Miðvikudagur 26.01.2011 - 21:40 - 19 ummæli

Ömurlegur „fréttaflutningur“ RÚV

Fyrsta fréttin í útvarpi RÚV í kvöld (og hluti af fyrstu frétt sjónvarps RÚV) fjallaði um hvernig bregðast bæri við úrskurði Hæstaréttar sem ógilti kosninguna til Stjórnlagaþings.  Nánar tiltekið fjallaði þessi langa aðalfrétt um skoðun eins manns úti í bæ á þessu efni.

Þessi maður sem fenginn var til að kynna skoðanir sínar svona rækilega í útvarpi landsmanna var kynntur sem prófessor í stjórnmálafræði og heitir Gunnar Helgi Kristinsson.  Það er útbreiddur (og aðallega íslenskur) misskilningur að stjórnmálafræðingar viti eitthvað meira um stjórnmál líðandi stundar en hver sem er (nema þá helst þegar upp koma aðstæður sem endurspegla svipaða atburði í sögunni, en það er mjög sjaldan raunin þegar stjórnmálafræðingar þessa lands eru fengnir til að tjá sig um stjórnmál í fjölmiðlum).  Í kvöld tók þó steininn úr, því augljóslega vita stjórnmálafræðingar landsins ekki nokkurn skapaðan hlut um stöðuna í Stjórnlagaþingsmálinu umfram hvern sem er, enda hefur aldrei áður verið haldið Stjórnlagaþing, hvað þá kosið til slíks þings eða kosningar dæmdar ógildar.

Það bætti ekki úr skák að Gunnar tók fræðimannsheiður sinn ekki hátíðlegar en svo að hann leyfði sér meira að segja að leggja til hvernig málið skyldi „leyst“, það er að segja með því að Alþingi skipaði stjórnlaganefnd, samsetta úr því fólki sem kosningu hlaut, og gæfi þar með Hæstarétti langt nef.  Auk þess gat Gunnar sér þess til að þátttaka gæti orðið mun minni ef kosið yrði að nýju, án þess að færa nokkur rök fyrir þeirri skoðun sinni, enda vandséð hvernig hann getur vitað nokkurn skapaðan hlut um það.

Ekki batnaði umfjöllun RÚV þegar talað var í Kastljósi við kollega Gunnars, Ólaf Þ. Harðarson, sem einnig er stjórnmálafræðiprófessor.  Hann talaði lengi um að fara þyrfti vandlega yfir og melta dóm Hæstaréttar, og einnig að ef til vill þyrfti að endurskoða lögin um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins.  Hvort tveggja er furðulegt, því dómur Hæstaréttar var mjög skýr:  Það sem var að voru allt hlutir sem brutu gegn þeim reglum sem gilda um Alþingiskosningar, enda hafði framkvæmdinni verið breytt þótt lög kvæðu á um að standa skyldi að þessum kosningum eins og kosningum til þings. (Þær breytingar eru óskiljanlegar í ljósi þess að landskjörstjórn, eða a.m.k. formaður hennar, er sú sama og í síðustu Alþingiskosningum).

Ólafur talaði reyndar líka um að hann hefði rætt  við lögfræðinga um málið, að því er virðist af því að honum fannst þetta svo flókið, sem undirstrikar að hann var ekki maðurinn sem átti að tala við um þetta í sjónvarpi, enda virtust lögfræðingarnir  einmitt hafa sagt honum ofangreint, sem þó þurfti ekki lögfræðimenntun til að skilja.  Tal Ólafs  um að ef til vill þyrfti að hafa önnur lög um kosningar af þessu tagi en til Alþingis er líka sérkennilegt, því ekkert af því sem Hæstiréttur fann að hefði verið minnsti vandi að hafa í lagi.

Gunnar og Ólafur bitu svo hvor sitt hálft höfuð af skömminni þegar þeir lögðu áherslu á að Stjórnlagaþingið væri jú bara ráðgefandi, sem Gunnar notaði sem rök fyrir leiðinni sem honum persónulega hugnast best, að Alþingi kjósi í stjórnlaganefnd þá sem kosningu hlutu til Stjórnlagaþingsins.  Skiljanlegt væri ef lögfræðingur legði áherslu á formlegt hlutverk þingsins.  En að prófessorar í stjórnmálafræði geri það bendir til að þeir séu alls óvitandi um hvað hrærist í þjóðarsálinni þessa dagana, því um þetta eru pólitísk átök, óháð því hvað var ákveðið formlega.

Það er til vansa fyrir „fræðimannsheiður“ þessara manna að þeir skuli láta kynna sig sem prófessora í stjórnmálafræði þegar þeir úttala sig um mál af þessu tagi.  Það er ekki síður til vansa fyrir skólann sem þeir starfa við.  Það er nefnilega ekki svona sem háskólafólk leggur af mörkum til umræðunnar í þjóðfélaginu.  Fræðimenn á hvaða sviði sem er ættu ekki að koma fram kynntir sem slíkir nema þeir séu að miðla af sérstakri þekkingu sem þeir hafa í krafti rannsóknastarfs síns.  Það gerðu þessir menn ekki í kvöld, og það gera þeir, og aðrir stjórnmálafræðingar landsins, nánast aldrei þegar þeir koma fram í fjölmiðlum.  Það er enn ein hliðin á fúskinu á Íslandi, sama fúski og því sem gerði Stjórnlagaþingskosninguna ógilda. Mál er að linni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • RÉTT.

    Takk.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Hittir beint í mark…

  • Þórhallur Jósepsson

    Þetta er býsna góð greining. Sú fyrsta sem ég rekst á og er ekki ofhlaðin pólitísku mati, eða kannski öllu heldur pólitísku ofstæki, sem virðist ráða ferðinni víðast hvar fremur en yfirvegað hlutlægt mat.

  • Þegar stjórnin er í vanda og allt er komið í steik,
    Who you gonna call?
    Gunnar (Ghostbuster) Helga og RÚV!

  • Ómar Kristjánsson

    Rétt hjá Ólafi. Um var að ræða lagatæknilegt atriði. Og það að eigi rímaði bókstaflega við lög um alþingiskosingar helgaðist af því að Stj.l.þingskosningarnar voru eðli og efni máls samkvæmt með allt öðrum hætti og gátu því ekki rímað bókstaflega við hefðb. framkvæmd alþingiskosninga eða annarra kosninga só far á Íslandi.

    Sjallar ákváðu að nota tækifærið til að sinna rústalagningaeðli sínu.

  • Þetta dæmi er sönnun á því að allir þeir sem útskrifast hafa úr háskólum í þessu landi kunna yfirleitt lítið en kunna enn þá minna !

    Þess vegna á að loka öllum háskólum í þessu landi í 10 ár !

    Við þurfum ekki fleiri aumingja , eins og ykkur, sem bjugguð til það ástandi sem er í þessu landi !!!

    Venjulegur íslendingur ætti að lögsækja ykkur , fyrir það að gera glæpaklíkum úr sjálfstæðisflokknum völd í þessu landi og ræna fólki lífsviðurværinu !!!!!!

  • Valdís Stefánsdóttir

    Hvað finnst þér þá um það sem þessir menn sögðu í dag:http://www.visir.is/lagaprofessorar-ekki-einhuga-um-tulkun/article/20118685338

    Umræðan er frekar rugluð öll þar sem þessi úrskurður hefur fordæmisgildi eins og dómur.

  • Einar Steingrímsson

    Ég hef litlar skoðanir á því hvernig Hæstiréttur hefði átt að dæma í þessu máli. Reyndar er fyrirsögn Vísis ekki rétt, því Eirík og Sigurð greinir ekki á um túlkun, heldur hvort dómurinn er réttur.

    Hitt er svo annað mál að hvort sem dómurinn er réttur eða rangur þá er hann mjög skýr, og framkvæmdavaldið verður að gera svo vel að fara eftir dómi Hæstaréttar.

  • Valdís Stefánsdóttir

    Ég hef enn ekki fengið botn í hvort að úrskurður eða dómur Hæstaréttar sé hvort sitt málið. Mér skilst þó að Hæstiréttur hafi úrskurðað að framkvæmd kosninganna hafi verið ólögleg skv. lögum um kosningar. En það er þó talað um þetta sem dóm Hæstaréttar og ég botna ekkert í þessum mun á ákvörðun hans og dómi. Túlkun er alltaf endanleg niðurstaða allra dóma bæði í héraði og Hæstarétti þannig að ég skil ekki hvað þú meinar. Dómar eru eftir því sem mér skilst réttir ef meiri hluti dómara á öllum stigum dæma á þann veg sem þeir túlka lög. Hvað er réttur dómur eða rangur? Það getur farið lengra en til Hæstaréttar eins og til Alþjóðadómstóls eða Mannréttindadómstóls. Allt er þetta túlkun ekki satt. Þessa prófessóra greinir ekki á um réttan dóm.

    Stjórnmálafræðingarnir hafa alveg örugglega meiri þekkingu en almenningur á kosningum en ekki meiri þekkingu á lögum en sérhæfðir lögfræðingar. Í þessu máli eru lögfræðingar þeir sem við verðum að treysta en ekki 63 alþingismenn.

  • Einar Steingrímsson

    Ég sé ekki að það þurfi að túlka dóm/úrskurð HR. Þar segir einfaldlega að kosningin sé ógild. Ég fæ heldur ekki betur séð en að það sé alveg ljóst af hverju úrskurðurinn er á þennan veg, og hverju þarf að breyta til að kosning yrði gild.

    Eiríkur og Sigurður hafa ólíka skoðanir á því hvort HR hafi komist að réttri niðurstöðu, en ég sé ekki að þeir skilji dóminn með ólíkum hætti. Er það ekki slíkur skilningur sem maður myndi kalla „túlkun“?

  • Valdís Stefánsdóttir

    Ég árétta að ,,rétt“ niðurstaða byggir alltaf á túlkun laga og s.k. fordæmi sem verður til á einum tíma og dómar virðast verða að fylgja um leið og verður til eitt slíkt. Fréttaflutningur er almennt orðinn ömurlegur eftir hrun. Búið er að reka reyndustu og bestu frétta- og blaðamenn og sýnin verður æ skakkari fyrir vikið. Ég er þó ekki sammála þér að það hafi verið ömurlegt að ræða við þessa stjórnmálafræðinga vegna þess að þeir hafa mun meiri yfirsýn yfir kosningar almennt en við hin. Svo má efna til umræðna frá þeirra mati. Gott hjá þér að benda á þetta því að það efnir til umræðna. Takk fyrir það.

    Varðandi lagaprófessorana þá virðist Eiríkur hafa lesið dóminn en Sigurður ekki. Eiríkur bendir á að: ,,Þar er meginreglan sú að kosningar skulu ekki ógildar þrátt fyrir að ágallar hafi verið á þeim, nema ætla megi að þeir ágallar hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Þannig finnst mér að Hæstiréttur hefði kannski þurft að rökstyðja betur af hverju hann kemst að þessari niðurstöðu þrátt fyrir tilvist þessa ákvæðis.“

    Sigurður bendir þó á þetta:„Í svona tilfellum verður að fara eftir lögunum í þeirra strangasta skilningi. Þarna á það við, því ef það er farið að slaka á þeim þá vitum við ekki hvar við endum. Álitamálin verða endalaus og við endum í ógöngum.“

    Endilega segðu okkur af hverju Hæstiréttur úrskurðaði á þennan veg.

  • Einar Steingrímsson

    Hmm… Kannski er ég að misskilja eitthvað, en ég tel mig þess ekki umkominn að útskýra af hverju Hæstiréttur dæmdi á þessa leið en ekki þann veg sem Eiríki finnst að hefði átt að dæma.

    Mér finnst hins vegar ekkert skrítið að dæmt sé svona, því frávikin frá því sem gilt hefur við Alþingiskosningar eru svo augljós, og það er ástæða fyrir þeirri framkvæmd sem viðhöfð hefur verið við þingkosningar, nefnilega að tryggja að kosningin sé leynileg (og að rétt sé talið).

    Hitt er annað mál að ég hefði miklu frekar viljað að kosningin hefði ekki verið kærð, og að Stjórnlagaþing væri um það bil að hefja störf eins og til stóð.

  • Valdís Stefánsdóttir

    ,,Einar Steingrímsson // 27.1 2011 kl. 00:02

    Ég sé ekki að það þurfi að túlka dóm/úrskurð HR. Þar segir einfaldlega að kosningin sé ógild. Ég fæ heldur ekki betur séð en að það sé alveg ljóst af hverju úrskurðurinn er á þennan veg, og hverju þarf að breyta til að kosning yrði gild.“

    Ég er forvitin að vita hvernig það er alveg ljóst af hverju úrskurðurinn er á þennan veg. Vissir þú þetta fyrir? Vissu þetta fleiri fyrir?

    Þessar kærur hafa ekkert með úrslit kosninga að gera vegna þess að allt var rétt gert varðandi kjör og atkvæði skv. lögum. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að atkvæði hafi týnst eða annað þ.h. Framkvæmdin er úrskurðuð ólögmæt vegna pappakassa undir atkvæði, pappaveggja á milli kjörklefa og annarra mála sem varðar aðgengi að kjörfundi. Kjörgengir erlendis og á sjó úti fengu ekki sama tækifæri að kjósa eins og í almennum kosningum. Sennilega er margt fleira sem á eftir að koma í ljós með framkvæmdina.

    En lögin um stjórnlagaþing voru eyrnamerkt dagsetningu í lok nóvember 2010 og eru fallin úr gildi. Spurningin er hvort löglegt sé að nota kjörna fulltrúa úr kosningum sem hafa verið úrskurðaðar ólögmætar af Hæstarétti? Það er alþingi sem ákveður það? Úff, sama samkunda og nýtur lítils trausts hjá fólki um þessar mundir ….

  • Ég er mest hissa á að RÚV skyldi ekki leita til Þórólfs Matthíassonar.
    Það er vaninn þegar mikið liggur við hjá fréttastofu samfylkingarinnar.

  • Helgi J Hauksson

    Einar, þú og aðrir ættir að lesa lögin um kosningar til Alþingis í heild — og svo sérstakelga 120. gr. sem er um lokameðferð kæra. Við kosningar til Alþingis er það úrskurðarvald á hendi Alþingis sjálfs. Ef það væri yfirfært á Stjórnlgaþingið væri það sjálft stjórnlagaþingið sem hefði átt að úrskurða að lokum en um öll ágreiningsefni þar áður er það Landskjörstjórn. (Þegar hinu nýkjörna þingi er falið þetta loka-ákvörðunarvald er augljóslega ekki gert ráð fyrir að kosningar í heild séu úrskurðaðar ólöglegar því þá gæti þingi ekki úrskurðað.)
    — Lesa svo 15. gr laga um stjórnlagaþing sem felur Hæstarétti þetta hlutverk Alþingis í tilviki Stjórnlagaþingsins — og velta fyrir þér ef þú settir þig í spor þess sem hefðir samið lögin og samþykkt sem þingmaður, hvaða vald í reynd löggjafinn væri að fela Hæstarétti — varla það vald að fella allar kosningarnar úr gildi og ekki einu sinni kjör einstakra þingmanna eins og þarna er talað um nema ljóst væri að þeir ágallar sem kvartað er yfir hafi berlega breytt niðurstöðunni, sbr 120 gr laga um Alþingiskosningar.

    — Ef þú lest lögin í heild um Alþingiskonsingar sérðu hve óskaplega mörg atriði má finna þar til að setja útá og við blasir að þau eru aldrei öll uppfyllt — en einnig að um þau öll er Landskjörstjórn dómur og úrskurðaraðili kjörin af ALþingi og skipuð eingöngu topp lögmönnum.
    Og í lögunum er ekki einu sinni minnst á að úrskurðum eða ákvörðunum Landskjörstjórnar sé unnt að áfrýja.
    — Það er mikilvægt að sem flestir yfirfari heimildir Hæstaréttar til þessa úrskurðar og geri sér grein fyrir að svona stór ákvörðun er ekki á valdi hæstaréttar — nema um kjör einstakra manna (í stað Alþingis í Alþingiskosningum) og eingöngu ef sýnt er að umkvörtunaratriðin hafa í reynd breytt niðurstöðu kosninganna.

    — Hæstiréttur tók sér hér pólitískt vald sem hann ekki hefur.

  • Bragi Páls

    Þetta er svona týpísk kranablaðamennska hjá útvarpi Samfylkingarinnar, RÚV, sem kratinn Páll Mangússon stjórnar.

    Og ekki var fréttaflutningu af þessu máli betri hjá móðurfélagið Samfylkingarinnar þar sem Baugsmiðilinn Fréttastofa Stöðvar 2 talaði við fólkið á götunni um stjórnlagaþingsklúðrið.
    Fólkið á götunni var hvorki meira né minna valinkunnugt vinstrafólk sem fannst það auðvitað sjálfsagt að halda stjórnlagaþingi.

    En blaðamennska á Íslandi er á ákaflegu lágu plani enda um kranablaðamennsku að ræða.
    Fjölmiðlar og blaðamenn í dag, að undanskyldu Morgunblaðinu, eru allir á bandi stjórnvalda.

    Einnig er undarleg sú árátta blaðamanna hér á landi að þegar talað er um orkumál og orkuvinnslu, er tala við umhverfisverndarfólk og Björk um þessi mál, en ekki við fagfólk úr orkugeiranum, t.d. verk- og tæknifræðinga.

    Það sama gildir þegar sjávarútvegsmál eru rædd. Þá er talað við stjórnmálafræðinga eða stjórnmálamenn af vinstrivæng stjórnmálanna, en ekki fólk er starfar í sjávarútvegi, t.d. sjómenn, fiskverkafólk eða útgerðarmenn.

    Svona er blaðamennska nú vitlaus á Íslandi.

    Vissulega er ákvörðun Hæstarétta mikið áfall fyrir vinstraliðið í landinu.

    Með stjórnlagaþinginu ætlaði vinstraliðið nefnilega að semja nýja stjórnarskrá með vinstriáherslum, þannig að ný stjórnarskrá hefði haft mikla vinstrislagsíðu, þar sem sósíalismi hefði verið festur í sessi hér á landi.

    Miklu einfaldara og ódýrara hefði t.d. verið að taka stjórnarskrá gamla A-Þýsklands og pússa upp sem nýja stjórnarskrá Íslands.

  • Það var góð umfjöllun um svipað efni á DR-P1 um daginn, um hina þunnu línu sem þarf að vita af þegar prófessorar veita álit á hinum og þessum málum. Hvenær þeir tala sem fræðimenn og hvenær þeir koma fram sem gefandi skoðun á málum. Þetta er hægt að nálgast hérna, það er miðvikudagsþátturinn sem fjallar um þetta og rætt við Erik Albæk, prófessor í stjórnsýslu við Syddansk Universitet: http://www.dr.dk/P1/Apropos/Udsendelser/2011/01/17143413.htm

  • Einar Steingrímsson

    Ég sé að það hefur verið svolítill misskilningur á ferðinni í athugasemdunum, á báða bóga. Ég skil núna að túlkunin sem Valdís var að tala um var túlkun laganna um kosningarnar. Ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvort HR hafi túlkað þau rétt, og treysti mér illa til þess.

    Það sem ég bloggaði um hér snerist hins vegar ekki um þetta, heldur um hversu fráleitt það er að vera sífellt að tala við stjórnmálafræðinga um uppákomur í stjórnmálum, rétt eins og skoðanir þeirra séu áhugaverðari en annarra, því hér var sannarlega bara um skoðanir þeirra að ræða, en alls ekki sérstaka þekkingu í krafti stöðu þeirra sem fræðimanna.

    Þetta er hvimleið árátta í íslenskum fjölmiðlum, sem e.t.v. stafar af leti, eða getuleysi fréttamanna til að skoða sjálfir málin, afla sér upplýsinga (og skoðana) frá ýmsum aðilum, og skrifa síðan fréttir og greiningar út frá því. Það er í fínu lagi að vitna í hina og þessa í slíkum skrifum. Það er ekki í lagi að láta heila, langa frétt um mikilvæga atburði vera eintal manna sem ekki hafa neina sérstaka þekkingu eða sérstöðu varðandi málið. Það hafa þessir tveir prófessorar alls ekki, þegar rætt er hvað hafi farið úrskeiðis í þessum kosningum, og hvernig sé hægt/best að bregðast við.

    Stjórnmálafræði er ekki fræðigrein sem getur sagt til um hvað eigi að gera í stjórnmálum, né heldur getur hún túlkað atburði líðandi stundar betur en maðurinn á götunni (nema e.t.v. þegar þeir hafa sterka samsvörun í sögunni). Þetta er hliðstætt því að stærðfræðingur sem hefur sett sig sérstaklega inn í kosningakerfi getur útskýrt betur en aðrir hvernig það virkar, en hann getur alls ekki svarað spurningunn hvort það sé réttlátt (nema búið sé að skilgreina réttlætið með nákvæmum hætti).

    Það er slæmt fyrir pólitíska umræðu þegar fólk og fjölmiðlar buktar sig í lotningu fyrir skoðunum háskólafólks á hlutum sem það hefur ekki sérþekkingu á. Það verður líka til að rýra traust almennings á þeirri vönduðu fræðimennsku sem er til, og sem stundum er þörf á að útskýra fyrir þeim sem ekki eru sjálfir sérfræðingar.

  • Páll Heiðar

    ég reyndar styð eindregið þessa hugmynd Gunnars. Mér finnst ekki nokkur einasta ástæða að taka nokkurt mark á því sem Jón Steinar kemur nálægt

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur