Fimmtudagur 20.01.2011 - 11:48 - 11 ummæli

Saksóknari missir tök á veruleikanum

Sé rétt eftir haft í þessari frétt er ekki annað að sjá en að Lára V. Júlíusdóttir lifi í allt öðrum veruleika en þeim sem flestir Íslendingar þekkja, jafnvel þeir sem lítið telja athugavert við að réttað sé yfir Nîmenningunum.

Nánast enginn hefur treyst sér til, eða talið ástæðu til, að verja þá ákvörðun Láru að ákæra Nímenningana á fyrir brot á 100. greinar hegningarlaga, sem fjallar um tilraunir til að svipta Alþingi sjálfræði, þ.e.a.s. um valdaránstilraunir. Ekkert hefur komið fram í réttarhöldunum sem breytir þeirri mynd sem löngu áður var komin fram:

Nímenningarnir reyndu að komast á þingpalla til að flytja stutt ávarp. Tveim þeirra tókst að komast þangað, en gátu ekki sagt nema tíu orð. Staðhæfingar um að einhver Nímenninganann hefði slasað þingvörð reyndust rangar, eins og kom fram í myndupptökum sem sýndar hafa verið í sjónvarpi (og það þótt starfsmenn Alþingis hafi fargað mestöllum upptökunum, nema þeim sem þeir töldu að væru „áhugaverðastar“ fyrir þá sjálfa).

Hafi það verið samantekin ráð (sem ekki hefur verið sýnt fram á í réttarhöldunum) að fara á þingpalla til að lesa upp yfirlýsingu þarf einbeittan sakfellingarvilja (ef ekki vænisýki á háu stigi) til að láta sér detta í hug að slíkt sé ógnun við öryggi Alþingis.

Að líkja aðgerðum Nîmenninganna við skipulagða vopnaða árás, þar sem fólki var misþyrmt hrottalega, er svo yfirgengilegt að fólk spyr sig hvort saksóknari sé með réttu ráði. Það er sorglegt að sjá Láru V. Júlíusdóttur setja upp þetta leikrit sem virðist ætla að verða persónulegur harmleikur fyrir hana sjálfa.

Fáir óska þess líklega, þrátt fyrir allt, að henni verði refsað eins og þó væri eðlilegt, fyrir að bera saklaust fólk svo þungum og röngum sökum, og að líkja því við samviskulausa ofbeldismenn. En félagar Láru í valdakerfinu verða að sjá til þess að þetta verði hennar síðasta verk í íslenska réttarkerfinu, og þeir þurfa að hreinsa eigin heiður með því að lýsa skorinort yfir að hér hafi verið farið langt yfir strikið, og að slíkt verði ekki liðið aftur.

Það er ekki nóg að lýsa yfir depurð, eins og forsætisráðherra gerði í fyrradag, það er tími til kominn að þeir sem völdin hafa taki ábyrgð á gerðum ríkisvaldsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Sorglegt hjá þér að persónugera þetta mál um saksóknarann.

 • Einar Steingrímsson

  Mummi: Saksóknari sem fremur svo alvarleg afglöp í starfi er persóna sem þarf að sjá til að aldrei gegni slíku starfi framar, einmitt til að embættið sé eins óháð persónunni sem í því situr og mögulegt er.

 • Páll Heiðar

  er ekki hægt að fara fram á geðrannsókn(á ákæruaðilum)

 • Þetta samband Láru V. og Jóhönnu er reyndar býsna merkilegt.

  Lára var eins og allir vita aðstoðarmaður Jóhönnu hér áður fyrr, og því eru klárlega mikil og góð tengsl þeirra á milli. Jóhanna launaði Láru svo m.a. fyrir með því að gera Láru að formanni bankaráðs Seðlabankans. Gott og vel: hjá sjálfstæðismönnum hefði slíkt verið kallað spilling og frændhygli, en góðir vinstrimenn láta fólk auðvitað ekki gjalda fyrir að vera vinir sínir.

  Síðan kom í fyrravor þessi furðulega uppákoma með launamál Más Seðlabankastjóra (annars vinstrimanns sem ekki er látinn líða fyrir vináttubönd): þar flæktist Jóhanna í ægilegan lygavef þegar hún reyndi að komast undan því máli, og reyndar sló um tíma í brýnu milli Jóhönnu og Láru þegar Lára hélt því fram að bankaráðið hefði fengið bein fyrirmæli um launakjör Más, en Jóhanna hélt á móti fram að bankaráðið hefði tekið þetta upp hjá sjálfu sér, án neinnar aðkomu stjórnvalda.

  Allir sáu að Jóhanna laug en enginn hafði geð í sér til að benda á það. Þess í stað lét Lára fallast á sverðið og tók á sig sökina fyrir Jóhönnu.

  Nú stendur Lára í þessari stórundarlegu krossferð gegn níumenningunum: krossferð sem Jóhönnu væri í lófa lagið að stöðva, en lætur sér duga að lýsa yfir depurð vegna málsins … og gerir svo ekkert meira.

  Enn og aftur er Lára hentugt verkfæri fyrir Jóhönnu til að koma í gegn málum sem eru óvinsæl og illa þokkuð, en með aðstoð Láru tekst Jóhönnu samt sem áður að koma þeim í gegn en stillir sér á sama tíma upp sem alsaklausa og jafnvel mótfallna málunum … sem eru þó óhjákvæmilega keyrð áfram að hennar undirlagi, ekki satt?

  Segir okkur allt um hversu óþverralegur stjórnmálamaður Jóhanna Sigurðardóttir er. Segi og skrifa „óþverralegur“. Horfir framan í þjóðina og lýsir því yfir að hún sé „döpur“ og „mótfallin“ málum sem hún síðan þrýstir í gegn á bak við tjöldin.

  En vitiði til: Láru verður launað þetta á einhvern hátt. Ekki í dag og ekki á morgun, en það mun koma að því … um leið og mestu öldurnar lægir. Fylgist bara með.

 • Jón Ingimarsson

  Sagan um Don Kíkóta að endurtaka sig. Þar sem Lára V. Júliusdóttir er búinn að lesa lagabækur sér til óbóta og hefur tapað vitglórunni. Níumenningarnir eru vindmyllurnar sem hún er að berjast við.

 • Sorgarefni – verður stundum tilefni reiði – sem aftur getur orðið kveikja og hvatning til aðgerða . .
  . . vonandi styttist í aðgerðir til að stöðva þetta ákærubull og fáránlegan þátt „kvennanna þriggja“ – umfram Helga Bernódusson sem fer að víssu fram eins og hann sé „einráður“ . . .

 • Sammála þessu öllu. Lára V. er að grafa sína eigin gröf, svo er líka um Ragnheiði Ástu og vonandi líka Jóhönnu.

 • Ég held að nú sé mikilvægt að fylgjast vel með persónum og leikendum þessa máls og fylgjast með því hvað bíður Láru V. sem verðlaun fyrir unnin störf. Mér hefur alltaf þótt undarlegt hvernig núverandi ríkisstjórn tók þetta kærumál hrunstjórnarinnar upp á sína arma eins og 4-flokkur hafi gert með sér samkomulag um eitthvað á bak við tjöldin.
  Nú verður almenningur hreinlega að taka upp nýjar baráttuaðferðir og persónugera málin í þessu áframhaldandi spillingarsamfélagi.

 • Ég krefst þess að Lára og fleiri sem hafa komið að þessari kæru verði sjálf ákærð skv 148. gr Almennra Hegningarlaga

 • Einar Steingrímsson

  148. gr. Hver, sem með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt leitast við að koma því til leiðar, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, skal sæta …1) fangelsi allt að 10 árum. Við ákvörðun refsingar skal hafa hliðsjón af því, hversu þung hegning er lögð við broti því, sem sagt er eða gefið til kynna, að viðkomandi hafi drýgt. …2) Hafi brot haft eða verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann, þá skal refsað með fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum.
  Ákveða má í dómi, eftir beiðni þess, sem fyrir óréttinum hefur orðið, að niðurstaða dóms og það af forsendum hans, sem dómur telur hæfilegt, skuli birt að opinberri tilhlutan í einu eða fleirum opinberum blöðum eða ritum.

 • Hver eyðir gögnum á hinu há Alþingi.Þetta er að verða ansi dularfullt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur