Fimmtudagur 13.01.2011 - 12:13 - 8 ummæli

Svívirðileg ákæra — árás á tjáningarfrelsið

Enn hefur varla verið réttað yfir nokkrum af þeim sem ábyrgð bera á hruninu.  Í næstu viku fer hins vegar fram aðalmeðferð í Nímenningamálinu svokallaða.  Það er ömurlegur vitnisburður um íslenska réttarríkið, því hér er fyrir rétti fólk sem mótmælti (friðsamlega) í kjölfar hrunsins.  Það er ákært fyrir glæp sem aldrei var framinn, en saksóknari krefst þungra fangelsisdóma yfir því fyrir þessar tilbúnu sakir.   Hér eru ýmsar upplýsingar um málið, en þetta er í stuttu máli það sem gerðist:

Þann 8. desember 2008 gekk hópur fólks inn í Alþingishúsið til að fara á þingpalla.  Af þeim sem komust á pallana tókst tveimur að hrópa örfá orð að þingmönnum.  Af þeim fjölda manns sem var viðstaddur voru níu ákærðir fyrir ýmis brot í tengslum við þetta.  Þessir níu virðast hafa verið valdir af handahófi. Stimpingar urðu milli starfsmanna Alþingis og þeirra sem inn vildu, og var staðhæft að einhver Nímenninganna  hefði hrint starfsmanni þingsins þannig að hann slasaðist.  Síðar kom í ljós, í myndupptökum sem sýndar voru í sjónvarpi, að þessi staðhæfing var röng.

Málið var kært til lögreglu, sem rannsakaði það, og komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að kæra á grundvelli 100. greinar almennra hegningarlaga, en skrifstofustjóri Alþingis hafði nefnt hana í bréfi til lögreglunnar.  Eftir að ríkissaksóknari hafði verið úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um málið var Lára V. Júlíusdóttir sett ríkissaksóknari í málinu.  Í trássi við niðurstöðu lögreglurannsóknarinnar ákvað hún að ákæra á grundvelli 100. greinar, auk annarra.  M.a. fór hún fram á það í tölvupósti til skrifstofustjóra Alþingis að kært yrði fyrir brot á 231. grein hegningarlaga, þ.e.a.s. fyrir „húsbrot“, því ekki væri hægt að ákæra fyrir slíkt nema fram kæmi kæra frá brotaþola, þ.e.a.s. Alþingi.  Um þann hluta málsins mun ég fjalla síðar hér.

Þessi 100. grein almennra hegningarlaga hljóðar svo: „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“  Þessi hörðu viðurlög stafa af því að hér er átt við tilraunir til valdaráns, eins og ljóst verður ef lesið er lagafrumvarpið frá því að þessi lög voru sett (1940), og af því samhengi sem þau tilheyra, þ.e.a.s. XI. kafla almennra hegningarlaga, en yfirskrift hans er Brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og er þar meðal annars fjallað um uppreisnir, morð á forsetanum og hryðjuverk.  Að halda því fram að Nímenningarnir (og allur sá fjöldi fólks sem þeir voru hluti af) hafi ætlað að svipta Alþingi „sjálfræði“ þess, hvað þá að þeir hefðu getað gert eitthvað slíkt, væri hlægilegt ef ekki væri um svo alvarlega ákæru að ræða.  Undir henni hafa Nímenningarnir þurft að sitja í bráðum ár, og eyða ómældum tíma í að verja sig, svo ekki sé minnst á það andlega álag sem það er að sitja undir ákæru um alvarlegan glæp, og geta á meðan engar áætlanir gert um framtíð sína.

Þótt fólk hafi ólíkar skoðanir á þessu máli hefur nánast enginn treyst sér til að verja þá ákvörðun Láru V. Júlíusdóttur að ákæra fyrir brot á 100. greininni.  Fjöldi manns, þar á meðal hópur alþingismanna, hefur hins vegar mótmælt þessu harðlega.  Hér er nefnilega um að ræða svívirðilega aðför ríkisvaldsins að saklausu fólki, og hins vegar alvarlega árás á frelsið til að mótmæla.

Alþingi ber mikla ábyrgð í þessu máli, og sorglegt að það skuli ekki frekar vera í fararbroddi við að vernda tjáningarfrelsið.  Það er þó settur saksóknari, Lára V. Júlíusdóttir, sem ber höfuðábyrgðina.  Hún ætti að afturkalla ákærurnar áður en það er orðið of seint, þ.e.a.s. áður en aðalmeðferðin hefst.  Geri hún það ekki mun hún vinna ljótt skemmdarverk á íslensku réttarfari (og eigin lögmannsheiðri), því jafnvel þótt sýknað verði er það ófyrirgefanleg árás á saklaust fólk að ákæra það fyrir alvarlegan glæp sem aldrei var framinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (8)

  • Velkominn í hóp Eyjupenna, Einar!

    Legg þetta til: Baráttusöngur án kynningar – http://www.youtube.com/watch?v=vU10LR_yhDg

    Með kynningu:

  • Voðalegt stress er þetta!

    Alþingi kærir óspektir til lögreglu sem er náttúrulega alveg eðilegt. Saksóknari fer áfram með málið, sem er alveg í samræmi við lög. Ákæruatriðin munu vera tekin til meðferðar hjá dómstólum og það mun koma dómur. Allt þetta ferli er í samræmi við stjórnarskrá og almenn lög í landinu þannig að ég skil ekki hvað er verið að kvabba yfir þessu.

    Þá tel ég að það sé alveg út í hött að Alþingi sé að taka afstöðu til ákæruatriða og mjög vafasöm sú umræða að Alþingi eigi að fara að hlutast til um störf ákæruvalds og dómsvalds.

    Ég er hins vegar alveg viss um að níumenningarnir verið sýknaðir enda tel ég fjarri því að um árás á Alþingi í skilningi 100. gr. hafi verið að ræða. Vísa ég þar til orðalags ákvæðisins sjálfs svo og dómafordæma. Vissulega hafa einhverjir níumenninganna gerst sekir um óspektir og brot gegn valdstjórninni en að um brot gegn 100. gr. hafi verið að ræða er algerlega út í hött.

  • Telemakkos

    …“gekk hópur fólks inn í Alþingishúsið til að fara á þingpalla. Af þeim sem komust á pallana tókst tveimur að hrópa örfá orð að þingmönnum. “

    Rétta sögnin er „ruddist“ ekki „gekk“.

    Önnur réttari sögn er „öskra“, en ekki „hrópa“.

    Þingmenn og áhorfendur á beina útsendingu upplifðu þetta sem talsvert árásarkennt.

    Þingverðir slöðsuðust nokkuð við innruðning „aktívista“hópsins, en duttu víst bara sjálfir svona illa (að sögn stjórnulögfræðingins R.Aðalsteinssonar).

    Viðstaddir löreglumenn upplifðu einnig visst ofbeldi að hálfu innryðjendanna.

    Vonandi reynist Hæstiréttur sjálfstætt dómsvald, sem ekki lýtur stjórn mjölfiðlugnýs fjölmiðlastéttanna.

  • Páll Heiðar

    Einu slysin sem urðu á þingvörðum var þegar einn af þeim sem gengu uppá þingpalla réðst á einn þingvörðinn með því að reka handleggina uppí greipar hans með bakið snúið að honum. Þetta var okkur sýnt í öryggismyndavél alþingis og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Það ruddist enginn, þeim var hleypt inn, það var líka sýnt. Mönnum til glöggvunar er þetta mál ekki ennþá komið til hæstaréttar og miðað við dóm Lárusar Páls ekkert víst að það komist þangað nokkurn tíma. Þetta gerist á sama tíma og menn væla mörgum fögrum tárum um sofandi ráðherra sem þarf að þola það að fara fyrir landsdóm, vegna þess að vafi leiki á sekt hans. Í þessu máli leikur enginn vafi, hún er ekki fyrir hendi. 9menningarnir eru sekir um að hafa farið uppá þingpalla sem má, einn af þeim ávarpið þingið sem má ekki, en síðasti maðurinn sem braut þessi lög er núverandi utanríkisráðherra

  • Telemakkos

    Það er augljóst að tilefni er til að þetta mál komi til kasta dómstóla, innruðningurinn og hamagangurinn og öskrin voru án fordæma og ekki á neinn hátt lík upplestri Óssurar Skarphéðinssonar á ávarpi námsmanna í kjarabaráttu þeirra á sínum tíma.

    Auðvitað er ekki von á þyngri dómi en allra stysta skilorðsbundu fangelsi og allt eins von á sýknun.

    Málsókn er hins vegar fullkomlega eðlileg og óþarfi að lesa úr því einhverja skipulega árás gegn tjáningarfrelsi.

  • Eyjólfur

    Tek heilshugar undir með Telemakkosi.

  • Páll Heiðar

    enginn innruðningur var þarna eins og sést í öryggismyndavélum alþingis og eina ofbeldi sem beitt var var gert af þingvörðum. Íslenskt réttarkerfi verður aðhlátursefni um allan heim ef þessi ákæra fer skrefinu lengra og ekki má þjóðin við meiri álitshnekki. Í grátmúrnum kringum Geir Haarde hefur mikið verið talað um að ekki eigi að ákæra nema talsverðar líkur séu á sakfellingu, hér er ekki vafi á því að um enga sekt er að ræða. Hendið þessari ákæri í ruslið þar sem hún á heima og einbeitið ykkur að því að sakfella raunverulega glæpamenn

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur