heild  hér  en þar segir meðal annars þetta:  „Hækkun þessi er til komin vegna hruns bankakerfisins og gengisfalls krónunnar, atburða sem ekki voru fyrirsjáanlegir lántakendum sem byggðu lántökur sínar á upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum og úr fjölmiðlum en ekki síst frá ráðamönnum þjóðarinnar sem alveg fram á síðustu daga fyrir hrunið staðhæfðu að engin hætta væri í aðsigi.“

Þessi tala, 250 milljarðar eða þar um bil er sú sem sanngjarnt er að verði leiðrétt og felld niður miðað við þær forsendur sem fram hafa verið settar og voru ekki einu sinni hraktar af hagfræðingi ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Það verður því áhugavert að sjá hvað kosningaloforð Framsóknarflokksins ná langt. Hvort skuldaleiðréttingnn verðu alvöru eða bara í plati. Vonandi, heimilanna vegna verður það fyrra upp á teningnum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.11.2013 - 08:15 - FB ummæli ()

Hreyfingin hættir

Á landsfundi Hreyfingarinnar nú á laugardag var samþykkt einróma að Hreyfingin skyldi lögð niður. Þetta er í samræmi við samþykktir hennar og það sem var lagt upp með á sínum tíma þegar Borgarahreyfingin var stofnuð. Sjálfur hafði ég aldrei ætlað mér starf í stjórmálum en aðstæður, atvik og röð tilviljana gerðu það að verkum að ég varð þingmaður. Þetta var áhugaverður tími og ég þakka öllu samferðafólkinu kynnin, líka þeim sem ég varð viðskila við á leiðinni. Hér fyrir neðan er yfirlýsing frá landsfundinum sem send var á fjölmiðla í dag.

Takk fyrir mig.

FRÉTTATILKYNNING FRÁ HREYFINGUNNI

Hreyfingin lögð niður

Á landsfundi Hreyfingarinnar þann 16. nóvember var samþykkt einróma að Hreyfingin skyldi lögð niður í samræmi við 1. grein í kaflanum um félagsslit í samþykktum Hreyfingarinnar, en þar segir:

Þegar markmiðum Hreyfingarinnar er náð eða augljóst er að þeim verði ekki náð mun Hreyfingin hætta starfsemi og hún lögð niður.“

Hreyfingin á rætur sínar í Borgarahreyfingunni sem var stofnuð sem róttækt umbótaafl í íslenskum stjórnmálum í aðdraganda kosninganna árið 2009 og starfaði Hreyfingin ætíð í þeim anda. Hreyfingin hafnaði styrktarfé frá lögaðilum, hafði engan formann og notaðist við samhljóða (consensus) ákvörðunartöku í starfi sínu. Hreyfingin tók afstöðu til allra mála á þeirra eigin forsendum og hafnaði gamalgróinni hefð flokksátaka Fjórflokksins.

Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga beitti Hreyfingin sér fyrir stofnun breiðfylkingar gegn ríkjandi stjórnmálaumhverfi og bauð fram undir merkjum Dögunar. Úrslit kosninganna eru öllum kunn og Fjórflokkurinn hefur hér enn öll völd.

Hreyfingin óskar þjóðinni velfarnaðar með þá framtíðarsýn sem hún valdi sér í kosningunum en er enn þeirrar skoðunar að eina leið íslensks samfélags og stjórnmála úr því öngstræti sem við erum föst í sé með nýju stjórnaskránni sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Sú stjórnarskrá er raunveruleg stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar, stjórnarskrá sem hún hefur sjálf samið og samþykkt. Höfnun Fjórflokksins á Alþingi á lýðræðislegri niðurstöðu þjóðaratkvæðgreiðslunnar er því ekkert annað en hreint og klárt valdarán pólitískrar yfirstéttar í landinu.

Hreyfingin þakkar öllu samferðafólki fyrir undanfarin ár og hvetur til áframhaldandi andófs.

Lýðræði er samræða um val – Flokksræði er samráð um völd

 

Erindi úr Heimsósómakvæði

Töpuð er trúin og baráttan búin í byltingarflokki
velferðarbrúin er brotin og fúin og brestir í stokki,
þjóðin er lúin og framseld og flúin og flestir í sjokki,
hrakin og snúin og hamingju rúin í helvítis fokki.

Bjarki Karlsson, Árleysi alda 2013

 

Hreyfingin, 18. nóvember 2013

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.9.2013 - 14:20 - FB ummæli ()

Flugvallarmálið og stóra samengið

Þessi grein eftir mig var birt á visir.is fyrr í dag.

http://visir.is/flugvallarmalid-og-stora-samhengid/article/2013130839845

Hér er hún án myndanna:

Flugvallarmálið og stóra samhengið

Umræðan og undirskriftarsöfnunin sem nú er í gangi um færslu Reykjavíkurflugvallar úr miðborginni er um margt sérkennileg samhliða því að vera skólarbókardæmi um hvernig á ekki að fjalla um mál og framreiða þau fyrir undirskriftarsafnanir. Slíkar safnanir munu vonandi í framtíðinni skipta mjög miklu máli ef svo fer að þjóðin fái nýja stjórnarskrá þar sem tiltekin hluti kjósenda getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál og verði svo þá skiptir miklu máli hvernig til tekst. Einhliða umfjöllun um Reykjavíkurflugvöll á vefsíðu undirskriftarsöfnunarinnar þar sem kostir þess að losna við flugvöllinn af núverandi stað koma hvergi fram þýðir einfaldlega að hætta er á rangri ákvarðanatöku í kjölfarið. Þetta þýðir einnig að fjöldi undirskrifta er ekki marktækur þar sem mótrökin vantar. Slíkt gengur að sjálfsögðu ekki í umræðu sem ætti að vera á lýðræðislegum nótum og vekur þetta framtak því upp þá spurningu hvað er hér að baki.

Nú er ég enginn sérstakur baráttumaður gegn flugvellinum en fyrir all nokkrum árum komst ég í kynni við hóp af fólki í samtökum sem kalla sig Betri Byggð, fólk sem er með víðtæka fagþekkingu á skipulagsmálum borga s.s. arkitektar, verkfræðingar, skipulagsfræðingar sem og leikmenn sem hafa mikinn áhuga á umhverfis- og byggðamálum. Það voru kynni mín af vinnu þessa hóps sem vöktu áhuga minn á flugvallarmálinu. Eftir að hafa skoðað gögn þeirra og skýrslur um málið og farið yfir skýrslur Samgönguráðuneytisins og rökin fyrir aðalskipulagstillögum Reykjavíkurborgar komst ég að þeirri niðurstöðu að eitthvert mesta framfaramál fyrir allt höfuðborgarsvæðið væri flutningur flugvallarins úr miðborginni. Helst ætti að færa flugið til Keflavíkur enda er þar fullkominn stór flugvöllur í innan við hálftíma fjarlægð frá Reykjavík. Þar er einnig ágætis ónotuð flugstöð sem þarf bara að taka úr lás og mun sá flutningur skipta sköpum um framtíð innanlandsflugsins. Beint flug út á land fyrir þá sem koma erlendis frá er sennilega það eina sem getur bjargað innanlandsfluginu frá því að leggjast af en sem kunnugt er þá er innanlandsflugið lítið notað og er í raun barn síns tíma frá því þegar samgöngur landleiðina voru mun verri og það er einfaldlega ekki boðlegt frá skynsemissjónarmiðum að nota svo mikið landrými á þessum stað fyrir svo litla starfsemi.

Rökin fyrir færslu flugvallarins eru margvísleg en einna helst þau að hann tekur upp gíðarlega mikið pláss í miðborgarsvæði Reykjavíkur og hefur alla tíð staðið því fyrir þrifum að hægt væri að búa til þétta miðborgarbyggð með tilheyrandi almenningssamgöngum og minna bílablæti en núverandi úthverfaskipulag krefst. Flugvallarvæðið sjálft tekur yfir næstum jafn stórt plásss og öll íbúðabyggð í Reykjavík vestan Snorrabrautar og sinnir ekki neinni starfsemi að marki þar sem innan við þúsund manns á dag ferðast með innanlandsfluginu eða færri en Café París afgreiðir daglega. Hvað varðar lendingar einkaþota auðmanna og leikfangaflug flugdellukarla þá er það smámunir einir sem ekki þarf að taka tillit til í svo stóru máli.

Núverandi fyrirkomulag skipulagsmála á höfuðborgarsvæðinu, smákóngaveldi sex mjög misstórra sveitarfélaga með risastórt lítið notað landsvæði í hjarta borgarinnar hefur sundrað svæðinu og reynst öllum íbúum svæðisins illa. Svo dreifð byggð eins og er á höfuðborgarsvæðinu er alveg gríðalega kostnaðarsöm og þegar haft er í huga þær stundir sem tugþúsundir manna eyða á hverjum degi í bílum sínum á leið til og frá vinnu, kostnaður við stór umferðarmannvirki, umferðarslys og heilsustjón vegna mengunar þá blasir það við að mikilvægt er að þétta byggðina á svæðinu. Þess má geta að innan svæðis af samsvarandi stærðargráðu og höfuðborgarsvæðið er rúmast allt svæði Parísar innan svo kallaðs hringvegar og stór hluti þeirra átta milljóna manna sem byggja þá borg.

Svæðið innan flugvallargirðingarinnar er um 150 hektarar og af því á Reykjavíkurborg um 60% en ríkið um 40%. Til viðbótar koma svo um 150 hektarar sem er svæðið kringum flugvöllinn í eigu Reyjavíkurborgar og sem ekki er hægt að byggja á vegna vallarins. Samtals gera þetta um 300 hektara af landi sem ef byggt væri á miðað við ákveðinn þéttleika byggðar sem algengur er í höfuðborgum er að verðmæti um 250 milljarðar króna. Þá er rétt að geta þess að hvorki ríkið né Reykjavíkurborg fá leigu fyrir landið sem flugvöllurinn stendur á og er því um mikla niðurgreiðslu á innanlandsfluginu að ræða. Þétting byggðar með nýtingu flugvallarsvæðisins í stað þess að dreifa byggðinni frekar út frá Reykjavík mun þýða um 40% minni bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu heldur en ella þegar uppbygginu er lokið eftir um 20 ár. Í því felst gríðarlegur sparnaður í minni aksturtíma fyrir tugþúsundir manna að ekki sé talað um sparnað vegna minni umferðarmannvirkja, færri slysa og færri dauðsfalla vegna umferðar. Það þarf nefnilega að taka tillit til þessa líka að samsvarandi útþensla byggðar utan við núverandi kraga byggðar á höfuðborgarsvæðinu þýðir um einn milljarð ekinna kílómetra á ári til viðbótar núverandi umferð.

Í umræðunni á netinu undanfarna daga hefur sjúkraflugið verið það helsta sem nefnt hefur verið í sambandi við færslu flugvallarins og miklar upphrópanir í gangi um að það hafi gleymst. Þar hefur hins vegar verið horft framhjá því að flutningur flugvallarins er risavaxið verkefni sem á sér stað í áföngum þar sem fyrsta skrefið er breyting á aðalskipulagi þeirra sem fara með skipulagsvald á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborgar. Næstu skref eru svo útfærsluatriði sem vinnast í ákveðinni röð í samvinnu borgaryfirvalda og ríkisvaldsins, þar með talið hvort annar flugvöllur verði byggður á Hólmsheiði, flugið flutt til Keflavíkur, hvernig samgöngur verða tryggðar við nýja staðsetningu flugvallar og síðast en ekki síst með hvaða hætti sjúkrafluginu verður fyrirkomið.

Þar hafa komið fram margar hugmyndir svo sem frekari uppbygging heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni sem er á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar og sem myndi minnka þörf almennt fyrir sjúkraflug og einnig hafa verið nefndar hugmyndir um aukið sjúkraflug með þyrlum sem krefst ekki flugvallar. Þar tel ég sjálfur að fara eigi strax í að styrkja mjög landshluta sjúkrahúsin á Ísafirði, Akureyri og Neskaupstað og gera þau fær um að sinna öllum bráðatilfellum og að staðsetja eigi þyrlur og áhafnir á fleiri stöðum á landinu en í Reykjavík svo sem á vestfjörðum, norð-austurlandi og suð-austurlandi. Slíkt kostar að vísu mikið en við búum í dreift byggðu landi og grundvallaratriði til að halda því öllu í byggð er að öryggi íbúana sé tryggt með fullnægjandi heilbrigðisþjónustu um allt land.

Sú umræða sem hefur leitt þetta mál hefur hins vegar verið á nótum upphrópana svo jaðrar við tilfinningaklám og því ekki til framdráttar. „Ég væri dáinn“, „Sonur minn væri dáinn“, „Þúsundir manna eiga líf sitt að launa“ . . . ef ekki væri fyrir núverandi staðsetningu flugvallarins, eru vissulega mikilvægir punktar sem þarf að minna á varðandi þann hluta flugvallarmálsins en eiga einir og sér ekki að stýra málinu. Það er einfaldlega fráleitt að halda því fram flugvöllur verði að vera á þessum stað um aldur og ævi og það sama gildir um öll mannvirki og einnig jafnvel Landspítalann sjálfan. Hann verður líka færður með tíð og tíma ef með þarf og það án þess að stefna mannslífum í voða.

Háværustu talsmenn óbreytts ástands eru sérhagmunaöfl af ýmsum toga svo sem flugmenn, flugumferðarstjórar, flugáhugafólk, einkaflugsgeirinn og nokkrir alþingismenn sem nota innanlandsflugið eins og strætó til og frá vinnu. Nú er að sjálfsögðu ekkert við því að segja að raddir sérhagsmuna heyrist en fyrir lýðræðislega umræðu þarf það ætíð að koma fram hvar hagsmunirnir liggja. Varðandi alþingismennina þá fá þingmenn af landsbyggðinni greitt sérstaklega fyrir að halda annað heimili í Reykjavík. Þrátt fyrir það eru þingstörfin skipulögð með þeim hætti að þeir geti farið til síns heima í kjördæmið síðdegis á fimmtudögum og verið þar fram á mánudag og hefur þetta leitt til þess að starfsvika Alþingis er stutt og fá mál eru afgreidd. Ekki er heldur óalgengt að þingmenn fljúgi til síns heima daglega og vilja þeir því að sjálfsögðu hafa flugvél við bæjardyrnar, allt á kostnað skattgreiðenda.

Það sem vekur þó sérstaka athygli varðandi þessa undirskriftarsöfnun og umræðuna samfara henni er framganga Friðriks Pálssonar, sjálfstæðismanns, auðmanns og flugáhugamanns. Hann hefur svo gott sem haft í hótunum fyrir fram við alla hugsanlega frambjóðendur í prófkjörum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og heldur því fram sem sjálfsögðu að það verði úrslitaatriði í prófkjörum hver afstaða manna er til flutnings flugvallarins. Sem kunnugt er þá er Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík ein rjúkandi rúst og þau þroskamerki ýmissa núverandi fulltrúa flokksins að vilja frekar vinna fyrir reykvíkinga alla heldur en að halda uppi þröngri flokka- og átakapólitík fara illa í Sjálfstæðismenn af gamla skólanum sem vilja átök og ekkert nema átök. Framganga flokksins með Ólaf F. og alger hörmungarstjórn Vilhjálms Þ. hefur einnig gert gamla flokksapparatið ótrúverðugt svo um munar og að óbreyttu á flokkurinn ekki séns gegn Besta Flokknum og hinum í Reykjavík.

Samkrull Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðismanna í netheimum og Friðriks Pálssonar um þessa undirskriftarsöfnun sem er þaulskipulögð og kostar mikla peninga, bendir til þess að nota eigi flugvallarmálið Sjálfstæðisflokknum til framdráttar í næstu sveitarstjórnaskosningum. Ótrúverðugleiki flokksins og alger málefnaördeyða í Reykjavík vísar veginn og bendir einnig til þess að hér sé á ferðinni örvæntingarfull tilraun til að ná undirtökum á umræðu sem er þó ekki annað en ein risastór smjörklípa, því að í daglegu rekstrarlegu og félagslegu samhengi skiptir Reykjavíkurflugvöllur ekki miklu máli fyrir borgina og íbúa hennar. Ýmislegt bendir einnig til þess að fingarför ritstjóra Morgunblaðsins séu á málinu og væri það vægast sagt kaldhæðni örlagana ef það kemur upp úr dúrnum að vel meinandi landsbyggðafólk hefur nú með undirskrift sinni stutt Sjálfstæðisflokkinn til valda í Reykjavík með Friðrik Pálsson sem borgarstjóraefni og þar með gleypt við smjörklípu sem á sér sennilega enga hliðstæðu.

Vegna alls þess sem hér er upp talið og þess algerlega einhliða áróðurs sem birtist á síðu undiskriftasöfnunarinnar er ekki hægt að taka mikið mark á þessum undirskriftum þar sem þær eru ekki byggðar á réttum upplýsingum. Það skiptir því engu máli hvað margir skrifa undir þar sem forsendurnar eru svo skakkar að ekki getur komið nema röng niðurstaða. Þetta er því miður dæmigert fyrir þann flumbrugang sem er á mörgu sem íslendingar taka sér fyrir hendur og hefur leitt til þess að rangar ákvarðanir verða oftar en ekki ofan á. Ákvarðanir sem hafa reynst dýrkeyptar og hafa skekkt og skemmt samfélagið meir og meir eftir því sem árin líða. Ef til vill má jafnvel segja að þessi undirskriftasöfnun sé birtingarmynd andverðleikasamfélagsins þar sem illa ígrunduð sjónarmið, þekkingarleysi, leyndarhyggja og einhliða áróður ráða ferðinni.

Árið 2007 fór fram alþjóðleg samkeppni um skipulag á flugvallarasvæðinu með hliðsjón af brotthvarfi vallarins. Það bárust 136 tillögur og voru margar þeirra stórglæsilegar og spönnuðu allt frá háreistri þéttri byggð til lágreistari dreifðari byggðar þar sem umhverfinu þ.e. ásnum frá Nauthólsvík til Tjarnarinnar var gert hátt undir höfði. Slík framtíðarsýn fyrir Reykjavík þar sem fallegt umhverfi og íbúabyggð fara saman, samhliða því að þétta byggð á svæðinu til hagsbóta fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins er sýn sem allir landsmenn ættu að sjálfsögðu að sameinast um fyrir höfuðborg landsins.

Þór Saari

Höfundur er hagfræðingur

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.8.2013 - 01:15 - FB ummæli ()

RÚV og vanþekking.

Krafan um lokun RÚV er krafa um vanþekkingu. Vanþekking sem slík er algeng, skiljanleg og útskýranleg, það er krafan um vanþekkingu (frekar en upplýsingu) sem vefst fyrri mér.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.7.2013 - 11:08 - FB ummæli ()

Tengslanetið

Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hefur gert úttekt á tengslaneti Framsóknarflokksins í kringum Íbúðalánasjóð, neti sem með réttu ætti ef til vill frekar að kalla spillingarnet. Hér er samatektin, verði ykkur að góðu.

„Pólitíska tengslanetið birtist þar með ýmsum hætti. Ein birtingarmynd tengslanets í kringum Íbúðalánasjóðinn á þessum tíma var flokkspólitískt tengslanet sem leit svona út:
Á árunum 2003 til 2006 var í Félagsmálaráðuneytinu Árni Magnússon ráðherra Framsóknarflokksins. Í Íbúðalánasjóði var stjórn sem hafði verið skipuð án tilnefningar af Páli Péturssyni fyrrum félagsmálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn. Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, Guðmundur Bjarnason, sem var ráðinn af þeirri stjórn ráðherrans, var fyrrum samflokksmaður og samráðherra Páls í ríksstjórninni.

Í Fjármálaeftirlitinu var forstjórinn sonur Páls Péturssonar fyrrum félagsmálaráðherra, Páll Gunnar Pálsson. Fjármálaeftirlitið heyrði undir Viðskiptaráðuneytið þar sem Páll Gunnar Pálsson var deildarstjóri áður en hann var skipaður í stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins árið 1998. Þar hafði þá verið ráðherra Finnur Ingólfsson og aðstoðarmaður hans hafði verið Árni Magnússon, sem þarna var orðinn félagsmálaráðherra. Finnur Ingólfsson var hins vegar þarna kominn í starf útí í viðskiptalífinu eftir tveggja ára starf sem bankastjóri Seðlabanka Íslands.

Steingrímur Hermannsson hafði verið skipaður í embætti Seðlabankastjóra árið 1994 og hættir á árinu 1998. Þá hefði samkvæmt hefðinni átt að skipa nýjan Seðlabankastjóra og það hefði Finnur Ingólfsson átt að gera sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeim tíma. Hann hins vegar frestar þeirri skipan, en er svo sjálfur gerður að Seðlabankastjóra þegar bankinn flyst frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu til Forsætisráðuneytisins í upphafi árs 2000. Þegar Finnur hætti var Jón Sigurðsson, trúnaðarmaður Framsóknarflokksins gerður að bankastjóra Seðlabankans.

Í Viðskiptaráðuneytinu var Valgerður Sverrisdóttir orðin ráðherra fyrir Framsóknarflokkin og aðstoðarmaður hennar var Páll Magnússon, bróðir Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra. Af þessu má sjá að það pólitíska umhverfi sem Íbúðalánasjóður starfaði í var þéttofið tengslanet Framsóknarflokksins í ábyrgðar- og áhrifastöðum innan stjórnsýslukerfisins.

Ég kenni meistaranemum í Háskóla Íslands um áhrif ýmis konar tengslaneta á opinbera stenfmótun. Þetta tiltekna tengslanet og hugsanleg áhrif þess verður áhugaverð stúdía fyrir nemendur mína næst vetur.“

Segiði svo að íslensk stjórnmál og stjórnsýsla séu ekki ormagryfja vanhæfni vegna skyldleikaræktunnar. Nýjustu fréttirnar eru svo þær að forseti Alþingis, Sjálfstæðismaðurinn Einar K. Guðfinnsson vill endurskoða lög um rannsóknarnefndir af því þær hafi „farið fram yfir skilafrest“ og hafi „farið fram yfir kostnaðaráætlanir“, því þurfi að „afmarka betur viðfangsefni þeirra“. Einar var ráðherra Sjálfstæðisflokksins í Hrunstjórninni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.7.2013 - 22:53 - FB ummæli ()

Ormagryfjan

Lokinu af þeirri ormagryfju sem íslensk stjórnsýsla og stjórnmál eru var lyft í dag. Rannsóknarnefndin um Íbúðalánasjóð á miklar þakkir skilið fyrri vel unnið verk. Alþingi og stjórnmálastéttin mun hins vegar reyna af öllum mætti að koma lokinu á aftur og lemja það fast og það strax eftir málmyndaumræðurnar um skýrsluna á Alþingi á morgun. Hverjum nema Alþingi og íslenskri stjórnmálastétt dettur í hug að reyna að ræða fjögurra binda skýrslu örfáum klukkutímum eftir útgáfu hennar og ætlast til þess að einhver alvara sé að baki. Minni á að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var aðeins rædd í einn dag í þinginu eftir útgáfu hennar. Bendi sérstaklega á 10. kaflann  um úttektir og samskipti eftirlitsaðila þar sem ég kom að málum. Minni einnig á að það er ástæða fyrri því að í stefnuskrá Hreyfingarinnar (áður Borgarahreyfingarinnar) er sérstakur kafli um nauðsynlegar róttækar stjórnsýslu- og stjórnkerfisbreytingar en þær tillögur byggja á reynslu ýmissa, þar á meðal minnar, af störfum í stjórnsýslunni.

Góðar stundir.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.4.2013 - 23:26 - FB ummæli ()

Kæru kjósendur, félagar, vinir

Á morgun laugardaginn 27. apríl 2013 eru einhverjar mikilvægustu kosningar lýðveldistímans. Kosningar sem mun ráða úrslitum um það hvort hér verði áfram við lýði gerspillt stjórnmálaumhverfi og úrkynjuð stjórnmálastétt eða hvort það takist að ná inn á Alþingi nægilega mörgum nýjum andlitum og flokkum til að stöðva hnignun lýðræðis og þess stjórnmálasiðferðis sem þarf að vera til staðar í siðmenntuðu samfélagi.

Það er augljóst mál að hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur munu gera nokkuð til að breyta því gerspillta stjórnmálaumhverfi sem þeir hafa lifað og dafnað í áratugum saman, afstaða þeirra til nýju stjórnarskrárinnar er skýrt dæmi um það. Þessir flokkar eru einfaldlega spillt hagsmunabandalög þar sem samtvinnast hagsmunir yfirstéttar auðmanna annars vegar og stjórnmálastéttar hins vegar. Vissulega eru þar inn á milli örfáir hugsjónamenn en þeir munu engu fá ráðið ef þessir flokkar komast til valda.

Það er einnig augljóst að Samfylkingin er einhvers konar Sjálfstæðisflokkur með sænsku ívafi hvers núverandi formaður Árni Páll Árnason hefur gengið manna lengst undanfarin fjögur ár til að verja fjármálakerfið fyrir réttmætum kröfum um leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar og hvers varaformaður hefur á prjónunum stórfellda iðnaðaruppbyggingu með tilheyrandi náttúruspjöllum. Formaður Samfylkingar gekk svo fram fyrir skjöldu og í lið með Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki  með að eyðileggja stjórnarskrármálið sem yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hafði þó samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess fékk hann dyggan stuðning þingmannanna Guðmundar Steingrímssonar og Róberts Marshall þess útfrymis Samfylkingarinnar sem nefnist Björt Framtíð, en þeir félagar grófu linnulítið undan málinu með mjög svo sérkennilegum málflutningi mánuðum saman og gerðu þar með út um meirihlutann fyrir málinu.

Vinstri-græn sem vonir mínar voru lengi bundnar við sýndu það svo rækilegar en nokkur annar að hægt er að svíkja stefnumálin og kosningaloforðin á leifturhraða ef þörf er og þröngsýn framganga formannsins Steingríms J. hefur algerlega rústað trúverðugleika þeirra. Hinn nýi formaður mun aldrei verða sá bógur sem þarf til að standa undir meirihluta stjórnarsamstarfi og það má heldur ekki gleymast að hennar fyrsta verk sem formaður var að slátra nýju stjórnarskránni.

Hvað nýju framboðin varðar þá er um marga ágæta valkosti að ræða og engin afsökun til staðar um að þar sé ekki að finna hæft fólk. Mannvalið á listum sumra þessara nýju framboða er með eindæmum gott og ber af miðað við þreyttan klíkuhóp Fjórflokksins. Sjálfur er ég á lista hjá Dögun sem var tilraun til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum. Því miður náðu egóin tökum á sumum upprunalegu félögum okkar og til urðu Lýðræðisvaktin, Píratar, Samstaða (sem svo hvarf), Hægri grænir og fleiri. Flokkar með ágætis fólk innan borðs en byggðir upp í kringum einstaklinga og fá eða jafnvel bara eitt mál og sem slíkir munu þeir ekki ná mikilli vigt á Alþingi.

Í Dögun er blanda af reynslumiklu fólki úr stjórnmálum og stjórnsýslu, hörkuduglegir aðgerðarsinnar úr Búsáhaldabyltingunni sem starfað hafa allt kjörtímabilið í sjálfboðavinnu að málefnum heimilanna, umhverfismálum, nýskipan fjármálakerfisins, krufið lífeyrissjóðakerfið og kvótakerfið og flest alla aðra þætti samfélagsins og lagt fram stefnuskrá um öll þessi mál. Að Dögun koma og margir nýjir og ferskir einstaklingar sem bara löbbuðu inn af götunni, höfðu fengið nóg af gerspilltu og úrkynjuðu stjórnmálaumhverfi og vildu fá að vera með, með í raunhæfu breytingarafli. Saman tilheyrum við Dögun og saman hryllir okkur við þeirri framtíðarsýn sem áframhaldandi völd Fjórflokksins með gömla lúnu dönsku stjórnarskrána ber með sér.

Ég hvet þig því kjósandi góður, félagi og vinur til að merkja X við T á morgun, kjósa Dögun og treysta því að við munum svo sannarlega leggja okkar af mörkum fyrir breyttu og betra Íslandi. Ef þú ert enn óákveðinn eins og skoðanakannanir benda til að um 40% kjósenda séu, þá alla vega farðu á kjörstað og ef þér líst ekki á Dögun þá veldu eitthvað annað af nýju framboðunum. Það skiptir nefnilega grundvallarmáli að að kjósendur axli ábyrgð, sýni kjark og taki sjálfir af skarið og knýi fram breytingar í þessum kosningum. Ef kjósendur gera það ekki munu þær aldrei gerast, það vitum við.

Gleðilega lýðræðisveislu 27. apríl 2013.

Heimasíða Dögunar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.3.2013 - 14:14 - FB ummæli ()

Þingið og stjórnarskráin

Á fundi með formönnum Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna síðastliðinn fimmtudag lögðu þingmenn Hreyfingarinnar fram sáttaboð til að leysa þann hnút sem stjórnarskrármálið var komið í í meðförum Alþingis.

Sáttaboðið laut að því að auk breytinga á 79. grein stjórnarskrárinnar sem gert er ráð fyrir í frumvarpi formanna stjórnarflokkana og Guðmundar Steingrímssonar verði að auki afgreiddar þær greinar sem almenningur greiddi beint atkvæði um í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október síðast liðinn. Þetta eru grein 35 um náttúruauðlindir, grein 40 um Alþingiskosningar (persónukjör og jafnt vægi atkvæða) og greinar 66 til 68 um beint lýðræði (greinarnar eru tölusettar í samræmi við fylgiskjal I í þingskjali 1111).

Gegn þessu yrði breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur dregin til baka og stuðningur okkar við lúkningu málsins á Alþingi tryggður.

Tillaga þessi var rædd á fundum um helgina og í gær kom í ljós að ekki var vilji til samkomulags á þessum grundvelli af hálfu Samfylkingar, Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar.

Það er því augljóst að það er enginn vilji til þess af hálfu þessara aðila að klára stjórnarskrármálið, ekki einu sinni þær fáu spurningar sem þjóðin var spurð beint um og samþykkti allar og flestar með yfirgnæfandi meirihluta. Samfylkingin, Vinstri-græn og Björt (svört) framtíð hafa nú rækilega afhjúpað viðhorf sitt til þjóðarinnar, þjóðaratkvæðagreiðslna og lýðræðislegrar niðurstöðu mála. Vonandi gera kjósendur sér grein fyrir hvað þetta þýðir og hvað það er mikilvægt að gleyma þessu ekki í komandi kosningum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.3.2013 - 23:37 - FB ummæli ()

Ræður dagsins

Vantrauststillagan var felld í dag með stuðningi Bjartrar framtíðar sem er orðin að eins Orwellískum öfugmælasamtökum og hugsast getur. Þau hafa nú staðsett sig með þeim öflum, stjórnmálastéttinni, klíkuveldinu og valdastéttinni sem vill ekki nýja stjórnarskrá. Fá svo væntanlega einhverja brauðmola af borði Árna Páls að loknum kosningum ef þær fara illa. Hefði búist við merkilegri stjórnmálum en þetta frá Besta flokknum og Jóni Gnarr og co. Hvað um það. Umræðan í dag var að mestu ómálefnalegt raus og kosningatal sem skipti engu máli fyrir málið sjálft og það var athyglisvert hvað þingmenn forðuðust að tala um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Eini stjórnarþingmaðurinn sem var málefnalegur og talaði eingöngu um stjórnarskrána var Björn Valur Gíslason og fær hann hrós fyrir þó við höfum ekki verið sammála. Ég flutti tvær ræður og læt ég upptökur af þeim fylgja með til hægðarauka fyrir lesendur ef menn vilja kynna sér rökstuðning minn fyrir vantrauststillögunni. Góða skemmtun.

Fyrri ræðan er hér.

Seinni ræðan er hér.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur