Miðvikudagur 02.02.2011 - 20:59 - 12 ummæli

Þorsteinn Már — græðgin og reiðin

Þorsteinn Már Baldvinsson varð milljarðamæringur á kvótakerfinu, í boði þjóðarinnar. Hann var stjórnarformaður Glitnis í hálft ár áður en bankinn var yfirtekinn af ríkinu, og starfsemi þess banka kostaði þjóðina tugi eða hundruð milljarða, ekki síst vegna þeirra blekkinga og svika sem stunduð voru á meðan Þorsteinn bar ábyrgð á bankanum. Þrátt fyrir þetta hefur þjóðin ekki sýnt honum sérlega mikla reiði.

Vel má vera að Þorsteinn hafi komið góðum hlutum til leiðar í fiskveiðum og fiskvinnslu á Íslandi. En hann fann ekki upp fiskveiðar, og hann færði þessari þjóð ekki stórkostlegar nýjungar sem hún nyti góðs af í stórum stíl. Þorsteinn efnaðist á því að geta ausið endurgjaldslaust úr óþrjótandi auðlind, sem þjóðin leyfði honum að gera.

Flestir geta reiðst, og það er fyrirgefanlegt, ef beðist er fyrirgefningar, eins og búast má við að Þorsteinn muni gera, vegna framgöngu sinnar á Akureyri í gær. Vel má líka vera að græðgi sé ekki það fyrsta sem þeim dettur í hug sem þekkja hann.

En þeirri grægði sem felst í kröfu kvótahafa um að fá afgjalds- og endalaus afnot af fiskveiðiauðlindinni verður að linna. Og gott væri að þeir sem orðið hafa stórefnamenn sakir þessarar gjafmildi þjóðarinnar, og voru þar að auki forystumenn bankanna sem rústuðu efnahag hennar, hafi hemil á reiði sinni þegar þjóðin ræðir um að minnka ofsagróða þeirra. Annars er hætt við að þeir verði kaffærðir af þeirri réttlátu reiði sem ólgar með þjóðinni í dag.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Bragi Páls

    Það vantar ekki öfundina, heiftina og illskuna hjá ykkur Samfylkingardindlum.

    Ykkur draumur er svo að fjármagna með kvótaarðinum ferð ykkar til Brussel svo þið getið vermt bekkina þar og lyfað í vellystingum í endalausum kokteilboðum, flug fram og tilbaka frá Íslandi til Brussel á Saga-Class.

  • Bragi þú hittir naglann á höfuðið. Þetta er örugglega akkúrat ástæðan fyrir því að fólk er á móti kvótakerfinu. Takk fyrir að benda á þetta!

  • Setja þarf annan sérstakan saksóknara yfir öll mál sem tengjast auðlindaráninu.

  • Andri Sigurðsson

    Bragi þess fer núna á milli blogga og copy/peister þessu sama bulli. Það er greinielgt að sumir eru orðnir smeikir.

  • Thrainn Kristinsson

    Sjaldan launar kálfur ofeldið …það ætti að vera skyldunámsefni í íslenskum barnaskólum hvernig Þorsteinn fékk sérmeðferð hjá stjórnvöldum þegar kvótinn var settur á. Sumir eru jafnari en aðrir.

  • Bræðiskast Samherjaforstjórans í Hofinu á Akureyri í gærkvöldi hefur örugglega vakið þá sem enn sváfu eða voru í vafa með afstöðu sína til innköllunar á kvótanum til þjóðarinnar.

    Það eru svona stórkallar sem gera manni stundum mikinn greiða. ÞMB gékk svo rækilega fram af fólki að nú sýður reiðin og bullar sem aldrei fyrr.

    Stuðningur við það fólk sem nú vinnur að því að endurheimta sjávarauðlindina eykst með degi hverjum, þökk sé svona grímulausri frekju sægreyfanna

  • Grétar Thor Ólafsson

    Segðu mér, Einar, heldur þú að það sé gaman fyrir mann eins og Þorstein að sitja undir látlausu níði daginn út og inn? Eitt er að deila um fiskveiðistjórnun, annað er að sitja undir endalausum nafnaköllum á borð við „sægreifa“, „kvótakóng“ etc. sem hafa öll öðlast ákaflega neikvæða merkingu í háværri umræðunni.

    Auðvitað á hann bara að brosa og taka þessu án skapbrigða. Án þess að svara fyrir sig. Án varna. Auðvitað.

    Þú nefnir réttláta reiði. Er nún bara í eina stefnu?

  • Sigurður Gunnarsson

    Væri ekki nær að kynna sér hvað þessi fyrirtæki skila af sér áður en komist er að niðurstöðu?

    A.m.k. hef ég haldið að fræðimenn störfuðu þannig að rannsaka fyrst og byggja svo niðurstöður sínar á því.

    Einnig má spyrja hvort einhver önnur grein skilar jafn háu hlutfalli af sinni framlegð í ríkissjóð.

  • Einar Þorbergsson

    Spyrja má lík, hversu margir úr þessari grein voru að braska með gjaldeyri á aflandsmörkuðum eftir hrunið, þegar þjóðin þurfti á gjaldeyri að halda.

  • Því verri sem málstaðurinn er, því meiri er atgangurinn. Það er til málsháttur um þetta: hæst bylur í tómri tunnu.

    Það sannast bæði á Þorsteini Má og þeim ómögum sem flytja hér rakalaust bull.

    Pistill Einars er öfgalaus og málefnalegur – þökk fyrir hann.

  • Birgir Björgvinsson

    Ummæli sem menn rita nafnlaust eða undir dulnefni detta sjálkrafa niður dauð og ómerk, slíkir heiglar ættu að halda sig til hlés.

    Takk fyrir góða grein Einar.

  • Ásgeir Valur Sigurðsson

    Samherji er kjaftæði. Tími til kominn að hætta að reka það vinstra batterý.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur